föstudagur, júní 12, 2009

Áratugur - dagur sem skók Íslandssöguna

Ég tengi oftast árið 1999 við miklar breytingar í mínu lífi, það má jafnvel ganga svo langt að tala um Bjarna fyrir og eftir þetta ár. Ég áttaði mig á því hvaða veg ég ætlaði að ganga í lífinu, hætti við að verða íþróttafræðingur og ákvað að henda mér inn í félagsvísindin. Ég gerðist svo kræfur að stofna til sambanda við kvenfólk (yfirleitt mjög barnaleg að minni hálfu) og þroskaðist af löngu tímabærri refsingu á knattspyrnuvellinum... svona til að nefna eitthvað. Ekki voru síðri utanaðkomandi þættir, ber þar að nefna tvennt. Annars vegar vann United þrennuna góðu en að mínu mati gekk liðið þá í gegnum glerþakið og varð það heimsveldi sem það er enn í dag en ekki síðra var hið ævilanga ástarsamband sem nú hefur varað í áratug.

Ég er að sjálfsögðu að tala um fyrstu alvöru plötu frá bestu hljómsveit í heiminum, en platan Ágætis byrjun kom út á þessum degi árið 1999. Fyrir þann tíma hafði ég hlustað á hiphop, danstónlist og funk. Ég man eftir að hafa bölvað óstjórnlega mikið við það að hlusta á remix af laginu ,,Leit að lífi”sennilega sumarið áður, en svo breyttist allt. Ný battery var fyrsta lagið sem ég heyrði af plötunni og ég hreifst með. Ég fór svo með fríðum hópi manna að sjá GusGus í flugskýli 4 þann 20. febrúar 1999 og við náðum tveimur lögum með Sigur Rós, blossi kveiknaði. Síðar um vorið brast stíflan; ég lá uppi í rúmi inni í herberginu mínu í Fífuselinu góða og var að hlusta á funk þáttinn (hans Þossa) og skyndilega var hljómsveitin mætt í létt spjall. Eftir lauflétta kynningu voru lögin ,,Flugufrelsarinn” og svo ,,Viðrar vel til loftárása” frumflutt í útvarpi – ég gerði mér strax grein fyrir að um þáttaskil væri að ræða í mínu lífi (dramatískt?).
Ég man að ég var staddur inni í Hljómalind á afmælisdeginum mínum og horfði á Kidda sem kenndur var við búðina rífa upp pappakassa og selja mér gripinn góða, síðan þá hafa eintökin orðið þrjú hvort öðru slitnara eftir endalausa spilun. Síðan er liðinn áratugur og Sigur Rós hefur ekki enn stigið feilspor hvorki á sviði né í útgáfu á þremur öðrum breiðskífum og ýmsu öðru efni.
Enn þann dag í dag tengi ég flestar minningar áranna 1999-2002 við Sigur Rós t.a.m. ógleymanleg sumur á B4 ásamt Hagnaði, Keðjunni, Dauðanum, Óla Þóris, Bigga og fleiri góðum mönnum.

Það má blaðra margt um hljómsveitina og vera hástemmdur en best er auðvitað að leyfa tónlistinni að tala; AFO náði kjarnanum í hnotskurn þegar hann sagði: Það er einungis eitt sem Sigur Rós hefur umfram allar aðrar hljómsveitir í heiminum... að búa til betri tónlist.

Við hinir kinkum kolli brosandi og segjum: Attjúúúúú iiii aaa iii i í

Starálfur

Til hamingju með daginn!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

5 Ummæli:

Anonymous Ólafur Svarthöfðason sagði...

Til hamingju sömuleiðis vinur. Yndislegar minningar.

13 júní, 2009 16:34  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Góðar minningar og til hamingju aftur sömuleiðis. Nú er það niðurtal í Lakers sigur ;)

14 júní, 2009 16:25  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég verð að vera þér sammála...andlegur dauði minn og endurfæðing með þessari plötu, mikil þáttáskil. Svo dó ég aftur og endurfæddist við Megas en það er önnur saga, en ég veit að þú hefur gengið í gegnum það tímabil líka.

AFO

14 júní, 2009 17:47  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Hárrétt AFO!

15 júní, 2009 17:37  
Blogger Biggie sagði...

Massíft. Gleymi því ekki þegar þú og Haukur fenguð reglulega sáðlát yfir popplaginu sem var "ofspilað" í land rovernum (teipað af rás 2 útsendingunni frá tónleikunum í höllinni). Ég var allavega heilaþveginn með þessu og komst í raun þá fyrst almennilega á bragðið þó ég hafi áður dansað á línunni um hríð. Ekki versnaði það þegar Þórisson mætti með There and Then (Oasis) tónleikaupptöku á kassettu, þvílík klassík en það er önnur saga. Annars sakna ég hljómgæðanna í kassettunum... það nær enginn geisladiskur eða mp3 fæll að leika eftir rómantíska eiginleika þeirra.

15 júní, 2009 23:59  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim