föstudagur, janúar 23, 2009

Sjúkt þjóðfélag?

Í ljósi nýjustu tíðinda af veikindum Geirs Haarde sem fer frá sem formaður (með kosningum 9.maí) er ekki vitlaust að birta hér pistil sem gleymdist í byrjun árs.

Á sama tíma og ráðist verður á velferðarkerfi Íslendinga í komandi niðurskurði vegna kreppunnar, er nýliðið sennilega það eftirminnilegasta ár þar sem krankleiki aðalgerenda hefur spilað veigamikið hlutverk.
Í að flestra mati góðu skaupi var sennilega eftirminnilegasta atriðið þegar Ólafur F. Magnússon birtist í ýktu ástandi, þar sem allt lék í lyndi hjá Tjarnarkvartettinum – ekki hló ég minna en aðrir. Hefði ég hlegið jafn mikið ef að umfjöllun um kreppuna hefði sýnt Ingibjörgu Sólrúnu með risastórt heilaæxli? Ef ekki, var hlátur minn tilkominn vegna ólíkra skoðanna minna á þessum tveimur stjórnmálamönnum, vegna pólitískra skoðana minna, vegna fordóma eða stigsmunar á því hvernig ég lít á þessi tvö mismunandi birtingarform veikinda eða er hreinlega annað fyndið og hitt ekki? Það er umhugsunarefni fyrir mig og aðra í sömu sporum, en skaupið gefur sennilega rétta mynd af þessum tveimur atburðarrásum sem mikið fór fyrir á síðasta ári – rifjum upp mismunandi viðbrögð við þeim.

Þegar Ólafur F. kom til baka úr veikindafríi sínu þar sem hann hafði þjáðst tímabundið af þunglyndi hömuðust fjölmiðlar, almenningur og ákveðnir flokkar á því hvort Ólafur F. væri hæfur sökum veikinda sinna til að sinna sínu starfi og gengu jafnvel svo langt að heimta að hann kæmi með vottorð um að hann væri heilbrigður og ekki fékk það mikla umfjöllun að þessir sömu aðilar óskuðu Ólafi velfarnaðar í starfi og með sína heilsu.
Allt annað hefur verið upp á teningnum með Ingibjörgu Sólrúnu. Hún var reyndar frá vegna aðgerðar í New York á meðan það versta gekk yfir hérlendis en eftir að hún kom til baka hellti hún sér að krafti í hringiðuna og fór ekki hátt sú umræða hvort hún væri hæf til að gegna sínu starfi vegna veikindanna, sem í ljós hefur komið að eru ekki á enda og Ingibjörg á leið til Stokkhólms í geislameðferð. Frá fyrsta degi hafa allir óskað henni góðs bata, réttilega en mér er spurn hvort hún hefði átt að sinna sjálfri sér betur og taka sér frí frá störfum meðan að hún var að ganga í gegnum sína erfiðleika.

En hver er ástæða þess að við höfum komið fram á ólíkan hátt við þessa tvo stjórnmálamenn? Lítum við ennþá á geðsjúkdóma með fordómafullum augum? Að geðsjúkdómar séu fremur bundnir persónunni en aðrir sjúkdómar s.s. æxli?
Að fólk veikist ekki af geðsjúkdómi heldur sé geðveikt á meðan að aðrir séu t.d. heilbrigðir en fái svo heilaæxli? Hvers vegna réðumst við á Ólaf F. og vantreystum vegna sjúkdómsgreiningar meðan við tiplum á tánum í kringum Ingibjörgu Sólrúnu? Er það kannski fremur bundið við persónur eða pólitískar skoðanir og ef svo er réttlætir það eitthvað? Með öðrum orðum, teljum við það réttlætanlegt að ráðast á einstakling sem hefur átt við andleg veikindi að stríða en ekki á þann sem hefur átt við líkamleg veikindi að stríða?

Af því að dæma að samfélagið meira eða minna linnti ekki látum fyrr en Ólafur F. fór frá má spyrja sig hvers vegna sú þögn ríkir varðandi Ingibjörgu Sólrúnu, sérstaklega í samfélagi sem þarf að byggja upp úr rústum og þar sem almenn krafa er um kosningar. Staðsetning Reykjarvíkurflugvallar eða nokkrir kofar á Laugavegi eru tittlingaskítur miðað við það sem við þurfum nú að takast á við og því ætti spurningin um það hvort að ráðamenn séu fullfærir til ákvarðanatöku að vera mun háværari en samt ríkir nú þögnin ein. En kannski eru þessar tvær raunverulegu dæmisögur einmitt til marks um það hversu sjúkt samfélag við höfum verið.

Ég óska Ingibjörgu Sólrúnu, Ólafi F. Magnússyni og landsmönnum öllum góðrar heilsu, við munum sannarlega öll þurfa á góðri heilsu að halda í þeim hremmingum sem framundan eru. Á sama tíma og sjaldan (jafnvel aldrei) hefur verið eins mikilvægt að við tryggjum gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónusutu fyrir þá sem þurfa á þessum erfiðu tímum, er rétt að minna okkur sjálf á að hlúa vel að þeim sem að okkur standa. Við getum nefninlega öll lent í því að fá geðræna kvilla einkum á umbrotatímum eins og þessum.

PS. Bónusspurning til hugleiðingar: Hver var nálgun samfélagsins á Davíð Oddsson undir lok hans pólitíska ferils þegar sögusagnir voru uppi um að hann væri andlega veikur og hvernig breyttist hún þegar í ljós kom að veikindin voru líkamleg?

Ástarkveðja Bjarni Þór Pétursson.

Efnisorð: ,

5 Ummæli:

Blogger Linda sagði...

Góður pistill hjá þér Bjarni og ærin ástæða til að velta þessum málum fyrir sér.

23 janúar, 2009 17:11  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Frábærar pælingar, þakka þér kærlega fyrir áminninguna !

BK

23 janúar, 2009 17:28  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Takk fyrir það, gott að minna sjálfan sig á þetta.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

23 janúar, 2009 22:31  
Anonymous Nafnlaus sagði...

já sammála loksins tekur þú þér frí frá isb umræðunni eða hvað sem þetta heitir hehehe, þetta er skemmtilegar pælingar í þessum pistli
kv bf

24 janúar, 2009 20:21  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Ég reyndi eins og ég gat að tengja þetta við ESB, en fann engan snertiflöt :)

Ástarkveðja Bjarni Þór.

25 janúar, 2009 05:27  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim