sunnudagur, maí 23, 2010

Hvað á fjórflokkurinn að gera?

Fjórflokkurinn er í krísu, sinni verstu í sögu flokkakerfisins. Krísan endurspeglast í komandi kosningum þar sem Reykvíkingar í öllum sínum fjölbreytileika fagna því saman, þ.e. jafnt íhaldsmenn, frjálslyndir hægri menn, jafnaðarmenn og yfir í róttækustu vinstri menn að utanaðkomandi flokkur verði í lykilhlutverki. Þetta er stórt skref - að við þorum að taka það skref að hætta að kyssa vönd fjórflokksins, að við þorum að vera frjáls. Er raunveruleg ástæða þess að við ætlum að kjósa Besta flokkinn sú að sá flokkur muni stjórna betur? Svarið er nei (en hann mun ekki vera verri).

Ástæðan er sú að Reykvíkingar eru ósáttir við flokkana ,,sína", við stjórnunina undanfarin ár, við uppgjörið þeirra, stefnuleysi en jafnframt hrokann - sumir virðast hafa gleymt hjá hverjum þeir eru í vinnu. En hvað þarf fjórflokkurinn að gera?

Umfram allt þá þurfa flokkarnir að sýna auðmýkt. Hver og einn þarf svo að finna það hjá sér hvort að hann vill starfa af heilindum fyrir Íslendinga/Reykvíkinga eða sveitarfélag X. Sé sá neisti slokknaður eða að viðkomandi hefur minnsta grun um að nærveru hans sé ekki óskað þá ætti viðkomandi að stíga útaf sviðinu. Stór hluti af þingmönnum og sveitastjórnarmönnum á því að hætta í stjórnmálum og þeir sem gegna ábyrgarstöðum (t.d. í ríkisstjórn eiga að gefa það út að þau muni hætta um leið og ákveðin mál séu komin í farveg).

Gömlu flokkarnir verða að taka skellinn í þessum kosningum. Sleppa takinu og skítkastinu í garð nýrra flokka, vilji þeir raunverulega halda lífi eftir þær. Hver og einn flokkur ætti að setja stóra auglýsingu í blöðin og á sjónvarpsstöðvar strax eftir kosningarnar í næstu viku þar sem landsmenn eru beðnir afsökunar á því sem hefur gerst, ekki vegna þess að það sé PR-lega gott heldur einungis ef að þeir raunverulega meina það og að framundan séu raunverulegir uppgjörstímar.

Flokkarnir eiga að drífa það af að koma á óháðu stjórnlagaþingi og halda svo í framhaldinu landsþing. Verði útkoman sú að þátttaka almennings verði ennþá dræm og óánægjan mikil þá verður að íhuga þann möguleika að auðkenni flokkana sjálfra sé svo laskað að það taki því ekki að halda þeim á lífi undir núverandi nöfnum - það myndi auk þess gefa mörgum frelsandi tækifæri til að finna hugsjónum sínum réttan farveg.

Þangað til eitthvað af þessu gerist mun stór hluti landsmanna halda áfram að hlæja að flokkunum, sérstaklega hátt þann 29. maí, um leið og þeir vorkenna þeim þrælum sem ætla að kyssa á vöndinn enn eina ferðina.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

flottur pistill bjarni.. eins og alltaf

kv,
ivar

23 maí, 2010 20:06  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Takk fyrir það :)

24 maí, 2010 06:12  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim