þriðjudagur, ágúst 12, 2008

Hverjum þykir sinn fugl fagur (en þinn er lúsabitinn starri)

Það eru tveir miðlar sem hafa gjörsamlega farið offari á undanförnum mánuðum og árum í umfjöllun sinni um unga leikmenn; annars vegar Morgunblaðið í umfjöllun sinni um unga leikmenn Arsenal (sem á vissulega rétt á sér ef frá er talið hversu blaðið er hliðhollt Arsenal) og svo á stuðningsmannasíðum Liverpool manna þar sem hver einasti ,,næsti" Messi, Zidane, Rooney, Torres, Ronaldo, Fowler og Gerrard hafa verið keyptir til liðsins ( án þess að það hafi skilað nokkru hingað til).
Nú get ég ekki verið minni maður og ætla í góðu gamni en þónokkurri alvöru að skrifa stuttan pistil um framtíðarstjörnur United (sem eins og hjá hinum stórliðunum verða oftar en ekki kóngar neðri deildanna).

Brasilíska sambaþríeykið:
Að Anderson undanskyldum eru þrír ungir brasilíubúar sem hafa vakið athygli hjá United. Það eru Da Silva tvíburarnir og Possebon.
Fabio ku vera betri tvíburabróðirinn, hann var fyrirliði u-17 ára liðs Brasilíu og var markahæsti maður liðsins á heimsmeistaramótinu 2007 og er talinn búa yfir miklum leiðtogahæfileikum en því miður fyrir hann að þá spilar hann sömu stöðu og sennilega besti vinstri bakvörður í heiminum sem einnig er hjá United og því spurning hvenær tækifærið gefst en vonandi fær hann nokkra leiki gegn lakari liðum á Old Trafford á þessu tímabili.
Rafael er hinn tvíburinn og eins og Fabio elskar hann að taka þátt í sóknarleiknum og fékk tvö tækifæri á undirbúningstímabilinu og jómfrúarleik hans lýsti Ferguson sem frábærum. Rafael spilar hægri bakvörð og virkar ekki síður skynsamur varnarlega og les leikinn vel (var hreinlega einn af betri mönnunum gegn Juve). Það er ljóst að báðir hafa þeir getuna og hraðann til að spila fyrir United en sennilega vantar enn þónokkuð upp á líkamlegan styrk (eins og eðlilegt er fyrir 18 ára gamla pilta). Saman hafa þeir að sjálfsögðu verið kallaðir hinir brasilísku Neville bræður.
Þriðji pilturinn er svo hinn 19 ára gamli Possebon sem á að vera Box2Box miðjuleikmaður en hefur virkað á mig í leikjunum á undirbúningstímabilinu fremur sem einhvers konar ,,næsti" Carrick eða Alonso. Yfirvegaður á boltanum, með góða móttöku og snúninga og eins og Carrick að þá er hann jafnfættur og sendingarnar ekki ósvipaðar - er fljótur að koma boltanum á rétta staði. Ef að hann fer svo að sýna einhverja sóknartakta (á víst að vera fínn skotmaður) að þá er það bónus.
Um þessa þremenninga + Anderson hafa eldri menn sagt að þeir séu jafnvel spenntari fyrir þeim en fyrir Beckham kynslóðinni... ef það reynist eitthvað í áttina að ,,næstu" Beckham kynslóð að þá er United ekki á flæðiskeri statt til framtíðar ef að liðið heldur auk þess í Ronaldo, Rooney, Nani og Tevez.

Breski aðall-inn
Líkt og hinir brasilísku eru þrír breskir strákar að berja sér leið inn í aðalliðið en við þekkjum þá betur (sá fjórði er Simpson sem verður á láni hjá Blackburn í eitt ár, en er svo óheppinn að vera hægri bakvörður líkt og Rafael sem menn slefa yfir).
Fyrstan skal nefna J.Evans sem er tvítugur miðvörður sem Ferguson veðjaði á fremur en Pique. Evans fékk ágæta reynslu í fyrra með Sunderland í efstu deild (og árinu á undan í næst efstu deild) og vildi Roy Keane kaupa piltinn nú í sumar en án árangurs. Evans er stór, ágætlega sterkur, fínn á bolta og skynsamur (spurning með hraða) en það er varla líklegt að hann fái stóra sénsa í ár nema vegna meiðsla enda Ferdinand, Vidic og Brown fyrir framan hann í goggunarröðinni.
Hinir tveir eru báðir svartir senterar, eigum við ekki að segja ,,næstu" Cole&Yorke.
Campbell er sá eldri (verður 21 árs í haust) og er algjör Andy Cole; hefur þvílíkan hraða, er duglegur og gríðarlega ákveðinn en skortir tækni (t.d. við að klára færi). Var í láni í fyrra hjá Hull og átti stóran þátt í því að þeir spila nú í Úrvalsdeildinni, skoraði 15 mörk og lagði upp nokkur mikilvæg. Hefði verið til í að sjá hann rembast í eitt ár í Úrvalsdeildinni með Hull en sennilega mun hann spila nokkra leiki fyrir United (sérstaklega þegar við erum komnir yfir og ætlum að drepa leikinn með skyndisóknum).
Yngri framherjinn heitir Welbeck og verður 18 ára í haust (er innfæddur Manchester maður). Ferguson telur hann mikið efni og fór hann með liðinu í umdeilda ferð til S-Arabíu á seinni hluta síðasta tímabils - Ferguson lofaði reyndar að drengurinn fengi að spreyta sig í deildinni en það varð ekki úr og hann var ekkert með í leikjunum á undirbúningstímabilinu vegna þess að hann var að spila með ungmennaliði Englands. Ég hef séð hann spila nokkra leiki og helst af öllu lítur hann út fyrir að vera ,,næsti" Kanu eða fremur ,,næsti" Adebayor. Hann hefði haft gott af því að vera lánaður í neðri deildarlið enda ekki framarlega í goggunarröðinni með Rooney, Tevez, Campbell og jafnvel nýjan senter + mögulega Manucho. En kannski ef að Evans, Possebon, Campbell og Da Silva bræðurnir fá að spila varaliðsleiki að þá mun hann þroskast enn frekar.

Næst? Ítalskt Rómaveldi í gerjun?
,,Næsti" Totti? Er það hinn 16 ára gamli Davide Patrucci sem United stal frá Roma í byrjun sumars? Mun hann í framtíðinni mynda eitrað framlínupar með samlanda sínum, hinni 17 ára gömlu markamaskínu Federico Macheda sem kom frá erkifjendunum í Lazio. Hver veit? Eitt er víst - framtíðin er björt, hjá United eins og hinum stóru liðunum (og hér er þó einungis stiklað á mjög stóru).

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

2 Ummæli:

Blogger Gummi Jóh sagði...

Ormur tók sig til og gerði hið augljósa.

http://www.diddacrew.com/ er lifandi.

13 ágúst, 2008 11:58  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Já! Hérna erum við að tala saman!

Kveðja Bjarni

13 ágúst, 2008 13:15  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim