fimmtudagur, desember 18, 2008

Ísland – almost heaven?

Þessi pistill birtist á Vefritinu.

Síðasti pistill hófst á frásögn af heimsókn þar sem ég ræddi málin við tvo vini (pólitíska öfgamenn) áður en ég sýndi skoðanabróður minn, viðskiptaráðherra berrassaðan. Rætur pistilsins í dag má hins vegar rekja til samræðna við góðan vin sem benti mér á þátt sem á samleið með íslenskum veruleika.

Sagan endurtekur sig

Margir kannast við þættina ,,Weird Weekends” þar sem Louis Theroux fer á kostum. Í einum slíkum sem ég hafði ekki séð ferðast Louis til Idaho í Montana til að kynnast sjúkum ofur-þjóðernissinnum sem halda úti smáu samfélagi til varnar bandarísku stjórnarskránni (og reyndar heimsenda-kristni, en látum það liggja milli hluta) sem hefur það markmið að lifa af.

Þetta litla, byssuglaða og fársjúka samfélag er uppfullt af ranghugmyndum og samsæriskenningum, þar á meðal um hið nýja heimsveldi (Sameinuðu Þjóðirnar) sem ,,hefur það illa innrætta og leynilega plan að stjórna heiminum”. Gegn SÞ ætlar þetta litla samfélag að verjast fram í rauðan dauðann og hefur komið sér upp leynilegum kjarnorku- og eiturefnabyrgjum ,,þegar” árásirnar hefjast.

Samfélag þetta var stofnað af Bo Gritz (sem telur sjálfan sig fyrirmynd Rambo) bæði út frá hernaðarlegu og einnig náttúruhamfara sjónarmiði, sem öruggsti staður í öllum Bandaríkjunum – nafnið á staðnum er því viðeigandi, hann heitir ,,Almost Heaven”.

Louis gerir sér lítið fyrir og leggur það á sig að kynnast og gista hjá íbúum á einu sveitabýlanna. Húsbóndinn, hægri öfgamaður, rekur sögu sína og hvers vegna hann hafi lagt af stað í þetta afskekkta ,,himnaríki”. Í sem fæstum orðum má rekja það til þess að skattayfirvöld í Bandaríkjunum eyddu reikningnum hans og dóttur hans sem átti 12 dollara í sparifé (réttið upp hönd þegar þið farið að sjá munstur) auk þess sem þau völdu afskekkt öryggi umfram lífsgæði.

Næsti viðkomustaður er hjá gömlum vinstrisinnuðum hippa sem hafði lifað á mun afskekktari stað ,,neðanjarðar” í 28 ár, honum stóð á sama þó að himinn og haf væru milli hans lífsskoðanna og hinna (hægri öfgamannanna) – þeir berðust að sama markmiði; sjálfstæði sínu gegn heimsveldinu illa. Sá var svo vinsamlegur að benda Louis á hvar finna mætti mjög rasíska, hommafælna en þjóðholla menn.

Louis hélt leið sinni áfram og næsti viðmælandi var sjálfur leiðtogi hinnar arísku þjóðar (safnaðarins, svo að það sé á hreinu) og prestur sem var hans hægri hönd, en þetta ,,krúttlega” félag hafði staðið fyrir allskyns ofbeldisverkum og morðum. Þeir reyndust vera miklir þjóðernissinnar og vildu verja stjórnarskránna… tja, það sem snéri að hvíta kynstofninum allavegana!

Áfram hélt Louis, spjallaði m.a. við mann sem bjó í húsi úr heyböggum sem SÞ myndi aldrei detta í hug að ráðast á, enda liti það út sem gras fyrir dýrin (ég ætla ekki einu sinni að byrja á því að greina þessa löngu rökvillu). Að lokum snéri hann aftur til hægri öfgamannsins sem var að byggja sér nýtt líf eftir að skatturinn hafði ,,rústað” hans fyrra lífi með því að taka 12 dollara af dóttur hans. Hann var ennþá að undirbúa sig undir stríðið: Almost Heaven vs The New World Order sem gæti átt sér stað fyrir aldamótin. Auðvitað varð ekkert af því, fremur en tölvuvírusnum sem átti að senda okkur aftur á steinöld. ,,Andstæðingurinn” hefur ekki skotið einu skoti og þeir fáu sem hafa særst, hafa gert það af eigin hendi – þar á meðal stofnandi Almost Heaven, Bo Gritz sem reyndi að fremja sjálfsmorð og flutti síðan úr himnaríkinu ásamt mörgum öðrum.

Ísland og samtíminn

Nú stendur Ísland á tímamótum, þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma nú hver á fætur öðrum út úr ESB skápnum og líklegt má teljast að tveir flokkar til viðbótar við Samfylkinguna verði því jákvæðir í garð ESB í janúar (D og B) og samþykki að fara í aðildarviðræður um inngöngu – meira að segja Ingvi Hrafn er orðinn fremur meyr og mjúkur.

Eins og allir ,,sannir Íslendingar” vita hins vegar að þá er ESB illa innrætt bandalag sem tók áratugi að byggja upp til þess eins að fara illa með Íslendinga samkvæmt leynilegu plani – hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir ætla íslenskir þjóðernissinnar út í þegar að þjóðin samþykkir inngönguna?

Er hægt að komast að samkomulagi um að við afhentum þeim Papey? Nei líklegast vilja þeir ráða því sjálfir hvaða afskekkti eyðistaður er öruggastur, jafnt hernaðarlega sem og út frá sjónarmiði náttúruhamfara - það yrði líklega erfitt að koma fyrir kjarnorkubyrgjum á eyjunni. Þeir ættu þó að byrja að safna fyrir þeim, því þau kostuðu 35.000 dollara stykkið eða nákvæmlega óteljandi íslenskar krónur miðað við það ástand sem þessir menn hafa skapað í nafni sjálfstæðrar myntar – mögulega fá þeir þó afslátt hjá fyrrverandi íbúum Almost Heaven og þá skiptir engu hvort þeir eru vinstri eða hægri þjóðernissinnar. Þar geta þeir lesið um Bjart í sumarhúsum og stoltir sagst hafa valið afskekkt öryggi fram yfir lífsgæði.

Vonandi fáum við að sjá álíka þátt um svona menn hérlendis í framtíðinni, því í fjarveru þeirra yrði íslenskt þjóðfélag mun heilbrigðara – nafnið er líka komið: ,,Næstum því Valhöll”.

Með laufléttri ástarkveðju, ykkar einlægur BÞP.

Er lífið ekki yndislegt?

Efnisorð:

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

hehehe... 'Næstum því Vallhöll' þessi grein er algjör snilld Bjarni. Svo er bara kominn mynd og allt af kallinum á Vefritið.

ciao,
ivar

18 desember, 2008 08:29  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þú átt nú allan heiðurinn af þessum pistli og ég þakka ábendinguna. Ég verð að viðurkenna það að ég var mjög ánægður með þetta punch-line :)

Já, já líka hugguleg mynd. Ég sendi kannski nýja mynd inn í vor, þegar við verðum komnir í tryllt form - þá væntanlega ber að ofan og olíusmurður :)

Kveðja Bjarni Þór.

18 desember, 2008 09:13  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim