föstudagur, nóvember 21, 2008

Hugleiðing um framtíðina

(Ég hef ekki tjáð mig almennilega um pólitíkina á Íslandi í smá tíma, svo að hér kemur langloka - algjört óverdós.)

Jæja, þá eru það væntanlega upphafið að endalokum þessarar ríkisstjórnar sem átti eftir 12 ára hörmungar að koma okkur á viturleg mið, því miður varð rænuleysi hennar á fyrsta árinu til þess að svo varð ekki.
Ég endurtek að ég get tekið undir það að Samfylkingin beri ábyrgð en það er aðeins á rænuleysinu síðasta árið og þar ber þó Sjálfstæðisflokkurinn mun meiri ábyrgð og annað verður að skrifast á fyrrum ríkisstjórnir og manninn sem enginn má tala um, plús FME.

En hvað með framtíðina? Hver á að reisa þessa vitleysu við og búa til samfélag sem ekki er byggt á ímynduðum auð? Hvaða flokki er best treystandi fyrir því að koma manninum sem ekki má tala um út úr Seðlabankanum og endurvekja þar með traust og trúverðugleika og hver ætlar að leiða þá 70% þjóðarinnar sem vill kanna aðild inn í ESB?

Skyldi það vera flokkur sem ekki er búið að stofna? Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem þorir ekki að takast á við ,,jú nóv hú" og hefur lokað á alla Evrópuumræðu? Er það 5% Framsókn, forystulaus og allslaus sem ætlar að taka Evrópuumræðuna í gegn í janúar? Eru það VG með Steingrím sem hefur verið einn helsti stuðningmaður ,,jú nóv hú" frá því kreppan skall á og vill hvorki ESB aðild né evruna? Er það Frjálslyndi flokkurinn sem varla mælist þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu í kreppu, sem hefur staðið gegn Evrópusambandinu?

Er ekki tími til kominn að horfast í augu við staðreyndir?

Ég myndi fagna nýjum flokki manna og kvenna sem vilja koma okkur inn í ESB og gæti alveg hugsað mér að kjósa hann - en þangað til er jafn ábyrgt að tala um hann og eins og mögulega olíu sem muni bjarga okkur kannski, einhverntímann.
Samfylkingin þarf að rífa sig upp á rassgatinu og auðvitað verða menn þar innan borðs að bera ábyrgð og hverfa frá, hversu vel eða illa sem þeir hafa staðið sig - hæst heyrist hrópað nafn Björgvins G. en spurningin er hvort að Össur og fleiri eigi ekki að stíga frá og gefa yngri kynslóðinni (sem þarf að borga brúsann) tækifæri á því að takast á við verkefnið eins og skuldirnar. Í stöðunni hvort sem okkur líkar það betur eða verr að þá vill um 70% þjóðarinnar hefja aðildarviðræður við ESB og taka upp evru, það hlýtur að vera krafa um aukið lýðræðið að þjóðin fái loksins að kjósa um aðildarsamning og þá er eins og stendur einungis einn flokkur sem hefur jafnt innan flokksins og ungliðahreyfingarinnar barist fyrir inngöngu í ESB og aftur hvort sem okkur líkar það betur eða verr að þá er sá flokkur Samfylkingin - NB! ég er ekki í Samfylkingunni og flokkurinn er ekki gallalaus frelsari.

En hvernig getur þetta gerst?

Menn hafa bölvað Samfylkingunni og réttilega kallað eftir ábyrgð og að stokkað sé upp eins og útrásarskáldið svokallaða krafðist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn (það er í rauninni óhjákvæmilegt, annað væri að skjóta sig í fótinn) en hvað með framtíðina?
Menn vilja kjósa strax og ég sveiflast til og frá í þeirri skoðun. Auðvitað er rétt að borgarar landsins fái að kjósa aftur en hverju breytir það í lífi okkar? Segjum rökræðunnar vegna að kosið yrði á morgun og útkoman yrði að Samfylkingin yrði stærsti flokkur landsins (sem væri rökrétt miðað við það að 70% landsmanna vilja aðildarviðræður) hvar stöndum við þá? Samfylkingin fengi umboð til að mynda ríkisstjórn, því hún myndi aldrei fá hreinan meirihluta og hverjir eru valmöguleikarnir? Framsókn og Frjálslyndir eru útilokaðir strax vegna smæðar og stefnuleysis og þá stendur Samfylkingin uppi með tvo valmöguleika. Þann óstjórnhæfa Sjálfstæðisflokk sem hún klauf ríkisstjórnina með og fólkið vildi ekki og svo VG sem er eini flokkurinn sem ekki hefur sagst ætla að endurmeta afstöðu sína til ESB. Mörður Árnason skrifar á hina vinstri sinnuðu síðu ,,Smugan" grein sem ber heitið ,,Hvað er VG eiginlega að hugsa?" og innihald greinarinnar er í rauninni það að síðan þessi kreppa hófst að þá hefur VG reynt að vera eins ósammála Samfylkingunni og hægt er, með stuðningi Steingríms við ,,jú nóv hú" og andstöðunni gegn ESB sem er í hrópandi mótsögn við vilja kjósenda flokksins og þá komum við enn og aftur að framtíðinni.

Hvaða fólk er það sem á að leiða okkur áfram?

Fólk af 68 kynslóðinni hefur hafið sjálft sig upp til skýjanna en hver er niðurstaðan? Kynslóðin sem átti að standa fyrir vinstri sinnaðri byltingu fyrir réttlátu samfélagi og kom sem stromsveipur inn í íslenska pólitík en endaði svo í frjálshyggjubyltingu, hugmyndafræði sem nú er steindauð - þessi kynslóð verður að stíga upp úr stólunum og kveðja meira eða minna. Eins og með svo margar byltingar að þá virðist hún fyrst ætla að eiga sér stað þar sem hún var talin ólíklegust en vonandi fylgja hinir flokkarnir í fótspor ógeðis Framsóknar - ég henti upp þessum byrjunarlista í þessari bloggfærslu:

,,Geir H. Haarde, Davíð Oddsson og Seðlabankastjórnin, Björn Bjarnason, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Valgerður Sverrisdóttir, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J., ÖgmundurJónasson, Ellert B Schram, Jón Bjarnason og aðrir þeir sem hafa enga samleið með samtímanum né framtíðinni."

En hverjir eiga að taka við?

Það er eiginlega það sem er verra. Því þó það felist ömurleiki í því að 68´kynslóðin hafi farið frá vinstri yfir í öfga hægri að þá er okkar kynslóð sem á að taka við í verri málum. Ætli það sé orðum aukið að segja að frjálshyggja hafi verið einhvers konar rót hjá a.m.k. 75% þeirra sem eru á aldrinum 24-36 ára? Þetta er mun þyngri hugmyndafræðilegur dauði fyrir hana en þá kynslóð sem þó man eftir einhverju öðru, þó ekki væri nema fyrir jafnaðarmenn. Ekki bætir það ástandið að þessi kynslóð hefur haft lítinn áhuga á stjórnmálum og mikið af svokölluðu ,,hæfasta fólkinu" virðist hafa lamast í heilanum innan bankakerfisins og stendur núna hugmyndafræðilega dautt, án atvinnu og orðið gjaldþrota eða við það að verða efnahagslega gjaldþrota. Sá hluti sem þó ákvað að fara út í pólitík er lítt skárri, þar hefur ekki komið neinn vilji frá ungliðahreyfingunum til að bylta flokknum - stíga fram og heimta það að taka við af þeim sem komið hafa okkur í þessa stöðu, enda hefur leiðin uppá við innan flokkanna leigið í því að þeir sem eru þægir og góðir, forystunni hliðhollir að þeir fá pólitískt líf, aðrir ekki... og þetta er ekki bara bundið við Sjálfstæðisflokkinn. Ég skoðaði aðeins hverjir eru talsmenn þessarar kynslóðar (18/24-36 ára sem mun þurfa að takast á við afleiðingar þessarar ömurlegu einkavæðingar) á Alþingi og þetta er niðurstaðan: Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar sem var frystur út úr ríkisstjórn, Birkir J. Jónsson úr Framsókn sem þarf að sína fram á skilríki til að sanna að hann sé undir 50 ára aldri, Höskuldur Þórhallsson annar Framsóknarmaður með vondar skoðanir rétt sleppur aldurslega, Katrín Jakobs OK gefum henni séns, Katrín Júlíusdóttir Samfylkingunni alls ekki áberandi, Sigurður Kári hugmyndafræðilega gjaldþrota og niðurbarinn Sjálfstæðismaður.

Af þessum má segja að Ágúst Ólafur og Katrín Jakobs eigi séns - fleiri eru það ekki! Hvað með ungliðahreyfingarnar? Man einhver eftir að hafa séð einhvern þar sem hefur komið fram með einhvern þunga og krafist raunverulegra breytinga? Hafa þessar ungliðahreyfingar ekkert til málanna að leggja annað en mjálm undir rós á sínum heimasíðum, ennþá með þá von í hjarta að ef að þau verði góð að þá muni 68´kynslóðin leyfa þeim að spila með fullorðna fólkinu?

Er ekki tími til kominn að einhver rísi upp, steyti hnefa og segi: 68 kynslóð fuck off!!! Við ætlum í ESB eða við skiljum ykkur eftir í skítnum ykkar!!!

Ef það er ekki tími til að taka við núna - hvenær þá?

Er lífið ekki dásamlegt?

13 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Jú hárrétt hjá þér. Reyndar finnst mér Katrín Jakobs bara bergmálið af Ögmundi og hinum risaeðlunum. Katrín Júlíusd. er kannski með eitthvað uppí erminni en hún verður að gera sig meira áberandi.

Það er rétt það er gríðarlegur stuðningur fyrir ESB innan þjóðarinnar (sem verður að teljast einkennilegt þegar helstu öfl landsins hafa demonize-að ESB síðustu 17ár+). Einnig er nánast 100% stuningur meðal helstu hagsmuna-samtaka landsis fyrir ESB (jafnvel LÍU er byrjað að birta jákv. fréttir um ESB á sinni síðu).

Það verður að byggja á þessum breiða grunni. Það mun seint nást eins breið samstaða meðal þjóðarinnar um jafn veigarmikið mál og ESB.

Núna á þessum skelfilegu tímum sem við erum að uppliða á ESB (og upptöku Evru þá sérstakl.) að virka sem gullrót fyrir þjóðina. Við þurfum að taka til hjá okkur, stefna að því að uppfylla stranga skilmála Maastrict og svo taka upp evru.

Þetta verður ljósár frá 'easy'. Þetta mun krefjast gríðalegs aga (Davíð getur auðvitað ekki verið hluti af þessu... that goes with out saying). En ef þjóðin leggst á eitt að uppfylla maastrict munum uppskera eftir 5-6ár(það eru engar skyndilausnir til, fólk verður að átta sig á alvarleika málsins). Ef koma á í veg fyrir algjöran gludroða (fólkflótta og almenna eymd) veður þessi þjóð að vera með skýr markmið um hvert við stefnum í framtíðnni.

Ég hvet þá sem eru á móti(sumir af þeim kalla sig hlutlausa) að lesa um ESB og bíða með upphrópanir. Það er bara þannig að þeir sem virkilega kynna sér þessi mál verða nánast undantekningarlaust jákvæðari í garð ESB en áður (þó svo það skipti kannski ekki um skoðun). Það eru margir sem setja sig á móti aðildarviðræðum og á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um málið (þegar væntanl. kemur til þeirra á endanum). Þessi afstaða hlýtur að veikja þeirra málstað. Líkt og að segja við getum ekki unnið með okkar veika-málstað og viljum því koma í veg fyrir að málið fari eðlilegan farveg með öllu.

Núna þurfum við markmið.. tímabundin markmið á hverjum tímapunkti fyrir sig. Uppfyllum þau og þá munum við á endanum uppfylla loka-markmiðið. ESB er það aðhald sem heldur okkur on-track þegar kemur að því að uppfylla markmiðin og lokamarkmið á endanum.

kv,
Ívar

21 nóvember, 2008 10:43  
Anonymous Nafnlaus sagði...

http://www.solskinsfiflid.blogpsot.com/

21 nóvember, 2008 17:26  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Bjarni Þór ég trúi ekki því sem augun mín lesa. Samfylkingin stendur fyrir öllu sem við þörfnumst ekki fyrir utan kannski að vilja fara inn í esb og taka upp evruna. En fyrir næstu kosningar verða nánast allir flokkar með það þannig að það skiptir engu máli. Þessi flokkur kom með endalaus loforð fyrir kosningar sem hann stóð ekki við svo hefur hann ekki gert neitt nema skitið upp á bak í þessari ríkisstjórn. Þora ekki að taka ákvarðanir þora ekki að taka ábyrgð benda á aðra og fela sig bakvið sjálfstæðisflokkinn. Fyrir utan jóhönnu þá hafa allir ráðherrarnir skitið upp á bak, björgvinn fjárhagurinn góður á íslandi, þórunn og össur og fagra íslandið þeirra ingibjörg já henni tókst næstum að stoppa stríðið milli palestínumanna og ísrael hehe en gleymdi að huga að samskiptum við önnur lönd sem eru ekki beint góð eins og staðan er núna. Einnig datt henni ekki í hug að taka aðvörun davíðs alvarlega. Og já fjármálaeftirlitið það stendur sig alltaf jafn vel.
Er þetta fólkið sem þú vilt taka við í alvöru veit að það hefur esb á stefnu skránni en er það nóg. Þetta eru ekkert annað en valdasjúkir hentugleika pólitíkusar. Okkur vantar nýtt fólk ný öfl fólk sem vinnur fyrir landið fólkið fólk eins og mig og þig og aðra sem eru snjallir duglegir vel menntaðir og ekki hræddir að taka ábyrgð. Eins og staðan er í dag þá eru allir flokkarnir ónotfærir. Samfylkingin er þar ekki undanskilin.
Verðum að losa okkur við pólitíkusar og fá hugsjónarfólk.
kv bf

21 nóvember, 2008 20:26  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Ívar: Hárrétt!

Ævar: Skemmtilegt!

BF: Í fyrsta lagi ég trúi ekki að ég þurfi ennþá að rökræða um Davíð, það kannast enginn nema Davíð sjálfur við aðvaranir hans, það eru ekki eingöngu ríkisstjórn Íslands, fjármálaeftirlitið og innlendir fjölmiðlar sem kannast ekki við þessi varnarorð heldur sagði Davíð sjálfur í vor við erlenda fjölmiðla að bankarnir stæðu vel og allt væri gott - sem sagt löngu eftir að hann hafði átt að segja það á fundum í byrjun árs. Hverjum er Davíð að ljúga að? Okkur öllum!
Þá eru óupptalin öll 13 atriðin frá síðustu færslu.

Það er þannig að í samsteypustjórnum þurfa báðir aðilar að gefa eftir, en því miður fyrir þjóðina að þá virðist Samfylkingin hafa gert meira af því en Sjálfstæðisflokkurinn sem verður að taka ábyrgð á stefnunni enda í forystu með Forsætisráðherra, Seðlabankastjóra og fjármaálaráðherra sem skrifað hafa undir stefnu síðustu ára og einkavæðinguna sem klikkaði.
En það er hárrétt að það þarf að verða kynslóðabreyting hjá Samfylkingunni og að Björgvin G. mun fara frá - enda stóð nákvæmlega það í pistlinum.
Eftir stendur hvert þjóðin vill stefna og hverjum sé best treystandi fyrir því?
Ef það er ESB og evran þá er Samfylkingin svarið, ef það er áframhaldandi þjóðrembingur, handónýt króna og sami aumingjaskapurinn með verðbólgu og ólifandi ástandi að þá er það Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og VG eins og staðan er í dag algjörlega málið - það er augljóst.... allir aðrir kostir um mögulega eitthvað annað, eru uppblásnir innistæðulausir draumórar sem ekki eru til staðar og enginn nýr flokkur hefur nokkurn tímann leitt ríkisstjórn, enda Íslendingar alltof íhaldssamir til þess.
Samfylkingin er enginn frelsari og alls ekki gallalaus, en ef ekki Samfylkingin hver þá?

Ástarkveðja Bjarni Þór.

21 nóvember, 2008 22:08  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Lofa öðrum pistli á næstu dögum um framtíðina, til að eyða öllu því sem einhverjum kann að þykja óljóst.

22 nóvember, 2008 01:49  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég skrifaði eina setningu um davíð og það var það eina sem pistillinn þinn snerist um, ég er enginn stuðningsmaður hans og ég vill hann í burtu bara til að fá það á hreint.
Ég bara þoli ekki og skil ekki þessa ást/trú eða hvað sem það er á samfylkingunni. Eins og ég sagði að ofan þá kom þessi flokkur með endalaus loforð fyrir kosningar sem hann stóð ekki við svo hefur hann ekki gert neitt nema skitið upp á bak í þessari ríkisstjórn. Þora ekki að taka ákvarðanir þora ekki að taka ábyrgð benda á aðra og fela sig bakvið sjálfstæðisflokkinn. Enginn af þeirra mönnu fyrir utan jóhönnu stóð sig. Þetta eru ekkert annað en valdasjúkir hentugleika pólitíkusar. Á bara að kjósa þau því að þau eru með esb á stefnuskránni.
Þú virðist ekki hafa lesið vel það sem ég skrifaði kannski að eftir að lesið setninguna um davíð þá hafi þú blindast af reiði.
Okkur vantar nýtt fólk ný öfl, fólk sem vinnur fyrir landið fólkið fólk eins og mig og þig og aðra sem eru snjallir duglegir vel menntaðir og ekki hræddir að taka ábyrgð. Eins og einhver erlendi fræðimaður sagði það hefði verið hægt að velja stjórnendur landsins upp úr símaskránni og þau hefði ekki getað staðið sig verr en þessi stjórn.

Þú skrifaðir
aðrir kostir um mögulega eitthvað annað, eru uppblásnir innistæðulausir draumórar sem ekki eru til staðar og enginn nýr flokkur hefur nokkurn tímann leitt ríkisstjórn, enda Íslendingar alltof íhaldssamir til þess
Bjarni þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við erum í svona djúpum skít sættum okkur við slaka stjórnendur landsins bara af því að það eru ekki til aðrir. Íslendingar eru ekki vanir að mótmæla heldur kannski eru að koma breytingar kannski er fólk þreytt á því að vera tekið í rass þó að þú sért það ekki
Því eins og staðan er í dag þá eru allir flokkarnir ónotfærir. Samfylkingin er þar ekki undanskilin.
Verðum að losa okkur við pólitíkusar og fá hugsjónarfólk.
Já svo sagði ég líka og endurtek núna að sjálfstæðisflokkur og framsókn munu vera með esb það er alveg á hreinu. VG verður áfram í sínu enda ekki að því þau eru bara með sína stefnu eru allaveganna trú sinni sannfæringu og sveiflast ekki fram og til hliðar eins og hentugleikapólitíkusarnir. Persónulega þá myndi ég kjósa íslandshreyfinguna í dag því allir aðrir eru óhæfir.
kv bf

22 nóvember, 2008 08:57  
Anonymous Nafnlaus sagði...

BF ég held að Íslandshreyfingin er hluti af þessu sama gamla flokka-batterýi. Nema hún er bara einna-málefna flokkur (umhverfisvernd).

Ég skil hvað þú ert að segja um þessa seinvirku flokka og ég er sammála að vissu leiti. En ég myndi vilja ganga enþá lengra en þú og bara hreinlega afmá 4flokka kerfið eins og það leggur sig.

Ég veit ekki hvað gæti komið í staðinn en ég tilbúinn í nánast allt. Fólk yrði kosið í beinni kosningu!!! eða frekari þrískipting valds (lög-, framkv- og dómsvald)!!! Hugsanlega tvíflokka kerfi þar sem annan flokkurinn væri með hreinan meirihluta og forsætisráðherran kosin sér.

Ég veit það ekki... maður þarf að fara rifja upp samanburðar stjórnmálafræðina...

Mín trú á kerfinu eins og það lítur út í dag er enginn.

kv,
Ívar

22 nóvember, 2008 13:25  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ingibjörg byrjuð í kosningabaráttu http://visir.is/article/20081122/FRETTIR01/205171853
ótrúlegt
kv bf

22 nóvember, 2008 15:56  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

BF: Þú hefur greinilega heldur ekki lesið neitt af því sem ég sagði eftir að ég talaði um Davíð :)

Þá sagði ég nákvæmlega það sama og þú nema að ég sé fyrir mér að stefna Samfylkingarinnar geti gengið upp en að það þurfi að eiga sér stað kynslóðaskipti - eins og reyndar í öllum öðrum flokkum.
Það er sem sagt ekkert að því að halda í flokksuppbygginguna og stefnu flokksins á blaði, það sem þarf er nýtt fólk sem þorir að framfylgja þeirri stefnu... og ég endurtek ég lofa pistli um það mál.
Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn þar sem Evrópumál hafa verið rædd á jákvæðan hátt og jafnt í flokknum og ungliðahreyfingunni, að Sjálfstæðisflokkurinn sem rétt hangir saman eða handónýtur 5% Framsóknarflokkur ætli að leiða umræðuna eftir landsfundi í janúar er afar hæpið - það hljóta flestir að samþykkja.

Ég get hins vegar ekki séð fyrir mér að Íslandshreyfingin geri nokkurn skapaðan hlut, því miður - þar er ekki vandaðra fólk en í öðrum flokkum og í rauninni virðist það vera hálfgerð ruslakista frá öðrum flokkum plús Ómar Ragnarsson.

Nýr flokkur, með nýja hugmyndafræði og nýtt fólk tekur tíma að búa til - þegar að Samfylkingin var sett saman fyrst og það af nokkrum gömlum flokkum, gömlum stjórnmálamönnum og að stórum hluta stefnu Alþýðuflokksins að þá gerðu menn sér grein fyrir því að það myndi taka 10 ár að ná sínu markmiði, að verða alvöru afl í íslenskum stjórnmálum og það tók ca. þann tíma.
Ef við viljum kjósa fyrir jól jafnvel í febrúar, hverjar eru þá líkurnar á því að nýr flokkur, með nýju fólki og nýrri hugmyndafræði nái saman á þeim tíma og hvert ætli fylgið yrði?

Ég er tilbúinn að kjósa nýjan flokk, en líkurnar á því að sá flokkur verði trúverðugri en aðrir flokkar og með heilsteyptari hugmyndafræði eftir um 3 mánuði eru ekki miklar - en við skulum ekki útiloka nokkuð.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

22 nóvember, 2008 21:43  
Anonymous Nafnlaus sagði...

ég verð að taka undir með bjarna þór það er enginn annar en samfylkingin sem er líkleg til að leiða þessa ESB umræðu.

finnst ykkur annars þessi maður vera líklegur til þess?
http://www.youtube.com/watch?v=E3zqtGWEc8U

kv,
ivar

23 nóvember, 2008 02:59  
Anonymous Nafnlaus sagði...

það er nátturulega ekki hægt að kjósa fyrr en í vor. Ég held í vonina um að nýtt fólk komi inn í þetta og fyrst að samfylkingin er með svona góða stefnu á pappírunum þá hlýtur nýr flokkur að geta stuðst við hana í gerð sinnar og grætt þar af leiðandi mikinn tíma
kv bf

23 nóvember, 2008 09:33  
Blogger Biggie sagði...

Vil minna á að það er ennþá sólarglæta í knattspyrnuheiminum: Brasilía slátraði Portúgal í vikunni (kærastinn þinn sást ekki í leiknum).

Það stefnir því allt í endurtekningu á úrslitaleiknum 2002, Þýskaland-Brasilía.

23 nóvember, 2008 10:30  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

BF: Það er alveg hárrétt, vonandi að sem flestir geri það :)

Biggi: Þýskaland tapaði fyrir Englandi í vikunni. Það gerðu líka Arsenal í gær og eru þá búnir að tapa tveimur leikjum meira en í fyrra og þó eiga þeir eftir að spila við Chelsea og Liverpool í fyrri umferð.
Þannig að þó ég þakki umhyggjuna að þá ættir þú að hafa áhyggjur af öðru en besta knattspyrnumanni í heiminum :)

Ástarkveðja Bjarni Þór.

23 nóvember, 2008 15:34  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim