Að aðlagast Evrópusambandinu - inngangskafli fyrir dauðhrædda Íslendinga
Nú þegar að týndu synir og dætur Evrópu snúa bráðlega aftur heim, eftir útlegð á eyðiskeri ömurleikann, algjörlega óhæf um að stjórna sér sjálf er rétt að líta á stöðu mála og sjá hversu fljótt almenningur mun aðlagast ytri þáttum Evrópusambandsins - þegar frá eru dregnir styrkir, efnahagslegur stöðugleiki með alvöru mynt og önnur þau hlunnindi sem Ísland mun fá. Ákvað að hafa þetta á barnaskólastigi og þetta er einungis inngangur í umræðuna.
Mottó
Þar til fyrir örfáum árum var íslenska þjóðin jafnaðarmenn. Hún ann jöfnuði meira en frelsi efnahagslega og spurningin var einungis hversu miklum jöfnuði var barist fyrir. Sumir börðust fyrir stétt með stétt, aðrir fyrir útópíu kommúnismans og aðrir þar á milli – enginn var of góður til að hjálpa né ræða við helstu Ólukku Láka samfélagsins. Eftir fals gróðærisins er okkur núna gert að halda berrössuð til baka í átt til annarra gilda, gilda sem ráðast af manngæsku en ekki barbarahætti. Öll ættum við að geta samþykkt mottó Evrópusambandsins ,,Unity in diversity” með bros á vör. ESB 1 – Ísland 0
Fáninn
Af sama meiði er fáni Evrópusambandsins. Upphaflega tekið upp af Evrópuráðinu árið 1955 ekki eingöngu fyrir það sjálft heldur fyrir alla Evrópu. Nú til dags deilir það fánanum með sjálfu sambandinu. Fyrir allra hræddustu sannkristnu íhaldsmennina má benda á að hönnuður fánans sagði að hugmyndin á bakvið hann væri tilvísun í Biblíuna, við trúleysingjarnir getum líka litið framhjá því enda vanir hinum óréttláta íslenska fána með trúartákni kristinna manna. Í því rænuleysi sem hér ríkir ættu jafnvel hinir allra hörðustu and-evrópusinnar að vera orðnir vanir að sjá stjörnur af öllum svimanum yfir gengi íslensku krónunnar. Hvor er fallegri sá íslenski eða fáni Evrópusambandins? ESB 2 – Ísland 0. Legg ég hér raunar til að Ísland skipti um fána. Haldi í bláan flötin en losi sig við annað hvort lárétta eða lóðréttu línuna sem mynda krossinn og bæti síðan 12 stjörnum ESB yfir.
Þjóðsöngur
Mörgum hefur þótt íslenski þjóðsöngurinn þunglamalegur, illsyngjanlegur og orðin niðurdrepandi. Það á ekki við um söng Evrópusambandsins, samin af Beethoven og ber heitið ,,Óður til gleðinnar” og stendur fyllilega undir því nafni – laginu er reyndar ekki ætlað (frekar en fánanum) að koma í stað þjóðsöngva ríkjanna, fremur að minna ríkin á þeirra sameiginlegu gildi. Íslendingar eða í það minnsta íslenskir karlmenn ættu ekki að vera lengi að aðlagast laginu enda það iðulega spilað fyrir leiki í Meistaradeildinni. Glæsilegt mark ESB 3 – Ísland 0.
Hátíðardagur
Evrópudagurinn vs 17. júní. Þarna er komið atriði sem mögulega gæti skorað mark fyrir Ísland. Reyndar er það svo að Evrópudagurinn er haldinn bæði 5. og 9. maí - annars vegar til að fagna stofnun Evrópuráðsins 5. maí 1949 og hins vegar til að fagna Schuman yfirlýsingunni frá 9. maí árið 1950 um að Þjóðverjar og Frakkar mynduðu kol- og stálbandalag sem þróaðist svo áfram yfir á önnur svið, markmiðið með samvinnunni var að með því að binda saman efnahagslega hagsmuni yrði endanlega komið í veg fyrir stríð í Evrópu. 17. júní verður alltaf 17. júní sama hversu plebbalegur hann er í útfærslu og þó að Evrópudagarnir séu tveir að þá geta menn bent á 1. desember. Ég segi, fögnum öllum þessum dögum - gerum maí að partý mánuði (1. maí, 5. maí, 9. maí, Eurovision, úrslitaleikur í enska bikarnum og Meistaradeildinni og lok ensku deildarinnar + kosningar annað hvert ár). Ísland skorar mark, en ESB kemst í skyndisókn og skorar strax, 4-1 fyrir ESB.
Gjaldmiðill
Myndi einhver gráta þó að hann sæji aldrei aftur íslenska mynt eða seðla? Líklega ekki. 500 kr. seðlar eru þeir einu sem einhver virðing er yfir en þeir eru fáir, en helmingur landsmanna gæti líklega ekki nefnt hverjir eru á hinum seðlunum, klinkið er bara bjánalegt og allir komnir með ógeð á dauðri krónu. Evran er hins vegar ekki einungis stöðugur gjaldmiðill, heldur einnig fallegur. Ólíkt því sem hræðsluáróðursmenn vilja halda fram um að evran gæti orðið dauð eftir innan við 10 ár að þá er mun líklegra að evran geri sama fyrir Evrópu og dollarinn gerði á sínum tíma fyrir Bandaríkin. Þá er óupptalið að við myndum losna við stjórnmálamenn úr Seðlabankanum. ESB 5 - Ísland 1.
Þetta er auðvitað allt sett fram í léttu gríni. En er einhver annars þegar orðinn hræddur við þessar hræðilegu breytingar?
Þeir geta þá hughreyst sig við það að meira að segja heimastjórnarmenn innan Sjálfstæðisflokksins vilja fara í aðildarviðræður, margir innan vinstri grænna líka og við tökum nú þegar upp mikinn meirihluta af öllum lögum og reglum sambandsins. Á bakvið hvað er þá hægt að fela sig?
PS. Það er kominn formlegur meirihluti á þingi fyrir inngöngu í ESB.
Er lífið ekki dásamlegt?
Efnisorð: Stjórnmál
7 Ummæli:
er ekki framsókn líka á leið í evrópuátt? með tvær gamlar risaeðlur úr myndinni (guðni ob bjarni harðar)
en hverjum er svo sem ekki sama hvað framsókn gerir.
ivar
Já, hverjum er ekki sama hvað Framsókn gerir. En það er annars rétt, þetta gerist allt saman í janúar.
Kveðja Bjarni Þór.
Þú ert rekinn úr sturtukórnum Hafliða !
Að þú skulir kjósa einhverja klassíska melódíu fram yfir einhvern erfiðasta söng Íslandssögunnar, sem sturtukórinn Hafliði æfði af miklum metnaði í heilt ár er mér óskiljanlegt ! HNEYKSLI ! Núna ertu ekki að sjá skóginn fyrir trjánum.
Þú mátt predikera fyrir þessu sambandi þínu daginn út og daginn inn með góðum og með slæmum rökum en þarna fórstu klárlega yfir strikið.
BK
Sambandinu mínu? Ekki láta eins og þú munir ekki samþykkja aðild :)
Erfiður söngur en líka ljótur, niðurdrepandi og leiðinlegur. Óður til gleðinnar er hins vegar yndislegt lag (jafnvel þrátt fyrir trúarlegan texta).
Ástarkveðja Bjarni Þór.
Nei nei ég mun alveg samþykkja aðild en ég mun alveg sofa þó það séu skiptar skoðanir á því.
Það er ekkert stóra málið hérna. Heldur það að þú drullar yfir vini þína til að upphefja þetta samband, og heldur svo áfram að drulla yfir Hafliðahópinn. Ég er orðlaus, sár, svikinn. Myndi vilja heyra hvað aðrir meðlimir kórsins finnst um þetta. Er kannski Maístjarnan líka drasl ? Hafið bláa hafið ?
BK
Maður á að lesa yfir commentið áður en maður ýtir á "Publish your comment" !!!
Myndi vilja heyra hvað öðrum meðlimum kórsins finnst um þetta.
BK
:)
Drulla yfir ástkæra vini mína og yndislega Hafliðahópinn? :)
Ekki hef ég orðið var við nokkuð slíkt.
Annars þarf Hafliði að fara að koma saman aftur. Djöfull væri gaman og fyndið að hittast einu sinni til tvisvar í viku í sturtu uppi í Framheimili til að þenja raddböndin án þess að æfa knattspyrnu.
Ástarkveðja Bjarni Þór.
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim