mánudagur, september 22, 2008

Örstutt um Silfrið

Egill Helgason byrjaði Silfrið sitt núna um helgina með þeim orðum að sumir teldu að frjálshyggjan væri fallin en hafði áður skrifað pistil sem að slíku var ýjað - raunveruleikinn væri sá að mati Egils að ríkisvæðing hefði farið fram í Bandaríkjunum, sama væri að gerast í Evrópu og Rússlandi. Viðmælendur Egils voru flest sammála um að nú væri komið að einhvers konar vatnaskilum og kom það þeim á óvart að bandaríska ríkið skyldi grípa inn í atburðarásina svo að markaðurinn fyrirfæri í raun ekki sjálfum sér - öllum auðvitað nema Birgi Tjörva frjálshyggjumanni sem sagði þetta auðvitað engan dauðadóm yfir stoðum frjálshyggjunnar, inngrip ríkisins mætti réttlæta varðandi björgun á eignum almennings en að aðrir yrðu að taka ábyrgð á heimskulegri ákvarðanatöku.
Nú eru flestir orðnir sammála um að flest allt brást við einkavæðinguna hérlendis, fyrirtæki í eigu ríkisins voru nánast gefin, regluverkið var nánast ekkert og þar af leiðandi gerðu menn og gera enn það sem þeir vilja, Seðlabankinn er handónýtur með Davíð og krónan einnig (án hans eða með) og þetta eru hlutir sem menn verða að læra af, en ætla menn í alvörunni að leita að sökudólgum og reyna að koma þessum hlutum í lag án þess að vita hvernig á að takast á við núverandi ástand? Á það að koma einhverjum á óvart að bandaríska ríkið skyldi grípa inn í eins og það gerði?
Ég veit ekki mikið um hagfræðikenningar en örlítið um það hvernig saga efnahagslegra framfara hefur gengið fyrir sig og staðreyndin er sú að bandaríska ríkið hefur alltaf spilað lykilhlutverk í markaðshagkerfinu og þegar það hefur ekki gerst að þá hrynja hlutirnir - við þurfum ekki að fara í langan samanburð um valdatímabil Reagans&Bush eldri vs Clintons og svo aftur vs Bush yngri til að átta okkur á því hvað virkar... hvað þá um vaxtastefnuna ...(Ólafur benti líka á þetta sem ábæti).
Eftir fall Berlínarmúrsins fóru menn svo í tilraunastarfsemi víða um heim þar sem óheftur kapítalismi átti að vera svarið við öllu enda kommúnisminn búið spil. Niðurstaðan hefur sýnt sig á undanförnum árum í því að Washington samkomulagið (e. Washington Consensus) og molakenningin (e. Trickle down economics) sem eru bæði á forsendum kenningar um óheftan kapítalisma hafa klikkað og ljóst að margir breytu stefnu sinni – mörg ríki áttuðu sig á því að inniviði þurfa að vera í lagi og stjórnvöld þurfa að taka virkan þátt í markaðshagkerfinu og spila inn á styrkleika viðkomandi þjóða. Suður-Ameríka, Afríka og fyrrum kommúnistaríki fóru illa úr þessari tilraun og fyrir rúmlega áratug lærðu þjóðir A-Asíu af hrikalegri kreppu að best væri að hafa stjórnina sjálf og með þeirri stjórn hefur þeim gengið flest allt í haginn síðan.
Á íslenska ríkið að standa hjá og loka augunum fyrir sögunni og er það svo að innanflokksátök í einum stjórnmálaflokki sem ber ábyrgð á einkavæðingunni og á aðgerðum núna muni líka endanlega senda heimili landsins til helvítis með aðgerðaleysi, ónýtri krónu og afsökun um það að ákveðnir menn séu ekki tilbúnir í umræðu um Erópusambandsaðild - er það málið?
Ef að ekkert gerist þá verða næstu kosningar áhugaverðar og þá mun endanlega sannast hvort að fólk kjósi Sjálfstæðisflokkinn hvernig sem viðrar, vonum að við verðum ekki öll gjaldþrota þegar að því kemur.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim