föstudagur, nóvember 03, 2006

Feminískt Fréttablað?

Eru feministar að ná undirtökum á Fréttablaðinu? Að slíku hlýtur maður að spyrja sig eftir lestur blaðsins í dag (föstudag). Fimm klausur í dag eru ekki fréttir og tvær af þeim um sama mál. Lítum nánar á þetta.

1. Strax á bls 2 snýst spurning dagsins um feminisma. Spurt er ,,Ríkir karlaveldi innan nemendafélaga framhaldsskólans?" Hanna B. Vilhjálmsdóttir svarar þessu játandi enda nýbúin að skrifa MA-ritgerð um þetta efni. Ha? Já þið lásuð rétt MA-ritgerð. Þetta sýnir það sem ég hef oft bent á áður, konur eru mun uppteknari af sjálfum sér en við karlarnir og kynjamunur er þráhyggja. Hvers vegna í ósköpunum að skrifa MA-ritgerð um þetta? Hvaða máli skiptir það þótt að drengir gegni formennsku í 3 af hverjum 4 skólum? Er það þeim að kenna? Þvílíkt innantómt blaður.

2.Á bls 4 er annað kjánamál. Þar sannar Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir að það er ekki bara gott fólk í Samfylkingunni - heldur einnig kjánar (það skal tekið fram að þetta er ekki Bryndís Hlöðversdóttir fyrrverandi alþingismaður). Hugmyndin er sú, og komin frá Mannréttindarnefnd Reykjavíkurborgar að á fimm umferðarljósum hér í bæ sýni gangbrautarljós konu en ekki karl. Skilaboð táknmynda geta haft áhrif á viðhorf fólks og upplifun af samfélagi sínu. JESUS!!!
Með þessu eru þær auðvitað að sýna ójafnrétti sem var ekki áður til staðar, þar sem fólk leit ekki á grænakallinn né rauða sem tákn karlmanns. Núna hafa þær hins vegar aðgreint þetta og með því búið til ójafnrétti - af hverju ættu að vera færri konur en karlar? Þetta minnir á ófrumlegheitin þegar einhver listakelling setti í umferð bleikar 100kellingar í stað 100kalla, sem er örugglega svipað kjánalegt og að samþykkja gjörning þar sem pissað er yfir þig. Ætlum við að fara í endalausa svona jafnréttisleiki? Ef svo er ætti Fjallkonan á 17.júní t.d. að vera annað hvort ár karlmaður? Við þyrftum auk þess að skiptast á árlega að segja Móðir Jörð og Faðir jörð - sem gæti þó hugsanlega orðið til þess að einhverir færu að koma betur fram við náttúruna en þeir gera nú o.s.frv. Niðurstaða: Barnaleg hugmynd og ótrúlegt að heilt ráð hafi ákveðið að senda hana til borgarráðs. En við hverju bjóst maður, þetta er sama ráð og vildi láta banna Orkuveitu auglýsinguna því þar væri konum sýnd óvirðing. Legg ég til að þetta ráð verði lagt niður hafi það ekkert þarfara að gera í mannréttindamálum en að skvetta skít á sjálft sig og hafa þennan merka málaflokk að fífli.

3. Á bls 6 er svo þessi frétt sem einu sinni kom árlega en birtist nú í það minnsta mánaðarlega. Um kynbundinn launamun. Nú vil ég taka það fram áður en ég tala um þessa frétt að ég er auðvitað sammála því að fólk eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu óháð kyni, ég hins vegar skil líka vel sjónarmið þeirra sem eiga fyrirtæki að ráða ekki unga konu á barneignaraldri í stjórnunnarstöðu því það kostar pening og ekki síður er það vesen að ráða tímabundið í starfið þegar viðkomandi ákveður að eignast barn.
Nú að þessari klausu, alltaf er fyrirsögnin sú sama. Tekin talan sem skilur kynin mest að, í stað þess að bera saman sambærileg dæmi. Það gerir sér hver maður grein fyrir því að karlmenn vinna meira og hafa hingað til ráðið sig frekar í vel launuð störf en konur.
Hvernig hefðu viðbrögð feminista verið ef að fyrsögnin hefði verið ,,Karlmenn vinna meira, eru undir meira álagi og deyja því fyrr"?

4-5. Á bls 16 og 18 er svo spurt út í sama málið, er varðar launamun milli karla og kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu. Annars vegar er talað við Andreu Ólafsdóttur feminista og hins vegar áður nefnda (umferðarkellingaljóskonu) Bryndísi Hlöðversdóttur. Eru þær sammála um að þetta geti ekki liðist en þó gengur Andrea lengra og vill ð stjórn KSÍ segi af sér. Rök hennar eru að þetta brjóti í bága við jafnréttislög og stjórnarskrá og auk þess eyði konur jafn miklum tíma og orku eins og karlarnir og ættu því að fá sömu laun. Bryndís segir að ekki sé hægt að beita þeim rökum að meiri tekjur fáist af karlaboltanum enda fái hann meiri umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum. Stöð 2 bar svo í gær saman stöðu landsliðanna á styrkleikalista FIFA þar sem karlaliðið var í 95.sæti en kvennaliðið en kvennaliið í 26.sæti (að mig minnir).
Í fyrsta lagi áður en ég fer að gagnrýna þessa rökleysu, vil ég taka fram að ég er algjörlega mótfallinn því að nokkur fái greitt fyrir að spila landsleiki. Annars vegar vegna þess að hver leikmaður á að vera stoltur af því að leika fyrir þjóð sína og hins vegar hefur ríkið, sveitafélög og flest fyrirtæki í landinu gefið leikmönnum landsliðanna frí á launum þegar keppt er erlendis - í þeim fáu undantekningartilvikum sem svo væri ekki, gæti KSÍ greitt leikmanni launamissi.
Sé það hins vegar svo að laun séu greidd þá vil ég mótmæla eftirfarandi:
A) Rök Stöðvar 2 eru fáránleg. Í fyrsta lagi vegna þess að það eru mun færri kvennalið en karlalið, peningar í íþróttum snúast ekki endilega um árangur (þó að það sé oftast þannig) heldur áhorf, tekjur og fleira - t.d. fékk Mike Tyson meiri pening fyrir að berjast gegn einhverjum ræflum undir lok ferils síns en margir miklu betri heimsmeistarar fengu fyrir sín heimsmeistareinvígi, ástæðan var miklu meiri áhugi fyrir Tyson en hinum hnefaleikaköppunum, annað dæmi er að David Beckham er einn launahæsti knattspyrnumaður í heimi og með margfalt hærri laun en t.d. Rooney og Ronaldo til saman hjá Manchester, samt efast engin um þeir Manchester bræður eru hæfileikaríkari, þriðja dæmið er svo af landsliðum, einu sæti fyrir ofan Ísland er Malavi - af hverju fá leikmenn Malavi margfalt lægri laun en leikmenn íslands þrátt fyrir að vera betri? Fjórða dæmið, einhvern tímann fyrir þónokkrum árum átti sér stað æfingaleikur á milli 3.flokks karla hjá Fram og Kvennalandsliðsins íslenska, sem endaði með því að við unnum leikinn að mig minnir 14-0 frekar en 14-1. Af hverju fengum við ekki jafn há laun og kvennalandsliðið og það sem meira er, meiri umfjöllun. Það eru betri rök fyrir því en öllu öðru, ef að það væri góð umfjöllun fjölmiðla af íslenskum unglingaflokkum drengja myndi það auka líkurnar á því að erlend stórlið myndu fjárfesta í hæfileikum þeirra með tilheyrandi tekjum til leikmanna og í þjóðarbúið - yfir slíkum peningum býr alþjóðleg kvennaknattspyrna ekki sökum áhugaleysis almennings.
B) Rök Bryndísar halda ekki, því að hér gilda sömu lögmál og með aðra vinnu, hvað hefur starfsmaður fram að færa til fyrirtækisins. Það væri réttara að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að leggja niður kvennalandsliðið ef að það stendur ekki undir sér! Umfjöllun og kynning fjölmiðla og þar með fjármagn stjórnast af áhuga. Hefði kannski heimsmeistaraliðið okkar í Bridds átt að fá meira fjármagn frá ÍSÍ en knattspyrnan af því að þeir urðu heimsmeistarar en ekki knattspyrnuliðið, nei þetta eru steypurök!
C)Rök Andreu eru ekki betri, þegar talað er um kvenna knattspyrnu og svo aftur karla knattspynu þá er ekki verið að tala um sama hlutinn og því ekki launamisrétti. Það eru bara allt önnur gæði, með sömu rökum hefði ég getað farið fram á jafn há laun og Henry hjá Arsenal, við værum jú í sömu vinnu. Þar með er ekki hægt að skýla sér á bakvið jafnréttislög og stjórnarskrá. Það er því fáránlegt að ætlast til að stjórn KSÍ segi af sér og lokarök hennar um að fótboltakonur eyði sömu orku og tíma standast ekki af tvennum ástæðum. Annars vegar vegna þess að konur eyða ekki jafn miklum tíma og orku eins og atvinnumennirnir okkar á Englandi, Spáni og hvar þeir allir eru og hins vegar fellur Andrea í sömu gryfju og Marx gerði forðum. Tilbúið dæmi: Ég og Bob Dylan hitumst og ákveðum að setjast saman niður og eyða jafn mikilli orku og tíma í að semja lag, eftir þrjá klukkutíma hittumst við aftur og ákveðum að gefa afraksturin út - en fáum við sömu laun fyrir sömu eyðslu í orku og tíma... ég væri vel settur ef að svo væri!

Jæja nenni ekki að eyða meiri tíma né orku í að hakka þetta pakk!

Að lokum: Andri Fannar á heiðurinn að þessu Freudian slip frá fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Það er greinilega eitthver þema tharna í gangi hjá fréttablaðinu.

04 nóvember, 2006 20:28  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég hef ekki verið svona sammála einum manni síðan Ólafur Ragnar Grímsson tók þá ákvörðun að hætta i stjórnmálum.

06 nóvember, 2006 10:08  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Það minnir mig á gamla línu úr rapplagi...

,,Ég er kallaður Rappari Rímsson
og er virtari á Íslandi heldur en
Ólafur Ragnar Grímsson"

... það kemur kannski ekki á óvart en þetta lag var aldrei gefið út.

06 nóvember, 2006 18:05  
Anonymous Nafnlaus sagði...

he he he!

08 nóvember, 2006 01:51  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim