fimmtudagur, maí 28, 2009

Tímabilið

Tímabilinu hjá United lauk formlega í gær með sanngjörnu tapi í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í leik þar sem einungis eitt lið var á vellinum síðustu 80 mín eftir að Barca komst yfir. Að mestu er ekkert hægt að segja við þessu, staðreyndin er sú að Barcelona er með frábæra einstaklinga sem mynda frábært knattspyrnulið sem vann það einstaka afrek að taka þrennuna margumtöluðu sem afar fáum liðum hefur tekist. Sérfræðingar á Spáni höfðu skrifað margar greinar fyrir þennan leik um að þetta lið og árangur þess gerði það að verkum að það væri hið besta í sögu Barcelona – það eru ekki litlar yfirlýsingar og eftir leikinn í gær geta fáir mótmælt slíku.

Engu að síður var leikurinn í gær að hluta til úr karakter fyrir þetta tímabil hjá United; liðið lenti undir með marki þar sem Vidic og Carrick brugðust, komu aldrei til baka sem lið og fengu svo á sig annað dellumark þar sem Ferdinand klikkaði.
Hins vegar þrátt fyrir að tímabilið muni í framtíðinni líta ansi vel út á pappírnum; kláruðu Samfélagsskjöldinn, urðu Heimsmeistarar félagsliða, unnu Carling Cup, duttu út í undanúrslitum enska bikarsins í vítaspyrnukeppni með varalið, unnu deildina á hálfum hraða en náðu samt 90 stigum og töpuðu loks í úrslitum í Meistaradeildinni eftir að hafa verið taplausir þar í tvö ár, þá er þetta tímabil samt ekki nærum því eins gott knattspyrnulega séð og síðustu tvö tímabil.

Þegar horft er yfir leikmannahópinn og tímabilið í ár borið saman við það síðasta þá eru afar fáir leikmenn sem hafa átt betra tímabil núna en í fyrra. Vidic hefur verið betri heilt yfir, Giggs hefur verið betri (en var reyndar slakur í fyrra), Fletcher hefur fengið stærra hlutverk vegna meiðsla (var glimmrandi í vetur), það sama má segja um O´Shea sem stóð fyrir sínu eins langt og það nær, Johnny Evans var fínn og Rafael kom ferskur inn – þessi hópur manna segir ansi mikið um það hvað var í gangi á tímabilinu. Van der Sar er á pari og sama má segja um Park.
Þeir sem voru slakari voru Evra m.a. vegna meiðsla en var samt oft í algjöru rugli, Ferdinand vegna meiðsla, Rooney að hluta til vegna meiðsla, Ronaldo (aðallega vegna þess að árið í fyrra var rugl), Carrick að hluta til vegna meiðsla, Scholes gamall, Anderson vegna meiðsla, Nani (sem ásamt Anderson fóru í gegnum týpískt annars árs syndome), Tevez sem þrátt fyrir dálæti margra var oft í ruglinu, Berbatov sem var að mestu flopp og þá voru Neville (sem reyndar er sennilega búinn), Brown og Hargreaves meiddir nánast allt tímabilið.

Þessi listi yfir þá sem klikkuðu á þessu tímabili er líka fínn fyrir uppgjörið á leiknum. Það ætlast enginn til að O´Shea, Park eða Giggs (vegna aldurs) klári úrslitaleik í Meistaradeildinni fyrir United en það má gera meiri kröfur á Ferdinand, Carrick, Evra, Rooney, Tevez og Berbatov (þegar þeir komu inná) og svo Anderson (sem verður að eiga gott ár á næsta ári ætli hann sér að eiga feril hjá United). Ronaldo byrjaði vel en ekki er hægt að saka hann um slæman leik þegar hann er einn á toppnum og restin af liðinu að gera eitthvað sem fæst á skylt við fallega knattspyrnu.

Framhaldið er óráðið og auðvitað munu öll hin stóru liðin bæta við leikmannahópinn sinn en af ofangreindu er ég þó bjartsýnn. United fær nánast tvo nýja og reynda enska landsliðsmenn á kjöraldri inn í hópinn þegar Brown kemur inn og ef aðgerðirnar á Hargreaves hafa heppnast vel, með þá tvo og sama hóp væntanlega mínus Tevez þá sé ég ekki að margt þurfi að laga en Ferguson mun væntanlega kaupa markaskorara (örugglega gamlan ref, á meðan beðið er eftir að Macheda og Welbeck séu tilbúnir). Þá neita ég að trúa því að ofangreindir lykilmenn liðsins, nánast hver einasti þeirra verði ekki betri en þeir voru í ár – allir sóknarleikmennirnir brugðust og einungis sá ótrúlegi árangur að United hélt hreinu í 24 deildarleikjum af 38 varð til þess að liðið varð meistari. Þá finnst mér það borðleggjandi að Anderson og Nani séu að spila uppá framtíð sína hjá félaginu og verði því að sýna hvort eitthvað sé í þá spunnið.

Liðið er að mörgu leyti á næsta tímabili að spila gegn sögunni. Ekkert lið hefur þrisvar í röð farið í úrslit Meistaradeildarinnar og ekkert lið hefur sigrað ensku deildina fjórum sinnum í röð. En er einhver sem myndi veðja gegn því að þeir gerðu annað hvort (jafnvel bæði)?
Góðar líkur verða að teljast á því að Giggs, Neville og Scholes muni spila sitt síðasta ár á næsta tímabili, enginn mun sannfæra mig um það að hið óseðjandi hungur sem drifið hefur þá áfram í aðalliði United síðustu 15-20 ár muni hverfa í sumar haldi þeir áfram og þeir munu halda áfram að miðla reynslu sinni til þeirra sem eru að taka við – sama má reyndar segja um síðasta árið hjá Van der Sar. Þá eru ótaldir þrír kjarnar í United liðinu: Fyrst þeir sem eru að toppa núna og mynda vinnuhjartað í liðinu Ferdinand, Vidic, Carrick, Brown, Hargreaves, Evra og Park, í öðru lagi yngri leikmennirnir sem þekkja nánast ekkert annað en að vinna (þangað til í gær) Ronaldo, Rooney, Nani og Anderson (mögulega Tevez) og að lokum graða kynslóðin sem bankar á dyrnar og er farin að fá blóð á tennurnar (Carling Cup og Heimsmeistarakeppni félagsliða) Johnny Evans, Rafael, Fabio, Macheda, Welbeck, Possebon og Gibson. Af þessum fjórum ,,kynslóðum/hópum” myndi ég ekki skipta út einum þeirra fyrir nokkurn annað hjá hinum stóru liðunum þremur... mögulega yngstu kynslóðinni hjá Arsenal en reynslan af alvöru sigrum hjá ungu United mönnunum er ómetanleg.

Frammistaðan í úrslitaleiknum var á margan hátt óafsakanleg að hálfu United liðsins en mögulega er það ekki hið versta í heiminum að liðið upplifi að þetta tímabil hafi þrátt fyrir allt verið ófullnægjandi, til að viðhalda hungrinu - naflaskoðun leikmanna verður þá dýpri og sjaldan eru sannir meistarar eins hættulegir og eftir mikil vonbrigði. Ég sá viðtöl eftir leikinn í gær og það voru ekki viðtöl við bugaða leikmenn heldur leikmenn sem eru hungraðir í frekari árangur. Ég get lofað því að tímabilið 2009-2010 er þegar hafið í hugum leikmanna.

Fyrir þá sem efast, þá tek ég undir með Rudy.

Stormur í aðsigi?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

4 Ummæli:

Anonymous Hagnaðurinn sagði...

Fótboltapistill án þess að minnst sé á Liverpool - vonbrigði.

28 maí, 2009 16:51  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

... fyrirgefðu... uuu... en þess má einmitt geta að Liverpool datt útúr Meistaradeildinni, FA cup og Carling cup á undan hinum ensku stórliðunum....

...náði ég að redda þessu?

28 maí, 2009 17:06  
Blogger Biggie sagði...

Ég fór að pæla í þessu sama varðandi Gunners þar sem framtíðin er eiginlega eins og að lesa út úr abstrakt málverki. Hins vegar hef ég lesið mikið, og þá aðallega frá keppinautunum um 2.-3. sætið, um að þeir séu dauðadæmdir næstu árin. Ætli sömu menn myndu segja það sama ef að dæmið snerist við og liðið þeirra hefði tapað einum deildarleik eftir áramót og það með eintóm börn spilandi á miðjunni.

29 maí, 2009 19:12  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þetta verður spennandi sumar og næsta tímabil verður rosalegt. Wenger og Benitez gætu báðir farið (sjálfviljugir eða reknir) ef að hvorugt liðið vinnur titil.
Ferguson reynir að kreista út allt mögulegt þessi síðustu ár og Chelsea er óráðið.

Arsenal þarf hins vegar fyrst og fremst að fá meiðslagemlingana heila og bæta svo við sig tveimur reynsluboltum; miðvarðardurti og akkeri á miðjuna.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

30 maí, 2009 06:42  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim