miðvikudagur, janúar 09, 2008

Ástarævintýri

Í gegnum tíðina hef ég átt í allskyns heilbrigðum platónskum ástarsamböndum við ofurhetjur eins og aðrir drengir. Allt frá ofureinfeldni æskunnar til núverandi ,,fullorðinsára". Einfeldni æskunnar fólst í baráttu hins góða gegn hinu illa - Batman, Superman og Zorro til að nefna dæmi og svo var það auðvitað Hulk (hvernig svo sem maður á að greina þá veru). Með aldrinum hafa þessar ofurhetjur þó orðið mannlegri og partur af raunveruleikanum, bæði út frá tónlist en ekki síður knattspyrnu og hér gæti upptalninginn orðið þreytandi en ég nefni þó nöfn - Marley, Magic, Cantona, Keane, Dylan, Cohen o.s.frv.
Knattspyrnu- og tónlistarhetjurnar eru enn á sínum stað en skáldsagnarpersónurnar eru farnar að sækja aftur á - en ekki í formi bókalesturs eins og ætla mætti meðal þroskaðra einstaklinga, heldur í formi þáttaraða (afturhvarf til æskunnar mætti segja).
Ólíkt hetjum æskunnar, bregða þessir menn sér ekki í beinlínis í búning og skilin milli hins góða og illa hafa orðið óljósari ef þau eru einhver. Ég held að þetta hafi hafist með Jack Bauer og þáttaröðinni 24 sem hófst 2001 með snilldar seríu (sennilega bestu debut seríu sem ég hef séð) sem varð áhugaverð fyrst og fremst í gegnum raunveruleikann vegna eftirmála 11.september og pólitískra og siðferðilegra afleiðinga sem sá dagur hafði. AFO var svo góður að benda mér á stór fína grein eftir Zizek sem tengir einmitt þá punkta og ég hef eflaust bent á áður.
Ég hef hins vegar eignast nýja ofurhetju sem ég vil meina að sé orðin mín ,,all time" uppáhalds og það er Dexter Morgan aðalpersóna framhaldsþáttanna sem heita því frumlega nafni ,,Dexter". Ég horfði á season 1 í fyrra og varð skotinn í þessari persónu - vitandi það að önnur sería myndi ráða úrslitum og nú er það staðreynd. Eftir að hafa á rúmlega tveimur sólarhringum klárað þessa seríu tvö þá er ég ástfanginn. Ég skora á hvern þann sem ekki hefur séð þættina um Dexter en hefur gaman að framhaldsþáttum á borð við 24; hefur gaman af ofurhetjum (það er þó aukaatriði); hefur gaman af alvöru persónusköpun, kaldhæðni og mannlegu eðli; hefur gaman að sálfræði eða sálgreiningu eða hvoru tveggja að kynna sér þessa snilldarþætti sem fjalla um óljós skil milli hins illa og góða og þær siðferðilegu spurningar sem við svo alltof sjaldan veltum fyrir okkur í okkar daglega lífi raunveruleikans. Fyrst og fremst fjallar Dexter þó um baráttuna, togstreituna og þroska aðalpersónunnar og trauma hans í æsku, sem verður sökum þess að hann er fjöldamorðingi að komast sjálfur að því hver hann er án aðstoðar. Ég vil halda því fram að aldrei hafi sjónvarpsþáttur farið svo djúpt í persónusköpun og raun ber vitni með Dexter og því ber að fagna í gerviveröld fullri af one-linerum og dósahlátri.
Þið ykkar sem eruð óspjölluð af Dexter áhorfi segji ég hreinlega: Til hamingju, þið eigið yndislega sjúklega för framundan.


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim