þriðjudagur, maí 19, 2009

Hið hálf tóma glas...

Þessi pistill birtist hvergi annars staðar en er til heiðurs þeim Liverpool aðdáendum sem standa með hálf fullt glas og eru þegar orðnir Englandsmeistarar næsta vor... enda langbestir nú þegar og að spila skemmtilegustu knattspyrnuna.

Þessi árstími er yfirleitt skemmtilegur, það fer að hlýna, gróðurinn tekur við sér, ákveðið uppgjör gagnvart skóla og vinnu á sér stað, United tekur titil/titla og Liverpool menn fullyrða að næsta ár verði þeirra ár. Ef ég væri Liverpool maður þá væri ég brjálaður yfir að vera án titils þriðja árið í röð. Hvers vegna?

1. Öll hin toppliðin, líka United hafa spilað undir getu og hafa lent í mun meiri meiðslavandræðum en Liverpool, sérstaklega Arsenal og Chelsea sem hafa hreinlega lent í slátrun.

2. Að undanskyldum meiðslum hjá Torres sem spilar 24 deildarleiki ef hann spilar þann síðasta (Rio Ferdinand spilar 25 ef hann spilar þann síðasta) þá hefur næstum enginn Liverpool maður átt off season, Alonso og Gerrard búnir að vera frábærir (báðir sennilega að spila sitt besta tímabil fyrir Liverpool) og Kuyt og Benayoun búnir að spila langt yfir getu. Einhverjir hafa talað um að Gerrard hafi líka verið meiddur, staðreyndin er hins vegar sú að ef hann spilar síðasta leikinn þá hefur hann spilað 31 deildarleik á þessu ári (einum fleiri en Rooney og tveimur færri en Ronaldo) en meðaltalið síðustu 10 árin hjá honum eru 31,9 leikir á tímabili.

3. Þegar dómarar koma saman og fara yfir tölfræði tímabilsins eins og þeir gera fyrir komandi tímabil kemur í ljós að á þessu tímabili hafa hlutirnir fallið virkilega með Liverpool. Vafasamar vítaspyrnur og sú staðreynd að Liverpool hefur verið manni fleiri í yfir 25% leikja sinna, andstæðingarnir hafa fengið 10 rauð spjöld en Liverpool ekkert. Til samanburðar þá fengu andstæðingar United tvisvar rauð spjöld en United menn sjálfir fengu fimm rauð spjöld. Þegar kemur að vítaspyrnum (sem mýtan segir að United fái fullt af og sérstaklega á Old Trafford) þá fengu Liverpool fimm vítaspyrnur og tvær á sig en United fékk fjórar og þrjár á sig. Þá var ein helsta röksemdarfærslan fyrir sigri United í deildinni sú að þeir hefðu svo oft stolið sigri á síðustu mínútunum á þessu tímabili. Staðreyndin er sú að á síðustu 10 mín leikja skoraði Liverpool sjö sinnum sigurmark (fimm sinnum í uppbótartíma) en United skoraði fimm mörk (þar af þrjú í uppbótartíma).

4. Liverpool tekur 14 af 18 stigum gegn hinum stóru liðunum en tapar deildinni samt að öllu óbreyttu með fjórum stigum. United tekur 5 stig af 18 mögulegum. Í þessum leikjum hafa fjögur rauð spjöld litið dagsins ljós, tvö sem voru aldrei rauð (Adebayor og Lampard) og svo tvö á Vidic. Halda Liverpool menn að þeir vinni báða leikina gegn Chelsea og United á næsta ári?
Ef við drögum frá leiki Liverpool við Chelsea og United á þessu tímabili og því síðasta og gefum okkur það að Liverpool vinni síðasta leikinn þá lítur tölfræðin þannig út að Liverpool náði 76 stigum gegn hinum 17 liðunum í fyrra en 74. stigum í ár.

5. Að undanskyldum Torres, Mascherano og Reina þá er kjarninn í Liverpool liðinu á toppi ferils síns núna. Gerrard, Alonso, Carragher, Kuyt og Benayoun eru á aldrinum 28-31 árs og Riera er 27 ára... það er ekki verið að byggja upp til framtíðar heldur núinu, liðið á að vera að taka titla núna ekki seinna. Eini ungi maðurinn er Babel og hann er ískaldur.
Hvert er svo aðalskotmark Liverpool í sumar? Gareth Barry 28 ára.
Hverjir komu í fyrra? Riera 27 ára, R. Keane 29 ára og Dossena 28 ára... sér enginn annar mynstur hérna?

6. Í beinu framhaldi, hvar er framtíðin? Arsenal hefur 100.000 unga leikmenn til framtíðar svo framarlega sem að Wenger haldi liði sínu saman – sem hefur reynst erfitt. Hjá United vann ungmennaliðið Carling Cup með hjálp fárra reynslubolta. Macheda, Welbeck, Evans, Fabio, Rafael, Gibson og Possebon hafa verið að fá tækifæri með aðalliðinu og staðið sig vel og þá bíða Tosic og Ljajic (einn efnilegasti knattspyrnumaður Evrópu sem er 17 ára og hefur verið að spila lykilhlutverk í meistaraliði Partizan Belgrade og kemur í janúar) eftir að fá tækifæri. Þá eru auðvitað óupptaldir Anderson, Nani (sem er reyndar í Babel kulda), Ronaldo, Tevez og Rooney sem eru allir yngri en ,,unga” stórstjarnan Torres (sem að vísu virðist vera komin með Owen/Saha syndrome varðandi aftanílæri tognanir). Hvað með Liverpool, þar er enginn (að Babel undanskyldum og Mascherano sem Rafa er farinn að átta sig á að hentar ekki gegn minni liðum) sjáanlegur sem komið hefur inn á þessari leiktíð og gert eitthvað að viti.

7. Hvar ætlar Liverpool að styrkja liðið sitt? Leikkerfið hans Rafa 4-2-3-1 hentar Liverpool mjög vel með Torres einan frammi og Gerrard í holunni fyrir aftan og tvo varnarsinnaða miðjumenn. Það er ljóst að það sem vantar eru kantmenn sem geta tekið varnarmenn á og bakverði sem geta sótt.
En hvað er vandamálið? Hægra megin er vandamálið að Rafa hefur tekið ástfóstri við Arbeloa (sem er fínn varnarlega en slakur sóknarlega) og Kuyt sem er góður varnarlega en glataður í því sem kantsenterarnir í kerfinu verða að gera sem er að taka menn á. Vinstra megin er vandamálið það að Liverpool á ekki góðan stöðugan vinstri bakvörð og á vinstri kantinum verður hann að fórna annað hvort Babel (sem mögulegri framtíðarstjörnu) eða Riera ætli hann sér framfarir. Hafi þessar fjórar stöður ekki verið nægjanlegur höfuðverkur þá þarf Rafa í sumar að finna góðan senter sem sættir sig við það að spila hugsanlega lítið (ef að Torres er heill). Að finna góðan senter sem getur leyst af að spila einn á toppnum en að sitja jafnframt á bekknum verður höfuðverkur sbr. Robbie Keane. Ég sé ekki hverju Gareth Barry á að breyta nema að auka á breiddina, það væri galið eftir þetta tímabil að skipta Alonso út fyrir Barry.

8. Þetta átti að vera árið sem Liverpool myndi vinna deildina. Hvað gerir stjórnin? Þrjú titilalaus tímabil í röð þrátt fyrir alla eyðsluna undanfarin ár. Styttra í Meistaradeildinni en á síðasta ári, á sama stað ef ekki styttra í FA Cup og Carling Cup en staðið sig betur í deildinni. Nú þegar berast sögusagnir af því að Rafa fái ekki pening nema að selja leikmenn fyrst, hvort það reynist rétt eða hvort um sé að ræða sálfræði til að halda verði niðri (sem er langsótt) þá er ljóst að bresku liðin munu ekki getað keypt jafnt grimmt sökum verri skuldastöðu og gengis á pundinu en auk þess munu Man City, Chelsea og væntanleg Arsenal taka létt eyðslufyllerí sem mun koma niður á möguleikum Liverpool nema að liðið verði keypt af einhverjum olíufurstum.

9. Margt má draga lærdóm af eftir þetta síðasta ár, eitt af því sem Liverpool menn ættu að muna er að taka ekki út hagnað fyrir framtíðina. Það er ekki hægt að segja að Liverpool muni ganga betur á næsta tímabili vegna þess að þá muni Torres spila fleiri leiki, spyrjið Hargreaves, Saha, Owen og alla hina aftanílæris gemlingana. Þá er ljóst að eins og stendur er Liverpool með þynnsta hópinn af topp fjórum liðunum. Bæði Chelsea og United eru með mun breiðari hópa og þá myndi ég persónulega treysta ungviði Arsenal (sem spilað hefur mikið á þessu tímabili í öllum meiðslunum) betur til að koma inn á næsta tímabili en þeim sem standa fyrir utan Liverpool liðið eins og stendur ef að Liverpool myndi lenda í einhverjum teljandi meiðslum sem þeir gerðu aldrei á þessu tímabili.

10. Komandi tímabil verður spennandi, ég ætla að spá því að þetta verði annað hvort heimsfrægð eða dauði. Annað hvort bætir Liverpool við sig mannskap og kreistir út hvern dropa líkt og í ár og stendur uppi sem meistari næsta vor eða að liði tekur Arsenal á þetta, verður óheppið með meiðsli og ekkert fellur fyrir það (ólíkt því þegar allt féll fyrir þá í ár) og endar í þriðja til fjórða sæti ca. 10-15 stigum á eftir toppliðinu (hvort sem það verður Chelsea, Arsenal eða United).

Nú er rúm vika eftir af tímabilinu, leyfum því að fljóta. Tveir verðugir sigurvegarar Meistaradeildarinnar mætast í úrslitaleik keppninnar og vonandi fáum við skemmtilegan leik. Eftir það og raunar örugglega strax eftir síðasta deilarleik um helgina hefst ,,silly season” þar sem að Roanldo, Tevez, Ribery, Kaka, Gerrard, Torres, Lampard, Terry, Fabregas, Adebayor, Messi, Eto´o, David Villa, David Silva og allir hinir verða orðaðir við öll hin stóru lið Evrópu sérstaklega Man City, Chelsea, Real Madrid og Liverpool... hverjir klæðast svo hvaða treyjum næsta vetur verður að koma í ljós en eitt er víst – Liverpool stendur frammi fyrir nákvæmlega sömu vandamálum með liðið sitt og það gerði síðasta haust, nema að nú eru leikmennirnir árinu eldri.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

17 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þú segir nokkuð. En hver verður staðan með ESB bækurnar mínar næsta tímabil? Geturðu sagt mér það, herra Lineker? Ég þarf nefnilega að styrkja mig í sumar fyrir haustið og sérstaklega auka á breiddina og þyrfti að fá nokkrar ungar og efnilegar bækur sem hafa verið í láni og öðlast þar dýrmæta reynslu. Verðum í bandi.
Þórir
YNWA

19 maí, 2009 13:23  
Anonymous Hagnaðurinn sagði...

Djöfull ertu leiðinlegur.

19 maí, 2009 14:57  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þórir: Gríðarlega gaman að sjá comment frá þér hér. Var einmitt að klára síðustu ritgerðina í gær, þannig að það er spurning um að vera í bandi á morgunn. Hvað segir þú um það?
Ég verð örugglega miðsvæðis einhvern tímann eftir hádegi.

Hagnaður: Svona er þetta gult á bláu, vona að þú verðir meira sannfærandi á fundinum sem ég er að fara á til þín en í vörn þinni á liðið þitt :)

19 maí, 2009 16:08  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Verð í miðjumoði á morgun líka. Hringi í þig.
Þórir
P.S. Bið að heilsa öllum gömlu frömmurunum sem lesa þessa síðu

19 maí, 2009 20:02  
Anonymous Hagnaðurinn sagði...

Mér finnst jafn líklegt að þú mætir á fundinn og að manutd vinni Barcelona í úrslitunum í næstu viku.

19 maí, 2009 21:16  
Blogger Biggie sagði...

Held að menn ættu frekar að vísa í þessa grein heldur en steypuna sem Paul Tomkins dritar niður.

20 maí, 2009 14:59  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Hagnaður: Já við sjáum til :)

Biggie: Ég held að nánast öll skrif séu betru en frá Paul Tomkins enda er hann Jón Bjarnason enskra knattspyrnuskrifa

Kveðja Bjarni Þór.

20 maí, 2009 19:50  
Blogger Biggie sagði...

Held að nýtt knattspyrnublogg muni fæðast í haust... paultomkinserbiladur.com

20 maí, 2009 21:50  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þetta endar með einhverskonar comebacki hjá andfótbolta fyrr fremur en síðar - það er ljóst.

21 maí, 2009 00:26  
Blogger Biggie sagði...

Það held ég nú, verður að vera opið á síðasta ári Benitez.

21 maí, 2009 01:20  
Blogger Biggie sagði...

...og hugsanlega Ferguson og Wenger líka

21 maí, 2009 01:21  
Anonymous Kristinn sagði...

Hvað ætli þessar unglinga hersveitir þarna hjá Manure og Draslenal hafi kostað....í báðum tilvikum sennilega jafn mikið og byrjunarliðið hjá Sunderland.
Jájá voða gott að geta sagt að þið séuð að "ala" menn upp. Kaupið unga stráka á mikinn pening og kaupið svo stórstjörnu(r) á 30+ millj stykkið, þetta allt svo styrkt af fyrrverandi og núverandi Bandaríkjastjórn...aðallega fyrrverandi af því að hún var drasl, hentar betur fyrir hatrið sjáðu til.

Já það er alveg ágætt að hafa pening á milli handana og það vitið þið manna best þarna í Manchester. Auðvitað myndu flest önnur lið gera svipaða hluti ef þau hefðu jafn mikinn pening eeeeen þannig er það bara ekki. Þannig að miðað við að hafa ekki nærrum því jafn djúpa vasa þá er Liverpool bara að gera allt í lagi hluti núna. Með tveimur góðum viðbótum þá gæti verið að við myndum hirða þessa dollu loksins.

Varðandi unglingahersveit Arsenal þá hefur Wenger náttúrlega eytt öllum þeim pening sem hann hefur fengið í unglinga. Mjög góða og dýra unglinga en unglinga samt sem áður og þeir eru ekki að fara vinna neina titla. Það er ljóst að innan tíðar mun það koma í ljós að Wenger heitir ekki Arsene Wenger heldur Steingrímur Njálsson-Leboeuf.

Frábært hvernig þú ferð í smáatriði líka hérna, "kemur í ljós að á þessu tímabili hafa hlutirnir fallið virkilega með Liverpool. Vafasamar vítaspyrnur...". Já frábært, þú vilt ekkert segja af hverju þetta voru "vafasmar" vítaspyrnur. Alveg rétt þú ert ekki að reyna koma með einhvern sannleika heldur að hrauna yfir Liverpool, (sem þú gerir mjög vel by the way).

Þú talar ekkert um af hverju þessar vítaspyrnur og þessi rauðu spjöl voru ósanngjörn bara að þau hafi verið, rauðspjöld og vítaspyrnur. Sem að lítur vel út fyrir þinn pól en allir (ég) sjá (sé) að þetta er bara blanda af blindri Manchester og Ferguson ást, Manson ást.

Þú ferð svo út í að túlka (ATH TÚLKA) tölfræði eins og sönnum stjórnmálafræðing sæmir, bravó. Þú fórst í Háskóla. Hvernig væri bara að tala um atvik og staðreyndir eða "facts" svo ég vitni nú í Benitez (háð hér á ferð).

Ég get nú vitnað í tvö atvik sem að voru hrein og klár gjöf og ansi stórar gjafir þar sem að þær breyttu gangi leikja í bæði skiptin. Vítaspyrnan á Old trafford á móti bolton og svo vítaspyrna á móti Tottenham á Old trafford. Hér má sjá ansi skemmtilega umfjöllun um þetta frá sjónarhóli the Fifth Official á soccernet (http://soccernet.espn.go.com/columns/story?id=641162&sec=england&root=england&cc=3436).

Ansi skemmtilegt líka hvernig hann kemst að því af hverju City voru svona lélegir um veturinn, þeir ganga víst fyrir sólarrafhlöðum.

Þú ert líka að reyna slá einhvern ótta í hjörtu okkar frábæru Liverpool manna um að menn séu að verða gamlir...úúúú 28 ára. Menn eru það vel þjálfaðir þarna úti að toppaldurinn er að færast aftur um nokkur ár. Menn geta spilað við sama tempo mun lengur heldur en fyrir 5-10 árum t.d.
Veit nú ekki betur en að Giggs hafi fengið MVP-ið á þessari leiktíð sem er náttúrulega rugl auðvitað. Maðurinn er legend en það er greinilegt að the F.A. heldur að fólk sé heiladautt. Því það vita allir að þessi maður var ekki besti leikmaður deildarinnar í ár. Ef það hefði átt að gefa verðlaun fyrir besti leikmaður áratugarins þá væri hins vegar allt annað uppi á teningnum og sú viðurkenning færi beint til Stephen Henchoz.

En já það er ótal margt fleira sem að ég gæti tekið hér fyrir en ég nenni þessu ekki lengur. Þessi pistill er nóg að sinni. Mér líður bara eins og Andfótbolti.net sé mættur aftur á svæðið. Það voru fjörugir tímar.

Með ást og kveðju frá Sydney.
Kristinn

p.s. Vann ekki liverpool Varaliðsdeildina í fyrra og ég held þeir hafi orðið F.A. Youth cup meistarar 05-06 og 06-07. Þannig að ég segi puhhh á að Liverpool sé eitthvað að skíta á sig í unglingastarfinu.

21 maí, 2009 15:50  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Sæll minn kæri! Hér kemur partur 1.

Gaman að fá comment hinumegin af hnettinum. Maður hefði hins vegar haldið að menn væru búnir að jafna sig á sólsting eftir nokkra mánaða veru í Ástralíu :)

Í fyrsta lagi þá nenni ég ekki í enn eina rökræðurnar um peninga vegna þess að það verður aldrei útkljáð af því að eftir að Liverpool og United komust í eign tveggja manna þá hafa þeir ekki þurft að gefa upp kaupverð og allar tölur því mjög á reiki. Sumar breskar heimasíður sína að Liverpool hafi eytt meira og aðrar að United hafi eytt meira (þ.e. þegar leikmannakaup eru dregin frá leikmannasölu). En ef við gefum okkur að hið rétta sé versta mögulega útkoman fyrir United sem ég hef lesið, sem er að United hafi eytt á þessu 5 ára tímabili 30milljónum punda meira í heildina en Liverpool þá segir það enga sögu. Vegna þess að leikmenn í dag eru ekki keyptir á einu verði, þeir eru keyptir á ákveðnu verði og svo fer það eftir árangri liðsins og einstaklngsins hvar sú upphæð endar. Það er því ósanngjarnt að segja að United hafi eytt 30 milljónum pundum meira ef meginhlutinn af því felst í árangri einstaklingsins og liðsins. Sem dæmi um þetta þá var Torres sagður keyptur á rúmar 20 miljónir punda en ef hann og liðið ná ákveðnum árangri gæti sú upphæð endað í kringum 27 milljónir. Að sama skapi vilja menn meina að Nani hafi kostað 11 milljónir punda en sú upphæð geti farið upp í 17 milljónir eftir árangri. Ef að þessar tölur eru réttar þá gæti Nani endað með að kosta rúmum þremur milljónum minna en Torres ef sá fyrrnenfndi nær gríðarlegum árangri en Torres engum en ef Nani og United gera ekkert en Liverpool og Torres fara að vinna titla ár eftir ár þá gæti munurinn verið 16 milljónir punda og þá verða menn að spyrja sig hvað er sanngjarnt að bera saman? Fyrir mitt leyti myndi ég fremur vilja verja þann málstað að Nani og Torres kostuðu næstum því jafn mikið því það þýðir velgengni hjá United (sem svo aftur því auknir fjármunir í kassann og þar með í leikmannakaup).
Hins vegar getur engin neitað því að frá 1992 þar til Kanarnir tóku yfir hjá báðum liðum að þá hafði Liverpool eytt meira í leikmenn, þær tölur liggja fyrir.

22 maí, 2009 14:00  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Partur 2

Varðandi ungu leikmennina og kostnað á þeim þá hefur hann ekki verið mikill. Ætli Macheda, Welbeck, Evans, Fabio, Rafael, Gibson og Possebon hafi ekki kostað United alls ca. helminginn af sölunni á af Alan Smith. Og ætli United hafi nú þegar ekki borgað svipað fyrir Tosic, Ljajic og Nani eins og þeir fengu fyrir ,,söluna" á Obi Mikel til Chelsea :)
Ég veit að ungliða og varaliðið hjá Liverpool hefur verið mjög gott en ég hef ekki áhuga á þeim heldur aðalliðinu og þar hafa mjög fáir fengið tækifæri á að blómstra undir Rafa öfugt við það sem gerst hefur hjá United. Menn hafa efni á því að kaupa 30 milljóna punda menn ca. annað hvert ár eins og United (Berbatov, Rooney, Ferdinand) ef að þeir fá ,,ókeypis" reglulega menn á borð við Neville, Scholes, Giggs, Fletcher, O´Shea, Da Silva bræðurna, Evans, Welbcek, Macheda o.s.frv. í stað þess að eyða alltaf 6-7 milljónum í meðalgóða squad leikmenn á aldrinum 25-29 ára sem svo staldra við í 1-3 ár (sumir í sex mánuði).

Varðandi rauð spjöld og víti þá vildi ég eingöngu taka fyrir tölfræðina en ekki lengja langan pistil of mikið. En af þessum rauðu spjöldum sem aldrei voru rauð spjöld má nefna Lampard, Adebayor, Folan og Valencia og Zabelta var vafasamt í meira lagi. Varðandi vítaspyrnur þá sá hver einasti maður eftir endursýningu að vítið gegn Tottenham var víti, man ekki eftir Bolton vítinu en sá leikur vannst 2-0 og skiptir því varla máli, sama má reyndar segja um víti Liverpool sem voru vafasöm gegn West Ham og tvö gegn Villa að þau hefðu ekki skipt máli varðandi úrslitin (nema auðvitað að Friedel var rekin útaf). Þá væri gaman að fá tölfræði um það hversu mörg mörk hafa verið ranglega dæmd af United og Liverpool vegna rangstöðu en þau eru á annan tug United megin.

22 maí, 2009 14:01  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Partur 3 og sá síðasti

Varðandi aldur leikmanna þá kemur þú strax að kjarna málsins, menn spila lengur en álagið breytist. Gerrard mun ekki spila 30 deildarleiki fram til 35 ára aldurs, jafnvel ekki eftir 32 ára. En auk þess mun hann sennilega ekki gera það sem hann gerir best sem er að vera á fullu allan leikinn, vinna tæklingar, rjúka upp völlinn og hamra bolta af 25 metra færi... sbr. Scholes og Giggs síðustu ár. Sama má segja um suma leikmenn Chelsea sem eru rétt skriðnir yfir þrítugt, þeir höndla ekki 2-3 leiki í viku á fullum krafti svo mánuðum skiptir. Það er mjög mismunandi hvernig menn höndla aldurinn, Scholes jafnvel Sheringham eru góð dæmi um menn sem aðlagast aldrinum vel en Roy Keane og Viera eru dæmi um menn sem hittu hreinlega á vegg rétt eftir þrítugsaldurinn... allt er þetta einstaklingsbundið en persónulega finnst mér meiri líkur á því að Gerrard falli í síðari hópinn sem dóminerandi leikmaður sem byggir mikinn hluta síns leiks á styrk og krafti.
Það sem Liverpool gerir best að mínu mati er ekki að yfirspila lið heldur að hápressa þau og það gerir þú ekki með mannskap með meðalaldur yfir 30 ára sem stefnir í hjá Liverpool.
Ég skil reyndar Rafa að nokkru leyti, hann virðist vera að reyna að gera það sama og Phil Jackson hjá Lakers, að kreista út titil/titla í núinu og hafa áhyggjur af hinu seinna... en það verður hrikalegt fyrir félagið ef að það mistekst og þegar lykilmenn eru á niðurleið.
Gerrard verður 30 ára næsta vor og Carragher 32 ára í janúar á næsta ári - þetta er hjarta liðsins.
Gerrard sagði eftir að hann ákvað að vera áfram árið 2005 hjá Liverpool að nú væri sigur í deildinni möst og að hann vildi ekki vera ennþá að tala um sigur í deildinni þegar hann væri orðinn 32ára og það styttist í það.
Þetta sumar verður algjört lykilsumar, árangurinn í vetur er ekki ásættanlegur en hann er þolanlegur annað álíka ár án titla og þá er þetta búið fyrir Rafa og það er staðreynd. Í þessu felst catch 22 hjá Liverpool, þ.e. Rafa hefur ekki tíma til að byggja upp með ungum leikmönnum og þarf að vinna strax en ef það mistekst (jafnvel strax á næsta ári) að þá gæti þolinmæðin verið búin og þá stendur Liverpool uppi með lið þar sem kjarninn er komin yfir hæðina og á niðurleið. Þess vegna segir Rafa núna að hann verði að gera allt rétt í sumar og þess vegna er þetta svo spennandi. Heimsfrægð eða dauði :)
Ég hefði allavegana meiri áhyggjur af komandi tímabili en bjartsýni ef ég væri aðdáandi Liverpool.

Jæja þetta er orðið fínt. Hafðu það sem allra best og hvað eru kókkippurnar mínar þá orðnar margar í veðmálinu? 32? Hagstætt gengi á krónunni til að borga núna :)

Kveðja Bjarni Þór.

22 maí, 2009 14:01  
Blogger Biggie sagði...

Gomes kom klárlega við boltann og hann tók nánast 90°beygju í kjölfarið. Ekki víti.

23 maí, 2009 00:55  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Ég horfði á þetta atriði ca. 100 og alltaf hefði ég dæmt víti á þetta brot. Carrick spilar boltanum greinilega fyrst og sú litla snerting sem Gomes nær kemur eftir að hann er búinn að koma við Carrick - það er víti (og rautt spjald líka) :)
Annars er eitt aðalatriði sem gleymist úr þessum leik og það er tveggja fóta flugtækling Palacios strax á 8. mín sem hefði átt að vera beint rautt spjald sem hefði væntanlega þýtt ennþá stærri United sigur.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

Kveðja Bjarni Þór.

23 maí, 2009 11:36  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim