þriðjudagur, nóvember 25, 2008

The times they are a-changin’

Þessi pistill birtist á Vefritinu

Það er þekkt staðreynd að oft gerast óvenjulegir hlutir í kjölfar óvenjulegra atburða. Nákvæmlega níu mánuðum eftir að Englendingar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu árið 1966 voru sjúkrahús að sligast undan óléttum konum. Sömu sögu mætti segja af fólki sem hefur lent í flugslysum, hefur hringt í mæður sínar og frænkur og sagst elska þær, án þess að því hefði nokkurn tímann annars dottið slíkt í hug. Í dag eru óvenjulegar aðstæður og því ætla ég að bregða mér í líki byltingarmanns, en yfirleitt er ég fremur þægilegur og ljúfur hægri krati.

Það þykir töff að lýsa yfir dauða einhverrar stefnu eða fyrirbæris: Megas oft (jafnvel sjálfsprottið), Bubbi með sinni sölumennsku, krúttkynslóðin sem reyndist svo vera group-kynslóðin, útrásarvíkingarnir sem sukku djúpið í og loks frjálshyggjan sjálf hafa öll lent í þessum hremmingum að undanförnu og margir fleiri til, með þar til gerðum blaðadeilum. Ég get ekki verið minni maður og verð að elta þessa tísku eða eins og alskeggjaður Gunnar Smári sagði: „ég geng bara í gallabuxum vegna þess að aðrir gera það“.

Í allri ofangreindri slátrun auk ótímabærra yfirlýsinga um dauðdaga ýmissa stjórnmálamanna og flokka að undanförnu hefur eitt yfirsést, eitthvað óþægilegt sem enginn vill segja frá, hvorki fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn, né aðrir þeir sem stjórna umræðunni og það er dauði ‘68 kynslóðarinnar.

Byltingin sem mistókst

Kynslóðin sem kom eins og stormsveipur inn í líf þjóðarinnar og ætlaði sér að bylta samfélaginu í vinstri sinnað réttlátt samfélag er nú að ranka við sér á dánarbeðinu í jakkafötum frjálshyggjunnar á öfgunum hægra megin. Frjálsar ástir urðu frelsi í viðskiptum og uppi sitja komandi kynslóðir með fjárhagslega eyðniveiru.

Dauðinn felst ekki eingöngu í hugmyndafræðilegum dauða kommúnismans og núna frjálshyggjunnar og svo einkavinavæðingunni, sem var hræðilega illa framkvæmd frá A-Ö eins og Eiríkur Bergmann rakti í 13 liðum í Viðskiptablaðinu þann 14.nóv., heldur einnig framtíðarsýninni; á meðan yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill fara í aðildarviðræður við ESB þá beinlínis stendur ‘68 kynslóðin með sínum völdum í vegi fyrir því – aðeins einn formaður hefur lýst yfir vilja sínum til þess.

Eina ástæðan fyrir því að enginn hefur gert það eina rétta í stöðunni, sem er að setja kodda yfir höfuð hins lifandi líks og kæfa það, er að ekki er einungis um fjárhagslega eyðniveiru að ræða heldur einnig hugmyndafræðilega. Það er varla orðum ofaukið að a.m.k. 75% þeirrar kynslóðar sem verður að taka við hefur haft frjálshyggju sem einhvers konar rót, hvort sem það eru „þriðju leiðar” jafnaðarmenn eða þegjandi Framsóknarmenn sem létu íhalds og/eða frjálshyggjutrúboða Sjálfstæðisflokksins dáleiða sig – ég er jafn sekur og hinir.

Ekki bætir það heldur ástandið að þessi kynslóð hefur haft afar takmarkaðan áhuga á stjórnmálum, svokallað „hæfasta fólkið“ sogaðist inn í bankanna og virðist a.m.k. að hluta hálf heiladautt núna (í það minnsta rænulaust), þegar það stendur uppi atvinnulaust og orðið gjaldþrota, á hinum enda alþjóðavæðingarinnar sem áður var aðeins tölulegur hagnaður á skjám – sama fólkið og lýsti yfir dauða stjórnmálanna á kostnað viðskiptanna.

Hvar eru ungliðarnir?

Það fólk sem þó tók það að sér að fara út í stjórnmál er varla heldur að fara að bjarga okkur; hvar eru ungliðahreyfingarnar núna? Ég hef hvorki heyrt í einni sannfærandi ungliðahreyfingu né einni manneskju innan hennar sem virkilega blöskrar ástandið og er tilbúin að taka við keflinu af þessum tilgangslausa örmagna hlaupara sem ´68 kynslóðin er. Er trúin ennþá sú að ef allir verði þægir núna að þá muni ´68 kynslóðin draga einn eða tvo einstaklinga upp í með sér og þeir fái að leika sér með „fullorðna fólkinu“? Ætla ungliðarnir að halda áfram að tala undir rós þegar kemur að gagnrýni á sína flokksforystu? Ég er reyndar ekki tengdur inn í nokkra ungliðahreyfingu og veit lítið um það sem gerist bakvið tjöldin, en sem fréttafíkill virðist fátt vera í gangi – en ég myndi að sjálfsögðu fagna því ef að þessi kynslóð er komin með koddann í höndina og sé að bíða færis. Fyrir mína pólitísku sýn á framtíðina þarf ég ekki að leita langt, raunar aðeins yfir höfundalista Vefritsins til að finna ungt, vel menntað og bráðgáfað fólk sem ég treysti mun betur fyrir minni framtíð en þeirri kynslóð sem nú makar krókinn á dánarbeðinu og ætli möguleikar Samfylkingarinnar á aðildarviðræðum við ESB væri ekki meiri ef að ungliðarnir í VG tækju völdin í flokknum? Má ekki sama segja um aðra flokka?

Hvenær ef ekki núna?

‘68 kynslóðin er ekki að fara að gefa eftir sín völd, við þurfum ekki nema að líta á helsta geranda og/eða gerendur þeirrar kynslóðar til að átta okkur á því; þeir hafa flestir lifað af fleiri en einn pólitískan dauðdaga jafnvel innan Samfylkingarinnar og til marks um að kynslóðarbyltingar sé þörf að þá er hún þegar hafin og þar sem maður síst hefði ætlað – í mesta afturhaldsflokki síðustu aldar á Íslandi.

Heiti þessa pistils er tilvísun í meinta rödd ‘68 kynslóðarinnar (sem reyndar vildi svo ekkert með hana hafa) en hún virðist núna hafa horfið frá orðunum „The times they are a-changin’“ og staðnæmst við aðra fleyga setningu meistarans áratugum síðar „I used to care, but things have changed“. Okkar kynslóð virðist vera algjör andstæða, okkur sem alltaf hefur verið sama (eða höfum í það minnsta hegðað okkur þannig) er nú ætlað að standa fyrir breytingum – við sem þekkjum fátt annað en frjálshyggju verðum að leiða þessa þrautargöngu í átt að réttlátu samfélagi, þá skiptir engu hvar í flokki við stöndum. Það gerist ekki baráttulaust, þekkið ykkar söng áður en þið byrjið að syngja – upp með koddana!

(Ef ekki þá vinsamlegast segið af ykkur, hættið í stjórnmálum og hleypið að öðru ungu fólki sem er tilbúið!)

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

6 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki of langt gengið ?

"...þeir hafa flestir lifað af fleiri en einn pólitískan dauðdaga jafnvel innan Samfylkingarinnar..."

Ég bara spyr :)
BK

26 nóvember, 2008 09:58  
Anonymous Nafnlaus sagði...

flottur pistill.

http://eyjan.is/silfuregils/2008/11/25/afhjupunin-grein-jons-baldvins/

vill eitthver plís gera þennan mann að einræðisherra hérna svona næstu 10árin... eða yfir mestu kreppuna.

ivar

26 nóvember, 2008 16:11  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

BK: You ain´t seen nothing yet :)

Ívar: Takk. Að mestu leyti er ég sammála Jóni Baldvini, en hugsaðu þér hvers konar ríkisstjórn við hefðum búið við ef að Davíð Oddsson hefði fengið að velja sér alla ráðherranna sjálfur án þess að flokkurinn stæði bakvið hann, Bush stjórnin er kannski augljósara dæmi :)

26 nóvember, 2008 23:14  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hehehe, hlakka til !! Já gleymdi að segja það áður, mjög flott grein hjá þér.

Sammála þér Bjarni Þór mér lýst ekki nógu vel á þessa hugmynd...

BK

27 nóvember, 2008 10:26  
Anonymous Nafnlaus sagði...

það er kominn tími til að flottræfilskynslóðin sem fékk allt upp í hendurnar, óverðtryggð lán og hús á gjafverði fari alvarlega að hugsa sinn gang.

legg til að íbúðalánasjóður leggi allt að 20 milljóna króna verðtryggt lán með íþyngjandi vöxtum á hverna einasta stjórnmálamann sem á skuldlausa fasteign í dag.

og hananú!


kv,

Tómas

27 nóvember, 2008 12:01  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

BK: Takk fyrir það.

Tómas: Já það er góð hugmynd :)
Spurning hvort það þurfi ekki um 15milljónir í verðtryggðu og aðrar 15 í myntkörfu - gæti annars séð fyrir mér að þessir menn reyndu einhverjar skítalausnir fyrir sjálfa sig :)

27 nóvember, 2008 16:43  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim