föstudagur, maí 16, 2008

Stjórnmál - Knattspyrna - NBA og Sumarslagari

Stjórnmál: Það kemur fyrir að menn missa sig aðeins, þeir hafa staðið sig svo vel að þegar þeir ætla að toppa sjálfa sig og slá fallegasta ,,home-run" í sögu heimsins að þá hitta þeir ekki boltann en kylfan slæst þess í stað mjög fast í andlitið á þeim og þeir skyndilega vankaðir á hnjánum umkringdir hlátri.
Þannig er það með nýjasta video blogg Einars Más í Mannamáli sem átti að verða ótrúlega töff en niðurstaðan er hlægileg blanda af kommunisma og þjóðrembingi - sem aftur eru tvö hugtök sem menn ættu að leita til læknis með ef að eru byrjuð að grassera eins og illkynja æxli nálægt heilanum.
Þannig er það nefninlega með alþjóðavæðinguna vs sjálfstæðis-þjóðrembu-afdalabónda- Laxnesskjaftæði að ef að þú ert staðfastur á hinu síðarnefnda að þá getur þú í besta falli pakkað Bjarti í Sumarhúsum og öllum hinum hundleiðinlegu Laxness persónunum niður í kassa, keypt þér lítinn sveitabæ út á landi og lifað í sjálfbærum búskap án þess að vera í nokkrum tengslum við umheiminn... eða flutt til Norður-Kóreu. Það er fátt annað sem hægt er að gera, nema þá að muldra eitthvað ofan í bringuna og verða að aðhlátursefni því að Ísland mun aldrei draga sig út úr ,,alþjóðavæðingunni" eða Evrópusamvinnunni til að setja skítugan ullarpeysuklæddan brjóstkassann framan í umheiminn og segja ,,Ísland - jafn sjálfstætt og Norður-Kórea" meira að segja flest öll önnur kommunistaríki og VG hafa áttað sig á að í því felst enginn skynsemi og slíkt er óverjandi.
Mögulega hefur Einar verið of fastur í sinni eigin persónusköpun, sínum óraunveruleika og annarra eins og Laxness og gleymt því hvernig efnahagsástandið og ástandið almennt var á fiskibollu og bjúgna tímabili níunda áratugsins fyrir tíma EES og fall Berlínarmúrsins... þá voru menn alveg ofboðslega Sjálfstæðir.
Nútíminn hefur ekki aðeins hafnað orðum Bjarts í Sumarhúsum um að Sjálfstæði sé betra en kjöt heldur beinlínis mest allri hugmyndafræði Bjarts og þess sem skapaði hann. Nútíminn og þá einkum nútíminn innan smáríkja (á borð við Ísland) hefur áttað sig á því að alþjóðleg samvinna er algjört möst þó að til komi tímabundin skerðing á fullveldinu (eins og gerst hefur með EES) - það er betra að taka þátt í lífinu og takast á við hindranir en að læsa sig inni í þröngu myrkvuðu bómullarherbergi tómleikans og fáfræðinnar og vera þar í eymd sinni sjálfstæður.
Í rauninni má þó segja að sjálfstæðið og þó einkum frelsið (sem Einar efast um) hafi aldrei verið meira fyrir Ísland og Íslendinga og þegar uppi er staðið þá er það einmitt aðalatriðið - að hver einasti Íslendingur sem sjálfstæður og fullvalda einstaklingur hefur aldrei verið jafn sjálfstæður, jafn frjáls og átt jafn mikil tækifæri og akkúrat á þessu augnabliki; fátt virðist geta stöðvað hann - en svo víð hugsun virðist ekki hafa verið til staðar hjá Bjarti og slík þröngsýni virðist því miður hrjá menn enn. Ég vil biðja slíka menn um að læsa sjálfa sig í þrældóm fortíðar en láta okkur hin sem viljum nýta tækifæri nútímans í friði í stað þess að fokka þessu upp!!
Heimskur er sá sem heima situr og heldur í fáfræði sinni að heima sé best... og að íslenskar landbúnaðarafurðir séu bestar... og að ekkert jafnist á við íslenskan mat... og að íslenska vatnið sé hreinast... og að þorramatur sé frábær... og að íslensk menning sé yfirburða á heimsmælikvarða... og að Þingvellir séu merkilegur staður... og að Íslandssagan sé merkileg... og... og... og...
Þannig gæti nútímauppfærsla á gömlum spakmælum orðið svo: Takið bændurna og þjóðremburnar burt og fólkið mun fagna - takið alþjóðasinnana burt og heimur þess mun hrynja.

Knattspyrna: Fór á völlinn í gær og sá mitt ástkæra félag leggja lið HK. Það var undarleg stemmning, í fyrsta lagi var góð stemmning meðal áhorfenda.. eitthvað sem mun taka tíma að venjast og auk þess var Fram liðið ótrúlega massíft, barðist vel og spilaði beinskeyttan bolta - stundum hálofta en einnig stungusendingar; og svo þegar að liðið missti boltann að þá var pressað... svolítil Liverpool lykt af þessu. Mótherjarnir voru reyndar ótrúlega daprir, en engu að síður eru 6 stig eftir tvo leiki og markatalan 5-0 sannarlega eitthvað sem má byggja á.

Knattspyrna: Það er ótrúlega gaman að fylgjast með slúðurpressunni á þessum árstíma og það virðist ekki ætla að verða undantekning þar á. Ég held að allir leikmenn Liverpool hafi verið orðaðir við önnur lið og að nánast allir leikmenn í öðrum löndum hafi verið orðaðir við liðið - sérstaklega á Spáni þar sem menn mega ekki hafa reimt á sig takkaskó öðruvísi en að vera á leiðinni á Anfield. Ronaldo er auðvitað orðaður við Real og þá er stutt í að Gerrard verði orðaður við Chelsea (sem einnig eru sagðir ætla að gera 100 milljóna punda tilboð í Torres) og svo er það auðvitað Fabregas til Barca og Drogba burt frá Chelsea. En þetta hressir!!!

NBA: ,,Aldrei vanmeta hjarta meistaranna" sagði Rudy Tomjanovich eftir að Rockets lönduðu öðrum titli í röð, það sama má segja um Spurs liðið sem var að jafna einvígið gegn Hornets og tryggðu sér þar með sjöunda leikinn. Í gær steig Lakers skref í átt að því að mæta öðru hvoru þessara liða í úrslitum Vesturdeildarinnar með því að sigra Utah og leiða nú einvígið 3-2. Hinu megin er Detroit komið áfram og sennilega munu Celtics hafa Cavs af. Þannig að þetta verður rosaleg úrslitarimma hvernig sem þetta fer.

Tónlist: Tékkið á þessu DJ Sneak remixi af gamla Eddy Grant slagaranum ,,Electric Avenue". Ef þetta er ekki sumar þá veit ég ekki hvað.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , ,

1 Ummæli:

Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þórlindur Kjartansson kemur örlítið inn á Evrópusamvinnuna í eftirfarandi grein:

http://deiglan.com/index.php?itemid=12018

16 maí, 2008 07:33  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim