mánudagur, janúar 26, 2009

Hvar ætti að skera niður?

Eftirfarandi grein birtist í dag á Vefritinu.

Þegar ég íhugaði efni í þennan pistil ákvað ég að kíkja á greinar á Vefritinu eftir flokkum á viðfangsefni. Það kom mér mjög á óvart þegar niðurstaðan var sú að enginn greinarflokkur var til um trú eða trúarbrögð, en fáeinar greinar fann ég undir ,,Menningu”, ,,Fjölmenningu” og greinarflokknum um ,,Jólin” (eins undarlegt og það kann að hljóma að sú hátíð fái sérstakan greinarflokk um sig – en t.d. ekki Evrópusambandið) - lengra fór ég ekki í þessari könnun minni.

Ég er trúlaus jafnaðarmaður og í minni fjölskyldu og vinahópi er fullt af góðum kristnum einstaklingum sem stunda trú sína í einrúmi og fara ekki fram á annað. Nokkra af þeim hef ég þó sannfært um að ganga úr ,,þjóð”kirkjunni enda samþykkja þeir rökin um að Háskóli Íslands þurfi fremur á peningunum að halda en boðberar ævintýramennsku á ofurlaunum í hálftómum musterum - þetta er trúað fólk en lætur sér nægja óminn af jólamessunni og nýtir venjulega sunnudaga í annað; heldur trúnni fyrir sig. Meirihlutinn af álíka einstaklingum er þó ennþá í ,,þjóð”kirkjunni, þó þeim fari fækkandi.

Valkvíði?

Nú kreppir að hjá þjóðinni og nýtt fjárlagafrumvarp ræðst á grunnstoðir þess velferðarkerfis sem landsmenn (flest allir) vilja standa vörð um – t.a.m. ef tillögur Guðlaugs Þórs heilbrigðisráðherra verða að veruleika. Á sama tíma munu framlög til ,,þjóð”kirkjunnar standa í stað eða lækka lítillega og munu væntanlega á endanum nema á milli 5-6 milljörðum (þá eru undanskilin ofurlaun presta og skattfríðindi sem kirkjan fær). Ekkert virðist bóla á þeirri heilbrigðu umræðu hvort og þá hvenær eigi að aðskilja ríki og kirkju. En hvernig má það vera?

Umræða hlýtur nú að spretta upp á sama tíma og við sjáum fram á að skerða verði þjónustu við aldraða, öryrkja og jafnvel alvarlega veika eða dauðvona ættingja. Hér er því kjörið tækifæri fyrir unga jafnaðarmenn að benda á lið sem hreinlega mætti þurrka út úr fjárlögum enda í samræmi við ályktun þeirra á landsþingi árið 2007. (Ekki er verra að mynda mætti breiðfylkingu ásamt ungu frjálshyggjufólki og ungum vinstri grænum til að þrýsta á þetta sjálfsagða mál).

Auðvitað munu spunameistarar ríkiskirkjunnar andmæla og benda á að tæplega 80% (sumir ennþá fastir í 90%) þjóðarinnar séu kristnir, en sú staðreynd segir ekki neitt um trúna eða ásókn í kirkjur, þar sem þau ótrúlegu lög eru ennþá við lýði að ómálga barn er skráð í trúfélag móður sinnar (en samkvæmt trúarlífskönnun frá árinu 2004 segjast í raun 69% telja sig trúaða). Mun nærtækara væri að kanna kirkjusókn landsmanna en um hana segir biskup Íslands að um 12% þjóðarinnar mæti nokkuð reglulega (og ekki eru þær tölur vanreiknaðar) – en samkvæmt trúarlífskönnuninni góðu frá 2004 fer 43% aldrei í kirkju og samtals 33,3% fara einu sinni til þrisvar á ári.

Samkvæmt Gallup könnun frá fyrri hluta ársins 2004 telur aðeins 8,1% þjóðarinnar að eftir dauðann rísi maðurinn upp til samfélags við guð (sem er grundvallaratriði í kristinni trú og punch-line-ið í hinni ólíklegu sögu Jesú) og minnihluti Íslendinga er kristinn samkvæmt skilgreiningu biskupsins (og ekki lýgur hann… humm?).

Er boðlegt að ríkið eyði 5-6 milljörðum á ári (plús ofurlaun presta og skattfríðindi) þegar að brot af þjóðinni nýtir sér þjónustuna þegar þessar tölur eru skoðaðar blákalt? Eða er kannski kominn tími á aðskilnað; þar sem kirkjugestir halda uppi sinni eigin kirkju og milljarðarnir fara í velferðarkerfið eða hreinlega í tóma vasa almennings? Ætli tæp 80% þjóðarinnar myndi halda sig í ,,þjóð”kirkjunni ef valið stæði milli hennar og beinharðra peninga í vasann? Varla!

Þegar við lítum í kringum okkur, á þjóðir sem við viljum bera okkur saman við blasir við aðskilnaður ríkis og kirkju. Hvort sem það er vestur í Bandaríkjunum eða í Evrópu þar sem þrjú af hverjum fjórum ríkjum hafa aðskilnað – ef við lítum á heiminn sem heild, á hið sama við. Meira að segja í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna og Júgóslavíu og í nokkrum ríkjum á vesturströnd Afríku þar sem múslimar eru í meirihluta ríkir aðskilnaður milli ríkis og trúarbragðanna. Ekki að það hafi nokkuð með minni trú að gera, þvert á móti má líta á Bandaríkin (kristni) og Tyrkland (múslimar) sem dæmi þar sem trú spilar stórt hlutverk í lífi stórs hluta þegnanna (ekki það heldur að aðskilnaður leiði til trúarofstækis eins og svo oft er haldið fram, það sanna fjölmörg önnur ríki Evrópu þar sem ríki og kirkja eru aðskilin).

Að taka mark á lýðræði?

Að lokum er rétt að vitna enn og aftur í trúarlífskönnunina frá árinu 2004 en þar kemur fram að sá hluti sem vill aðskilnað ríkis og kirkju er stærri en sá sem er andvígur henni – gaman væri að sjá hvað ný könnun vegna yfirvofandi niðurskurðar myndi segja um þetta eða hreinlega þjóðaratkvæðagreiðsla.
Góðærinu er lokið, niðurskurðurinn er hafinn, þar verður að vanda til verks og forgangsraða – hefur þjóðin enga rödd í því hvar skuli skera niður?

Þangað til getur þú sjálf(ur) stigið skrefið og skráð þig úr ,,þjóð”kirkjunni teljir þú skattpeningnum þínum sé betur varið í Háskóla Íslands (og ekki láta nokkurn mann ljúga þeirri mýtu að þér að peningarnir fari beint í guðfræðideildina).

Er ekki annars tími til kominn í þeirri uppbyggingu sem nú mun eiga sér stað, að hlustað sé á óskir landsmanna?

Með baráttukveðju til allra Íslendinga, jafnt trúaðra sem trúlausra, ykkar Bjarni Þór.

Heimildir

http://www.politik.is/ungir-jafnadarmenn/itarefni/stjornmalaalyktun-landsthings-ungra-jafnadarmanna-2007-seinni-hluti/ Sjá lið 8.10.

http://kirkjan.is/skjol/truarlif_islendinga_2004.pdf Sjá bls 26.

http://www.nat.is/Kirkjur/thjodkirkjan.htm

http://kirkjan.is/skjol/truarlif_islendinga_2004.pdf Sjá bls 56.

http://www.kirkjugardar.is/gallup/Gallup_truarlif.pdf Sjá bls 11.

http://www.vantru.is/2008/11/14/10.00/

http://kirkjan.is/skjol/truarlif_islendinga_2004.pdf Sjá bls 44.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

5-6milljarðar á ári, ég vill vita heildar brúttó töluna Bjarni (laun presta viðgerðir, bygging nýrra kirkja etc) nokkuð vissum að þessi tala sé miklu miklu stærri.

Þ ætti að vera efst á blaði að skera niður í þessum málaflokki. Við verðum að skera niður eins og mo-fo núna.. eru VG líklegir til þess? Ég tel það líklegra að VG þegar þeir loks komast í stjórn að útgjöldin muni aukast verulega. Sérstakl. í heilbrigðis og velferðarmálum (þrátt fyrir margar breytingar þar.. þar á meðal að rjúfa tekjutengingu við maka !!?!!).

ciao,
ivar

27 janúar, 2009 08:41  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Nú vill ég að styttan af eldspúandi Steingrími J. í Tjörninni verði að veruleika... ha!!! mannstu eftir henni?

Og á svo ekkert að fara mæta í ræktina. United í kvöld?

ciao,
ivar

27 janúar, 2009 14:38  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Ég nenni ekki að reikna þá tölu út, þú getur örugglega fundið allar samanlagðar tölur í fjárlögunum :)

Þessi komandi stjórn mun lítið gera, en varla minna né verra en sú sem var fyrir.

Styttan mun rísa, það er morgunljóst!

Ástarkveðja Bjarni Þór.

27 janúar, 2009 23:41  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim