sunnudagur, nóvember 30, 2008

Hugleiðing um (sannleika og) réttlæti

Ég er orðinn fastur penni á Vefritinu, þar sem eftirfarandi grein birtist.

Verðleikar hvers manns eru samantekt af sannleikanum um hann.“
-Björgvin G. Sigurðsson

Það er ekki nýr sannleikur að það sé óhollt mönnum hugmyndafræðilega að vera eingöngu umkringdir „já“ mönnum. Ég á tvo góða vini sem ég í góðlátlegu gríni kalla pólitíska öfgamenn. Annar er vinstri sinnaður heimspekingur sem hefur lesið Marx, Lenin og Zizek en hinn hefur nýlega upplifað endalok sinnar „trúar“, þó að hann sé ennþá í afneitun og ef ég vissi ekki betur þá myndi ég ætla að hann væri sonur Hannesar Hólmsteins.

Um daginn hittumst við, ræddum málin og á einhverjum tímapunkti staðnæmdist umræðan við hugtökin sannleika og réttlæti. Þá kom annar þeirra með góða sögu af því þegar eldri bróðir hans var í strætó ásamt móður sinni þá mjög ungur.

Strætisvagninn stöðvast og inn í hann gengur fremur ófríður maður, bróðirinn ungi sem sat aftarlega í vagninum stendur þá upp í sætið sitt, bendir á manninn og segir hátt „þessi maður er ljótur – þessi maður er ógeðslega ljótur“ – ekki fylgdi sögunni hvort þetta hefði verið Björn Bjarnason; tvennt kemur þó í veg fyrir það a) Björn er ekki kommúnisti sem tekur strætó og b) hann er gullfallegur maður. Í dag langar mig þó til að leika þetta barn sannleikans að ofan.

Það sem þægi jafnaðarmaðurinn má ekki segja upphátt

Það er alltaf einhvern veginn meira sannfærandi þegar menn gagnrýna skoðanabræður sína en andstæðinga og því segi ég það hreint út: Björgvin G. Sigurðsson verður að segja af sér. Ég þekki Björgvin ekki neitt, en hef alltaf kunnað vel við hann. Nei, það er lygi – fyrst þegar ég sá hann hélt ég að hann væri gagnslaus sveitamaður en eftir því sem vitneskja mín um manninn óx og fordómarnir minnkuðu því meira álit fékk ég á honum. Björgvin er viðkunnalegur maður og vissulega veitti hann manni oft von á meðan ónefndur maður svaraði engu á fundum með fjölmiðlum, engu að síður verður hann að segja af sér – hann klikkaði á sinni vakt og væri meiri maður ef hann færi frá.

Þessi pistill og ofangreind krafa er ekki sett fram af einhverjum annarlegum hvötum eða í pólitískum tilgangi. Ætlunin er hvorki að gera lítið úr viðskiptaráðherra né að bæta ímynd eða fylgi Samfylkingarinnar, hvað þá sem útspil svo að Sjálfstæðisflokkurinn verði að fórna manni – heldur er þetta það rétta í stöðunni. Ég er ekki hluti af einhverjum armi innan Samfylkingarinnar, ég er ekki einu sinni skráður í flokkinn.

Að undanförnu hafa raddir hækkað þess efnis að forysta Samfylkingarinnar víki Björgvini sem viðskiptaráðherra en fáir, að minnsta kosti jafnaðarmenn, hafa farið fram á það að hann segi sjálfur af sér embætti, eins og sá möguleiki sé útlokaður – að við séum orðið þess háttar þjóðfélag að hver einasti einstaklingur ríghaldi í völdin þangað til þau eru tekin af honum. Önnur gagnrýni sem oft heyrist er að staða viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra skuli skipuð mönnum sem hafi þannig menntun á bakvið sig og að Björgvin G. sé heimspekingur.

Heimspekingur? Hvað skyldi hinn heimspekimenntaði Björgvin hafa skrifað um í BA-ritgerðinni sinni – jú hún ber heitið „Hugleiðing um réttlæti“. Þegar að ég sá þetta fann ég hvernig hjartað fór að pumpa hraðar, skúbbdólgurinn tók kipp og ég fékk enga innri ró til að halda áfram með MA- námið mitt fyrr en ég hefði lesið þessa ritgerð.

Inntak ritgerðar og tengingin við samtímann

Ritgerð Björgvins skiptist upp í þrjá hluta auk inngangs:

1. Staðbundið réttlæti
2. Íslensk dæmi um staðbundið réttlæti
3. Rétt og rangt (niðurstöður)

Strax í fyrstu tveimur setningum Björgvins í inngangi kemur fram að hann sé sammála Þorsteini Gylfasyni þegar hann vitnar í bókina „Tilraun um heiminn“ að réttlæti skipti meira máli en nokkuð annað undir sólinni – stendur Björgvin við þessi orð?

Björgvin telur að hans athuganir séu fyrsta skrefið í átt að því að takast á við það hvort þjóðfélagið sem við byggjum sé réttlátt, umræðan megi ekki litast af flokkadráttum og því lýðskrumi sem fram fer fyrir hverjar kosningar til Alþingis. Hann telur brýnt að stjórnmálin snúist um grundvallarhugtök á borð við réttlæti og rætt sé á yfirveguðum nótum um lausnir á hvers konar vandamálum staðbundins réttætis.

Í niðurstöðunum kemst Björgvin að því að gagnlegt sé í hverju dæmi hvort finna megi sameiginlegan grunn fyrir réttlætið. Algildar réttlætisreglur sem allir fallast á að hætti Rawls. Að hans mati er valddreift samfélag þar sem völdum er dreift á sem flestar stofnanir samfélagsins grundvöllur að réttlátu samfélagi. Tryggja verði valddreifingu á öllum stigum stjórnsýslunnar og setja lög gegn myndun auðhringja sem drepa frjálsa samkeppni. Sama eigi við um fjölræði þar sem fjölmiðlar eigi að vera óháðir valdshöfum og öflugum fyrirtækjum. Máttugustu rök fyrir dreifingu valds eru þó að koma í veg fyrir misbeitingu og harðræði sem skapast geti, lendi það á fárra höndum, þannig hafi stofnanir eftirlit með hverri annarri ef tryggt er að skörp skil séu á milli þeirra og sjálfstæði þeirra tryggt, en auk þess kallar hann eftir skýrari reglum.

Pistlahöfundur getur tekið undir allt ofangreint en hver er niðurstaðan eftir setu ráðherrans? Eru völdin ekki enn á fárra höndum? Var kerfið ekki handónýtt og hvers vegna breytti hann því ekki – hvað varð um að setja skýrari reglur? Hvað með fjölmiðlana? Hvernig tókst Jóni Ásgeiri að kaupa aftur fjölmiðla á hans vakt eftir alla gagnrýnina á fákeppni og að fjölmiðlar væru of háðir? Hvernig tryggði ráðherra sjálfstæði stofnana og hvers vegna var slíkt eftirlitsleysi á hans vakt? Hverja telur Björgvin sína ábyrgð vera?

Hvað með sjálfsvirðinguna? Hvað myndi Rawls ráðleggja Björgvini? Þarf Björgvin mögulega að komast undan fávísi stjórnmálamannsins og undir fávísisfeld Rawls til að komast að hlutlausri niðurstöðu um réttlæti? Völdin virðast hafa sljóvgað réttlætiskenndina, umburðarlyndi kjósenda (hvort sem þeir eru háríkis- eða lágríkismenn) er á þrotum.

Ég get ekki séð betur en að ef Björgvin segir ekki af sér, að þá sé hann orðinn einhvers konar ýkt útgáfa af fjandmanni sínum Nozick á þann hátt að hann standi vörð um fákeppniselítu auðmanna og sín eigin völd sem komin séu (að mati Nozick) á réttlátan hátt og verði ekki tekin af honum (nema þá með kosningum væntanlega) – orðinn hliðhollur því sem hann taldi sjálfur kenninguna um ranglæti.

Að lokum til að vitna í hans eigin orð í ritgerðinni; réttlátar og ranglátar athafnir eru það, án tillits til hvatanna sem liggja að baki og það sama á við um sannleikann – pistlahöfundur trúir því ennþá að hann sé góður maður. En segi Björgvin ekki af sér sökum ábyrgðaleysis í starfi, uppgjafar á eigin hugmyndafræði og það í andstöðu við eigin samvisku og hugmynd um réttlæti, þá tel ég það rétt að standa upp í þessum strætisvagni veraldarvefsins að hætti barnsins, benda á Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og segja upphátt „Þessi maður er ljótur – þessi maður er ógeðslega ljótur.“

Ég óska viðskiptaráðherra góðs gengis í sinni ákvarðanatöku, ritgerðin stendur enn fyrir sínu og ætti að hjálpa til við skýrari framtíðarsýn, bæði hans og okkar allra. Megi Björgvini G. Sigurðssyni farnast vel í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur og megi þessi dæmisaga úr raunveruleikanum verða öðrum víti til varnaðar – réttsýnir góðir menn, á réttum stað, á réttum tíma verða að taka réttar ákvarðanir ef vel á að fara.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

11 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

við skulum vona að Björgvin taki þetta til sín... annars verður VG enþá stærsti flokkur landsins í næstu kosningum.

ciao,
ivar

01 desember, 2008 23:28  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Spurning um að senda á hann mail, nei hann hlýtur að lesa Vefritið - hann er ekki algjört... bíddu, bíddu, bíddu...

:)

02 desember, 2008 05:20  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Fínn pistill hjá þér Bjarnabófinn þinn. Þú verður sennilega útskúfaður úr flokknum fyrir þessa gagnrýni þína og þarft að flytja til Mexíkó. Þar munt þú sífellt þurfa að líta þér um öxl af ótta við leigumorðingja á vegum Jóns Baldvins og Svans Kristjáns.

02 desember, 2008 13:54  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Skemmtilegt að þú skulir nefna þá tvo aðila sem sennilega þykir vænna um sannleikann, réttlætið og beitta gagnrýni en mér :)
Annars er Mexíkó örugglega fínn staður.

02 desember, 2008 16:06  
Blogger Biggie sagði...

Haukur í sauðagæru.

02 desember, 2008 17:20  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Hagnaðurinn, Ég eða Björgvin G.? :)

03 desember, 2008 05:16  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hverjum er ekki vænt um sannleikann og réttlætið. Verst er hvað þeir félagar eru óáreiðanlegir og geta hlaupið í allra kvikinda líki.

05 desember, 2008 17:10  
Anonymous Nafnlaus sagði...

(félagarnir sannleikur og réttlæti, ekki Nonni og Svanur)

Kv. Keðja

05 desember, 2008 17:13  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

,,Hverjum þykir ekki vænt um sannleikann og réttlætið"

Ef að fleiri þætti vænt um þessi tvö hugtök þá værum við töluvert betur stödd... eins og þú bætir síðan við þá hlaupa þau oft í líki annarra kvikinda jafnvel andstöðu sinnar, en einkum hinu hálfkveðna - þannig verður sannleikur oftast ljótur leikur að hinu sanna og réttlæti verður að einhvers konar réttlætingu.

Ástarkveðja Bjarni.

06 desember, 2008 01:03  
Anonymous Nafnlaus sagði...

I want not agree on it. I assume precise post. Particularly the title attracted me to review the intact story.

16 janúar, 2010 02:59  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Good post and this mail helped me alot in my college assignement. Gratefulness you for your information.

20 janúar, 2010 00:44  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim