mánudagur, maí 25, 2009

Íslenska þjóðin og þjóðir á Íslandi

Þennan pistil má lesa myndskreyttan á Vefritinu

Ég hef ekki á menningunni mætur
sagði hann: hún mætti sleppa því að fara á fætur
og bara selja sig eins og hún er – í bælinu allsber
uns hún breytist í rottuholu í gróinni tóft
en það er vissulega ekki við hana sjálfa að sakast heldur þá
sem malla þessa menningarsótt
- Megas

Fullveldiskynslóðin, lýðveldiskynslóðin, ´68 kynslóðin, bankakynslóðin, krúttkynslóðin, Reykvíkingar, landsbyggðin, innfæddir íslenskir Íslendingar, innfæddir íslenskir ,,útlendingar”, aðfluttir Íslendingar, útfluttir Íslendingar, alþjóðaþenkjandi Íslendingar, ,,íslenskt”/einangrunarþenkjandi Íslendingar, alþjóðaþenkjandi íslenskir ,,útlendingar”, ,,íslenskt”/einangrunarþenkjandi íslenskir ,,útlendingar”, Vestmannaeyingar, frjálslyndir Íslendingar, íhaldssamir Íslendingar, trúaðir og trúlausir Íslendingar, skuldlausir Íslendingar, skuldugir Íslendingar í íslenskri mynt og skuldugir Íslendingar í erlendri mynt, jafnvel hvoru tveggja o.s.frv.

Eitt mest aðkallandi viðfangsefni nútímans hérlendis er almenn umræða um endurskilgreiningu á íslensku þjóðinni eða réttara sagt að skilgreina þjóðir á Íslandi í íslenska þjóð. Ég held að svarið við spurningunni ,,hver erum við?” eða réttara sagt ,,hver erum við orðin?” sé mun ógnvænlegra í hugum eldri kynslóðanna og sérstaklega andstæðinganna en sjálf inngangan í ESB sem klýfur fjölskyldur, flokka og jafnvel einstaklinginn sjálfan í herðar niður í augnablikinu. Það er tímabært að varpa þessari raunveruleikasprengju á Íslendinga (hverjir svo sem þeir eru) í opinni umræðu sem nær lengra en í fræðitímarit lesin af elítu sem samanstendur af nokkrum tugum manna sem skrifast á - það er full þörf á því og hver sem niðurstaðan kann að vera að þá er sú umræða einnig þroskandi fyrir þjóðina, fari hún ekki í gömlu vondu skotgrafirnar eftir línum stjórnmálaflokkanna.

Hugmyndafræði

Ég fyrirgef sampennum mínum hér á Vefritinu með þeirri gefnu afsökun að þeir hafi verið jafn uppteknir og ég við ritgerðarsmíð fyrir að hafa ekki bent á besta pistil sem skrifaður hefur verið af vinstri manni í lengri tíma – á þetta annars ekki að vera hið nýja Ísland þar sem við hrósum og nýtum þær góðu hugmyndir sem aðrir hafa, þó að við séum ekki skoðanabræður eða systur þeirra?
Það var rétt fyrir kosningarnar í vor sem einn áhugaverðasti heimspekingur Íslendinga (þó að ég sé ekki sammála pólitískum skoðunum hans) steig fram og sparkaði þéttingsfast framtennurnar úr flokknum sem hann hugðist kjósa. Grein Hauks Más Helgasonar Ég er sósíalisti, ég kýs VG, ég ætla að búa í Evrópusambandinu (birtist á vefritinu Nei! 23. apríl 2009) öskrar fyrir hönd ungu kynslóðarinnar það sem við hin flest höfum hugsað en ekki þorað að segja þæg og stillt í fjölskylduboði með afa og ömmu: Þessi söguskýring fullveldis- og lýðveldiskynslóðarinnar, mýturnar um uppruna og sögu íslensku þjóðarinnar sem kennd er í skólum er lágkúra – upplogin drulla sem ekki er upplýstu fólki bjóðandi. Ekki einungis það, heldur hefur þjóðremban (t.d. varðandi sjálfstæðan gjaldmiðil) beinlínis leitt til þess að Ísland er ekki lengur efnahagslega fullvalda (sem er ein stoð á þrífæti fullveldisins) heldur beygir sig og hneigir eftir vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það sem Haukur segir í grein sinni í hnotskurn er að unga kynslóðin mun ekki flýja skuldirnar, heldur muni hún flytja úr landi sé hún ekki sannfærð um að lágkúrunni sé lokið, íslensk menning sé illa þjökuð af heimskulegum singúlarisma og heimtar að unga kynslóðin losni undan lyginni um hina sérstæðu menningu landsins. Á róttækan pólitískan hátt er Haukur Már að leggja áherslu á hugtökin fullveldi, sjálfstæði, menningu, þjóð, ríki og einstaklinginn sem uppsprettu fullveldisins sem Guðmundur Hálfdanarson, Úlfar Hauksson og Eiríkur Bergmann hafa gert á fræðilegan en ólíkan hátt.

Þessi frjálslynda nálgun kann að koma stórum hluta Íslendinga spánskt fyrir sjónir. Þeim Íslendingi sem lærði í grunnskóla að íslenska þjóðin væri honum í blóð borin, að þegar Ísland hafi glatað fullveldi sínu og sjálfstæði hafi það leitt til sex til átta alda niðurlægingar og volæðis íslensku þjóðarinnar, en að endurheimting á þessum sömu hugtökum hafi orðið bein forsenda efnahagslegrar velsældar, að kristin trú sé órjúfanlegur hlekkur í menningu þjóðarinnar og allt hitt sem orðræða íslenskra stjórnmálamanna (lesist kjaftæði) á fánadögum lýsir best og hefur raunar gert síðan árið 1918. Þessu er svo haldið að börnum innan veggja heimilisins og jafnvel í sögubókum fyrir börn sem vart eru farin að þróa rökhugsun. Þessari orðræðu verður að breyta og það gerist hvorki á einni nóttu né án átaks eins og danski prófessorinn Ole Wæver hefur bent á í ræðu og riti.

Þessi íhaldssama nálgun er auk þess hreinlega í engum takti við þær breytingar sem orðið hafa samhliða alþjóða- og evrópuvæðingu Íslands síðustu áratugi. Þar sem breytingar hafi ekki einungis orðið vegna tækni og opnunar landsins t.d. með nýjum íbúum með aðra menningu sem hefur ekki gert þjóðina eins einsleitna (útlitslega, í menningu, trú o.s.frv.), heldur falla nú goðsögurnar um uppruna íslensku þjóðarinnar og um ,,ríkis”trúna hver um aðra þvera – aðskilnaður ríkis og kirkju handan við hornið og brátt verður að aðskilja Íslandssöguna við það sem réttar reynist um sögu Íslands – þá er óupptalið tungumálið sjálft, ekki hreint heldur skrumskælt þannig að langömmur skilja ekki tungutak barnabarnabarnanna sinna (sem þó tala íslensku). Varðandi efnahagslegar framfarir þjóðarinnar þá skal halda því til haga að langstærstu ákvarðanirnar sem leitt hafa til þeirra eru beintengdar alþjóðasamstarfi eða með backup-i frá stórri þjóð – hvort sem það er ágóðinn af seinni heimsstyjöldinni, þorskastríðin, inngangan í EFTA eða EES samningurinn. Burtséð frá ofangreindum breytingum standa eftir þær hugmyndir að þjóð, þjóðernisvitund, menning (o.s.frv.) eru ekki fólki í blóð bornar, hvað þá dauðar hugmyndir heldur einmitt mjög lifandi og eiga að ráðast af sameiginlegum vilja einstaklinganna hverju sinni (ekki löngu látinna forfeðra þeirra).

Staðreyndin er sú, hvað sem forpokuðum afturhaldsseggjum líður, að þá hefur sú kynslóð sem nú er að vaxa upp ekki þessa tengingu við goðsöguna um uppruna og þróun þjóðernis og þjóðernishyggju á Íslandi. Það kann að vera að fyrirlestur um frjálslynda nálgun Renan, sem hann hélt árið 1882, hafi ekki borist með dönskum konungi eða síðar með handritunum en þær hugmyndir eru vel aðgengilegar fyrir netkynslóðina. Sama á við um breyttar hugmyndir manna og ríkja um fullveldið eftir síðari heimsstyrjöldina, sérstaklega í Evrópu (sem Ísland tilheyrir jú hvort sem ,,sönnum” Íslendingum líkar það betur eða verr). Að líkt og fullvalda einstaklingur deilir sínu fullveldi undir ríkinu ásamt öðrum einstaklingum til að öðlast meira frelsi og réttindi, þannig deili ríki sínu fullveldi með þjóðum til að öðlast meira frelsi og réttindi, sérstaklega smáþjóðir.

Sambærilegt uppgjör

Á hinum endanum á jaðri Evrópu, í hinu hingað til valdbeitingarglaða tyrkneska ríki fer nú fram umræða um þjóðina og ríkið sem er á mun hærra vitsmunastigi en á Íslandi – þrátt fyrir að þar hafi þjóðrembingurinn bullsoðið líkt og hérlendis í lengri tíma.
Samhliða mögulegri aðild að ESB er tekist á við grundvallarspurningar er varða endurskilgreiningu/enduruppgötvun á þjóðinni, þjóðernisvitund og um einstaklinginn.
Þar hafa menn, sökum vilja tyrkneska ríkisins til að ganga í ESB, sem aftur leiðir af sér að menn eru ekki barðir til hlýðni fyrir skoðanir sem ríkinu finnst ekki boðlegar, farið að rökræða um hvað það er sem sameinar alla þær ólíku þjóðir/þjóðernishópa sem mynda tyrkneska þjóð eða þjóðir í Tyrklandi, hvers konar grunngildi. Geti tyrkneska ríkið og þær þjóðir sem í ríkinu búa tekist á við slíkar spurningar þrátt fyrir blóðuga og oft á tíðum ljóta sögu þá ætti íslenska þjóðin að eiga í litlum vandræðum með slíkt.

Umræðan í Tyrklandi hefur hingað til verið heilbrigð á milli hinnar íhaldssömu skoðunar (sem áður var nánast boðuð af ríkinu) og hinnar frjálslyndu. Háværari gerast nú raddir síðarnefnda hópsins, þrátt fyrir mótspyrnu hersins (varðmanna Ataturks) að leiðin framávið, sé leið frjálslyndis. Tyrkneska lýðveldið og lýðræðið geti farið saman en það sé ekki í verkahring þess fyrrnefnda að hefta hugmyndafræðilegt frelsi einstaklingsins. Á Íslandi getum við sagt að hið sama eigi við um einangrunarhyggjusinna, þeir geta einangrað sjálfa sig eins og Bjartur vinur þeirra, en það er ekki í þeirra verkahring að einangra alla í kringum sig – þeir ættu að geta haldið sig og sínum gjaldmiðli fyrir sjálfa sig kjósi þeir svo.

Ísland í nútíð og framtíð

Hvað og hvert er ég að fara? Í síðasta Silfri vetrarins tók Egill viðtal við hönnuðinn/hugmyndafræðinginn Paul Benett en hann hafði fengið íslenskan kvikmyndagerðarmann til að taka viðtöl við Íslendinga daginn eftir kosningarnar í vor til að lýsa sínum veruleika og von (og reyndar ótta líka) um framtíðina – meginþemað varð samstaða, en samstaða um hvað?

Það er mín tilfinning að mín kynslóð mun ekki einungis fara með okkur inn í ESB (helst á næsta ári); hún mun fara fram á afhelgunina sjálfa á borði, en ekki einungis í orðum Laxness eða Megasar – tíminn þar sem var hlegið að viðfangsefninu er liðinn og tími raunverulegra aðgerða runninn upp. Ofangreinda kröfu um endurskilgreiningu/enduruppgötvun má ekki túlka sem byltingu heldur sem uppgjör eða niðurstöðu á þeirri áratugalöngu þróun í átt til umbóta sem ekki hefur að öllu leyti skilað sér (t.d. varðandi aðskilnað ríkis og kirkju sem meirihluti landsmanna hefur verið fylgjandi í lengri tíma eins og ég hef áður skrifað um á þessum vettvangi) – svo halda umbæturnar að sjálfsögðu áfram. Við skulum byrja á ESB umræðunni, aðskilja ríki og kirkju og gera annað það sem nú er fjárhagslega óhjákvæmilegt og ,,þjóðin er sammála um”. Síðar má taka umræðuna um veigaminni atriði s.s. um íslenska fánann og þjóðsönginn.

,,Hér kraumar allt” eru orð dagins. Það á ekki einungis við um óánægju raddir vegna aðgerðarleysis stjórnvalda og við uppgjörið heldur einnig við tækifærin sem felast í enduruppbyggingu framtíðarinnar – hversu lengi sú von og sá kraftur býr í okkur sem byggjum þetta land verður að koma í ljós. Tækifærin fyrir ungt fólk blasa við allsstaðar og mörg okkar höfum frestað því sem stundum virðist óumflýjanlegt í von um breytingar hérlendis, því hvert af okkur kýs ekki Ísland ef tækifærin eru sambærileg? Til að svo verði er ekki einungis þörf á alvöru aðgerðum, réttlátu uppgjöri og sambærilegum tækifærum – það er ekki síður þörf á endurskilgreiningu og við þurfum vissulega að sannfærast um að lágkúrunni sé lokið. Ferðin sjálf til fullkomunar má aldrei taka enda, vegna þess að (með orðum þjóðskáldsins sem vitnað var til í upphafi) ,,þá væri allt svo ömurlega ,,boring””.

Ást og friður Bjarni Þór Pétursson

PS. Are you watching? Are you watching? Are you watching Merseyside? Aaaaaaare you watching Merseyside?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

3 Ummæli:

Anonymous Henrik sagði...

Það er ágætt að vita af því að það er Pajdak á B4 í sumar, reyndar ekki Tomasz, heldur annar í röðinni - og sá þriðji í væntanlega í framtíðinni..

27 maí, 2009 09:54  
Anonymous Nafnlaus sagði...

xD og xB komnir með sameiginlega ályktun um ESB. Hún gengur út á það að tefja málið í 3mánuði. Svo verður tekin ákv. eftir það hvernig þjóðin á að koma að aðildarviðræðunum (Bjarni Ben neitar að gefa uppá bátinn heimskustu tillögu allra tíma..2x þjóðaratkvæði).

Þar höfum við það... tefja málið í 3mánuði og svo fara ræða það eins og á að gera í dag. Svo 2x þjóðaratkvæði. Ef það verður jákvætt þá ættum við að geta talað við ESB eftir 1ár eða svo. Þá verða allir vinir okkur farnir úr mikilvægum stöðum (svíar, sjávarútv.) og þá er líklega auðveldara að fella málið.

Af hverju fá þessir menn ekki bara einhvern anti-ESB sinnan til að hella yfir sig bensíni og kveikja í sér fyrir utan Alþingi. Það myndi kannski styrkja málsstað þessara manna.

En ég vissi ekki að xB væri anti-ESB flokkur??? hann lét allavega ekki svoleiðis fyrir kosningar.

ciao,
Ívar

28 maí, 2009 09:36  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Henrik: Það er gott að einhver sé að sýna stöðugleika og festu í þessu samfélagi manna.

Ívar: Ég hef ekki áhyggjur af þessu, frestunin verður væntanlega ekki meiri en það sem gert var upp með í upphafi. Ennþá má gera ráð fyrir umsókn í ESB í júlí.
Þetta hins vegar sannar það að sumir flokkar (Framsókn) breytast ekki þó að endurnýjunin sé nánast algjör. Borgarahreyfingin fær prik fyrir að hoppa ekki á vagn tækifærismennskunnar.

28 maí, 2009 17:11  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim