miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Enskur kreppubolti

Ákvað að smella inn litlum almennum pistli um enska boltann, en áherslan er aðallega á að skapa umræðu, svona eins konar ,,Hverju spáið þið?"

Undirbúningur ensku liðanna er á lokastigi enda einungis 10 dagar í fyrstu umferð. Oft hefur maður verið spenntari enda lítið markvert gerst í leikmannainnkaupum stóru liðanna en City hafa auðvitað verið í ruglinu. Þannig má með sönnu segja að meistararnir frá Manchester, meistaraefnin í Liverpool og unglingarnir í Arsenal komi lemstraðir til leiks en Chelsea eru við það sama.

Manchester United hafa misst besta knattspyrnumann heims og að auki Tevez til City en fengið í staðinn Valencia og Owen (og Obertan sem sennilega spilar ekkert hlutverk fyrr en á næstu leiktíð) - þannig að meistararnir eru slakari en í fyrra og í enskum fjölmiðlum er talað um að þeir hafi misst ,,fear factor"... sem ég held reyndar að geti einnig verið gott því að þá liggja mögulega aðeins færri lið með 11 manna múr í vítateignum.
Helstu styrkleikar United eru gríðarleg breidd, góð blanda af ungum og gömlum, breskum og erlendum leikmönnum en það vantar að mínu mati heimsklassa leikmann í þetta lið sóknarlega. United verður að treysta á það að meiðslagarmarnir Owen og Rooney haldist heilir og þá eru meiðsli Van der Sar áhyggjuefni enda hvorugur hinna markmannanna framíðarmarkmenn liðsins að mínu mati. Einnig verða helst tveir til þrír af eftirfarandi: Nani, Anderson, Valencia og Berbatov... að stíga upp og fylla í skarð Ronaldo.

Liverpool... (þá kætast margir yfir skrifum mínum) eru að mínu mati líklegastir til að hirða titilinn af United en um leið brothættasta liðið. Þeir hafa bætt við sig Johnson en misst Alonso og munu örugglega finna eftirmann strax í þessari viku og reyna að fylla upp í önnur skörð. Helsti styrkleiki Liverpool er þétt lið með Torres og Gerrard til að klára leikina en á móti kemur að breiddin er lítil sem engin. Í vörninni er tæpt að Skrtel nái fyrsta leik og Agger er meiðslagarmur, í hægri bakvörð á Liverpool engan sómasamlegan mann fyrir Johnson og vinstri bakvarðarstaðan er ennþá vandamál. Á miðjunni er Mascherano sagður óánægður og vilja fara og Lucas mun ekki fylla skarð Alonso og þeir sem ég hef heyrt nefnda til að fylla hans skarð gera það varla heldur - allavegana ekki strax frá byrjun.
Fyrir framan miðjuna leikur Liverpool með þrjá menn (4-2-3-1), þar er Gerrard í holunni en Benayoun, Kuyt, Riera og Babel munu sjá um kantstöðurnar tvær. Í fyrra voru hinir tveir fyrrnefndu að leika yfirgetu, Riera var fínn en Babel dapur - þannig að ef að Gerrard helst heill þá verður þessi lína í lagi en ég sé ekki mikla bætingu (sem er jú það sem þarf ef að Liverpool ætlar að verða meistari). Frammi er svo Torres, besti senter í heiminum en hann virðist líka vera meiðslapjakkur og ef að hann meiðist þá er Liverpool verr statt sóknarlega en ca. bestu 10 liðin í deildinni, hefur ekkert alvöru backup. Það veltur á því hversu heilir lykilmenn verða, hversu vel eftirmaður Alonso stendur sig og hvort að Mascherano verður í góðu andlegu formi hvort að Liverpool verða meistarar eða jafnvel bara í 4.sæti.

Chelsea enduðu þremur stigum fyrir neðan Liverpool og voru á þvílíku skriði seinni partinn undir stjórn Hiddink. Lentu enn og aftur í miklum meiðslum en virðast nú aftur vera orðnir heilir (að undanskyldum Joe Cole). Ég myndi telja að Chelsea væri líklegasta liðið til að taka deildina ef að Hiddink væri ennþá með liðið, því að þeir eru með betri mannskap en Liverpool varnarlega, miðjulega og sóknarlega en það þarf að smella saman.
Stærsti kosturinn er auðvitað gríðarlega gott lið, með mikla breidd og reynslu en nýr þjálfari, aðrar áherslur o.s.frv. taka tíma - ef Drogba verður heill á líkama og sál að þá gætu þeir farið ansi langt með þetta. Það sem maður hræðist fyrir hönd Chelsea (fyrir utan að ná ekki saman) er að lykilmenn á borð við Cech, Carvalho (varla lykilmaður lengur), Essien, Ballack og Drogba meiðist og að margir leikmenn liðsins hafi náð hátindinum og geti snögglega dalað - framangreindir menn + Terry.

Arsenal er enn og aftur það lið sem mest verður gaman að fylgjast með (og auðvitað City). Búnir að missa Toure og Adebayor og einungis búnir að fá Vermaelen í staðinn. Þeir eru hins vegar að fá menn til baka úr meiðslum, eins og Van Persie, Eduardo og RoSICKy sem gætu ásamt Fabregas og Arshavin myndað ansi smekklegan sóknarleik.
Stærsti kosturinn við Arsenal er magnið af hæfileikaríkum sóknarþenkjandi leikmönnum sem spila skemmtilega knattspyrnu en veikleikinn er eins og svo oft áður, skortur á reynslu, hugarfar sigurvegarans og festu milli miðju og varnar en einnig hættan á því að margir af þessum mönnum meiðist enn og aftur. Ég hefði stutt það að Arsenal fengi sér einn anti-knattspyrnu miðvörður sem getur skallað allt frá úr föstum leikatriðum og óvitlaust einnig að fá Viera í stöðu akkeris, þó ekki væri nema til að vera í búningsklefanum og segja sögur af því þegar liðið fór í gegnum heila deildarkeppni án þess að tapa leik... til að smita út frá sér hugarfari sigurvegarans.

City, Everton, Villa og Tottenham verða svo þarna fyrir neðan. City á auðvitað mestu möguleikana en ég held að þeir fari illa út úr þessum kaupum öllum fyrri part tímabils en verði skárri seinni partinn. Hin liðin þrjú eru stöðugri, spurning með Villa reyndar sem missa Barry og það kæmi ekki á óvart ef að Agbonlahor og Young myndu valda vonbrigðum.

En hvað segið þið? Hverju spá menn... og konur.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Formsatriði fyrir Arsenal að klára deildina.

KD.

05 ágúst, 2009 10:03  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Arsenal byrja ekki reynslulausir ár eftir ár? Fullt af mönnum þarna sem hafa leikið í mörg ár í deildinni. Jafnframt tel ég borðliggjandi að Liverpool endi í 4.-5. sæti... breiddin í framlínunni hjá þeim er engin, þetta er eiginlega frekar frampunktur heldur en lína. Svo er bara of mikið af lélegum mönnum í liðinu hjá þeim.

Ég skil ekki af hverju Ferguson er ekki búinn að henda Giggs og Scholes, ef hann hefur einhver not fyrir þá í vetur þá verða United í veseni. Ætli það standi ekki eftir að Chelsea sé það lið sem hægt er að gagnrýna minnst = með minnstu veikleikana en ég held samt að þeir lendi í 2. sæti á eftir Bendtner og co (sem klárar tímabilið með fleiri mörk en Owen).

KD.

05 ágúst, 2009 10:30  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

OK reynsluleysi er kannski ekki rétta orðið en það vantar að mínu mati reynslubolta í vörnina og sem akkeri á miðjuna.
Svo er það einfaldlega þannig að þó að ungur leikmaður (segjum 21 árs) sé búinn að spila 150 leiki að þá skortir honum ennþá ýmsilegt þroskalega séð sem 25 ára leikmaður með jafn marga leiki hefur (svona að meðaltali).
Annars vona ég eins og alltaf að Arsenal gangi vel, enda skemmtilegt knattspyrnulið.

05 ágúst, 2009 20:25  
Blogger Healing Broken heart sagði...



Galdramyndir þínar til að giftast unnu mér. Vegna hjónabandar þinnar býð ég að ég er núna giftur. Takk a einhver fjöldi af Doc Hlutir. Ég skulda þér.Viltu samband við Doc ham Hér templeofanswer@hotmail.co.uk eða Whatsapp (+2348155425481)

27 júlí, 2018 02:17  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim