mánudagur, júní 09, 2008

*****Með suð í eyrum við spilum endalaust *****

STÓRKOSTLEG PLATA!!! (sjá streymið að neðan, þar sem hlusta má á alla plötuna).
Skemmtilegt hversu coverið endurspeglar þessa hreinu, berrössuðu og að mörgu leyti barnalega einlægu Sigur Rósar plötu. Nýr hljómur á margan hátt, sungið að mestu á íslensku, smá á ,,vonlensku" og lokalagið á ensku. Hörðustu aðdáendur hljómsveitarinnar þurfa ekki að kvíða því að hér sé ferðinni eins mikil poppplata og ýmsir hafa viljað meina - á þessari plötu er að minnsta kosti eitt ,,tár og gæsahúð a la Viðrar vel til loftárása moment" sem ég þegi um til að spilla því ekki. Platan skiptist í rauninni upp í þrennt, fyrst svokallaðan popphluta - þá út í meiri klassíska Sigur Rósar plötu og endar að lokum í undursamlegum og fallegum hluta.

Platan byrjar reyndar á tveimur hressum lögum annars vegar Gobbledigook og svo inní mér syngur vitleysingur (sem er nokkuð ,,Hopp í polla"-legt og verður sennilega vinsælasta lag plötunnar), þriðja lagið er Góðan daginn (lag sem sennilega passar best við plötuna ,,Ágætis Byrjun"), fjórða lagið heitir eftir síðari hluta plötunnar eða Við spilum endalaust (sem er framhald af fyrstu tveimur lögum plötunnar í hressleika).

Að þessum fjórum lögum loknum verða kaflaskil með fimmta laginu hinni fallegu langloku Festival (þessa uppbyggingu þekkjum við, Jónsi að syngja undir fljótandi tónum sem svo byggist upp í ,,Popplags" stemmningu en þó með poppaðri hætti). Þar á eftir er stemmningunni náð niður með laginu Suð í eyrunum sem ber sama heiti og fyrri hluti plötunnar (falleg píanóballaða með hefðbundnum Sigur Rósar takti, þetta lag fellur sennilega mitt á milli ,,Ágætis Byrjun" og síðari helmings ( )... svigaplötunnar).

Lög sjö til ellefu mætti svo kalla rólega og fallega hluta plötunnar. Sjöunda lagið er Ára Bátur (að mínu mati er hér á ferðinni algjört meistaraverk, tæplega 9 mínútur af píanóspili, fögrum söng Jónsa, undursamlegri uppbyggingu en í stað Sigur Rósar hljómsins er það magnaður sinfóníu, kór og brass hljómur sem gerir lagið að lokum að klassík). Áttunda lagið ber nafnið Illgresi (það kom mér og mun væntanlega koma mörgum á óvart því... bíðið eftir því... bíðið.... eitthvað við það er mjög Paul Simon-legt... jafnvel of, einungis Jónsi að syngja undir hægu gítarpikki).
Níunda lagið er Fljótavík ( gítarinn er lagður til hliðar og píanóspilið frá sjöunda laginu er tekið fram aftur og aftur er stórsveitin dregin fram í undirspil sem minnir mig svolítið á risaútsetningar Þorvalds Bjarna á Bang Gang plötunni ,,Something Wrong"), tíunda lagið kemur svo í beinu framhaldi sem fljótandi og dreymandi niðurlag með viðeigandi nafni...Straumnes (við þetta niðurlag væri gott að sofna eftir góða hlustun ef ekki væri fyrir þá einföldun staðreynd að eitt lag er þá enn eftir). All alright rekur svo lestina, er eina lagið sem sungið er á ensku (kannski að það sé það sem koma skal? Vonandi að Orri taki þá ekki að sér sönginn - hér er á ferðinni mjög hægt, fallegt og áheyrilegt Sigur Rósar lag sem einhverjir munu eflaust sofna við aftur eftir að hafa sofnað við tíunda lagið).

Niðurstaða: Fimm stjörnu plata, ekki spurning - svei mér þá ef að ég verð ekki að fremja einhvers konar tónlistarlöst og segja að þessi plata sé betri en Ágætis Byrjun ussss...

Fyrsti hlutinn hefði auðvitað komið öllum í opna skjöldu ef að ekki hefði verið fyrir það að aðdáendur voru varaðir við og fengu sýnishornið Gobbledigook - þessi hluti ætti að sannfæra þá sem ekki hafa viljað viðurkenna tónlistarlega yfirburði Sigur Rósar um að þeir hafi haft rangt fyrir sér.
Annan hlutann ættu íhaldssamir aðdáendur sem elska Ágætis Byrjun og Svigaplötuna að vera mjög hamingjusamir með.
Þriðji hlutinn er svo að mínu mati toppurinn, sá sem elskar ekki þann hluta er annað hvort heyrnalaus eða ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að hlusta á tónlist.

Það má reyndar segja, sérstaklega um síðasta hlutann að það er eins og George og Orri hafi týnst, Jónsi hafi týnt fiðluboganum sínum og Kjartan orgelinu en til að bæta það upp hafi sinfónía, brasssveit og kór verið fengin til að hjálpa þeim Jónsa og Kjartani að fylla eitthvað tóm sem annars væri bara einfalt fallegt píanó og/eða gítar undirspil - þið skiljið hvað ég meina þegar þið heyrið þetta undursamlega meistaraverk. Verði ykkur að góðu - þið eigið svo mikið inni.

Lífið er sannarlega dásamlegt!

Efnisorð:

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Takk fyrir mig, Jónsi, Orri, Goggi, Kjartan og síðast en ekki síst Bjarni Þór fyrir frábæra færslu.

Í dag er 10. júní, við erum stödd í 24.viku ársins 2008. Þessi frumspilun á ,,Með suð í eyrum við spilum endalaust" mun gera þennnan þriðjudag sérstakann.

kv Óli Þóris

10 júní, 2008 08:44  
Blogger Gummi Jóh sagði...

Svona færsla sýnir enn og aftur hvað ég hafði rétt fyrir mér að láta þig fá sendinguna um daginn. Þú átt hana svo skilið og meira en það.

10 júní, 2008 22:48  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Óli: Verði þér af þessari undursamlegu tónlist.

Gummi: Það er ekki að ástæðulausu sem þú ert uppáhalds Gumminn minn; þetta var virkilega fallegt af þér og vonandi get ég endurgoldið þér greiðann á einhvern hátt.

Njótið lífsins báðir tveir - kveðja Bjarni Þór.

11 júní, 2008 15:31  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim