miðvikudagur, janúar 21, 2009

The ,,Rafa”lution, will not be televised – Taka þrjú

Það er tómur misskilningur að ætla sem svo að almenningur hafi fjölmennt í bæinn til að mótmæla kröftuglega vegna þess að Alþingismenn voru að koma aftur ,,til vinnu” feitir og pattaralegir eftir jólafríið góða í gær á meðan Ísland hefur verið að brenna. Hvað þá að innblásinn ræða Obama hafi haft svo tilfinningaþrunginn áhrif á fólk að það hugsaði með sér ,,Nei! Nú er nóg komið – nú fer ég niður á Austurvöll með pott, sleif og mjólkurvörur - sletti skyri á lögreglumenn, lem þá með sleifum, brýt rúður, kveiki í trjám, rusli og bekkjum og linni ekki látum fyrr en einhver spreyjar mig í andlitið svo að ég geti farið í viðtal á RÚV eða verið handtekinn og látinn sitja í klofi annarrar stelpu í bílageymslu a la Guantanamo (sjaldan hefur ein byltingin verið eins sjónvarpsstýrð) svo að spekingarnir á Vefritinu getið tekist á um það hvort kalla megi skríl skríl fyrr en þeir kveikja í bíl - eða ekki ” Eða hvenær má annars byrja að kalla almenning skríl í ögunarsamfélagi Foucault? (Spyr fíflið ég í hæðnistón og með lúmsku Megasarglotti! Ætla ekki að blanda mér í þá ritdeilu.)
Nei ástæðan fyrir kröftugum mótmælum er allt önnur!

Mynd: Þjóðargjaldþroti á Íslandi mótmælt
Ástæðan fyrir tryllingi gærdagsins er sú að þetta var fyrsti dagur fyrir aðdáendur Liverpool til að beina reiði sinni í réttan farveg eftir að liðið þeirra klúðraði enn eina ferðina möguleikanum á því að verða Englandsmeistari – þ.e. í hugum þeirra sjálfra (ekki skoðun höfundar). Ég meina hver vill ekki grýta Alþingi og lögregluna þegar manni sjálfum er það ljóst? Hver ber ábyrgð á þessu annar en Kuyt?
Liverpool aðdáendur eru búnir að bíða lengur en andstæðingar frjálshyggjunnar á Íslandi að þeirra tími kæmi aftur og þeir héldu með alvöru liði á þeim tíma, ólíkt hugmyndafræði and-frjálshyggjumanna sem þá þurfti að klæða í frakka og kalla að lokum VG (eða eitthvað þaðan af verra) – sumir virðast reyndar hafa verið ofan í geymslu í þau tæpu 20 ár sem liðin eru síðan og hafa ekki getað sagt orð sem byrjar á ,,komm-” - fyrr en núna.

Mynd: Liverpool menn að fagna sigri
Ein helsta ástæðan fyrir því að mótmælin hafa verið á jafn siðsamlegum og penum nótum og þau hafa þó verið hingað til eru þau grundvallar PR - mistök mótmælenda og byltingarsinna að boða til laugardagsmótmæla klukkan 15:00 – á sama tíma og heil umferð fer yfirleitt fram í ensku knattspyrnunni. Færu þau fram klukkan 17:30 kæmu helmingi fleiri og stemmningin margfalt meiri; jákvæð eða neikvæð allt eftir gengi helstu stórliðanna. Bullurnar yrðu ekki lengi að mæta á pöbbinn niðri í bæ um hádegisleytið, drekka sig fullar af Carlsberg, horfa á leikinn og arka svo í bæinn til að öskra, syngja og beita löglegu ofbeldi vegna skorts á lýðræðislegu umboði stjórnvalda – draumadagur ekki satt?

Vilji mótmælendur raunverulega koma ríkisstjórninni frá væri ráð fyrir þá að hætta að skera á snúrur Stöðvar 2 og einbeita sér að sportstöðvunum tveim í eigu sama fyrirtækis. Þá væru mótmælendur reyndar á sinni eigin ábyrgð þegar knattspyrnubullur landsins mættu ölvaðar í ham til að mótmæla því að enski boltinn sé ekki lengur í boði. Þá fyrst yrðu rúður brotnar, söngvar sungnir, flautað í dómaraflautur, lögreglan tækluð – vörn þeirra brotin á bak aftur, spjöldum og flöggum veifað og alvöru knattspyrna spiluð í Landsbankanum – en þá mun líka byltingin strax éta sjónvarpsbörnin.

Mynd: Stuðningsmenn Rangers rústuðu miðborg Manchester
síðasta vor eftir að hafa tapað úrslitaleik þar í borg

Geti einhver lofað Liverpool aðdáendum enska meistaratitlinum í vor er sá sami með mannlega kjarnorkusprengju í fararteskinu! Kannski að Björgólfur gamli kaupi Liverpool? Að kaupa sér frelsi, er það ekki ennþá inn?
En hver veit kannski gerist allt saman loksins í vor. VG fá hreinan meirihluta og Liverpool vinnur þrefalt.

Jú nefer volk alón!

Með saklausri laufléttri ástarkveðju til samborgara minna, ykkar Bjarni Þór.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

nú þarft þú að fara láta sjá þig á þessi mótmæli. VG hreinan meirihluta.. slíta IMF láninu og einangra okkur að hætti N-Kóreu. Kannski væri það betra en ástandið er núna.. kannski myndi það róa háværustu raddirnar. Kannski eru líkurnar á því jafn miklar og Liverpool taki þrennuna.

Nú er nóg komið!!!!

xD hefur nánast gefið það út eftir 2mánuði af fundarstarfsemi að enga niðurstöðu er að sjá þegar kemur að ESB. Eins og Gísli Marteinn sagði sjáflur.. það verður talað vinarlega um ESB en ekkert verður aðhafst. Halda þessir menn að við séum algjör fífl. Það sé bara hægt að henda málunum í 3mánaða nefnd, undir fölsku flaggi bara til að velta vandamálinu á undan sér?

Hvað svo núna þegar krafan um nýjar kosningar verður háværari.. á kannski að setja það í 3mánaða nefnd líka til að geta loks tilkynnt að enga niðurstöðu er að fá?

Þetta kerfi er úr sér gengið... ný stjónarskrá, 3skipting valds, og framkv.valdið kosið beinni kosningu.. er það til of mikils mælts.

helvítis fucking fuck,
ivar

21 janúar, 2009 21:25  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þessi stjórn er allavegana dauð eins og fram kom í gærkvöldi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki sýnt nokkurn vilja til að gera neitt. Nú mun hann enn einu sinni saka Samfylkinguna um heigulshátt, en enginn mun hlusta á hann.

Það sem verra er fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að þetta gerist viku fyrir landsfund þar sem Sjálfstæðismenn virtust ætla að tóra fram að í lykilstöðu og leysa kannski einhver mál (hver veit). Nú virðist það fyrir bí og þá er spurning hvað flokkurinn gerir? Þarf hann ekki að fara í stólpípu - alvöru forystuhreinsun svo hann líti ekki út eins og bjáni með sömu forystu í stjórnarndstöðu, sem engin mun treysta í kosningum í vor.

En þó að maður hlæji kannski innra með sér varðandi þessa verðandi niðurstöðu... því hún brjálæðisleg sögulega séð fyrir stjórnmálafræðinga að þá er hún um leið ógnvekjandi.

Við erum engu betur stödd með VG í stjórn ef það verður niðurstaðan. Sá flokkur hefði ekki síður en allir hinir þurft á forystuhreinsun að halda. Ég meina hvernig á ríkisstjórn að ganga með Steingrím J. sem vill afþakka IMF lán og þar af leiðandi önnur lán annarra þjóða - hvernig á þá að leysa vandann? Sérstaklega ef að andstöðu gegn ESB verður einnig haldið á lofti.

Við þurfum nýja stjórnarskrá en fyrst og fremst nýtt fólk. Það verða engar breytingar þó að við kjósum beint ef að sama fólkið sækist eftir völdum. Bein kosning hefur t.d. ekki virkað sérstaklega vel í Bandaríkjunum sbr. Bush, plús það hversu spilltir þingmenn í Bandaríkjunum eru - það er helmingi meiri spilling þar meðal þingmanna en hér. Þar er nánast hver einasti þingmaður keyptur af stórfyrirtæki eða hagsmunaaðilum og fer ekki einu sinni leynt með það.

Það gildir það sama og sagt var í haust. Vilji fólk breytingar verður það að rústa flokkakerfinu innan frá - nýjir flokkar og ný nýtt kerfi gera afar takmarkað.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

22 janúar, 2009 04:22  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim