mánudagur, desember 29, 2008

Örstutt um Lakers

Einhvern tímann hefði það þótt skrýtið að gagnrýna lið sem er efst í vesturdeildinni með vinningshlutfallið 25-5 en það ætla ég þó að gera. Hvað er málið með þetta Lakers lið?
Mér sýnist á öllu sem að Lakers liðið sé að breytast í einhvers konar Phoenix Suns skrípalið. Ég hef alltaf verið talsmaður sóknarleiks en öllu má nú ofgera. Liðið sem tapaði í úrslitunum í fyrra vegna þess að það gat ekki spilað vörn og verið harðir virðast ætla að svara gagnrýninni með því að spila meiri sókn. Ég var að horfa á liðið leggja Golden State að velli 130-113 en varnarleikurinn var oft eins og hjá botnliði í íslensku deildinni. Annað sem pirrar mig ótrúlega við Lakers liðið er þrátt fyrir mikla hæfileika að þá virðist lykilmönnum (að Kobe undanskyldum) vanta hugarfar sigurvegarans, sem endurspeglast best í tveimur mönnum Odom og Gasol.

Odom á að heita þriðji besti leikmaður Lakers liðsins og ætti raunar að vera næst besti leikmaðurinn - hefur allt til að vera ofurstjarna að undanskyldu ofangreindu hugarfari. Í heimi þar sem höfuðið á Odom væri í lagi þá væri hann ekki síðri leikmaður en Paul Pierce sem leiddi Celtics til sigurs í vor. Í rauninni er Odom fjölhæfari enda getur hann spilað allt frá dripplara og upp í kraftframherja en Pierce frá dripplara upp í lítinn framherja. Odom er sjö sentimetrum hærri, þeir eru svipaðir að þyngd, Odom er með betri skotnýtingu (46,2% vs 42,1%) en Pierce með betri 3 stiga nýtingu (37,8% vs 34,5%), Odom tekur fleiri fráköst (6,3 vs 5,7) en Pierce gefur fleiri stoðsendingar (3,9 vs 2,3)... stærstur munur er þó á spiluðum mínútum og stigum þar sem Pierce skorar 18,3 stig að meðaltali á 36,7 mín í leik en Odom skilar einungis 8,6 stigum á 26,7 mín að meðaltali og hefur aðeins byrjað einn leik í vetur - sem er vægast sagt sorglegt fyrir mann af slíkri hæð og þyngd, með slíkan styrk og hæfileika... sennilega fer enginn leikmaður í NBA eins illa með hæfileika sína og Odom, ef hann hefði rétt hugarfar þá fullyrði ég að Lakers væru núverandi meistarar.

Hinn leikmaðurinn sem fer hroðalega í mig er Gasol. Samanborið við Garnett spilar Gasol að meðaltali fleiri mínútur, skorar fleiri stig, tekur fleiri fráköst, gefur fleiri stoðsendingar, er með betri skotnýtingu (og 3 stiga nýtingu) á meðan Garnett stelur fleiri boltum og blokkar meira. Munurinn liggur hins vegar í því að Garnett spilar rosalega vörn, er sterkur og mikill leiðtogi en Gasol gæti ekki verið líflausari, verri varnarmaður og meiri aumingi miðað við hæð og þyngd. Þannig er Gasol 2,13 m og 113 kg en Garnett er 2,11 m og 100 kg - samt lendir Gasol (sem ætti að vera miðherji) í meiri erfiðleikum með styrk kraftframherja undir körfunni en Garnett sem er kraftframherji lendir í þegar hann spilar sem miðherji.

Í þessum samanburði á Odom og Gasol vs Pierce og Garnett finnst mér liggja sá munur sem mun skila Boston öðrum titli í vor - menn sem eru ekki með höfuðið í lagi og spila enga vörn verða ekki meistarar eða eins og Roy Keane orðaði það ,,góðu strákarnir vinna aldrei neitt". Púú á það!

Er lífið ekki dásamlegt?

1 Ummæli:

Blogger Biggie sagði...

Ef við yfirfærum NBA á ensku deildina þá gæti það verið svona:

Lakers = Man Utd. Liðin sem allir halda með. Oft er spilamennskan annaðhvort frábær (og pappakassar eins og Sasha og Fletcher brillera) eða arfa döpur.

Celtics = Chelsea. Sterkustu liðin án þess að mikið á þeim beri.

Cavs = Liverpool. Hafa hvorug mannskap til að verða meistarar en það er eitthvað í gangi samt.

Thunder = Arsenal. Efnilegustu liðin og ættu að geta mikið betur en það er bara einhver djöfullinn að sem er þess valdandi að dæmið virkar ekki.

Var að spá í að setja Spurs í stað Cavs en það er styttra síðan Spurs urðu meistarar, ásamt því að Lebron sagði að núna væri "árið þeirra".

29 desember, 2008 10:46  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim