mánudagur, nóvember 21, 2005

Aukið umburðarlyndi

Oft vill það brenna við að menn verði of neikvæðir og segi aðeins fréttir af því sem slæmt er í þessu þjóðfélagi sem við höfum byggt á Íslandi. Það kætir hins vegar manns auma hjarta þegar maður sér hvað umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum er að aukast. Samkvæmt skoðunnarkönnun fréttablaðsins eru 82% landsmanna fylgjandi því að lesbíur í sambúð fái að eignast börn með gjafarsæði. Til sönnunar breytum hugsunarhætti þjóðarinnar las ég í gær hluta úr viðtali við Hörð Torfa í bókinni ,,Ísland í aldanna rás" er upphaflega birtist í vísindatímaritinu ,,Samúel" (Örn Erlingsson?) frá árinu 1975 og vakti gríðarlega athygli. Þar lýsir Hörður því yfir að hann sé ,,hómósexualisti". Ég birti hér örbrot úr þessu viðtali:

Blaðamaður: Hvernig er að vera stimplaður hommi?
Hörður: Það er erfitt. Fólki hættir til að taka manni með sérstakri varúð. Það er eins og það viti ekki alveg hvernig á að umgangast mann.

Blaðamaður: Á þetta við um fólk, sem þú vinnur með í sambandi við leiklist?
Hörður: Nei þetta er yfirleitt ekki innan þessa hóps, sem ég umgengst í sambandi við starf mitt... svo er fólk, utanaðkomandi, það á til ólíklegustu hluti. Ég er kannski að ganga úti á götu - fæ snjóbolta í hausinn og það er kallað: Helvítis homminn þinn eða: komdu þér í burtu.

(svo kemur fram í mjög löngu máli hvernig hann á erfitt með að fá vinnu og húsnæði vegna kynhneigðar sinnar og auk þess fengið hótunarbréf - en áfram...)

Blaðamaður: Eru til kynferðislega brjálaðir hommar?
Hörður: Já alveg jafnt og hjá öðrum...

Blaðamaður: Það er almennt álit fólks að hómósexualismi sé tiltölulega algengur meðal þeirra er leggja stund á leiklist. Telurðu það rétt?
Hörður: Nei, það er rangt. Þetta er ekki og verður ekki bundið við neina eina atvinnustétt, annarri fremur.

Viðtalið heldur svo áfram á einhvern fáránlegan hátt og er mjög skemmtilegt. Miður skemmtilegar urðu hins vegar viðtökur samfélagsins við þessari játningu. Hörður missti húsnæði sitt, fékk ekki vinnu og var hótað lífláti - að lokum hrökklaðist hann eins og svo margir aðrir samkynhneigðir menn til Kaupmannahafnar.
Hvet fólk endilega til að lesa þetta viðtal í fullri lengd í bókinni ,, Ísland í aldanna rás 1951-1975" bls 318-319.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim