mánudagur, september 08, 2008

Eru orð þín ætluð mér?

Jæja, þá er vonandi þessari smeðjulegu, hádramatísku fjölmiðlaumfjöllun um Sigurbjörn Einarsson lokið. Eins og alltaf þegar einhver sem hefur fengið nafnið sitt prentað í blaði deyr að þá eru allir fullir lotningar en í þessu tilfelli verð ég að spyrja fyrir hvað?
Ég tók mig til og reyndi eftir fremsta megni að komast yfir allt það efni þar sem minnst var á hann og það er varla á nafn nefnandi öll þessi meinta snilld mannsins og ekkert eftirminnilegt virðist standa eftir nema innantómar lýsingar um að Sigurbjörn Einarsson hafi verið einhver mesti andans maður Íslands fyrr og síðar og að fáir hafi verið eins mikið í sviðsljósinu og hann á liðinni öld (hvorugt þessara atriða segir nokkuð og hið síðarnefnda segir okkur aðeins hversu sorglegt það er að trúarleiðtogi hafi yfir höfuð einhver áhrif á almenna umræðu).
Við erum að tala um svo mikinn afturhaldssinna að Ögmundur Jónasson lítur út fyrir að vera frjálslyndur hommi í samanburði. Við erum að tala um svo þröngsýnan og fordómafullan mann að jafnvel mestu þjóðrembur samtímans roðna.

Við erum að tala um mann sem sagði í rökræðum um samkynhneigð: ,,Út af fyrir sig skaðar það ekki hjónabandið sem stofnun að þeir giftist. Það er bara algjör fjarstæða." "Óskynsamlegt sé að vatna út hjónabandið með slíkri skammsýni."

Við erum að tala um mann sem sagði: Auðvitað er evrópsk móðursýki líka til og hefur aldrei verið keppikefli Íslendinga né æskilegt hlutverk okkar að skríða eftir allri evrópskri sérvisku. (Þegar Menntamálaráðherra tók mið af úrskurði Mannréttindadómsstóls Evrópu).

Við erum að tala um mann sem taldi það ekki aðeins rétt kirkjunnar að heilaþvo börn með trú heldur einnig að kalla þeirra náttúrulega eðli, þ.e. trúleysið óeðli.
Við erum að tala um mann sem trúði því að frásögnin um vitringana þrjá væri sönn saga og við erum að tala um mann sem líkti gagnrýnendum Kristnitökuhátíðarinnar við nasista en var sjálfur mikill aðdáandi gyðingahatarans Marteins Lúthers.
Og mann sem hélt því fram að trúarbrögð væru betri eftir því sem guðirnir væru færri en áttaði sig ekki á því að ganga alla leið.
Ég hvet alla til að horfa á minningarþáttinn um Sigurbjörn Einarsson þar sem klippt var saman ,,best of" af 42 ára viðtalsefni við hann og það væri gaman ef að einhver gæti bent á eitthvað merkilegt sem kemur fram á þessum ómerkilega hálftíma annað en endalausir og innihaldslausir Guðfræðifrasar auk þess sem hann var í þversögn við sjálfan sig og fullur af fordómum gagnvart nútímanum.
Fyrir mér var þessi maður ímynd afturhaldsafla og það er þyngra en tárum taki að hugleiða hversu mikið þessi maður hefur rænt úr ríkissjóði til þess eins að halda aftur af framförum.

Vonandi eru þessi tímamót fyrsta skrefið í átt að heilbrigðu íslensku samfélagi.

Nú er rétti tíminn!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

12 Ummæli:

Blogger Biggie sagði...

Hvað meinarðu.... þegar hann talaði þá hlustuðu allir.

08 september, 2008 06:33  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

... vegna þess að það var ekkert annað í boði á ríkismiðlinum :)

Við erum að tala um tíma þegar Framsóknarflokkurinn var að fá uppundir 30% atkvæða og menn voru ekki búnir að átta sig á því hvort þeir vildu kapítalisma eða kommunisma :)

En burt séð frá því hvaða tímar þetta voru að þá var þessi maður ómerkilegur loddari.

08 september, 2008 08:55  
Anonymous Nafnlaus sagði...

það ætti ekki að koma neinum á óvart að hann trúði á vitringana þrjá... hann var biskup for craying out loud. Hvað átti hann bara að taka uppá þeirri nýbreidd sem biskup að segja trúarbrögð ekki til????

Menn eru kannski allveg gáttaðir á því að páfinn í Róm skuli vera bera út fagnaðrerindið líka? Rosa afturhaldssemi þar á bæ!!!!!

meira ruglið er þetta,
ivar

meira ruglið hérna,

08 september, 2008 09:22  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Trúaðir menn skiptast nú alveg í hópa þegar kemur að þessari frásögn sem svo mörgum öðrum. Sumir telja hana dæmisögu en aðrir vilja líta á hana sem sögulega staðreynd. Mig minnir einmitt að hann hafi verið að gagnrýna erkibiskupinn í Kantaraborg fyrir að fullyrða að sagan sé goðsaga.

Ótrúlegt en satt að þá er akkúrat ekkert í þessari færslu sem er ósanngjarnt eða stenst ekki gagnrýni :)

Kveðja Bjarni Þór.

08 september, 2008 17:27  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hann skrifaði ekki fyrir þá sem eru "fúsir til að hnýsast í líf annarra, en tregir til að umbæta sitt eigið"

AFO

13 september, 2008 15:31  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Ha? Er þetta ekki maðurinn sem gekk hvað harðast fram í því að hnýsast í líf annarra og ekki hvaða annarra sem er heldur helst barna sem hafa ekki rökfræðilegan þroska til að taka sjálfstæðar ákvarðanir vegna þess að heilbrigt fullorðið fólk sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir út frá rökhugsun hlær að svona mönnum :)

Fólk sem er tregt til að umbæta sitt eigið líf er einmitt fólkið sem gerist trúað og lætur örlög sín í hendur yfirnáttúrulegrar veru og talar um hversu gott næsta líf verður þegar sorgir þess í þessu lífi ber á góma.

Það þyrfti enginn að standa í því að gagnrýna menn eins og Sigurbjörn Einarsson ef að hann hefði leyft náttúrlegu eðli mannsins (trúleysi) að blómstra en í stað þess kaus hann einmitt að hnýsast í saklausustu mannverurnar og fylla þær af rugli, fordómum og beinlínis lygi - það var hans ævistarf... að skemma börn fyrir ofurlaun :)

Kveðja Bjarni Þór

16 september, 2008 00:16  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Varðandi fyrstu málsgrein þína langar mig að spyrja þig í fyllstu alvöru: "Hvað er rökhugsun"?

Varðandi aðra málsgrein langar mig að spyrja þig í fyllstu alvöru: "Telur þú þig hafa örlög þín algjörlega í þínum höndum ólíkt trúuðu fólki"

Varðandi þriðju málsgrein þína vil ég svo segja að náttúrulegt eðli hefur ekkert með trú eða trúleysi að gera eða aðrar skoðanir.

Hundurinn geltir ekki af því að hann er trúlaus og blómið opnar sig ekki og teygis sig í átt til sólar af því að það er trúað.

Þetta eru allt bara nöfn og hugtök sem borgar sig ekki að bindast: Guð, trúleysi, æðri vitun, skynsemi, náttúrulegt eðli o.s.frv

Allt er þetta tilbúningur, óraunverulegar hugmyndir sem tengjast ekki á nokkurn hátt raunveruleikanum.

Fólk hræðist helvíti en róast þegar það heyrir predikun frá prestinum um ríki Guðs; fólk hræðist efnahagsástandið en róast við orð Jónasar Haralz.

Svona er lífið Ha ha ha :)

AFO

16 september, 2008 10:57  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Varðandi fyrsta liðinn, já það var óþarfi að bæta rökhugsun við eftir að hafa sagt að fullorðið fólk taki sjálfstæðar ákvarðanir.

Varðandi annan liðinn: Já, út frá útgangspunktinum. Ég ræð mínu lífi sjálfur og sett það ekki á herðar yfirnáttúrulegrar veru. Með því tek ég meiri ábyrgð sjálfur og er líklegri til að lifa betra lífi.

Varðandi þriðja liðinn: Þú vilt sem sagt meina að börn fæðist ekki trúlaus - ég væri til í að sjá þig færa rök fyrir því :)

... aaa ég sé hvað þú átt við. Sleppum hugtökum og kössum og hættum að rökræða hlutina :)
Getur fólk þá ekki allt eins gengið skrefinu lengra og spurt hvað er raunveruleiki og hvað er óraunveruleiki fyrst að menn eiga ekki að binda sig við hugmyndir um trú eða trúleysi?
Þar að auki kostar trúleysið þjóðfélagið ekki neitt en trúin kostar 5000 milljónir - það er raunveruleiki í kreppunni... þá kemur mér ekkert við hvort að einhver róist við að hlusta á prest eða spákonu - Jónas Haralz kostar mig ekki neitt og hans spá gæti þó ræst og er í rauninni líkleg til að rættast ef að menn hefðu þor í Evrópuumræðu, Guð er hins vegar hvergi sjáanlegur :)

Ástarkveðja Bjarni

18 september, 2008 00:16  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Varðandi þessar meintu sjálfstæðu ákvarðanir þá vil ég bara segja að það er ákaflega erfitt umræðuefni. Heimspekingar sem og aðrir hafa brotið í sér heilann í glímu sinni við frelsi og sjálfræði.

Ég trúi á frelsi mannsins, en mig langar að spyrja í fylgstu einlægni: hvað er frelsi og sjálfræði? Ef þú segir ekkert, þá er ekkert að marka þig. Ef þú segir eitthvað, þá ertu um leið fangi eigin skilgreiningar og þar með ekki lengur frjáls og sjáfstæður. Ímyndaðu þér að það sé byssa upp að hausnum á þér: Hvert er svarið!

Hinn upprunalegi hugur, hugur hins nýfædda barns, er handan allra hugtaka. Svo kalla menn þennan hug mismunandi nöfnum: æðri vitund, hið náttúrulegt eðli, skynsemi, Guð, Búdda o.s.frv. Allt eru þetta bara nöfn sem tekur ekki að bindast; ekkert nema skítur á priki.

Við aðhyllumst ákveðin gildi og skoðanir (hvort sem það er trú eða trúleysi) og skilgreinum sjálf okkur út frá þeim, um leið og við í ofanálag teljum okkur einnig trú um að við séum þær hugmyndir sem flögra um í hausnum á okkur eða þær tilfinningar sem berjast um í brjósti okkar. "Sjálf" okkar er því sprottið upp úr ímyndunum, gildum, skoðunum, hugmyndum og tilfinningum. En ekkert af þessu á sér greinanlegan grundvöll! Þetta er því óraunveruleiki.

Sjálfið er ekki til, var aldrei til...ekki upprunalega. Um barnshugann er ekkert hægt að segja. Um leið og þú nefnir trú eða trúleysi þá missir þú marks.

Þetta minnir mig á söguna um geimfarann og heilaskurðlækninn sem rökræddu um tilvist Guðs. Geimfarinn sagði: "Ég hef farið ótal sinnum út í geim en aldrei séð neitt í líkingu við guð, ekki einu sinni skugga af engli." Þá svaraði skurðlæknirinn: "Ég hef gert ótal skurðaðgerðir á heilum fólks en aldrei hef ég séð eina einustu hugsun".

Já ég er sennilega sammála þér með það geisilega fjármagn sem fer í kirjunna og hennar þjóna. En það sama mætti segja um svo margt. Það fór of mikill peningur í hringbraut; það fer of mikill peningur í hin ýmsu ráðuneyti, það fór of mikill peningur í Þorgerði Katrínu og handboltasambandið, það fór of mikill peningur í Hlemmtorg o.s.frv o.s.frv. Það er bara mikil sóun á peningum í gangi. Er ekki þes vegna kreppa? Nei ég veit það ekki.

AFO

19 september, 2008 20:09  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Byrjum á að skipta þessu upp í tvo liði.

,,A)Ég trúi á frelsi mannsins,

b) en mig langar að spyrja í fylgstu einlægni: hvað er frelsi og sjálfræði? Ef þú segir ekkert, þá er ekkert að marka þig. Ef þú segir eitthvað, þá ertu um leið fangi eigin skilgreiningar og þar með ekki lengur frjáls og sjáfstæður. Ímyndaðu þér að það sé byssa upp að hausnum á þér: Hvert er svarið!"

Hvernig getur þú haft trú á frelsi mannsins þegar þú bætir svo b) liðnum við með tilheyrandi afarkostum?
Varla þarf ég að svara því þegar að þú reynir að þyrla upp ryki í umræðu sem er svo augljós - ekki blindast ég af því :)

Ég vil taka aðeins sérstaklega fyrir eina setningu hjá þér: ,,Ef þú segir eitthvað, þá ertu um leið fangi eigin skilgreiningar og þar með ekki lengur frjáls og sjáfstæður"

Það sem þú ert að segja með þessu er í raun að um leið og þú hugsar eitthvað (t.d. um pólitík) að þá ertu ekki lengur frjáls og sjálfstæður - þetta finnst mér rosalega skrýtin og neikvæð nálgun á lífið :)
Ef að þú sérð ekki muninn á sjálfstæði og frelsi þess manns sem hefur trú á sjálfan sig og tekur ábyrgð á eigin ákvörðunum og svo hins vegar manni sem leggur líf sitt í hendur guðs að þá munt þú líka eiga í vandræðum með að greina þær breytur sem hafa skilið á milli þeirra frjálsustu og sjálfstæðustu manna og þjóða og hinna sem ennþá spóla fastir í drullupolli trúarinnar og bíða þar eftir ,,seinni komu" Krists og næsta lífs.

Þú segir: ,,Hinn upprunalegi hugur, hugur hins nýfædda barns, er handan allra hugtaka"

og ,,Um barnshugann er ekkert hægt að segja. Um leið og þú nefnir trú eða trúleysi þá missir þú marks."

Þú mátt hafa það eins og þú vilt, staðreyndin er hins vegar sú að ekkert nýfætt barn er trúað og þá sérstaklega ekki á einhver ákveðin trúarbrögð. Barn er því trúlaust þangað til að einhver eitrar huga þess, alveg eins og barn er ekki pólitískt. Við teljum okkur vera nógu siðmenntuð til að troða ekki stjórnmálaskoðunum og hvað þá flokksskírteinum upp á börnin en sökum fáranlegra hefða höfum við leyft trú að vaða upp um allt, eins og einhverri drepsótt.
Nú ef að þú sættir þig ekki við þetta að þá má allt eins láta byssu að þínu höfði og spyrja hvort að nýfætt barn sé trúað eða trúlaust :)

,,Þetta minnir mig á söguna um geimfarann og heilaskurðlækninn sem rökræddu um tilvist Guðs. Geimfarinn sagði: "Ég hef farið ótal sinnum út í geim en aldrei séð neitt í líkingu við guð, ekki einu sinni skugga af engli." Þá svaraði skurðlæknirinn: "Ég hef gert ótal skurðaðgerðir á heilum fólks en aldrei hef ég séð eina einustu hugsun". "

Munurinn á þessu tvennu er engu að síður sá að skurðlæknirinn hefur aldrei fullyrt neitt um slíkt, þ.e. að ef að þú opnir höfuðið á manni að þá flæði út úr höfðinu sýnilegar hugsanir á meðan að galdramenn og prestar hafa í gegnum aldirnar fullyrt um veru guðs á einhverjum ákveðnum stöðum, í skýjunum á jörðinni o.s.frv. og nú er svo komið að allar þessar guðshugmyndir eru svo rækilega þjappaðar saman að það tekur því ekki að verja þær.
Auk þess má nefna þær ótal rannsóknir sem hafa sýnt fram á hvað er að gerast í höfði manneskjunnar þegar að hún hugsar, ekkert slíkt á við um hugmyndina um guð.
Kristallast þetta best í aukinni vísindaþekkingu sem þenst út með hverjum deginum sem líður á meðan trúarhugmyndir manna sem eru gagnrýndir dragast saman.

Vissulega er peningunum varið í marga vitleysu en þeir einstaklingar eru líka látnir gjalda fyrir það, við getum kosið heimska ráðamenn í burtu en svo framarlega sem prestar verða ekki uppvísir af kynferðislegri misnotkun á börnum að þá eru þeir ósnertanlegir... afsökun um söfnuð á ekki við, allavegana ekki á meðan að þessir menn eru ríkisstarfsmenn og einu ríkisstarfsmennirnir sem komast upp með fordóma gagnvart minnihlutahópum.
Menn munu halda áfram að gera tæknileg mistök í stjórnun og á uppbyggingu landsins, en ekkert eða allavegana mjög fátt af því er vísvitandi - það verður hins vegar ennþá sárara með hverjum deginum sem líður að horfa upp á það að aðskilnaður ríkis og kirkju væri nóg til að hækka örorkubætur um 50.000 kr á mann eins og staðan er í dag.

Að lokum: Það er engin ástæða til að ætla að trúarbrögð séu upphaf alls ills, lífið væri bara miklu fallegra og einfaldara án þeirra og lífið er nú nógu flókið án þess að við reynum að smyrja dellunni ofan á :)
Það má vel vera að fyrrverandi biskupi hafi gengið eitthvað gott til en sagan mun engu að síður dæma hann sem fordómafullan mann sem átti enga samleið með samtíma sínum.

Kveðja Bjarni Þór.

19 september, 2008 23:09  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Það þýðir ekki að snúa útúr með því að skipta í liði. Burt séð frá því hvað mér finnst um frelsi mannsins og sjálfstæði vil ég spyrja þig (þar sem þú nefndir þetta í upphafi):

Hvað er frelsi? Ef þú segir ekki neitt ertu bundin neindinni og bamm! byssukúla í hausinn. Ef þú segir eitthvað ertu bundin skilgreiningunni og bamm byssukúla í hausinn. Hvert er svarið?

Þegar maður er með byssuskaftið upp að hausnum á manni þá segir maður ekki eins og einhver kjáni: "jæja skiptum þessu í liði...ég læt ekki blindast o.s.frv. því BAMM!!! byssukúla í hausinn.

Hvað er frelsi? Svaraðu núna og það heiðarlega eða ég Bamm!:)

"Það sem þú ert að segja með þessu er í raun að um leið og þú hugsar eitthvað (t.d. um pólitík) að þá ertu ekki lengur frjáls og sjálfstæður - þetta finnst mér rosalega skrýtin og neikvæð nálgun á lífið :)"

Nei alls ekki neikvætt heldur hressleiki 100% því að frelsi tengist allra síst pólitík. Það sem er neiðkvæ nálgun og skrýtin er sú sem felst í því að hengja sig á bás einhverrar hugmyndafræði því að þar með neitar maður sjálfum sér um frelsið og ófrjáls maður tekur aldrei raunverulega ábyrgð á eigin lífi. Það liggur í augum uppi.

Sé ég ekki muninn á frelsi hins trúaða sem stólar á Guð og hins trúlausa sem stólar á sjálfan sig? Hey rólegur byrjum á byrjuninni áður en lengra er haldið: Hvaða frelsi ertu að tala um? Hér eru óskýrðar forsendur og hutök og ég veit ekki hvað og hvað! Hvers lags umræðu grundvöllur er það! Komdu með það: Hvað er frelsi? Nei, BAMM! byssukúla í hausinn:)

Um barnshugann er ekkert hægt að segja og ég læt þar við sitja. En að trú sé drepsótt..nei varla. Menn drepa í nafni frelsis (sem þeir vita ekki hvað er vel á misst), menn drepa í nafni lýðræðis, menn drepa í nafni mannréttinda og fyrir hinn æðri málstað og menn drepa vissulega í nafni trúar. En ég efast um að það sé hægt að taka trúna eina út og segja að hún sé rót alls ills. Trúlausir kommúnistar með Lenin í broddi fylkingar létur drepa presta og brenna kirkjur. Drepsóttina er ekki að finna í trú, heldur í sálartetri mannsins.

Varðandi dæmið um skurðlæknin og geimfarann. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við erum þyrst það eru ákveðin svæði heilans virk, en að það sé hægt að kortleggja hugsun okkar með skanna eða þess háttar þá er það af og frá. Menn sjá í skannanum einhver lituð svæði, en geta ekki sagt "já þarna er þessi hugsun og þarna er þessi o.s.frv" Menn kortleggja taugaboð en ekki hugsun. Ef þú ert svo að leggja þetta tvennt að jöfnu, nú þá er tómt mál að tala um að við séum frjáls og sjálfstæð; þá erum við meir eins og vélmenni sem svarar ytri áreitum. Bottomline-ið er það að alheimurinn birtir okkaur engan Guð (sumir vilja að vísu meina það) og heilaskanninn birtir okkur enga hugsun (þó sumir vilji að vísu meina það); þyrstur, reiður, að leysa þraut, dapur Já...en hvað viðkomandi er nákvæmlega að hugsa Nei.

Svo eru það fjármunir ríkisins. Já þeir fara í marga vitleysuna. Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki með næga innsýn í þetta, hef ekki skýrlu yfir útgjöld ríkisins. En eitt er víst að þeir fara í tóma vitleysu að miklu leyti. Kirkjan fær sennilega of mikið (eru prestar ekki með hálfa kúlu á mánuði) en það er bara svo margt annað.

Sumir eru þeirrar skoðunar að lífið verði fyrst fallegt og einfalt þegar þeir taka trú sína. En þín skoðun er sú að það verði ekki fallegt og einfalt fyrri en við losum okkur við trúarbrögð. Skoðun á mót skoðun.

Væri ekki betra ef þú myndir hætta að meta fegurð lífsins út frá þeim hugmyndum og skoðunum sem fólk hefur um það. Hvaða máli skiptir það? Ég meina það sér enginn lífið fyrir þig:) eins og Gummi Torfa myndi segja. Þú sérð það með þínum eigin augum, heyrir það með eigin eyrum, finnur lyktina með eigin nefi, finnur áferðina með eigin snertingu, bragðar á því með eigin bragðlaukum. Hvort er það ljótt eða fallegt? Hafa skoðanir annarra einhver áhrif á mat þitt? Ef svo er þá ertu ekki frjáls og BAMM byssukúla í hausinn. Það má ekki festast í heimi skoðanna, sem eru í órafjarlægð frá raunveruleikanum, og meta fegurð lífsins út frá þeim. Þaðan er dellan sem við smyrjum á lífið sprottin.

AFO

20 september, 2008 23:26  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

,,Hvað er frelsi? Ef þú segir ekki neitt ertu bundin neindinni og bamm! byssukúla í hausinn. Ef þú segir eitthvað ertu bundin skilgreiningunni og bamm byssukúla í hausinn. Hvert er svarið?"

Ef að þetta er þín skilgreining til hvers þá í ósköpunum að velta frelsi fyrir sér?
Það vill svo til að við búum í frjálslyndu þjóðfélagi og ég þarf ekki að svara spurningum eins og að ég búi þar sem ríkir trúarofstæki eða kommúnismi... með byssu við höfuðið. Þar af leiðandi hlæ ég af þessari svart hvítu heimsmynd sem þú setur upp.
Það sem felst hins vegar í frelsinu við trúleysi er einmitt það að vera ekki í hlekkjum ímyndunar, fáfræði og fordóma.

,,Nei alls ekki neikvætt heldur hressleiki 100% því að frelsi tengist allra síst pólitík. Það sem er neiðkvæ nálgun og skrýtin er sú sem felst í því að hengja sig á bás einhverrar hugmyndafræði því að þar með neitar maður sjálfum sér um frelsið og ófrjáls maður tekur aldrei raunverulega ábyrgð á eigin lífi. Það liggur í augum uppi."

En það er stórkostlegur munur á því að aðhyllast hugmyndafræði eða að vera fastur í hugmyndafræði eða trúarheimi. Maður sem hefur enga hugmynd, sem lætur lífið líða hjá umhugsunarlaust er kannski rosalega frjáls en um leið hlýtur hann að vera fangi þar sem hann getur ekki fúnkerað í samfélagi eða tekið ábyrgð á eigin lífi með skipulögðum hætti.
Nú má vel vera að ég beri einhver ör við það að aðhyllast lýðræði, mannréttindi, frjálslynda jafnaðarstefnu o.s.frv. þó að ég geti ekki séð að það hefti mig á einhvern hátt - en ég vil þá fremur draga á eftir mér allar þessar ,,byrðar" en að loka augunum fyrir lífinu ofboðslega ,,frjáls" eins og þú skilgreinir það; og þessi hugtök sem ég aðhyllist í fyrsta lagi kosta ekki nokkurn mann neitt, þau skaða engan annan (eins og trúarhugmyndir) og það er ekkert sjúkt við þær (eins og að trúa á ósýnilegan vin).

,,Sé ég ekki muninn á frelsi hins trúaða sem stólar á Guð og hins trúlausa sem stólar á sjálfan sig? Hey rólegur byrjum á byrjuninni áður en lengra er haldið: Hvaða frelsi ertu að tala um? Hér eru óskýrðar forsendur og hutök og ég veit ekki hvað og hvað! Hvers lags umræðu grundvöllur er það! Komdu með það: Hvað er frelsi? Nei, BAMM! byssukúla í hausinn:)"

Þetta er ég búinn að margútskýra, það er muninum á manni sem lætur líf sitt í hendur guðs, vonar að það bjargist og að hann fái hvort eð er himnavist að þessu loknu eða manni sem tekur ábyrgð á eigin lífi og er frjáls undan fjötrum trúarinnar. Hvað segja rannsóknir okkur? Ævilengd, lífsgæði, frelsi, mannréttindi... það sem við sækjumst eftir (flest) hvort skyldi það vera betra hjá trúuðum eða trúlausum í heiminum?
Þú ættir að standa í persónulegri ævilangri þökk til þeirra í síðarnefnda hópnum því án þeirra værum við ennþá stödd á ógeðis miðöldum kirkjunnar án nokkurra framfara.

,,Um barnshugann er ekkert hægt að segja og ég læt þar við sitja. En að trú sé drepsótt..nei varla. Menn drepa í nafni frelsis (sem þeir vita ekki hvað er vel á misst), menn drepa í nafni lýðræðis, menn drepa í nafni mannréttinda og fyrir hinn æðri málstað og menn drepa vissulega í nafni trúar.Trúlausir kommúnistar með Lenin í broddi fylkingar létur drepa presta og brenna kirkjur. Drepsóttina er ekki að finna í trú, heldur í sálartetri mannsins."

Það er auðvitað ekki samanburðarhæft annars vegar það að bjarga fólki undan harðstjórum í nafni lýðræðis og mannréttinda eða að drepa í nafni trúar vegna þess að hinn aðilinn trúir ekki því sem þú trúir. Ef þú ætlar út í stríð eins og Íraksstríðið að þá er lýðræðið auðvitað yfirvarp fyrir allt annað (olíu, völd og hagsmuni).
Trúleysi kom því ekkert við að kommúnistar myrtu presta í Rússlandi, það sem kom því við var að þetta voru byltingarsinnaðir kommúnistar. Kannski að Hitler og Stalín hafi myrt fólk vegna þess að þeir voru báðir með skegg :)

,,Varðandi dæmið um skurðlæknin og geimfarann. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við erum þyrst það eru ákveðin svæði heilans virk, en að það sé hægt að kortleggja hugsun okkar með skanna eða þess háttar þá er það af og frá. Menn sjá í skannanum einhver lituð svæði, en geta ekki sagt "já þarna er þessi hugsun og þarna er þessi o.s.frv" Menn kortleggja taugaboð en ekki hugsun. Ef þú ert svo að leggja þetta tvennt að jöfnu, nú þá er tómt mál að tala um að við séum frjáls og sjálfstæð; þá erum við meir eins og vélmenni sem svarar ytri áreitum. Bottomline-ið er það að alheimurinn birtir okkaur engan Guð (sumir vilja að vísu meina það) og heilaskanninn birtir okkur enga hugsun (þó sumir vilji að vísu meina það); þyrstur, reiður, að leysa þraut, dapur Já...en hvað viðkomandi er nákvæmlega að hugsa Nei."

Hvar sagði ég að það væri svo? Það eru einfaldlega vísbendingar um hugsun manna eins og þú segir, við höfum hins vegar engar álíka vísindalegar vísbendingar um Guð, í rauninni höfum við einungis fleiri vísindalegar vísbendingar um að hann sé ekki til með hverjum deginum sem líður :)

,,Kirkjan fær sennilega of mikið (eru prestar ekki með hálfa kúlu á mánuði) en það er bara svo margt annað."

Jú, mig minnir að ég hafi séð tölur upp á 600.000 en það er ekki málið. Kirkjan á ekki að fá neitt út úr ríkissjóði og meðlimir trúarhreyfinga eiga að standa sjálfir undir kostnaðinum.

,,Sumir eru þeirrar skoðunar að lífið verði fyrst fallegt og einfalt þegar þeir taka trú sína. En þín skoðun er sú að það verði ekki fallegt og einfalt fyrri en við losum okkur við trúarbrögð. Skoðun á mót skoðun."

Hið rétta er að ég sagði að það yrði fallegra og einfaldara án trúarbragða og ekki einungis það heldur eru yfirgnæfandi líkur á að verst settu svæði heims yrðu betur stödd án þeirra þegar hugtök á borð við mannréttindi, lýðræði, lífsgæði o.s.fvr. eru skoðuð - það er að minnsta kosti reynsla þeirra landa sem eru í fararbroddi heimsins.
Með öðrum orðum mitt trúleysi, það að ég aðhyllist mannréttindi, lýðræði og lífsgæði skaðar engan(þverrt á móti hafa slíkar hugmyndir bætt samfélög) og hefur engin áhrif á það hverju aðrir trúa en Þjóðkirkjutrú annarra hefur hins vegar slæm áhrif á minn fjárhag og því miður á börn landsins þegar að prestar og foreldrar vilja troða trú upp á þau - hvar hef ég heyrt þennan samanburð áður?
Hver sem er má hins vegar vera trúaður mín vegna svo framarlega sem hann heldur því fyrir sig og skaði ekki börn sín og annarra og neyði ekki skatt upp á mig - þetta hefði maður haldið að væri einfalt að virða. Ég myndi engu að síður nýta rétt minn til að gera grín að viðkomandi alveg eins og við gerum grín að þeim sem trúa á álfa og tröll eða fara lengri ferðalög til að sjá geimverur :)

,,Væri ekki betra ef þú myndir hætta að meta fegurð lífsins út frá þeim hugmyndum og skoðunum sem fólk hefur um það. Hvaða máli skiptir það? Ég meina það sér enginn lífið fyrir þig:) eins og Gummi Torfa myndi segja."

Nákvæmlega upphafið af pistlinum.
Hvers vegna í andskotanum höfum við Þjóðkirkju og hvers vegna í andskotanum er fólk að troða sinni trú upp á aðra og þá sérstaklega börn sem hafa enga þroska til að greina rétt frá röngu þegar kemur að trú?
Mér finnst eingöngu rétt að gagnrýna þá sem geta ekki haldið trú sinni fyrir sjálfan sig.

,,Þú sérð það með þínum eigin augum, heyrir það með eigin eyrum, finnur lyktina með eigin nefi, finnur áferðina með eigin snertingu, bragðar á því með eigin bragðlaukum. Hvort er það ljótt eða fallegt? Hafa skoðanir annarra einhver áhrif á mat þitt? Ef svo er þá ertu ekki frjáls og BAMM byssukúla í hausinn. Það má ekki festast í heimi skoðanna, sem eru í órafjarlægð frá raunveruleikanum, og meta fegurð lífsins út frá þeim. Þaðan er dellan sem við smyrjum á lífið sprottin."

Ég myndi nú segja að ef að skoðanir annarra hefðu engin áhrif á mat manns að þá væri maður fyrst virkilega ófrjáls og rammhlekkjaður í fúlan pytt fordóma og fáfræði, þaðan er einmitt dellan sprottin (fordómar og fáfræði) sem leiða af sér sjúkar hugmyndir um guð/guði sem því miður hefur ennþá alltof mikil áhrif meðal mannkynsins og gerir flókna hluti og deilur mun flóknari - hvers vegna ætti fólk annars að rökræða hlutina ef að hver og einn hefur alltaf 100% rétt fyrir sér, af hverju þá ekki að loka bara augunum og lifa fáfróðu lífi?

,,Það má ekki festast í heimi skoðanna, sem eru í órafjarlægð frá raunveruleikanum, og meta fegurð lífsins út frá þeim. Þaðan er dellan sem við smyrjum á lífið sprottin."

Ég er ekki að festast í heimi skoðanna þó ég aðhyllist lýðræði, mannréttindi og frjálslyndi almennt - eina sem ég bið um er að einhver bendi mér á eitthvað annað skárra og það hefur ekki gerst hingað til. Þarna skilur einmitt á milli mín og þess sem trúir ég er tilbúinn til að gefa einhverju sem er betra en það sem ég aðhyllist séns og taka gagnrýni og viðurkenna vankanta á ýmsu t.d. lýðræði en sá sem er trúaður er fjötraður í sinni trú (og þykist hafa einkarétt á því að móðgast ef að ég segi hvað trúin hans er bjánaleg með rökum) og það er alveg sama hvað býðst... alltaf skal viðkomandi loka augum og eyrum, leggjast á hnéin og eiga fund við ósýnilega vininn sinn... og það á minn kostnað :)

Annars veit ég varla hvernig þessar umræður gátu þróast í þessa átt þegar að niðurstaða pistilsins er eingöngu sá að fyrrverandi biskup var afturhaldssamur, fordómafullur og þröngsýnn maður sem átti enga samleið með nútíma þjóðfélagi.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

21 september, 2008 01:17  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim