föstudagur, október 17, 2008

Obama vs McCain - Round 3

Mér finnst einhvern veginn eins og ég sé skyldugur til að klára þessa yfirferð þrátt fyrir að þetta séu nú orðnar gamlar fréttir, en Obama mætti hinum aldna McCain í þriðja og síðasta skiptið í rökræðum í gær.
McCain mætti ferskur til leiks og var ákveðinn og betri fyrsta hálftímann, þegar hann svo sá að þessi ákveðni sín virtist ekki bíta á Obama sem var eitursvalur að þá missti McCain höfuðið og fór út í neikvæðni, fór að bendla Obama við hryðjuverkamann úr Weather Underground og tapaði sér í tali um Joe The Plumber og krassaði þá í áliti kjósenda á meðan Obama hélt sínu striki og eyddi þessum ásökunum gamla mannsins.
Að lokum var það mat kjósenda að Obama hefði staðið sig betur en 58% áhorfenda CNN töldu hann betri en aðeins 31% töldu McCain betri og að ,,venju" hafði Obama vinning í jákvæðum rökræðum (um efnahagsmál, skattamál og heilbrigðismál) á meðan McCain tók neikvæðu flokkana (hvor var neikvæðari í garð hins og hvor hegðaði sér eins og týpískur stjórnmálamaður).
Meira um helstu skoðanir kjósenda hér.
Ástandið fyrir þessar rökræður var þannig að margir vefmiðlar töldu að Obama hefði hina 270 fulltrúa sem þarf eins og staðan er í dag, en eftir þær hefur CNN hoppað á vagninn og munar nú rúmlega 100 kjörmönnum en sumir veðbankar eru nú þegar byrjaðir að greiða út til þeirra sem veðjuðu á Obama.
Öll von er þó ekki úti enn fyrir McCain en ástandið er sennilega orðið jafn slæmt fyrir hann og íslenskt efnahagslíf, margt getur þó gerst á 19 dögum en McCain þarf ekki aðeins að pikka upp alla 87 kjörmennina í þeim sex ríkjum sem enn eru óákveðin, heldur að stela 1-3 ríkjum sem hallast nú að Obama - líkurnar á því tel ég að séu ca. jafn miklar og að ég fari í verslunarferð til Danmerkur til að kaupa gjafir fyrir komandi jól.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

10 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Gaman af því að ég sá einungis fyrstu þrjú korterin og er sammála því að McCain hafi verið betri þann tíma.

Annars finnst mér vissir taktar Obama minna mig á forsetann í sjónvarpsþáttunum 24. Þá á ég ekki við það sem liggur í augum uppi, heldur minnir raddbeitingin svo á hann.

17 október, 2008 02:12  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Það er reyndar alveg hárrétt.
Svo er auk þess áhuggjuefni fyrir McCain að ekki einungis töldu kjósendur að hann hefði tapað öllum einvígunum gegn Obama og (Palin auðvitað gegn Biden) þar sem hann hefði átt að sækja á, heldur er Obama núna laus til að gera það sem hann gerir best - þ.e. að vera forsetalegur og sýna sinn karakter með innblásnum einræðum þar sem McCain getur ekki svarað honum og á auk þess mun meiri pening til að eyða í auglýsingar.

17 október, 2008 05:27  
Blogger Biggie sagði...

Ég verð að segja að McCain kom betur úr þessu heldur en Hussein, enda við því að búast svo sem þegar menn tala um skatta og efnahag

Hjá CNN "spekingunum" var þetta jafntefli, en þú minnist ekkert á það í þetta skiptið? Ertu kannski fréttamaður CBS News í dulargervi? Neikvæðni? Hvað með punktinn um að Hussein hafi eytt mestum pening af öllum forsetaframbjóðendum í sögu USA í neikvæðar auglýsingar í garð andstæðingsins (sem innihalda auk þess rangar staðhæfingar skv. gamla manninum)?

17 október, 2008 06:07  
Blogger Biggie sagði...

*efnahag... smál.

17 október, 2008 06:07  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Málið var einfaldlega það að ég fylgdist einungis með kappræðunum og ákvað í þetta skiptið að fylgjast ekki með eftirmálunum á CNN en pikkaði svo upp fréttirnar á CNN í morgunsárið.
Þú verður að eiga það við sjálfan þig hvað þér fannst, almenningur í BNA virðist í það minnsta hallast að efnahags og skattaáætlunum Obama og stuðningur við þær hefur hingað til verið töluvert meiri en við McCain - fólk virðist búið að fá nóg að Hannesar Hólmsteins einfeldni.
Varðandi neikvæðnina þá átti það við þessar kappræður eins og hinar fyrri að almenningi þótti McCain vera neikvæðari og hans moment krössuðu þegar hann fór þá leið og alveg óskiljanlegt að hann hafi valið þá leið eftir að hafa tvisvar áður brennt sig á því - en það er væntanlega til marks um þá litlu tiltrú sem hann hefur á að sín stefna og hans persónuleiki muni sigra Obama.
Varðandi auglýsingar að þá er sett nýtt met í eyðslu í nánast hverjum einustu kosningum og það sama á eflaust við um neikvæðar auglýsingar, ég er ekki í slíkri daglegri nálgun við útvarps og sjónvarpsstöðvar í BNA að ég verði var við slíkt en áróður frá Palin og McCain þar sem reynt er að gera Obama tortryggilegan er öllum ljós - Obama hefði getað gengið mun lengra í að smyrja því á gamla manninn hvað hann hefur gert af sér síðustu ár og talsmaður hverra hann hefur verið en Obama veit að það þjónar engum tilgangi við það að ná til kjósenda og þess vegna sleppir hann því.
McCain ætlaði hins vegar að reyna að vera snjall og leika gamla fórnarlambið og velja Palin með sér til að vera í drulluslagnum en með því kallaði hann einungis yfir sjálfan sig skít, því að Palin er slíkur geðsjúklingur að hún getur ekki einu sinni þaggað niður í súrefnisþjófunum sem umkringja hana og kalla eftir því að Obama verði drepinn.
Það fer líka McCain ekki að fara í fórnarlambshlutverkið og væla yfir neikvæðni eins og hann gerði í gær. Almenningur vill ekki sjá vælandi gamalmenni og með því dregur hann úr ímynd sinni sem stríðshetja, en auk þess hefur hann gengið í gegnum mun verri hluti en þann tittlingaskít sem komið hefur fram núna og það frá sínum eigin flokksbræðrum fyrir fjórum árum, þegar hann tapaði fyrir versta forseta allra tíma.
Hvað er svo málið að kalla Obama Hussein, á það að ergja mig?
Millinafn McCain er Sidney - af hverju kallar þú ekki McCain Sydney? :)

Ástarkveðja Bjarni.

17 október, 2008 07:07  
Blogger Biggie sagði...

Hann var nú ekki að væla yfir neikvæðni beint, umræðan fór bara út í það enda var það bein spurning. Það hefur ýmislegt verið sagt á flokksfundum þeirra tveggja en það er hreinlega bara ógild umræða því þetta er frekar barnalegt. Hins vegar þaggaði McCain niður í konu fyrir skömmu sem kallaði Hussein araba (og var að fara að segja sitthvað fleira) og sagði hann vera góðan og heiðvirtann Bandaríkjamann en aftur á móti hefur Hussein aldrei þaggað niður í neinum af sínum fylgismönnum (svo sé vitað - hann hefur amk ekki talað um það sjálfur). En þetta ekki aðalatriðið.

Ég varð ekki var við þessa miklu neikvæðni sem þú talar um, ég myndi frekar kalla það sókn heldur en neikvæðni (sem Hussein "svaraði" eins og oft áður með ódýrri Carragher nauðvörn = fór að hlægja). Annars eru þeir eru bara að skjóta á hvorn annan og þá kannski sérstaklega McCain, en ég sé ekki hvað er athugavert við það.

McCain var ekki sáttur með að Palin væri að rífa kjaft þarna um daginn, enda hefur það komið fram að það hafi orðið einhver ágreiningur milli fylkinga þeirra tveggja.

Eftir fjögur ár á fólk eftir að segja, "tja... Bush var kannski ekki svo slæmur eftir allt saman". Það halda allir að lausnin felist í nýjum forseta, eins og það breyti öllum heimsins málum og allt verði grænt á nýjan leik. Bush var ekki sá besti og hefði mátt gera hluti öðruvísi, en það er alltaf gott að vera vitur eftir á.

Þetta snýst ekki um innihald kappræðanna og hefur sjaldan/aldrei gert. "Hvernig fór Bush að því að vinna Al Gore?" spurði einhver í gær. Málið var sem sagt að Al Gore þótti vera með sterkari rökræður en Bush náði betri viðbrögðum. Þetta er svipað núna. Hussein er með vindinn í seglin og það skiptir í raun engu hvað hann segir svo fremi sem hann haldi áfram að brosa og tala um jafna skiptingu efnislegra gæða. Hann þarf bara að halda áfram að haga sér forsetalega og þá er þetta komið.

Ps. Hussein nafnið er einfaldlega bara flottara og virðulegra en Obama (Osama?)

17 október, 2008 07:51  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Það virkaði á mig sem að McCain væri að fara að gráta þegar hann fór að tala um ,,ofsóknir" Obama og sérstaklega var þetta moment kjánalegt þegar hann fór svo að smyrja Obama við hryðjuverkamann - sem bandarískur almenningur virðist hvorki kaupa né taka vel í. Auk þess er rétt að muna hverju Bush smurði á McCain... að hann væri samkynhneigður, hann væri stríðsglæpamaður, að hann ætti lausaleiksbarn að konan hans væri dópisti og svo framvegis - hvað hefur Obama sagt til að græta gamalmennið?
Kannski að Obama hafi ekki þurft að þagga niður í sínum aðdáendum vegna þess að þeir hafa ekki verið að kalla eftir að McCain verði myrtur eða eitthvað af því sem Bush notaði gegn honum, enda kom það fram strax í forkosningunum gegn Clinton að Obama bæri mikla virðingu fyrir McCain sem manneskju bæði sem stríðshetju og mörgu sem hann hefði gert.

Varðandi Bush þá þarf sá sem verður kosinn að breytast í anti krist til að einhver segi að Bush hafi ekki verið svo slæmur, ekki eingöngu vegna Íraks stríðsins heldur fyrir að hafa rústað efnahag Bandaríkjanna (og afleiðingarnar sjást um allan heim) eftir að Bandaríkin hafi verið í draumastöðu efnahagslega eftir Clinton - það er líka það sem háir McCain hvað mest hann studdi þetta rugl allt saman og er því aldrei mjög sannfærandi hvorki um utanríkisstefnu eða efnahagsmál (sem hann reyndar sagði í forkosningunum að hann hefði lítið vit á) og Obama þarf hreinlega bara að minna á það hvað McCain hefur stutt síðustu 8 ár.

Ástæðan fyrir að Bush vann Al Gore eru of margar og sorglegar til þess að nefna þær hér, án þess að ég nenni út í svindlumræðu og hæstaréttadóma.
Risastór munur var hins vegar á því að Bush hafði mun meiri peninga til að eyða en Al Gore, eitthvað sem McCain hefur ekki og kosningavél Neo-con fór langleiðina með það að vinna þetta fyrir Bush fyrirfram með skipulögðum ferðum í fylkin, en McCain hefur ekki haft nærri því eins rosalega vél en það hefur Obama hins vegar. Þar fyrir utan átti Bush ekki jafn mikinn djöfull að draga eins og McCain á svo sannarlega í núverandi forseta.

Obama hefur því ekki einungis verið betri í kappræðunum, haldið forskoti allan tímann með betri varaforsetaefni og lífslíkur, heldur einnig betri kosningavél og meira fjármagn og hefur verið að eyða tvöfalt og stundum fjórfalt miðað við McCain í sumum ríkjum.
Það eina sem fer í mann er að á meðan Demókratar hafa allt með sér og draumaframbjóðenda gegn slöku gamalmenni sem hefur síðustu 8 ár á bakinu að þá er munurinn einungis 8%, ef að þessu væri öfugt farið að þá væri GOP með 20% forskot á landsvísu.
En við erum líka að tala um það að Obama er að berjast við að ná einu Suðurríki sem nánast engum Demókrata tekst - enda eru þegnar
þessara ríkja varla hæfir til að hafa bandarískan ríkisborgararétt og ótrúlegt yfir höfuð að þeim takist að kjósa miðað við greindarskort.

Varðandi nöfnin þá er nú Sidney líka flottara nafn en McCain, nema að maður sé sjúkur í franskar kartöflur.

17 október, 2008 16:27  
Blogger Biggie sagði...

Kæri Bjarni,

Ég man hreinlega ekki eftir því að hann hafi smurt hann við hryðjuverkamann, ekki nema þú sért að tala um þegar hann var að vísa í orð Palin? Ég missti af circa 5 mín þó þannig að það gæti hafa verið þá.

Þú segir varðandi Bush: "ekki eingöngu vegna Íraks stríðsins heldur fyrir að hafa rústað efnahag Bandaríkjanna (og afleiðingarnar sjást um allan heim) eftir að Bandaríkin hafi verið í draumastöðu efnahagslega eftir Clinton"

Hvar færðu þessar hugmyndir? Ertu að segja að efnahagmál heimsins séu í steik vegna George W. Bush? Bjarni, það er alveg fráleitt.

Þú segir ennfremur: "En við erum líka að tala um það að Obama er að berjast við að ná einu Suðurríki sem nánast engum Demókrata tekst - enda eru þegnar
þessara ríkja varla hæfir til að hafa bandarískan ríkisborgararétt og ótrúlegt yfir höfuð að þeim takist að kjósa miðað við greindarskort."

Ertu að segja að það sé sama sem merki milli þess að vera suðurríkjamaður og/eða harður Repúblikani og að vera heimskur? Fólk þarf ekki að vera heimskt til að hata svertingja, það er bara klikkað. Hvað með fólkið sem er óákveðið og ákveður að kjósa Obama af því að hann er flottari í sjónvarpi? Er það gáfaðra heldur en þeir sem standa fastir fyrir stefnu síns flokks? Eða er stefnan kannski bara svona heimskuleg? Það vita allir að það er fullt af heimsku fólki í Bandaríkjunum (alls staðar), alveg eins og á Íslandi (líttu bara á ungliðahreyfingar vinstri flokkanna - sem er ekki bara heimskt fólk í miklu magni, heldur kann það ekki að haga sér, sem er mikið verra en að vera heimskur).

En þú nefnir réttilega að Obama hefur verið betri í kappræðunum í heildina, en til hvers að ræða það? Hafa menn farið af einhverri dýpt inn í málefnin sem um ræðir? NEI. Það sem Obama er aðallega búinn að tyggja á í gegnum þessar kappræður að hann "ætlar að fara ofan í saumana á hverjum þræði" og "ætlar að vinna baki brottnu til að koma efnahagmálunum í gott stand á ný. Sama má segja um McCain. Þannig að eftir stendur að ef þú hefur ekki kynnt þér málefnin ítarlega (sem 50% Bandaríkjamanna hafa ekki gert) þá muntu kjósa þann frambjóðanda sem heldur betri ræður og lítur betur út í sjónvarpi, það er bara þannig.

Að setja svo sama sem merki milli William Clinton og góðæris er jafn mikið rugl og að persónugera Bush við efnahagshrunið. Clinton varð bara þeirrar lukku aðnjótandi að hafa verið forseti Bandaríkjanna á heppilegum tímum, svo einfalt er það. Það er ekki hægt að segja að hann hafi verið slæmur forseti, en það er bara af því hann gerði svo lítið að það er ekki marktækt. Hann sat bara í sínum stól og lét fröken Lewinsky leika við sig.

Það er allt og sumt.

17 október, 2008 18:06  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

1. Sydney (McCain) reyndi að gera hann tortryggilegan vegna sambands hans við Ayers fyrrum meðlim Weather Underground.

2. Það er morgunljóst að efnahagur Bandaríkjanna hefur gríðarleg áhrif um allan heim, auðvitað er ekki hægt að segja að það sé eina aðalatriðið en það er eitt af þeim.
Þetta held ég að meira að segja Davíð Oddsson og Geir H. Haarde séu sammála um.

3. Já, ég held að það þurfi virkilegan greindarskort til að hafa sömu hugmyndir og er nokkuð víðtækur meðal Suðurríkjamanna.
Þar sem allt byggist á fáránlegum öfgaskoðunum og þar sem byssueign skiptir fátækt fólk meira en fjárhagur þess, trúin meira máli en menntun og afkoma.
Þó að ég vilji alls ekki verja ungliða hreyfingu vinstri grænna að þá er hegðun þeirra í engri líkingu við það sem gerist reglulega í Suðurríkjunum.

4. Auðvitað er það þannig og það er sorglegt fyrir lýðræðið að svona fundir verða aldrei annað en yfirborðsmennska og grunnhyggni þó að skemmtanagildið geti verið töluvert. Það gæti enginn hagfræðingur útskýrt í þaula á tveimur mínútum hvað þarf að gera næstu 4-8 árin í Bandaríkjunum til að rétta þessa vitleysu af og þess vegna verður þetta oftar en ekki klisjukennt.

5. Ólíkt kenningum eða áróðri frjálshyggjumanna þá er raunin sú að ríkið hefur þanist út síðustu átta ár og skuldir Bandaríkjamanna hafa aldrei verið meiri, sama má segja um kjörtímabil Bush eldri og tvö kjörtímabil Reagans.
Þegar Clinton tók við var fjárlagahallinn 300 milljarðar dollara og hafði verið rekið með gríðarlegum halla í næstum 10 ár og allt í molum.
Fjórum árum seinna var fjárlagahallinn kominn niður í 115 milljarða og árið 2000 var 250 milljarða afgangur af fjárlögum. Þetta var ekki vegna þess að Clinton var heppinn heldur vegna þess að efnahagsaðgerðir hans, s.s. skattahækkanir sem drógu úr hallanum og urðu til þess að bandaríski Seðlabankinn gat lækkað vexti og tiltrú á markaði kom aftur heppnuðust vel. Að lokum hafði það þau áhrif að í stað þess að peningarnir færu í að fjármagna ríkið að þá fóru þeir í að fjármagna neyslu og fjárfestingar einkaaðila og hafði aðgerðin gríðarlega jákvæð áhrif á hagvöxt í Bandaríkjunum. Auk þess var Clinton ákaftur stuðningsmaður frjálsra alþjóðaviðskipta og gekk lengra en forverar hans og núverandi forseti sem aðallega virðist stunda það að brenna brýr við umheiminn. Þá eru ótaldar miklar umbætur á velferðarkerfinu.
Ef að Clinton hefði verið við völd núna þá væri Ísland líklega ekki í þeirri stöðu sem það er í dag (sem þriðja heims ríki) þar sem Clinton
stóð fyrir rosalegum lánveitingum í fjármálakrísum (t.d. í Asíu 1998) en auðvitað ætla ég ekki að kenna neinum öðrum en sofandahætti íslenskra stjórnvalda um núverandi ástand og Bush á nóg með sig og sitt hræðilega ástand án þess að hann geti snúið sér að Íslandi.
Í Bandaríkjunum segir klisjan að það mikilvægasta sem hver farsæll forseti geri í efnahagsmálum sé að klúðra engu, það gerði Clinton (ólíkt Bush eldri og yngri) og gott betur því hann tók umdeildar ákvarðanir sem voru hárréttar.
Auðvitað fékk hann vind í seglinn með tæknibyltingunni en það er eitthvað sem Bush hefur ekki náð að nýta sér og eftir þessa blómlegu átta ár Clintons þá hefur Bandaríkin aldrei verið eins skuldug eins og eftir átta ára setu Bush (eitthvað sem menn hefðu fyririfram þurft að leggja sig alla í við að eyðileggja) og ég efast ekki um það að Obama muni ráðfæra sig við Clinton EF hann verður næsti forseti Bandaríkjanna.
Því að þó að liðin séu 16 ár að þá gildir ennþá hið sama ,,It´s the economy stupid" :)

Ástarkveðja Bjarni Þór.

17 október, 2008 22:47  
Blogger Biggie sagði...

Sá vægir sem...

20 október, 2008 05:27  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim