föstudagur, mars 09, 2007

Brot úr vordegi við Austurvöll (Óður til vorsins)

Það er heiðskýr himinn og halla tekur degi
við Austurvöll og Megas verður á mínum vegi
sem getur ekki boðað annað en ,,gott kvöld”
það er ef að andinn hefur ennþá hér nokkur völd.

Og þarna má sjá Bjarna biðja fólk misvinsamlega að kaupa ljóð
og Dómskirkjuklukkurnar hringja fyrir grasins fegurstu og léttklæddustu fljóð
til að minna þau á að brátt fer að skyggja á þau og Jón
og til að gleðja eldra fólk með sínum allra fegursta tón
og þau suða saman flugurnar og sóparnir sem taka upp sandinn
og vestfirskur þingmaður spyr róna ,,Hvernig bragðast landinn?”.

Það er ekki annað hægt en að elska þessa fögru veröld á meðan hún varir
og meira segja Meistarinn tekur ,,Spáðu í mig” og fólkið á hann hissa starir
þar sem hann stendur á svölum Alþingishúsins einn með gítarinn alsgáður
og það má greina hvert orð og í laginu er heill þráður
og undir taka ungir sem aldnir - jafnvel einn erlendur fáráður.

Gleðin hún saklaus leikur og það losnar um hömlur vanafastra manna
og margar hrakfallaspár um mannkynið með því þeir sjálfir afsanna
og brátt liggur jafnvel Björgólfur teinóttur með unga fólkinu í döggvotu grasinu
og virðist gefa skít í það þó að hann þurfi líkt og aðrir að drekka úr sama glasinu
það leikur léttur vorvindur um hár viðstaddra og gítarinn er látinn ganga í hringi
og Geir H. Haarde tekur ,,With God on our side” og slítur svo vorþingi.

En þrátt fyrir allt situr Gunnar Dal,
Kóngurinn á Cafe París ennþá inni með tár á hvarmi,
brosir og segir ,,og nú ert þú komið, nýja vor
og ljósið í augum þínum mun leiða okkur áfram"
og ég bæti við: ,,...þangað sem raddir morgunsins hljóma”

-Daði

Efnisorð: ,

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim