þriðjudagur, júlí 01, 2008

Tónlist - Bækur - Kvikmyndir - Trú - Knattspyrna - Golf...laaaaaangt Punktablogg

Fyrst og fremst: Því ber að fagna að í dag höfum við Arna náð þeim áfanga að hafa slegið okkur saman í þrjú ár og ástin blómstrar sem aldrei fyrr. Held að það sé viðeigandi að fólk fái sér pizzu og kyssist öllum stundum í tilefni dagsins.

Golf (blogg bestu bloggin?): Ég gerðist svo kræfur að taka þátt í golfmóti á laugardaginn var. Þar lagði ég undir mannorð mitt þar sem ég veðjaði við Tómas um að ef að ég tapaði fyrir honum á þessu móti að þá myndi ég ganga í Feministafélagið og mæta á fund þar. Blessunarlega var ég dreginn með Adda sem dróg mig að landi og þegar upp var staðið varð ég ekki að standa við stóru orðin þar sem við Addi komum út á sama höggfjölda og Tómas og Ívar - jafntefli niðurstaðan, svekkjandi fyrir báða aðila en þó aðallega fyrir Tómas eða eins og kaninn segir:,,jafntefli er eins og að kyssa systur sína".

Knattspyrna: Það var sigur knattspyrnunnar að Spánn skyldi sigra Þýskaland en annars fannst mér þessi úrslitaleikur slappur og hugsaði örugglega á hverri einustu mínútu hvað þessi leikur hefði verið skemmtilegur ef að annað hvort Portúgal eða Holland hefðu verið í úrslitum gegn Spánverjum - en það er vonandi að þeir hjá Real missi núna einbeitinguna (og saur) og reyni að næla sér í Torres fremur en Ronaldo. En það er sem sagt komið að því, núna verður beljunum sleppt út og slúðurpressan fer á fullt... þeir sem bíða spenntir ættu að fylgjast vel með á Slúðurvaktinni.

Tónleikar: Ég verð að vera sammála Hagnaðinum og lýsa yfir vonbrigðum með tónleikana. Hljóðkerfið var gjörsamlega í ruglinu á meðan Sigur Rós spilaði en var svo mjög fínt þegar að Björk spilaði (eins og það hafði raunar verið dagana fyrir þegar ég var oft vakinn með ógeðfelldu FM soundtékki). Kvöldið var hins vegar fínt, fjöldinn allur af fólki lét sjá sig á Laugarásvegi (þó að margra hafi verið saknað) og þökkum við öllum fyrir komuna. Að því loknu ruddust hinir hörðustu úr hópnum inn í tvö önnur partý og kvöldið endaði loks á Devitos. Heilt yfir góður dagur þrátt fyrir smá tónlistar vonbrigði (sem urðu að von, þetta er...).

Kvikmyndir: Horfði á fínustu heimildarmynd sem ber titilinn ,,Lake of fire" og fjallar um fóstureyðingar frá báðum hliðum. Ég hélt reyndar að myndin væri betri og spannaði lengra tímabil, en þarna voru þó áhugaverð sjónarmið og óhugnanlegar myndir - þó voru það eins og alltaf hinir öfgafullu evangelistar sem stálu senunni með fáránlegum Biblíu málflutningi og almennum öfgaskap og að mörgu leyti gaf þessi mynd betri innsýn inn í þann heim en fræðilega átakapunkta á þessari umræðu sem mér fannst að hefði átt að vera mun meira aðalatriði en raun bar vitni í myndinni.
Næst á dagskrá er svo margumtalaða heimildarmyndin Deliver us from Evil, sem fjallar um kaþólskan prest sem svo ,,skemmtilega" vill til að var líka líkamlegur barnaníðingur í starfi og nýddist á fjölda barna um margra ára skeið en einnig fjallar myndin um yfirhylmingu kaþólsku kirkjunnar og hvernig hann var einungis fluttur á milli prestembætta þegar upp komst um hvert málið á fætur öðru. Getur annars einhver mælt hér með góðri kvikmynd?

Trú: Ef stórgóð grein Vísindasagnfræðingsins Steindórs Erlingssonar í Lesbók Morgunblaðsins hefur farið framhjá einhverjum þá er hún hér: Heimsendavandi Kristni.

Bækur: Hér á næturvaktinni átti sér stað skemmtilegt atvik, skyndilega varð allt rafmagnslaust og stóð það rafmagnsleysi frá kl.01:00 - 06:00 og því hvorki um internet rjáf, né möguleiki á allskyns sjónvarpsglápi. Þess í stað sat ég í myrkrinu og las Samfélagssáttmálann eftir Rousseau við kertaljós allt svo mjög rómantískt að undanskyldu geðveiku pípi (a la hjartalínuritsvél) frá brunaviðvörunarkerfinu sem ekki var hægt að slökkva á. Bókina ætla ég að klára næstu nótt og smella mér beint yfir í Samræður um trúarbrögðin eftir David Hume. Er einhver sem mælir með öðrum lærdómsritum... að undanskyldri Óraplágunni og Frelsinu?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , , , , ,

8 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég sá Reign on me um daginn. Fannst hún góð.
http://www.imdb.com/title/tt0490204/

Er núna að lesa Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson. Kommúnistaáróður af bestu gerð.

01 júlí, 2008 12:06  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Takk. Ég tékka á þessari, þrátt fyrir að hafa algjört ofnæmi fyrir Sandler.

Er búinn að lesa Bréf til Láru og þótti góð þrátt fyrir ,,áróðurinn".

01 júlí, 2008 15:24  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Reign On Me er fín. Svo mæli ég með The Happening, ég vara þó við því að leikurinn er afspyrnu slakur (vísvitandi) og söguþráðurinn er bull en fyrir utan það vel gerð mynd og hún er svolítið öðruvísi og ekki skemmdu fyrir nokkur afar súr sjálfsmorð.

Kveðja, KD (þurfum að taka fund bráðlega ;)

01 júlí, 2008 16:43  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Þakka fyrir það. Fundur við fyrsta tækifæri, þú ert líka ávallt velkominn - hringdu bara á undan þér.

Kveðja Bjarni Þór

01 júlí, 2008 22:52  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég mæli með Jean Paul Sarte bókinni sem ég man ekki alveg hvað heitir í núinu.

Fjallar um frelsi og ábyrgð í stuttu máli.

Sá nýlega myndina In Bruges með versta leikara samtímans, Colin Farrel, en viti menn, hún var bara fín.

Bank job með Jason Stratham var jafnvel betri en hin stórgóða Crank með sama leikara.

Eastern promises var náttúrlega besta myndin á síðasta ári.

Viltu vinna milljarð er fínasta afþreyingarbók.

Eins las ég söguna ,,Háskaför” í Andrésblaði í gær. Átakanleg saga um einstæðan föður sem lendir í ævintýrum ásamt þremur sonum sínum.

02 júlí, 2008 10:37  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Gaman að sjá Keðjuna drössla sér hingað inn með tilheyrandi látum :)

Ég ætla að reyna að finna þessa bók eftir Sarte.

Tek undir það að Bank Job var fín en þarf að komast yfir eintak af In Bruges og eins Eastern Promises.

Ég er hins vegar lítið fyrir dramatískar skáldsögur og því læt ég vera að lesa um ævintýri þessara feðga frá Andabæ :)

Kveðja Bjarni Þór.

PS. Þú ert svo boðaður í sjálfboðavinnuviðtal bráðlega.

02 júlí, 2008 23:05  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Sjálfboðavinnuviðtal segiru. Orðin sjálfboða og vinna hljóma frekar illa, en viðtal er fínt orð.

Ergo:
Sjálfboðavinnuviðtal er að 2/3 hluta vont orð en að 1/3 hluta gott orð.

Lokaorð
Þetta er hins vegar sjaldgjæft og spennandi orð. Því bíð ég spenntur eftir því að vita hvað sjálfboðavinnuviðtal ber með sér.

PS. Er í sumarfríi. Endilega drekkum kaffi og kakó saman við tækifæri.

03 júlí, 2008 02:00  
Blogger Sólskinsfífl nútímans sagði...

Já, endilega. Er á næturvaktartörn eins og stendur en ætti að vera samræðuhæfur eftir klukkan 16:00, láttu í þér heyra.

Kveðja Bjarni Þór.

03 júlí, 2008 03:12  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim