Andri Snær Magnason er stórkostlegur penni og tekur hlutverk sitt sem upplýstur borgari alvarlega - við hinum getum þakkað honum fyrir það. Þegar rætt er um umhverfismál, gjammar fólk hvert ofan í annað uns Andri Snær birtist með sínar staðreyndir, sín rök, sinn fallega stíl og hrífur fólk með - Andri Snær er karlmaður.
Í nýjasta pistli sínum ,,
Í landi hinna klikkuðu karlmanna" lýsir höfundurinn með sinni alkunnu snilld frá meginatriðum síðustu ára í umhverfis og orkumálum, hversu kjánalega við lítum út í augum útlendinga og hvernig villtustu draumar orkuútrásarsinna hljóma fáránlega þegar þeir eru settir í samhengi við bankahrunið sem enn virðist ekki sjá fyrir endan á. Niðurstaðan: Hvernig gat fámenn þjóð sem á nóg af allskyns auðlindum og hefur hátt menntastig verið svona heimsk (og illa sett í augnablikinu).
Við slíka gagnrýni og beiðni um djúpa sjálfskoðun þjóðarinnar er ekkert að athuga. Slíkt er hreinlega fagnaðarefni - hins vegar er hægt að efast um að heiti pistilins og gegnumgangandi plammeringar Andra á kynbræður sína standist ítarlega gagnrýni.
Þegar litið er til fortíðar má vissulega benda á að þeir sem gengið hafa hve harðast fram og átt stærstu virkjanadraumanna/martraðirnar hafa að megninu til verið karlmenn í góðum stöðum þar sem miklir eiginhagsmunir eru í húfi (nákvæmlega eins og í flest öllum öðrum arðvænum geirum). Sé hins vegar litið til atkvæðagreiðslna á Alþingi og Gallup kannanna blasir við annar veruleiki - þ.e. kyn er ekki sú breyta sem best skýrir hvers vegna farið var út í framkvæmdir á borð við Kárahnjúkavirkjun.
Þann 5.mars 2003 var haldin atkvæðagreiðsla á Alþingi um Álverksmiðjuna á Reyðarfirði. Atkvæði féllu þannig að 41 sagði já og níu sögðu nei - atkvæðin féllu þannig að þau voru nánast algjörlega eftir flokkslínum. Allir Framsóknarmenn sögðu já (óháð kyni), allir sjálfstæðismenn (að undanskyldri (Katrínu Fjeldsted) sagði já, allir þingmenn Samfylkingar sem kusu (utan Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Rannveigar Guðmundsdóttur) sögðu já en VG sögðu nei (óháð kyni). Niðurstaða: Atkvæði féllu eftir flokkslínum en ekki eftir kyni, líkt og í þessum málum almennt.
Þá gæti einhver spurt: Hvað með almenning, hver var afstaðan þar? Í Gallup könnun frá árinu 2002 var spurt ,,
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) byggingu Kárahnjúkavirkjunar?". Líkt og í fyrri könnunum var almenningur heilt yfir hlynntari byggingunni. Vissulega voru karlmenn að meðaltali hlynntari (með 3,5 á fimm kvarða spurningalista) en konur (sem þó voru með 2,9 - sem þýðir í raun að þær voru heilt yfir frekar hlynntar). Aftur gerist það hins vegar að kyn er ekki sú breyta sem skiptir höfuðmáli. Í fyrsta lagi er aldurshópurinn 45-54 ára (bæði kyn) hlynntari en karlmenn með 3,7 og jafnfætist þeim stóðu kjósendur Sjálfstæðisflokksins en á toppnum voru kjósendur Framsóknarflokks með töluna 4,0 (sem þýðir í raun mjög hlynntur). Kjósendur Samfylkingarinnar reyndust vera með einkunnina 3,0 (0,1 fyrir ofan konur almennt) en VG var með 2,3 sem er talsvert undir konum almennt (það munar næstum jafn miklu á kjósendum VG og konum annars vegar og svo konum almennt og kjósendum Sjálfstæðisflokksins hins vegar).
Niðurstaðan virðist vera sú að titillinn: ,,Í landi hins klikkaða miðaldra fólks" eða ,, Í landi hinna klikkuðu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna" eigi betur við - þá hlýtur spurningin að vera sú hvort að höfundi hafi fundist auðveldara að skjóta á kynbræður sína heldur en að benda á það sem réttara reynist eða hvort að hann hafi ekki áttað sig á þessu?
Að endingu gæti einhver spurt: Hvernig nennir þú að standa í þessu væli?
Og svar mitt er: Við slíkri spurningu hef ég ekkert svar.
Er lífið ekki karlmannlegt?