föstudagur, september 24, 2010

15 lög fyrir Liverpool aðdáendur á 15 mínútum

þriðjudagur, september 14, 2010

Í landi hinna klikkuðu (karlmanna?)

Andri Snær Magnason er stórkostlegur penni og tekur hlutverk sitt sem upplýstur borgari alvarlega - við hinum getum þakkað honum fyrir það. Þegar rætt er um umhverfismál, gjammar fólk hvert ofan í annað uns Andri Snær birtist með sínar staðreyndir, sín rök, sinn fallega stíl og hrífur fólk með - Andri Snær er karlmaður.

Í nýjasta pistli sínum ,,Í landi hinna klikkuðu karlmanna" lýsir höfundurinn með sinni alkunnu snilld frá meginatriðum síðustu ára í umhverfis og orkumálum, hversu kjánalega við lítum út í augum útlendinga og hvernig villtustu draumar orkuútrásarsinna hljóma fáránlega þegar þeir eru settir í samhengi við bankahrunið sem enn virðist ekki sjá fyrir endan á. Niðurstaðan: Hvernig gat fámenn þjóð sem á nóg af allskyns auðlindum og hefur hátt menntastig verið svona heimsk (og illa sett í augnablikinu).

Við slíka gagnrýni og beiðni um djúpa sjálfskoðun þjóðarinnar er ekkert að athuga. Slíkt er hreinlega fagnaðarefni - hins vegar er hægt að efast um að heiti pistilins og gegnumgangandi plammeringar Andra á kynbræður sína standist ítarlega gagnrýni.

Þegar litið er til fortíðar má vissulega benda á að þeir sem gengið hafa hve harðast fram og átt stærstu virkjanadraumanna/martraðirnar hafa að megninu til verið karlmenn í góðum stöðum þar sem miklir eiginhagsmunir eru í húfi (nákvæmlega eins og í flest öllum öðrum arðvænum geirum). Sé hins vegar litið til atkvæðagreiðslna á Alþingi og Gallup kannanna blasir við annar veruleiki - þ.e. kyn er ekki sú breyta sem best skýrir hvers vegna farið var út í framkvæmdir á borð við Kárahnjúkavirkjun.

Þann 5.mars 2003 var haldin atkvæðagreiðsla á Alþingi um Álverksmiðjuna á Reyðarfirði. Atkvæði féllu þannig að 41 sagði já og níu sögðu nei - atkvæðin féllu þannig að þau voru nánast algjörlega eftir flokkslínum. Allir Framsóknarmenn sögðu já (óháð kyni), allir sjálfstæðismenn (að undanskyldri (Katrínu Fjeldsted) sagði já, allir þingmenn Samfylkingar sem kusu (utan Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Rannveigar Guðmundsdóttur) sögðu já en VG sögðu nei (óháð kyni). Niðurstaða: Atkvæði féllu eftir flokkslínum en ekki eftir kyni, líkt og í þessum málum almennt.

Þá gæti einhver spurt: Hvað með almenning, hver var afstaðan þar? Í Gallup könnun frá árinu 2002 var spurt ,,Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) byggingu Kárahnjúkavirkjunar?". Líkt og í fyrri könnunum var almenningur heilt yfir hlynntari byggingunni. Vissulega voru karlmenn að meðaltali hlynntari (með 3,5 á fimm kvarða spurningalista) en konur (sem þó voru með 2,9 - sem þýðir í raun að þær voru heilt yfir frekar hlynntar). Aftur gerist það hins vegar að kyn er ekki sú breyta sem skiptir höfuðmáli. Í fyrsta lagi er aldurshópurinn 45-54 ára (bæði kyn) hlynntari en karlmenn með 3,7 og jafnfætist þeim stóðu kjósendur Sjálfstæðisflokksins en á toppnum voru kjósendur Framsóknarflokks með töluna 4,0 (sem þýðir í raun mjög hlynntur). Kjósendur Samfylkingarinnar reyndust vera með einkunnina 3,0 (0,1 fyrir ofan konur almennt) en VG var með 2,3 sem er talsvert undir konum almennt (það munar næstum jafn miklu á kjósendum VG og konum annars vegar og svo konum almennt og kjósendum Sjálfstæðisflokksins hins vegar).

Niðurstaðan virðist vera sú að titillinn: ,,Í landi hins klikkaða miðaldra fólks" eða ,, Í landi hinna klikkuðu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna" eigi betur við - þá hlýtur spurningin að vera sú hvort að höfundi hafi fundist auðveldara að skjóta á kynbræður sína heldur en að benda á það sem réttara reynist eða hvort að hann hafi ekki áttað sig á þessu?

Að endingu gæti einhver spurt: Hvernig nennir þú að standa í þessu væli?
Og svar mitt er: Við slíkri spurningu hef ég ekkert svar.

Er lífið ekki karlmannlegt?

miðvikudagur, september 08, 2010

Bebe - What´s all the fuss about?

Forsagan

11. ágúst fóru að berast fréttir af því að Manchester United hefði keypt Bebe frá portúgalska smáliðinu Vitória de Guimarães. Kaupverð kantmannsins var ekki gefið upp af félaginu en það kom ekki í veg fyrir að fjölmiðlar smyrðu á hann tölunni 7,4 milljónum punda sem var klásúlan í samningi hans, en líklegra verður að teljast að kaupverðið sé helmingurinn af þeirri upphæð og bónusar á ferlinum geti svo fyllt upp í þessa klásúlu... þannig ganga kaupin yfirleitt fyrir sig nú til dags.

Leikmaðurinn

Bebe er tvítugur síðan í júlí, 1.88 cm á hæð, nautsterkur og fljótur. Hann lærði knattspyrnu á götunni og hefur aldrei tilheyrt nokkurri knattspyrnuakademíu - sem er nánast einsdæmi nú til dags. Við komuna til Manchester hrifust menn að hinu sérstaka í honum um leið og viðurkennt var það þyrfti að slípa hina ýmsu vankanta, auk þess sem formið var í engu samræmi við form annarra leikmanna liðsins - enda kannski ekki að undra. Bebe hefur ekki ennþá spilað leik með United enda ennþá í undirbúningi sem gæti tekið 6-12 mánuði (jafnvel lengur). Hann hefur þó spilað tvo leiki með U-21 liði Portúgal og skorað eitt mark, af myndböndum og fréttafluttingi af þeim leikjum að dæma er hann mun meiri kantmaður en senter.

Þáttur fjölmiðla


Síðan United keypti leikmanninn hafa fjölmiðlar gripið boltann á lofti, ekki síst þeir fjölmiðlamenn sem hafa fallið í ónáð félagsins (lesist í ónáð Ferguson) og daglega má heyra allskyns fréttir af drengnum - fæstar af þeim réttar. Íslenskir fjölmiðlar hafa einnig tekið sinn þátt og flutt undarlega neikvæðar fréttir af leikmanninum eins og starfsbræður þeirra í Bretlandi. Hvernig fjölmiðlar nenna að fjalla um þetta öskubuskuævintýri daglega á neikvæðan hátt er ofar mínum skilningi og það án þess að hafa séð hann spila. Enginn bjóst við því að Bebe myndi hoppa beint inn í byrjunarlið Manchester United.

Samanburður

Ég hef fylgst með enskri knattspyrnu í töluvert langan tíma og ég man ekki eftir nokkurri eins gagnrýni á kaup á ungum leikmanni síðan að ég byrjaði að fylgjast með. En hvernig mætti réttlæta þessa gagnrýni? 7,4 milljónir punda (sem ég efast reyndar um að sé rétt tala í nútíð) eru vissulega mikill peningur, en alls ekki í knattspyrnuheiminum - sérstaklega miðað við síðustu tvö tímabil.
Fyrir fjórum árum keypti United Nani á 13,5 milljónir punda og Liverpool keyptu Babel á 11,5 milljónir. Þrátt fyrir að aðdáendur þessara liða hefðu strax farið í þá umræðu hvor þeirra væri betri var lokaniðurstaða þeirra sem og fjölmiðla að þeir yrðu að fá 1-2 tímabil til aðlögunar til að hægt væri að meta það - samt höfðu báðir þessir leikmenn spilað með liðum sem eru þekkt fyrir að búa til unga gæða leikmenn (þ.e. Sporting Lisbon og Ajax) og það í nokkur ár. Engum datt í hug að þeir hoppuðu strax inn í liðin og sá fyrrnefndi er fyrst nú að skila sér á meðan sá síðarnefndi var næstum seldur frá sínu liði. Samt var um töluvert hærri upphæðir að ræða og sérstaklega miðað við þær breytingar sem hafa orðið síðustu tvö ár.

Þroski leikmanna

Við erum stödd í frönsku annarri deildinni árið 1998. Svartur ungur maður, þá jafnaldri Bebe og af sömu hæð og styrk leikur sinn fyrsta leik og annan af tveimur fyrir Le Mans á því tímabili. Ári síðar spilar hann 30 leiki og skorar 7 mörk. Þriðja tímabilið veldur vonbrigðum og á fjórða tímabilinu sínu skorar hann fimm mörk í 21 leik áður en hann er keyptur af fyrstu deildar liðinu Guingamp og skorar þrjú mörk í 11 leikjum. Eftir þetta fjórða tímabil, þegar okkar maður er orðinn 25 ára, er hann seldur til Marseille. 19 mörkum í 35 leikjum síðar er maðurinn seldur til Chelsea... aðdáendum og varnarmönnum allra annarra liða til ómældrar gremju. Ég er að sjálfsögðu að tala um Didier Drogba.
Hér er ekki ætlunin að segja að það sama muni eiga við um Bebe, þó að þeir séu sömu hæðar, hafi sama styrk og hraða. Boðskapur sögunnar er sá að leikmenn taka út þroska á mismunandi tíma en auk þess á að stórum hluta eftir að kenna Bebe að spila taktíska knattspyrnu (sumir læra það aldrei). Ef að Bebe verður ekki nema helmingurinn af þeim leikmanni sem Drogba er þá eru þetta snilldarkaup
Ég fer ekki að hafa áhyggjur af Bebe fyrr en þetta tímabil og næsta er liðið án þess að við fáum að sjá hann... þangað til hljóta fjölmiðlamenn í London (og á Íslandi) að geta fyllt uppí dálkana með sögum af framhjáhaldi Rooney (og því hvað frænka kunningja Rooneys hafi sagt við The Sun), slæmu gengi Liverpool og því hversu mikil hetja John Terry er þrátt fyrir allt.

Er lífið ekki dásamlegt?