miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Ilmurinn - óþefur af þjóðfélagsádeilu, sem á vel við á hinum kapítalíska Valentínusardegi.(Stutta útgáfan fyrir skyndibitalesandann)

Formáli: Áður en lesandinn heldur lengra er rétt að vara við því að hér á eftir fer fram semi-krufning á kvikmyndinni ,,Ilmurinn" og hvernig lesa má útúr henni ádeilu á mannkynið. Þið ykkar sem hvorki hafið lesið bókina né séð myndina hafið því hér með verið vöruð við.

Inngangur: Ég fór í gærkvöldið að sjá myndina ,,Ilmurinn" sem ég hafði takmarkaðan áhuga á að sjá þrátt fyrir að betri helmingurinn hefði fyrir löngu síðan tjáð mér að bókin væri með þeim betri sem hún hafði lesið. Myndin fannst mér hins vegar frábær því hún tengir svo vel við nútímasamfélag, þó að ég sé ekki vissum að það hafi verið markmið leikstjórans né Patrick Suskind höfundar bókarinnar. Þetta er því ekki aðeins fín saga, sem er vel kvikmynduð heldur lýsir Ameríska draumnum - kapítalismanum eins og best verður á kosið. Í grunninn er þessi fagra hugmyndafræði kapítalismans um fátæklinginn sem vinnur sig upp úr ræsinu og nýtir hæfileika sína til að öðlast það sem hugurinn girnist og aðdáun fólks, en undir niðri lýsir hún þessari daunillu sjálfseyðingarhvöt sem honum geta fylgt og grunnhyggnum skoðunum neytandans sem liggur í göldrum and- og aðgerðarleysis. Einstaklingurinn sjálfur Jean - Baptiste Grenouille er í senn snjalli og andstyggilegi stóreignarmaðurinn, það sem verst er í fari alþjóðafyrirtækja og kapítalismans sjálfs sem tortímir.


Útskýringar: Til að mönnum sem mér þykir væntum sárni ekki, vil ég taka fram að það sem á eftir fer varðandi kapítalisma, alþjóðafyrirtæki og alþjóðavæðingu er að sjálfsögðu ekki algilt - langt því frá. Ofurdramað er svo einungis til skemmtunnar.

Meginmál: Myndin hefst í raun á fæðingu Grenouille og er táknræn fyrir Ameríska drauminn á þann veg að móðir hans fæðir hann á 18.öld í ræsi Parísar og þar liggur hann á mörkum lífs og dauða í fiskafgöngum. Móðir hans reynir að yfirgefa hann en er hengd að lýðnum fyrir að ætla að murka lífið úr drengnum. Í gegnum myndina er það svo gangandi að sá sem selur Grenouille fær að gjalda það með lífi sínu enda þar á ferðinni kapítalískt monster. Honum er komið fyrir á munaðarleysingjahæli fyrir pening og þar reyna eldri börnin að kæfa hann nýfæddan og segir sögumaður frá því að börnin hafi séð eitthvað illt við hann, en honum er bjargað af forstöðukonu hreysisins. Fyrstu ár ævinnar líða og áhorfandinn verður vitni af því hvernig Grenouille fer að rækta sína einstöku hæfileika sem er lyktarskynið á mjög andstyggilegan og á tíðum siðferðislega rangan hátt. Það kemur þó að því að forstöðukonan selur hann í þrælahald en er skömmu seinna skorin á háls, sem má að vissuleyti yfirfæra á lögmál markaðarins - að þeir sem nýta ekki tækifærið verða undir. Í þrælahaldinu vinnur Grenouille manna best og fær eftir nokkur ár umbun (Ameríski draumurinn) - tækifæri til þess að ferðast inn í miðborgina þar sem hann fær skammvinna andlega fullnægju út úr allri þeirri lykt, ilm og óþef sem þar svífur um loftið. Enga lykt finnur hann þó betri en af óspjallaðri mey sem hann eltir uppi, kæfir (reyndar óvart) og þefar af þar til ilmurinn hefur yfirgefið látnu stúlkuna, eftir það er hann ákafur í að elta þessa lykt uppi og gera hana eilífa, rétt eins og neytandinn í nútímasamfélagi er alltaf í leit að einhverju stórkostlegu, sem gefur af sér stórkostlega tilfinningu en er aðeins skammtíma skyndi(bita)lausn - hamingja, eiturlyf, súkkulaði eða Lakers treyja. Hin látna óspjallaða mey þá sem staðgengill t.d. bæði allra þeirra sem látið hafa lífið í verksmiðjum stórfyrirtækja en ekki síður þeirra landa sem í góðri trú hafa orðið slæmum stórfyrirtækjum að bráð, fyrirtækjum sem aðeins eltast eftir þessum skammtíma gróða (ilminum) en eru svo á brott í leit að öðrum fórnarlömbum og skilja hræið eftir.
Úr þessu tækifæri um borgina sem er að ferðast með skinn fær hann svo tækifæri lífs síns þegar hann í einum af þessum tilviljunum lífsins fer í vinnuferð með skinn til ilmvatnsgerðarmannsins Giuseppe Baldini (Dustin Hoffman) þar sem hann sýnir fram á snilli sína.
Baldini kaupir Grenouille af þrælahaldaranum sem þarf líkt og forstöðukonan áður að gjalda með lífi sínu. Baldini græðir á tá og fingri og leyfir Grenouille að vera með sína eigin tilraunastarfsemi sem fer langt út fyrir hið siðferðislega þegar hann murkar lífið úr heimiliskettinum til að eyma af honum lyktina - sem tilraun, því hann vill getað fangað ilm óspjallaðrar meyjar. Hér er hann sem sagt farinn að hagnast á gjörðum sínum og farinn að spyrja sig siðferðislegra spurninga er varða líf og er ekki ósvipað því sem eigendur stórfyrirtækja hafa löngum spurt sig, eru það þeirra markmið og hagnaður eða mannslíf sem skipta meira máli - þið svarið því. Að lokum spyr Grenouille meistara sinn (Baldini) í beinu framhaldi af því að hann getur ekki eymað lykt af ketti hvort að til þess sé leið. Baldini telur svo vera og gefur honum sveinspróf gegn 100 ilmvatnsuppskriftum svo að Grenouille geti lært slíkt í þorpinu Grasse - fyrir þann gjörning lætur Baldini lífið. Í Grasse lærir hann þá list að varðveita lykt í dýrafitu og hefst nú handa við að murka lífið úr hverri konunni af fætur öðrum, einni vændiskonu en restina saklausar og óspjallaðar meyjar. Að endingu nær hann dóttur Antoine Richis (Alan Rickman) og fullkomnar þar með Ilminn. Þá er hann handtekinn og á yfir höfði sér hrottalegar pyntingar á krossi sem komið hefur verið fyrir uppi á palli áður en hann er líflátinn. Æstur lýðurinn kemur sér fyrir á torgi bæjarins og heimtar hrottalegar hefndir á meðan aðalsmenn bæjarins koma sér fyrir á virðulegum svölum. Að lokum mætir sá dauðadæmdi í konungslegum silkifötum og með lokkandi ilminn á sér. Öskrandinn lýðurinn þagnar og hrífst af, hann gengur upp á pyntingarpallinn og sjálfur böðullinn fellur á hné og tekur af sér grímuna og allir öskra ,,hann er saklaus", ,,hann er engill" og þá dregur Grenouille upp vasaklút og lætur dropa af Ilminum falla á hann og veifar. Lýðurinn sem og aðalsfólkið fellur í trans og er Grenouille fleygir frá sér klútnum þá endanlega fer allt úr böndunum. Enginn getur hamið sig og sínar dýrslegu hvatir og upphefst ein stærsta Orgía sögunnar. Þegar bæjarbúar ranka við sér úr Orgíunni er ákveðið að aldrei verði talað um þetta atvik. Grenouille er dæmdur saklaus og hverfur í átt til Parísar en einn af forsvarsmönnum ilmgerðarskólans er hengdur. Hér væri nærtækasta dæmið úr raunveruleikanum að benda á mig sjálfan sem hef oft bölvað t.d. íþróttavörufyrirtækjum fyrir að nýta sér stöðu barna og kvenna í þriðja heims löndum þar sem lagabókstafurinn er hreinlega ekki fyrir hendi, en svo þegar að Nike eða Adidas koma með Manutd eða Lakers treyjur þá kaupi ég þær ,,Made in China".
Annað gott dæmi væri t.d. að tala um umhverfisvernd, ég eins og margir fleiri hef áhyggjur af þróuninni og bölva ráðamönnum íslensku þjóðarinnar fyrir að byggja upp stóriðju en er sjálfur ekki til í að hætta að nota bíl, plast eða aðrar þær vörur sem eru að valda þessu (hvað þá að flokka þær)... En aftur að sögunni til að koma að lokapunktinum. Þegar Grenouille færist nær París áttar hans sig á því að hann hefur hálfgert alræðisvald sem honum hefur ekki verið gefið. Borgarstjóri Parísar og jafnvel Páfinn myndu veita honum völd fyrir þennan Ilm janfvel öll heimsbyggðin yrði í alsælunni (sem hún sífellt leitar að) í eitt andartak. En uppfullur af sjálfseyðingarhvöt 21.aldarinnar (langt á undan sinni samtíð) þá gengur hann inn í París og hellir Ilmnum yfir sig fyrir framan fátæklinga sem laðast að honum, snúa hann niður og éta hann en eru svo skömmu seinna farnir að einbeita sér að einhverju öðru.

Niðurstaða:Hversu lýsandi er þetta fyrir sjálfseyðingarhvöt mannsins, sem er alveg sama þó að vísindamenn sýni fram á að það muni flæða yfir Holland, Feneyjar og Manhattan til að nefna dæmi. Að flóð og hvirfilbylir hafi aukist rosalega sökum umhverfishegðunar okkar o.s.frv. En okkur er alveg sama, við viljum þessa neyslu og höfum ,,rétt á" því í ,,frjálsu" samfélagi og það þarf að borga næsta Euro reikning og halda hagvexti áfram þó að það muni kosta í framtíðinni - af hverju ættum við ekki að hugsa svona? Við borgum nú þegar allt í framtíðinni, seinni tímavandamál Euro/Visa - afborganir af húsum og allt sem við eigum ekki efni á en þurfum strax. Okkur er sama um slæmar afleiðingar kapítalisma, stórfyrirtækja og áhrif okkar á umhverfið - við erum ekki að bera ábyrgð á neinu, af því að við nennum því ekki. Það gleymdist einhversstaðar í uppeldisleysinu og bómullarveröldinni að kenna okkur það. Við myndum ekkert gera þó að Esjan, Þingvellir eða jafnvel ráðuneyti yrðu boðin út til fyrirtækja ef við hefðum það sæmilegt. Okkur er sama um ofurvexti og að 20 milljarðar fari til búfjárræktar á ári og þó að við borgum samt hæsta matvælverð í heimi. Það er vel hægt að gagnrýna einhver smáatriði hér, en þetta erum við - hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Okkur er alveg sama hvort að Olíufyrirtækin þurfa að greiða eitthvað fyrir samráð, því að kostnaðurinn mun lenda á okkur, sem munum halda áfram á sömu braut mengunnar, and- og ábyrgðarleysis, neyslu og öllu því sem því fylgir og það fer jafnvel að verða mikilvægara að steypa sér í skuldir og munað þegar að styttist í tímaglasinu. Bókin bls 1: ,,Því eyðingarmætti sýklanna voru á 18.öld engin takmörk sett, og því var það, að allri mannlegri starfsemi, hvort sem hún miðaði að uppbyggingu eða eyðileggingu, öllum hræringum gróandi lífs jafnt sem hnignandi, fylgdi einhvers konar óþefur"

Bölsýniskveðja, helvítis Stiftamtmaðurinn.

PS. Kafnið ekki á súkkulaðinu!

Efnisorð: , , ,

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég er ánægður með þessa bölsýnis-birtu innan um bjartsýnis-sortann. Áður var þess þörf, nú er það möst.

AFO

14 febrúar, 2007 23:30  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim