fimmtudagur, apríl 30, 2009

Efnahagsmál

Efnahagsmál: Þeir sem ekki lásu Morgunblaðið á mánudaginn eða síðu Egils Helgasonar í dag ættu að lesa greinina eftir Jón Steinsson sem þar birtist undir heitinu ,,Ráðleggingar til vinstri stjórnar" - ég hef takmarkaða trú á að þetta verði að raunveruleika, eins vel og þetta hljómar.

Knattspyrna: Að United skuli ekki hafa unnið stærra en 1-0 í gær er skandall. 4-0 hefði gefið raunverulegri mynd á þennan leik - er hræddur um að liðinu verði refsað í seinni leiknum fyrir klúðrið í þeim fyrri.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

mánudagur, apríl 27, 2009

Giggs... Giggs will tear you apart (again)...







Ryan Giggs var í gær loksins heiðraður í fyrsta skiptið sem leikmaður ársins á Englandi sem er ótrúlegt en þetta er 18 árið hans - en hann hafði betur í baráttu við fjóra liðsfélaga sína og Gerrard. Það er flestum fullljóst að verðlaunin hlýtur hann fremur fyrir framlag sitt (var valinn í lið síðasta áratugs árið 2007) og það að hafa aldrei verið valinn áður oft á kostnað minni manna. Giggs er sigursælasti leikmaður enskrar knattspyrnusögu og fer einnig í sögubækurnar sem einn mesti fagmaður og fyrirmynd í þessari sömu knattspyrnusögu - hann hefur verið á toppnum síðan hann var valinn efnilegasti leikmaðurinn bæði árið 1992 og 1993. Hann hefur oft misst af titlinum sem leikmaður ársins áður m.a. hafa Les Ferdinand, Shearer, Ginola allir verið teknir fram yfir Giggs þegar United hefur unnið titilinn og auk þess Sheringham þegar hann var í United. Þá hefur hann einnig oft átt risatímabil sem einungis hafa verið skyggð af ótrúlegum tímabilum annarra m.a. Cantona tímabilið 93-94, Keane tímabilið 99-00 og Henry tímabilið 02-03. Frá tímabilinu 05-06 (þegar United liðið var í molum en náði engu að síður í titilbaráttu) hefur Giggs breytt um hlutverk og hinn hraði kantmaður hefur breyst í þroskaðan miðjumann eftir því sem hægst hefur á vegna aldurs.
Allir gera sér grein fyrir því að Vidic, Gerrard og Ronaldo hafa verið betri á þessu tímabili og sennilega ætti Vidic þetta mest skilið fyrir að hafa verið eins og hjúpur yfir marki United þegar liðið hélt hreinu samfleytt í rúmlega þriðjung tímabilsins (á sama tíma og Rio, Evra, Brown og Neville voru að mestu frá) og barði áfram Rafael, Evans og O´Shea í vörninni en ég held að enginn leikmaður muni kvarta yfir því hver hlaut verðlaunin þó að misvitrir sófaspekingar kunni að setja út á það.
Annars er tími til kominn á að hætt sé að velja leikmann ársins löngu áður en tímabilið er búið, það þjónar engum tilgangi og getur hreinlega litið bjánalega út eins og þegar United vann þrefalt og Ginola var valinn bestur sem leikmaður Tottenham.
Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, apríl 25, 2009

SIGUR EVRÓPUSINNA!!!













Þakka þeim sem málið studdu!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, apríl 24, 2009

Þarf í alvöru að ræða ESB aðild?

Getur einhver réttlætt það að standa gegn ESB aðild eftir síðustu fréttir. 228 milljarða króna vaxtalækkun árlega, það eru 760.000 árlega að meðaltali á hvern Íslending, RÚMAR ÞRJÁR MILLJÓNIR Á HVERJA FJÖGURRA MANNA FJÖLSKYLDU AÐ MEÐALTALI Á ÁRI!!!

Er lífið ekki dásamlegt?

Mýtur um Evrópusambandið - Orkumál

Víða á bloggsíðum fólks hefur gætt misskilnings þegar talað er um ESB og orkumál, því er haldið fram að Ísland muni glata náttúruauðlindum sínum (s.s. vatni, olíu og jarðvarma) og því er gott að leiðrétta þann misskilning í eitt skipti fyrir öll.
Í umræðunni að undanförnu um Evrópumál hafa allir heyrt að semja verði um 35 kafla við ESB en að í gegnum EES samninginn tekur Ísland nú þegar yfir 22 af þessum köflum - einn þeirra kafla er um Orkumál þ.e. við höfum tekið upp meginhlutann af tilskipunum og reglugerðum sambandins, nokkrar undantekningar eru þó t.d. varðandi náttúruvernd.
Þessa kafla hafa bæði samningarmenn ESB og Íslands sagt, að komi til aðildar sé einungis formsatriði að klára, það muni gerast á fyrstu vikunum og snúast um sértækar lausnir vegna stöðu Íslands. Sem sagt kaflinn er nú þegar í EES samningnum og enginn önnur þjóð hefur rétt til þess að hrifsa olíu, jarðvarma, vatn eða aðrar staðbundnar náttúruauðlindir af Íslendingum, það mun ekki breytast enda er það ein meginreglan innan ESB að þjóðir haldi auðlindum sínum sbr. olía Breta í Norðursjó. Ástæðan er auk þess einföld: Evrópusambandið er ekki með neinar reglur eða löggjöf um nýtingu eða eignarhald orkuauðlinda. Í síðasta bloggi fjallaði ég um mýtur varðandi sjávarútveg sem allir ættu að kynna sér.

Einhver fleiri slæm atriði eða meiri misskilningur um ESB sem við getum rætt um?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

fimmtudagur, apríl 23, 2009

Algengar mýtur um ESB - Sjávarútvegur

Það fallega við það að búa í nútíma upplýsingaþjóðfélagi er sá aragrúi staðreynda sem nálgast má á örskjótan hátt t.d. á netinu. Sex ára gamalt barn getur á 10 sek orðið sér út um upplýsingar sem tók þjóðhöfðingja (fyrir nokkrum áratugum) daga, jafnvel mánuði að nálgast.
Það slæma við þetta sama upplýsingaþjóðfélag er sú heimska sem þar getur viðgengist, má þar nefna blogg og facebook þar sem illa upplýstir eða illa innrættir einstaklingar halda fram rangfærslum en mikið hefur borið á slíku að undanförnu varðandi ESB, einkum hvað varðar sjávarútveg.
Mig langar því að taka fyrir nokkrar mýtur um sjávarútvegsstefnu ESB í stuttu máli sem ég byggi á mýtupunktum úr fyrirlestri sem Aðalsteinn Leifsson flutti, en ég svara auðvitað sjálfur hvað felst í þeim (að hluta til frá sömu heimild en auk þess á vitneskju minni eftir verkefni á MA-stigi um sjávarútvegsstefnu ESB). Þá vil ég jafnframt biðja þá sem hafa frekari spurningar um ESB (hversu barnalegar sem þær kunna að hljóma) til að spyrja svo að hver og einn geti tekið afstöðu til slíks.

Mýta 1: Hingað kemur floti Evrópusambandslanda og veiðir allan fiskinn upp úr íslenskri lögsögu.

Þessi fullyrðing er algjörlega galin. Hún stangast gjörsamlega á við reglur ESB um hlutfallslegan stöðugleika sem byggir á veiðireynslu. Engin þjóð hefur veiðireynslu frá árinu 1976 (við útfærslu í 200 mílur) og aldrei hefur ESB farið aftar en 9 ár aftur í tímann til að meta veiðireynslu. Ef að ESB myndi fara aftur til ársins 1975 væru þeir að búa til fordæmi sem myndi þýða mögulega lögsókn 170 ríkja á hvort annað. Undantekningarlaust á því engin önnur aðildarþjóð rétt á kvóta innan íslenskrar lögsögu við inngöngu Íslands í ESB. Ekki nokkur þjóð gæti veitt svo mikið sem kíló umfram það sem nú er.

Mýta 2: Hægt er að breyta ,,hlutfallslegum stöðugleika" með einfaldri ákvörðun annarra ríkja.

Í fyrsta lagi er enginn vilji meðal aðildarríkjanna til að breyta þessari grunnreglu sjávarútvegsstefnunnar sem hefur lifað óbreytt frá árinu 1983 þegar sjávarútvegsstefnan var tekin upp. Það hafa staðfest sjálfur Joe Borg, Michael Köhler og Reinard Priebe sem eru þrír af hæst settu starfsmönnum sjávarútvegsstefnunnar.
Ef svo ólíklega færi að reglunum yrði breytt gæti Ísland notað Lúxemborgarákvæðið sem segir að þegar þjóðarhagsmunir eru í húfi þá þurfi samþykki allra aðildarríkja. (Hér eru óupptalin þau atriði sem Ísland mun fara fram á sem sérlausn.)

Mýta 3: Eftirlit á fiskimiðum er í höndum ESB og það mun minnka.

Önnur mýta útúr korti. Eftirlit með veiðum í lögsögu Íslands verður áfram í höndum íslenskra eftirlitaðila. Eftirlitsaðilar sambandsins munu eingöngu hafa eftirlit með þeim íslensku til að tryggja að reglum sé framfylgt.

Mýta 4: Kvótinn fer úr landi

Ég held að þeir sem tala um fyrir þeirri mýtu að kvótahopp sé vandamál ættu að vakna upp úr fortíðinni. Heimildir í sjávarútvegsstefnu ESB og dómafordæmi gera það að verkum að aðildarríki hafa rétt til að krefjast efnahagslegra tengsla við heimahöfn og hindra kvótahopp. Bretar þekkja það vel.

Mýta 5: Önnur ríki taka ákvörðun um kvóta Íslands.

Ákvörðunin er ekki tekin af Brussel þó hún sé tekin þaðan. Þau ríki sem eiga hagsmuna að gæta á ákveðnu svæði gera það. Lögsaga Íslands skarast ekki á við Evrópu. Ráðleggingar íslenskra vísindamanna munu liggja til grundvallar og þar sem ekkert annað ríki hefur leyfi til að veiða í lögsögu okkar þá mun engin skipta sér af því - líkt og nú mun það því verða ákvörðun íslenskra stjórnvalda.

Mýta 6: Evrópusambandið mun úthluta kvóta.

Um þetta hefur ESB bara ekkert að segja. Hvernig við úthlutum eða hvaða kerfi við notum kemur ESB ekki við og ekki einu sinni hvort við veiðum upp í allan kvótann (og nei, aðrar þjóðir hafa ekki leyfi til að veiða ef við klárum ekki árlega kvótann okkar).

Mýta 7: Brottkast mun aukast því það er skylda í ESB.

Þetta atriði hefur verið mikið vandamál meðal aðildarríkja ESB en á fundinum hjá Aðalsteini kom fram að ESB og Noregur gerðu samning þar sem brottkast var bannað. Ekkert er því til fyrirstöðu að Ísland fái það auðvldlega í gegn enda eina landið sem mun veiða innan lögsögunnar.

Mýta 8: Risavaxið styrkjakerfi

Fjárlög ESB eru aldrei meira en 1,27% af þjóðarframleiðslu ESB. Styrkir sem veittir eru til sjávarútvegs eru aðalega í formi byggðarstyrkja til að draga úr alltof stórum skipaflota aðildarríkjanna. Í grunninn er áætlunin að draga enn frekar úr ofveiði á svæðinu (sem kemur lögsögu Íslands ekki við) og skapa störf í stað þeirra sem sjómenn tapa. Við Íslendingar sem konungar styrkveitinga og sem skömmustulaus sníkjudýr (má bjóða þér Marshall aðstoð) munu ekki eiga í erfiðleikum að ná sér í styrki með rökum um hinar dreifðu byggðir sem kvótakerfið fór illa með.

Er eitthvað fleira slæmt sem þú hefur heyrt um ESB og vilt fá að vita hvort að sé rétt?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, apríl 22, 2009

ESB aðild er grunnurinn að því að geta aftur kosið út frá hugsjón!

Nokkrar persónur hafa ljáð máls á því við mig að ekki sé hægt að snúa þessum kosningum einungis upp í frjálslyndi vs einangrunarhyggja og hagsmunir vs hugsjón - en þegar betur er að gáð er þetta nákvæmlega grunnurinn að því vali sem framundan er.
Sé ekki vilji til þess að sýna þroska og stíga upp úr kassanum og kjósa eins og manneskja, frjálslynd eða einangrunarsinnuð má spyrja manneskjuna í kassanum spurningar:
Hvort telur félagshyggjufólk að hagur almennings batni eða versni og hvort telur það að velferðarkerfið verði skorið meira eða minna niður með þessari sömu áframhaldandi kreppu, vöxtum, ónýtum gjaldmiðli og atvinnuleysi eða með inngöngu í ESB?
Hvort telja frjálshyggjumenn að hagsmunum Íslands sé betur borgið í einangrun frá umheiminum með íslenska krónu eða í stærstu viðskiptablokk heimsins með stöðugan gjaldmiðil? Hvort telja þeir meiri eða minni líkur á skattahækkun í núverandi ástandi eða með þeirri vaxtalækkun innan ESB sem mun skila tugum milljarða í ríkissjóð samkvæmt Sjálfstæðismanninum Benedikt Jóhannessyni?
Hvort halda feministar/jafnréttissinnar að sé líklegra að konum í áhrifastöðum fækki eða fjölgi í áratuga langri kreppu og hvort halda þeir að vændi aukist eða minnki, hvað með heimilisofbeldi?
Hvort telja umhverfisverndarsinnar að muni leiða að frekari stóriðju, kreppa (þar sem lausnin er að fjölga störfum í stóriðju með meiri framkvæmdum eins og Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn boða) eða innganga í ESB með þeim efnahagslegu áhrifum sem það hefur og þeirri staðreynd að sambandið er langtum framar en Ísland í umhverfismálum?
Hvort telja stóriðjusinnar að muni halda fleiri slíkum störfum á Íslandi, verðbólgan á Íslandi og sívaxandi skuldir fyrirtækjanna í erlendum lánum, þar sem Landsvirkjun og fleiri fyrirtæki ramba á barmi gjaldþrots eða sá stöðugleiki sem mun myndast með inngöngu í ESB og þar með að ERM II ferlinu og loks evru?
Hvort telur fólk með myntkörfulán að það sé betur statt fjárhagslega með krónu eða upptöku evru?
Hvort telur fólk með íslensk lán að það verði betur sett með hávaxtastefnu, verðbólgu og verðtryggingu á Íslandi eða með vöxtum nálægt 0% í ESB þar sem engin verðtrygging er (fremur en í öðrum siðmenntuðum löndum)?
Hvað með menntað fólk á Íslandi hvar ætlar það að fá vinnu í landi byggðu á gjaldeyrishöftum, sjávarútvegi og landbúnaði? Hvernig ætlar það að byggja upp fyrirtæki með þeim vöxtum, verðbólgu og ónýta gjaldmiðli sem verður hér að óbreyttu?
Telur almenningur að Alþýðusamband Íslands, Viðskiptaráð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu skili séráliti ásamt Samfylkingunni um umsókn að Evrópusambandinu vegna þess að Samfylkingin sé svo frábær flokkur?
Nei, þau gera það vegna þess að hagsmunir allra aðila á Íslandi að undanskyldum einokunarsamtökum bænda og sjávarútvegs eru best borgnir innan ESB (það er raunar sjávarútvegi og landbúnaði líka, en þau samtök þora einfaldlega ekki í samkeppni og vilja halda í einokunarstöðu sína).

Getur einhver bent mér á rök þess efnis að Ísland ætti ekki að sækja um aðild að ESB?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Börnin okkar og framtíðin

Eins og menn á mínum aldri í sambúð sem misst hafa tök á kynþokkafullum líkama sínum og unglegu og fersku andliti er mér umhugað um barneignir til þess að auka líkurnar á að halda í yndislega sambýliskonu.
Hugsunin hingað til hefur verið sú að nú sé allt undir varðandi barneignir næstu tvö árin, en með yfirlýsingu ESB um að eftir Króatíu gangi ekkert land inn fyrr en eftir 2015 hefur sú afstaða breyst. Nú mun ég reyna að eignast börn með minni sambýliskonu næstu árin, spurningin er eingöngu hvar það verður.
Eins og áður hefur komið fram vil ég helst búa áfram á Íslandi, þó ég hafi ekki útilokað það fyrir kreppu að búa erlendis um hríð. Vegna þess að ég vil áfram búa á Íslandi hef ég reynt að hafa áhrif á ykkur og aðra í kringum mig þannig að hér verði aftur lífvænlegt og öruggt að búa efnahagslega - engin rök benda til að svo verði án stöðugs gjaldmiðils með inngöngu í ESB.
Í augnablikinu þegar ég ímynda mér það hlutverk sem mörg ykkar hafa nú tekið að ykkur að vera ábyrgir foreldrar og þegar ég hugsa um það hvernig ég vil ala börnin mín upp, við hvaða skilyrði og hvernig manneskjur ég vil eftir fremsta megni reyna að móta (varðandi réttlæti, ábyrgð, sanngirni, sjálfstæða og gagnrýna hugsun o.s.frv.) þá vil ég hafa verið sú fyrirmynd sem mark er á takandi.
Í því felst að skorast ekki undan þegar á reynir og að getað miðlað af eigin reynslu. Augnablikið sem við lifum á verður okkur öllum ógleymanlegt, síðustu sex mánuðir hafa verið þannig að slíka tíma hefur enginn lifað sem (fullorðin) manneskja sem nú er ekki stödd á elliheimili. Þegar ég minnist þessa tíma síðar meir við mín börn og barnabörn í tengslum við þeirra upplifanir og líf vil ég geta sagt með góðri samvisku að ég hafi lagt mitt að mörkum til að snúa hlutnum við með því að gera Ísland og Íslendinga aftur efnahagslega sjálfstæða.
Tvennt er óvíst í þessari framtíðar frásögn minni. Mun ég segja söguna í fjarlægu landi og minnast örlaga þjóðar minnar með þeim sorglega hætti að við hefðum getað bjargað málunum en klúðrað því í kosningum eða mun ég standa með þaninn brjóstkassa og lýsa því yfir með ýktum hætti sem gamall fauskur, hvernig ég einn míns liðs snéri íslensku þjóðinni með mér í það lið og barðist fyrir Evrópusambandsaðild í Sjálfstæðisbaráttunni síðari (þeirri efnahagslegu) sem leiddi af sér inngöngu í ESB og þeirri fögru framtíð sem þá mun verða hérlendis.

Hvaða sögu ætlar þú að segja börnunum þínum og barnabörnum?

Gæti lífið ekki orðið dásamlegt... í ESB?

PS. Linda benti Örnu á þann skemmtilega möguleika að við gætum nefnt mögulegan erfingja okkar þannig að skammstöfunin yrði ESB - er nafnið Evra Samfylking Bjarnadóttir of gróft?

Efnisorð: ,

Framtíð frjálslyndra einstaklinga á Íslandi

Við Íslendingar sem á vissan hátt töldum að við hefðum sigrað söguna, búið til smekklegt samfélag vellystinga, þar sem lífskjör voru það góð að viðskiptalífið taldi okkur trú um að stjórnmál skiptu ekki máli - höfum nú í hálft ár búið við efnahagslegt dauðadá.
Líkt og maður í ástarsorg sem einangrar sig félagslega og lofar sjálfum sér því að láta aldrei aftur reyna á ástina og missir trúna á lífið, hefur ákveðin hluti íslensku þjóðarinnar bitið það í sig að vegna misheppnaðrar útrásar skuli næsta skref vera að einangra sig.
Sjálfstæðisflokkurinn sem ávallt hefur getað stigið skrefin í átt að alþjóðlegri samvinnu útfrá hagsmunamati er í gíslingu öfgafullra einangrunarsinna og Vinstri grænir hafa reynt að þagga niður í Evrópuumræðunni með óljósum yfirlýsingum um rétt þjóðarinnar en farið er að glitta í gömlu slæmu (Stein)grímuna sem vill einangrun og fresta því að þjóðin geti ákveðið sig og það til lengri tíma - var einhver að tala um lýðræði?
Það eru yfirgnæfandi líkur á því að sá flokkur sem mest fylgi fær í komandi kosningum muni leiða næstu ríkisstjórn, gamla góða klisjan segir að hvert atkvæði skipti máli. Ungt fólk er frjálslynt og fyrir þeim blasa tveir möguleikar hvar í flokki sem þeir standa, tvær leiðir niður mismunandi veg, tveir hurðahúnar og að baki þeim tvö ólík herbergi þar sem Ísland mun dvelja næsta áratuginn.
Önnur vegferðin endar ofan í gjótu fordóma, fáfræði, einangrunar og ánauðar sem óvíst er hver muni bjarga okkur útúr en Evrópuleiðin vísar vegin til bjartari framtíðar, stöðugs gjaldmiðils, meiri hagsældar, minna atvinnuleysis, lægri vaxta, lægri skulda, meiri möguleika fyrir íslenska þjóð og mannsæmandi lífi eins og áður hefur verið rakið í fyrri pistlum.
Í þessum kosningum er kosið um stóra málið, sjálfa framtíðina. Hér er ekki kosið til fjögurra ár eins og venjulega, hér er kosið til næsta áratugs jafnvel tuga. Að öllu jöfnu er ég talsmaður þess að fólk kjósi eftir sínu prinsippi eða sínum skoðunum á ákveðnum málefnum en þessar kosningar snúa að beinum hagsmunum þjóðarinnar og hvar þeim sé best borgið.
Í þessum kosningum getum við ekki kosið eftir áliti okkar á Björgvini G. Sigurðssyni, hvort við erum feministar, kommúnistar, jafnaðarmenn, frjálshyggjumenn, stóriðjusinnar, umhverfissinnar, sveitamenn, miðbæjarrottur, karlmenn eða kvenmenn, - í þessum kosningum verðum við að sýna þroska stíga uppúr þessum kössum og kjósa eins og manneskjur. Erum við frjálslynd eða einangrunarsinnar?
Það sorglega er að í þessum kosningum er aðeins einn flokkur sem getur leitt Ísland í aðildarviðræður við ESB - sá flokkur er langt því frá fullkominn, en sá skásti sem möguleiki er á í stöðunni. Sex mánuðir hafa liðið án nokkurra annarra raunhæfra lausna á ástandi landsins og það glittir ekki í þær - það er tími til kominn á aðildarumsókn!

Frjálslyndar manneskjur allra flokka Samfylkist!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

sunnudagur, apríl 19, 2009

Um mannsæmandi líf fyrir Íslendinga til frambúðar

Grunnhugmyndin að sjálfu þjóðríkinu er einstaklingurinn - frelsi hans, öryggi, réttindi fullveldi og sjálfstæði. Fullveldið og sjálfstæðið kýs hann að deila með öðrum einstaklingum og saman mynda þeir samfélagssáttmálann um ríkið sem snýr að áðurnefndu frelsi, réttindi og öryggi sem felst í lögum og rétti landsins. Við þessa deilingu minnkar ekki sjálfstæði og fullveldi einstaklingsins það eykst. Án ríkisins, lög og reglu ríkti óreiða og einstaklingurinn sjálfur gæti hvorki gengið að eignarétti sínum vísum né réttinum til að lifa eða að vera settur í ánauð af hinum sterka.

Líkt og einstaklingurinn sjálfur leitar eftir sáttmála við aðra í ofangreindu samfélagi hefur þróunin orðið sú eftir tvær blóðugar heimsstyrjaldir að þjóðir geri slíkt hið sama í gegnum alþjóðastofnanir eða sambönd. Líkt og einstaklingurinn deilir fullveldi sínu og sjálfstæði með ríkinu hafa flestar siðmenntaðar þjóðir ákveðið að skynsamlegasta lausnin að betri heim sé samvinna – ríkið leitar í skjól á sama hátt og einstaklingurinn, án þess er algjör óreiða þar sem hinn sterki pínir hinn veika. Við það að deila fullveldi og sjálfstæði með öðrum þjóðum minnkar það ekki, heldur eykst.

Evrópusambandið er eitt dæmi um slíkt samband. Það er byggt á efnahagslegri samþættingu til að ná pólitískum markmiðum sem eru: frjálslyndi, lýðræði, stöðugleiki, friður, virðing fyrir mannréttindum og grundvallarréttindum og að til staðar sé stöðugt réttarríki.
Til þess að verða eitt af aðildarríkjum sambandsins er nauðsynlegt að deila þessari lífssýn og uppfylla þær. Í sambandinu eru 27 fullvalda og sjálfstæð ríki sem njóta góðs af samvinnunni með því að deila áðurnefndum hugtökum á hinum ýmsu sviðum – enginn efast um það að Frakkland t.a.m. sé fullvalda og sjálfstæð þjóð.
Líkt og maður á eyðieyju sem er glaður með sjálfstæði sitt og fullveldi þá eru einnig ríki sem standa nánast algjörlega utan við alla alþjóðlega samvinnu og stæra sig af því að vera mjög svo fullvalda og sjálfstæð – þekktasta dæmið af slíku er sennilega Norður-Kórea sem er nánast algjölega einangrað en formlega mjög fullvalda og sjálfstæð þjóð (tekur allar ákvarðanir sínar sjálf án tillits til annarra).

Hvað með Ísland? Er Ísland fullvalda og sjálfstætt ríki í dag? Myndi það ekki lengur verða fullvalda og sjálfstætt við inngöngu í ESB?
Formlega þá væri sjálfstæði og fullveldi Íslands betur sett utan ESB eins og formlega væri einstaklingur meira fullvalda og sjálfstæður utan réttarríkisins og samfélags manna - en raunverulega? Nei, raunverulega er Ísland ekki eins sjálfstætt og fullvalda í dag eins og það væri innan ESB.
Við höfum núna í bráðum hálft ár lifað við tvöfalda kreppu, ekkert annað hefur komist að og engu að síður hefur enginn nú þegar vika er í kosningar komið með aðrar skynsamar lausnir til frambúðar en að ganga í ESB. Við lifum við gjaldeyrishöft sem ganga ekki til lengdar hjá einangruðu smáríki sem lifir á inn og útflutningi og eru raunar brot á EES samningnum, við lifum við ónýtan gjaldmiðil, erlendar skuldir þjóðarbúsins eru metnar á 10-12 falda árlega þjóðarframleiðslu, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er í rauninni sá aðili sem stýrir efnahagsmálum þjóðarinnar, verðbólga er gríðarleg, ekki er hægt að lækka stýrivexti örugglega vegna ytri þátta, atvinnuleysi er að aukast, stór hluti þjóðarinnar er tæknilega gjaldþrota og ört vaxandi hluti þjóðarinnar getur ekki lifað mannsæmandi lífi og enn stærri hluti þjóðarinnar er á barmi taugaáfalls daglega yfir váfréttum. Þegar farið er raunsætt í málið þá erum við hvorki sjálfstæð efnahagslega né andlega (fullveldi og sjálfstæði). Er einhver til í slíka framtíð? Skuldir, verri lífskjör, mysa, fiskibollur, bjúgu og slátur... einhver?

Hverju myndi aðild breyta?

Það hefur verið sagt að formlega myndi líf hins venjulega Íslendings einfaldlega varla breytast neitt, ef undanskyldar eru efnahagslegar áhyggjur sem myndu minnka og hverfa með tímanum.

Innganga í ESB myndi hins vegar þýða að við myndum með tímanum endurheimta það efnahagslega sjálfstæði sem við misstum vegna örmiðilsins krónunnar (en alþjóðlega er það þróunin að örmyntir eru að syngja sitt síðasta) og þar með andlegt sjálfstæði – stór hluti íslendinga myndi auk þess aftur getað farið að lifa mannsæmandi lífi.
Sjálfstæðismaðurinn Benedikt Jóhannesson sem er tryggingarstærðfræðingur setti dæmið upp tölulega nú nýverið, grípum niður í miðja grein:

,,Skuldir ríkisins stefna nú í 1.500 milljarða króna. Hvert prósentustig í vöxtum jafngildir 15 milljörðum króna. Ef vaxtaálag lækkar um 3% við það að ganga í Evrópusambandið, eins og ráða má af kjörum lána til ES-ríkja sem eru nú í vanda, sparar það 45 milljarða króna vaxtagjöld á ári. Það er um það bil þriðjungur af fjárlagahalla þjóðarinnar. Hvort telja stjórnmálamenn skynsamlegra að taka upp evru og lækka vexti eða beita sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda á enn fleiri sviðum en ella?

En þetta er einungis fyrsta skrefið, með aðild að ESB og með inngöngu í ERM II ferlið sem gerir það að verkum að Seðlabanki Evrópu verður bakhjarl Íslands og að gengi krónunnar þar til við höfum uppfyllt Maastricht skilyrðin þá getur krónan ekki sveiflast um meira en 15%. Það þýðir að gengishöftum verður aflétt og atvinnulífið fer aftur í gang með eðlilegum viðskiptum, Ísland getur hafist handa við að uppfylla Maastricht skilyrðin sem endar með upptöku evru sem lækkar aftur vaxtastig ennþá meira, verðbólgan minnkar, gengið mun hafa styrkst sem aftur þýðir lægri erlendar skuldir.

Varðandi gróða almennnings þá er ekki einungis um það að ræða að áðurnefnd vaxtagjöld myndu dragast heilt yfir frá skatti á landsmenn og vaxtalækkun almennt á lánum. Á endanum yrði upptaka evru til þess að hin alræmda verðtrygging yrði afnumin en það eru hreinlega draumórar að mati hagfræðinga að gera slíkt með krónuna í dag. Þá myndi matarverð og verð á fatnaði lækka frá því sem nú er. Aðalsteinn Leifsson lektor við Háskóla Reykjavíkur segir að frá því að Ísland tæki upp evru má gera ráð fyrir því að árlega yrði sparnaður vegna minni verðbólgu, lægri vaxta, ódýrari fatnðar og matar að meðaltali á hverja fjölskyldu með 20 milljón króna lán að lágmarki ein milljón á ári.... já EIN MILLJÓN Á ÁRI!!! Þá er ekki tekið tillit til þeirrar skuldaleiðréttingar sem ætti sér stað fyrir okkur sem tókum myntkörfulán.

Ef ekki verður lögð inn aðildarumsókn í síðasta lagi í haust má gera ráð fyrir að krónan hrynji aftur, gjaldeyrishöft viðhaldi sér sem er brot á EES samningnum og gæti jafnvel þýtt endalok hans (meginpartur útflutnings okkar er til aðildarríkjanna og endalokin myndu þýða höft og tollamúrar jafnt á inn og útflutning með þar til gerðum efnahagsskaða) og að hér munu hlutirnir almennt versna fremur en batna.
Þá hefur ESB lagt til að eftir að Króatía gengur inn árið 2011 þá verði ekki tekin inn ný lönd fyrr en eftir 2015. Það myndi þýða einangrun Íslands, efnahagslegt sjálfsmorð, eftirlifandi fyrirtæki myndu flytja á brott og erfiðleika næsta áratuginn í það minnsta. Hefur einhver áhuga á slíku?

Fyrir þá sem eru tæknilega gjaldþrota (og þá sem munu verða það á næstunni) myndi það aðeins þýða eitt: Brottflutningur. Hér þarf ekki enn og aftur að endurtaka dæmið frá kreppu Færeyja en fyrir þá sem eftir yrðu þýddi það minni skatttekjur og auknar skuldir sem falla af hinum gjaldþrota. Í þessu felst enginn hótun – þetta er einungis staðreynd!
Kjósi þjóðin að standa áfram í slíku ástandi og hafna ESB er fátt annað að gera en að pakka saman og finna sér siðmenntaða, þroskaða fullvalda og sjálfstæða þjóð til að aðlagast.

Fortíð og framtíð

Þegar á hefur reynt hafa Íslendingar aldrei skorast undan að taka stórar og stundum umdeildar ákvarðanir útfrá efnahagslegum hagsmunum sínum. Rómantísk þjóðsaga segir að við höfum numið hér land til að flýja undan skattpíningu Noregskonungs. Sjálfstæðisbarátta Jóns Sigurðssonar snérist fyrst og fremst um að tryggja efnahagslega hagsmuni Íslands gagnvart Danmörku. Við urðum fullvalda og síðar sjálfstæð því sem þjóð vildum við brjótast frá því að verða fátækasta þjóð í Evrópu í byrjun 20. aldarinnar. Við tryggðum efnahagslega hagsmuni okkar með veru Bandaríkjahers, þáðum Marshall aðstoð og gengum í NATO.
Til að halda í efnahagslegt sjálfstæði okkar hófum við evrópuvæðingu árið 1970 þegar við gengum í EFTA og þremur árum síðar undirrituðum við fríverslunarsamning við Evrópubandalagið. Við háðum þorskastríð vegna efnahagslegs sjálfstæðis gegn breska heimsveldinu og höfðum fullnaðarsigur með útfærslu landhelginnar árið 1976 og árið 1994 tókum við sennilega stærsta efnahagslega framfararspor lýðveldissögunnar þegar við undirrituðum EES samninginn (í það minnsta jafn stórt og stofnun lýðveldis og útfærsla landhelginnar).

Rúmum 100 árum eftir að við vorum fátækasta þjóð í Evrópu erum við tæknilega orðin það aftur. Við skuldum þeim sem barist hafa fyrir hönd þjóðarinnar fyrir efnahagslegu sjálfstæði hennar á þeim tíma að ganga í Evrópusambandið, en við skuldum ekki aðeins þeim látnu fyrir það að hafa misst keflið sem okkur var fært, við skuldum einnig hinum ófæddu og þeim sem landið munu erfa fyrir þá stöðu sem við höfum komið þeim í að óbreyttu – við þurfum að rétta hlutina við. Gagnvart umheiminum og sögunni höfum við ekki síður skyldu að gegna, að standa þjóð meðal þjóða – þar sem við eigum heima.

Ég var beðinn um persónulega pistill. Pistillinn hófst á umfjöllun um einstaklinginn og ríkið og hér erum við stödd. Staðreynd málsins er sú að umræðan um Evrópusambandsaðild er miklu stærri en ein persóna, hvað þá einn ómerkilegur stjórnmálaflokkur. Tvennt hafa báðir þessir aðilar þó sameiginlegt, án þeirra verður ekki sótt um aðild að ESB. Fyrir mér er þetta ekki spurning um mitt líf og dauða, ég hef alla möguleika á því að fara erlendis og lifa þar góðu lífi. Helst af öllu vil ég þó lifa á Íslandi og mér þætti sorglegt að horfa úr fjarlægð á þjóð mína, ættingja og vini sökkva í frekari einangrun, vera án efnahagslegs og andlegs sjálfstæðis og fullveldis.

Mannsæmandi líf er í boði á Íslandi með inngöngu í ESB, aðrar lausnir eru ekki í sjónmáli, mönnum kann að vera illa við ákveðnar persónur í Samfylkingunni en í þetta eina skipti bið ég ykkur um að velja rétt fyrir framtíðina – velja fyrir framtíð Íslands næsta áratug og tugi.
Einhverjir hafa nefnt að Samfylkingin muni svíkja eða hopa undan ESB aðild, við þá segi ég að ég mun persónulega lýsa yfir heilögu stríði á hendur Samfylkingunni ef hún verður stærsti flokkurinn en skorast undan Evrópusambandsaðild – það verður þó gert með skrifum úr öðru landi.

Ég er tilbúinn til að samþykkja að ganga í Liverpool klúbbinn, ganga í þjóðkirkjuna, ganga í Framsóknarflokkinn og koma á facebook – en það sem ég mun aldrei samþykkja er sú rökleysa að Ísland sé betur statt utan ESB - það er ekkert land þar verr statt en við, ekkert land eins ósjálfstætt og ófullvalda og við, þeirra hagur mun vænkast en okkar? Einhver ný lausn eftir sex mánaða þras?

Ástarkveðja fyrir hönd framtíðarinnar - Bjarni Þór Pétursson.

Efnisorð: ,

föstudagur, apríl 17, 2009

Samningur 2 - Mér er alvara!!!

Ég veit að lesendur þessarar síðu eru miklir heiðursmenn/konur og því er ég viljugur til að gera samning við þá. Í ljósi þess að ekki var mikið bakland til að koma mér aftur inn í Þjóðkirkjuna býð ég hér upp á annan samning til að sýna að mér er alvara, hann hljóðar svo:

2. Fyrir hverja aðra 30 einstaklinga (veit að þessi hópur er stór) sem eru óákveðnir eða myndu ekki kjósa Samfylkinguna en myndu gera það fyrir mig persónulega (í þessum einu kosningum) er ég tilbúinn til að ganga að baki öllu því sem ég stend fyrir knattspyrnulega og skrá mig í Liverpool klúbbinn í eitt ár.

... svo miklu máli skiptir það fyrir mig og þjóðina að eftir þessar kosningar verði sóttum aðild að ESB. Enginn annar flokkur mun leiða þær viðræður en Samfylkingin og til þess þarf hún að verða stærsti flokkurinn.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

Samningur 1

Ég veit að lesendur þessarar síðu eru miklir heiðursmenn/konur og því er ég viljugur til að gera samninga við þá, sá fyrsti hljóðar svo:

1. Fyrir hverja 20 einstaklinga sem eru óákveðnir eða myndu ekki kjósa Samfylkinguna en myndu gera það fyrir mig persónulega (í þessum einu kosningum), er ég tilbúinn til að ganga að baki öllu því sem ég stend fyrir trúarlega og skrá mig í þjóðkirkjuna og vera þar í eitt ár.

... svo miklu máli skiptir það fyrir mig og þjóðina að eftir þessar kosningar verði sótt um aðild að ESB.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

Er ESB ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

Sjálfstæðisflokkurinn The Black Knight

Sjálfstæðisflokkurinn minnir því miður á ofangreint atriði. Gegn þingræði - gegn vilja þjóðarinnar - gegn ESB og vill einhliða upptöku evru. Hvað næst, norska krónu? VG hvað?

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Hreinar hendur í Múturborginni?

Eftirfarandi pistill birtist á Vefritinu

Formáli
Það er slæmt að vera sjónarmun á eftir í kapphlaupi, en þegar maður er naumlega sigraður í kapphlaupi við tímann í pólitískum samanburði af Jóni Baldvini þá er maður væntanlega á réttri leið (þessi formáli er skrifaður kvöldið 14.mars). Hér hefst ítarlegri pistill um spillingu, Ísland vs Ítalía.


The friars are rich, but the monastery is poor.
- Rino Formica

Ísland er lítið, ungt og óþroskað ,,fullvalda” ríki sem mestan part af sínum líftíma hefur verið vafið inn í bómull stærri velda – hversu oft höfum við ekki heyrt þessa sögu síðustu mánuði. Það tók ekki langan tíma frá því að það fór að hjóla án efnahagslegra og varnarlegra hjálpardekkja Bandaríkjanna áður en það endaði inni í garði nágrannans með gat á hausnum og brotnar framtennur – fulli frjálshyggjufrændinn hafði gleymt að kenna því að bremsa eftir að kennt hafði verið hvernig ætti að fara ógeðslega hratt og var hvergi sjáanlegur þegar þurfti að siga honum á nágrannann sem heimtaði bætur fyrir brotna girðingu og ónýtt beð.

Það góða við það að vera ungur og vitlaus er yfirleitt að mamma bíður heima með kossa sem lækna marbletti og sár og plástra með mynd af Mikka Mús – þá þjónustu hefur hið unga lýðveldi ekki. Það sem það hefur hins vegar, nú þegar það er að þvo sér sjálft um alblóðugt andlitið er reynsla annarra þjóða. Það er engin þörf á því að þylja enn og aftur upp kreppulærdóm annarra ríkja en fyrir þá sem vilja staldra við og hlýða á lærdóm af spillingu annarra landa (sem full þörf virðist vera á), þá kemur hér ein lítil dæmisaga úr raunveruleikanum.

Ítalía Norðursins?

Ég er ekki sérfræðingur í ítalskri stjórnmálasögu, en verð þó að segja að hér virðist margt lykta af sama spillingarfnyknum og ríkti þar í landi í kringum árið 1990 ef frá er skilinn post-fasista fídusinn og að Ísland var komið lengra í einkavæðingunni – á þessari stundu er þó enn margt óljóst. Ítalir þurftu reyndar ekki þjóðargjaldþrot til að kryfja það hvort að spilling væri við lýði í landinu þeirra góða – aðskilnaður dómsvalds (sem langt því frá er heilagt né gallalaust), framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er með mun eðlilegri hætti en á Íslandi. (Hér verður ekki farið í alla þá ytri þætti sem einnig eru keimlíkir s.s. áhrif alþjóðavæðingar, umhverfisreglugerða, útlendinga, fjölmenningar og evrópuvæðingar á þjóðríkið, sem stjórnmálamenn virtust óhæfir til að svara líkt og hér.)

Tangentopoli eða múturborgin eins og málið varð þekkt í fjölmiðlum á rætur sínar að rekja til sjálfstæðrar rannsóknar dómsvaldsins undir heitinu ,,hreinar hendur” (e. Mani pulite) á því spillta pólitíska kerfi sem hafði viðgengist í sinni verstu mynd á 9. og byrjun 10. áratugs síðustu aldar. Réttarhöldin sem fram fóru að stærstum hluta á árunum 1992 og 1993 upplýstu um víðtæka spillingu og kerfi mútugreiðslna á milli stjórnmálamanna/flokka og atvinnulífsins. Kerfið gekk í raun út á það að stjórnmálaflokkar skiptu með sér stöðuveitingum hjá ríkinu eftir ákveðnu kerfi sem tryggði að stöðuveitingar svipaði til fylgis, sem leiddi til þess að óhæfir einstaklingar hreiðruðu um sig hjá fyrirtækjum og stofnunum ítalska ríkisins. Á móti högnuðust flokkarnir á persónulegum greiðum við einstaklingana og fyrirtækin.

Kroppað í yfirborðið

Málið átti sér langan og flókinn aðdraganda en náði ákveðnu skriði þegar forstjórinn Mario Chiesa, sem auk þess var í sósíalistaflokknum var handtekinn fyrir að þiggja mútur. Bettino Craxi formaður flokksins lýsti þessu sem einangruðu atviki. Eftir eignaupptöku lögreglunnar og nokkra fangelsisvist má gera ráð fyrir því að tekið hafi sig upp svokallað ,,fuck it attitude” hjá Chiesa sem hóf að greina frá vafasömum tengslum stjórnmálamanna við greiðslur og spillingu m.a. við mafíuna; sem gerði það að verkum að rannsóknin fór á flug, en einkum kom það sér illa fyrir sósíalistaflokkinn og kristilega demókrata (en hinir síðarnefndu höfðu stjórnað Ítalíu samfleytt frá stríðslokum).

Í byrjun apríl 1992 héldu flokkarnir tveir naumlega velli en síðar í sama mánuði voru nokkrir stjórnendur stórfyrirtækja hnepptir í varðhald grunaðir um að hafa mútað til að fá verkefni frá ríkisfyrirtækinu ENI (olíu og gas fyrirtæki) og raunar öðrum einnig. Málið færðist yfir til þingsins þar sem farið var fram á að grunaðir þingmenn yrðu handteknir. Leiðtogar flokkanna höfnuðu spillingu og bentu á hina handteknu sem aftur varð til þess að þeir gáfu út yfirlýsingar um samsekt þeirra. Að lokum náði málið því stigi að við öllum blasti spillingarbælið; vefur sem spunnist hafði milli stórfyrirtækja, ríkisforstjóra og yfir í heim þingmanna og ráðherra – milli 5-6000 einstaklingar úr hinum ýmsu stéttum þjóðfélagsins voru rannsakaðir.

Um miðjan desember þetta sama ár fengu áðurnefndir flokkar tveir svo háðulega útreið í sveitarstjórnarkosningum og daginn eftir var Craxi kvaddur fyrir dóm. Í lok janúar 1993 fór hann fram á að hafin yrði rannsókn á vegum þingsins á fjárreiðum flokkanna en neyddist skömmu síðar til að segja af sér innan flokksins vegna málsins. Um vorið hélt sirkusinn áfram og stjórnmálamennirnir reyndu allar brellurnar í bókinni, þar á meðal um sakaruppgjöf hinna ásökuðu – forseti landsins neitaði hins vegar að skrifa upp á slíkan skrípaleik. Skömmu síðar komst upp um ólöglega sjóði ENI og handtökum fjölgaði.
Þingið neitaði að rjúfa þinghelgi Craxis og þrír ráðherrar sögðu af sér í mótmælaskyni.

Nú var málið komið á það stig að menn fóru að svipta sjálfa sig lífi, þeirra á meðal fyrrum forstjóri ENI. Réttarhöldunum var sjónvarpað og virtir menn dregnir fram í sviðsljósið sem vitni. Craxi sagði í réttlætisskyni við ólöglegar 93 milljónir dala að ,,það gerðu allir” sem reyndist síðan rétt (minnir óneitanlega á orð varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að aðrir flokkar ,, hafa komið út úr þessu eins og hvítþvegin bleyjubörn sem hafa ekki komið nálægt neinu”). Það voru þó stjórnarflokkarnir á Ítalíu og einkum mesti valdaflokkur landsins, kristilegir demókratar sem hafði haft völdin (í einskonar þrípóla kerfi frá 1948 sem gekk út á það að einangra kommunista sökum kalda stríðsins) sem kom verst út; enda talinn hafa borið mestu ábyrgðina á meðan yngri og minni flokkar földu sig á bakvið að þeir hefðu ekki getað breytt kerfinu og hafi þurft að lifa af.

Málið var hins vegar ekki úr sögunni því að um vorið árið 1994 voru 80 meðlimir efnahagsbrotalögreglunnar og 300 aðilar úr atvinnulífinu handteknir vegna spillingar og múturmála. Mánuði síðar var sjarmurinn Berlusconi mættur í kosningaham, spilandi sig sem frelsarann sjálfan og hófst þá nýr kafli í spillingarsögu landsins. Sósíalistaflokkurinn og flokkur kristilegra demókrata þurrkuðust út í þáverandi mynd sinni.

Lærdómurinn

Nú væri hægt að fara í langan samanburðarleik sem þó væri skemmtilegri þegar öll kurl eru komin til grafar á Íslandi og ef ítarlegar væri farið í þetta mál á Ítalíu. Benda á sökudólga, hver er í hvaða hlutverki stjórnmálamanna, atvinnulífsins, ríkisfyrirtækjanna og spila sig stóran – jafnvel að spá um fyrir hvernig mál munu þróast (bið samt alla hlutaðeigandi að forðast sjálfsmorð). Það sem kæmi þó að betri notum væri að spyrja spurninga á borð við ,,Hvað hefur gerst í framhaldinu á Ítalíu?” og ,,Hvað getum við lært af því?”.

Þrátt fyrir loforð um hið svokallaða ,,annað lýðveldi” snemma á 10. áratugnum þá er Ítalía ennþá meðal þeirra landa sem verst er stjórnað í Evrópu. Útkoman varð ennþá meiri vindhanapólitík þar sem flokkarnir og lýðræðislega kjörin stjórnvöld hvers tíma halda áfram að missa lögmæti sitt (mismikið auðvitað). Skandalar þar í landi ná allt frá mafíu götunnar (sem reyndar er minni en áður), upp í æðstu embætti stjórnmálanna og einhversstaðar þar á milli var meistaratitill dæmdur af besta knattspyrnuliði landsins og það fellt um deild fyrir dómaramútur, en auðvitað ekki lið Berlusconi. Staðan hefur sem sagt í raun lítið breyst þrátt fyrir að yfirburðir kristilegra demókrata í einskonar þrípólakerfi hafi vikið fyrir tvípólakerfi byggðu á bandalögum hægri og vinstri flokka. Rannsóknin um hinar ,,hreinu hendur” var kjörið tækifæri til siðferðislegrar endurnýjunar en virðist hafa vikið fyrir hagsmunum óviljugra stjórnmálamanna.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að ákveðnir flokkar, sérstaklega þeir sem voru mest viðriðnir spillinguna hafi hrunið á það einungis við um hluta stéttarinnar, þar sem stór hluti stjórnmálamanna hefur farið í frakka og endurnýjað sig úr flokkum fyrsta lýðveldisins og yfir í annað lýðveldið (með litlum breytingum) í gegnum nýja flokka. Meira að segja sú endurnýjun sem þó varð í formi nýrra stjórnmálamanna hefur ekki leitt til breytinga á siðferðislegri hegðun. Þá hefur spennan aukist á milli dómsvaldsins og stjórnmálastéttarinnar sem lýsir sér einkum útávið í baráttunni milli dómsvaldsins og Berlusconi sem felst í baráttunni gegn sjálfstæði dómsstóla. Það komst í raun á einkennilegt samkomulagsatriði frá miðjum 10. áratugnum og fram á nýtt árþúsund að minnka áhersluna á pólitíska spillingu, einkum frá hægri bandalaginu en einnig hjá því vinstra – með yfirlýsingum um að slíkar rannsóknir dómsvaldsins væru átroðningur yfir á pólitíska sviðið.

Afleiðingarnar af því hversu illa til tókst við upprætinguna á árunum 1992-1994 hefur orðið til þess að ennþá er spilling víðtæk, það sanna emperískar rannsóknir. Þannig hefur spillingarmálum fjölgað og einnig þeim sem eru viðloðnir þau, hámarkið að sjálfsögðu á árunum 1992-1994 en hefur frá 1995-2003 mælst meira en tvöfalt og upp í fjórfalt fleiri en á árunum fyrir 1992. Árið 2003 sýndi könnun einnig að 75% svarenda trúðu því að til að ná samningum við hið opinbera þyrfti bjóðandinn að beita mútum en árið 1995 (skömmu eftir stóru rannsóknina) var hlutfallið 57%, aðrar spurningar leiddu það í ljós að almenningur taldi að ástandið ætti eftir að versna eða standa í stað. En líklega þurfa þeir sem fylgst hafa með ítölskum stjórnmálum síðastliðinn áratug eða tvo engar rannsóknir á því að þar hafi liðist ótrúleg spilling. Velti því nú hver hugsandi maður fyrir sér hvert framhaldið ætti að vera á Íslandi.

Tilvitnunin í upphafi þessa pistils eru orð höfð eftir Rino Formica eins af meðlimum hins spillta sósíalistaflokks og gætu þýðst sem: ,,munkarnir eru ríkir en klaustrið er fátækt” (sem var viðsnúningur frá því sem viðgekkst á miðöldum). Innra með mér leynist lítill samanburðarpúki sem segir að nú væri gott ef að einhver í ákveðnum flokki ,,gengi hreint til verks” og upplýsti almenning um spillingarmál flokksins frá A-Ö, niðurlagið gæti verið: ,,frjálshyggjuaparnir voru ríkir, en dýragarðurinn var fátækur”.

Ást og friður, ykkar Bjarni Þór.

PS. Ekki væri verra ef að ítalska mottóið ,,það er ekki hvað þú veist, heldur hvern þú þekkir” hyrfi úr íslensku atvinnulífi í leiðinni. Þá strax væri ögn lífvænlegra hérlendis fyrir menntað ungt fólk – það er í það minnsta hugmynd að siðferðilegri endurnýjun og einhverstaðar verður hún að hefjast... er ekki sagt að atvinnulífið sé alltaf fyrst á vettvang, ,,er ekki markaður fyrir þessu?”.

Heimildir

David Hine: ,,Political Corruption in Italy”. Í Walter Little & Eduardo Posada. Political Corruption in Europe and Latin America. MacMillan Press. London 1996.

Martin Bull: Italian Politics: Adjustment Under Duress. Polity press. Cambridge 2005

Donnatella Della Porta og Alberto Vannucci: ,,Corruption and anti-coroption: The Political defeat of ,,Clean Hands” in Italy”. Úr tímaritinu West European Politics Vol 30 no 3 (September 2007).

http://proquest.umi.com/pqdweb?index=0&did=1416159241&SrchMode
=1&sid=1&Fmt=3&VInst=PROD&VType=PQD&RQT=
309&VName=PQD&TS=1239581791&clientId=58032

http://proquest.umi.com/pqdweb?index=2&did=933453941&SrchMode=
1&sid=2&Fmt=3&VInst=PROD&VType=PQD&RQT=309&VName=
PQD&TS=1239686703&clientId=58032

http://proquest.umi.com/pqdweb?index=7&did=109632553&SrchMode=1&sid=
2&Fmt=3&VInst=PROD&VType=PQD&RQT=
309&VName=PQD&TS=1239686703&clientId=58032

http://is.wikipedia.org/wiki/Mani_pulite

http://en.wikipedia.org/wiki/Tangentopoli

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Þvílíkur knattspyrnuleikur

Það er ekki oft sem maður fær að hrósa Chelsea og Liverpool en leikurinn áðan hafði nánast allt sem góður knattspyrnuleikur á að hafa: Mörk, spennu, dramtík, vafaatriði, vítaspyrnu og ekki vítaspyrnu, sveiflur fram og aftur og fleiri mörk - flott mörk, kjánamörk, mörk eftir aukaspyrnur og fínt spil. Hvet alla til að horfa á leikinn.

Er lífið ekki dásamlegt?

föstudagur, apríl 10, 2009

Spurning dagsins

Er einhver tilbúinn að koma hér fram undir fullu nafni sem hyggst kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Stjórnmál og knattspyrna

Menn geta sagt hvað sem þeir vilja um persónu Jón Baldvins eða rifjað upp gömul hneykslismál sem eru hlægileg í nútímanum, en gamli krataforinginn hefur yfirburðarþekkingu og skilning umfram flest alla aðra stjórnmálamenn landsins. Hér eru nokkrar áhugaverðar skyldulesningar og það væri óskandi að Jón Baldvin væri í framboði og í sjónvarpssal til að reka vitleysuna ofan í þá gjammara sem þar koma fram með fordómafullar mýtur gagnvart Evrópusambandinu.

Um verðtrygginguna

Samningsmarkmið í sjávarútvegi

Washington Consensus vs ESB

Ábyrgð Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Hrós vikunnar: Adebayor sem einstaklingur fyrir stórkostlegt mark, en Barca sem liðið fyrir að setja upp sýningu í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, þvílíkt flæði á leikmönnum og bolta í bland við framtök einstaklinga. Góðir leikir annars almennt miðað við það að við erum á þessu stigi keppninnar.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Smávegis um umfjöllun Íslands í dag um mögulega aðild að ESB

Ísland í dag var með ágæta umfjöllun um mögulega Evrópusambandsaðild Íslands; það vakti hins vegar athygli mína að einungis var rætt við einn fræðimann innan Háskólasamfélagsins um Evrópumál en svo var leitað álits hjá helsta pólitíska andstæðingi aðildar (sem fór auðvitað með tóma steypu) og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og landbúnaði sem hafa beina hagsmuni af því að halda uppi einokun og að landsmenn fái bæði sem minnst val og borgi sem mest fyrir þá einokun. Hér er svo aftur stuttmynd Árna Snævarrs um Evrópusambandið.
Þá var rætt við aðalhagfræðing Seðlabankans sem sagði óbeint að til lengdar væri ekki hægt að halda floti á krónunni, ekki hægt að festa gengi hennar án hafta og ekki þýddi að taka upp aðra mynt en evru vegna utanríkisviðskipta Íslendinga (sem er að stærstum hluta við Evrópu) - þar er einhliða upptaka evru slæmur möguleiki að hans mati vegna þess að þá vantar ennþá bakhjarlinn sem Seðlabanki Evrópu er og stjórnvöld væru ekki bundin af því að þurfa að hegða sér skynsamlega heldur gætu haldið áfram að leika þann barbara sem kom landinu á þann stað sem það er í dag.
Varðandi vexti þá myndu þeir lækka til lengri tíma litið og sama má segja um verðbólgu - fyrir hinn almenna neytenda ætti þetta því ekki að vera nokkur spurning... miðað við skuldir heimilanna árið 2007 hefði vaxtabyrði fjögurra manna fjölskyldu minnkað á því ári um 1,7 milljón hefðu vextir verið þeir sömu og á evru svæðinu... í dag væri sú tala miklu mun hærri enda hafa vextir lækkað í Evrópu síðan þá en hækkað hérlendis... en auk þess segir mér eitthvað að skuldastaða heimilanna hafi ekki batnað síðan 2007.

Varðandi sjávarútvegsmál þá kom það skýrt fram hjá Eiríki Bergmann að hvorki hann né aðrir myndu samþykkja samning sem fæli í sér afsal af auðlindum landsins eins og andstæðingur ESB og hagsmunaaðilinn sögðu.
Þau rök sem þessir sömu menn notuðu um að við værum að gefa eftir forræðið á auðlindinni og að ekkert ríki hefði fengið varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu sambandins standast ekki rök þegar nánar er út í þau spurt og þegar fólki er ljóst hvað felst í sjávarútvegsstefnunni. Ísland er ólíkt öllum öðrum löndum innan ESB á þann hátt að lögsaga landsins og fiskistofnar skarast ekki á eins og hjá öðrum löndum.
Í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er ein meginreglan sú að gætt er að hlutfallslegum stöðugleika og þar er byggt á veiðireynslu (sem engin önnur þjóð hefur síðustu 30 árin í lögsögu Íslands). Önnur meginregla Evrópusambandsins er sú að aðildarríki ESB ráða sjálf yfir auðlindum sínum. Eignarréttarskipan á þeim er þeirra mál. Sbr. Olíu Breta, kolanámur Pólverja, skóglendi Finna o.s.frv.
Á þessum tveimur reglum myndi Ísland byggja það samningsmarkmið að sérlausn yrði sniðin að íslenskum sjávarútvegi (en öll lönd sem sótt hafa um aðild hafa fengið sérlausnir). Sú sérlausn myndi snúast um að íslenska lögsagan verði sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði á forræði Íslendinga eins og Eiríkur bendir á. Þetta er ekki beiðni um undanþágu frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni, heldur krafa sem á sér fordæmi. Hvort að slík sérlausn yrði samþykkt kæmi augljóslega ekki í ljós fyrr en í aðildarviðræðum.
Annars er gaman að hlusta á froðuna sem fellur úr munnvikum aðal andstæðings ESB um að við munum meðal annars missa yfirráðin yfir því að semja við önnur lönd. Formlega er það rétt en lítum betur á þetta. Fyrst skal nefna að Ísland og í raun einstök fyrirtæki gætu ennþá samið við þriðju lönd eða aðila. Ef fyrirtækin semdu sjálf væri þeir samningar á þeirra ábyrgð. Ísland myndi hins vegar ennþá getað samið við þriðju lönd með þeim fyrirvara að þeir samningar samrýmdust reglum sambandsins og að formlega sæti framkvæmdarstjórn ESB við samningaborðið ásamt Íslendingum. Viðsemjendur okkar myndu því vinna í gegnum framkvæmdarstjórnina sama hvaðan frumkvæðið að samningnum kæmi en Ísland gæti tekið virkan þátt í ferlinu væri áhugi á slíku. Þá er það svo nú þegar að vegna EES samningsins getur Ísland ekki samið hvernig sem því hentar við þriðju ríki, vegna kröfunnar um einsleitni á EES svæðinu. Hitt atriðið þegar kemur að hagsmunum er svo mikið áhugaverðara, hvort heldur almenningur að sé líklegra til að ná góðum samningum litla Ísland eitt og sér eða Ísland ásamt stærstu viðskiptablokk heimsins?
Varðandi núverandi samninga Íslendinga myndu þeir falla inn í samstarfið við ESB en auk þess er ESB með mun fleiri samninga sem myndu nýtast Íslandi og er sambandið aðili að 11 svæðisbundnum samtökum um fiskveiðistjórnun (Ísland er aðili að fjórum).
Varðandi erlent eignarhald þá skýtur það skökku við að Íslendingar hafi fjárfest í fyrirtækjum í Evrópu en að Evrópubúar hafi ekki getað fjárfest í íslenskum sjávarútvegi. Hvernig ætlar annars sjávarútvegurinn sem skuldar 500 milljarða að fjármagna sig til framtíðar - með öllum þeim lánum sem þjóðinni býðst núna á sama tíma og við erum að afskrifa skuldir?
Varðandi það að gera út á Íslandsmið, svonefnt kvótahopp þá hafa aðrar þjóðir svosem Bretar komið í veg fyrir það og engin ástæða til að ætla að við gætum það ekki líka.

Þá að landbúnaði. Hagsmunir landsmanna vs hagsmunir bændaklíkunnar. Er einhver utan bændaklíkunnar sem er ósammála því að stokka þurfi upp í því kerfi? Eru einhverjar líkur á því að ríkið geti á næstu árum borið uppi tugmilljarða króna landbúnaðarstyrki? Ef íslenskar landbúnaðarvörur eru þær bestu í heiminum og ef íslenskir neytendur eru íhaldssamir er þá nokkur hætta sem stafar af inngöngu í ESB? Er ekki rétt að neytendur fái sjálfir að ráða því hvort að þeir borði rándýra hágæða osta frá Íslandi eða ódýra ,,ömurlega" osta frá Danmörku? Er einhver sem myndi mótmæla 10-25% lækkun á matarverði. Ég vill ekki banna nokkrum manni að borða íslenskt kjöt en ætlast um leið til þess að sá aðili leyfi mér að borða kjöt frá þeim Evrópulöndum sem mér sýnist á mun lægra verði.
Gaman að heyra formann Bændasamtakanna tala í hálfsannleik í viðtalinu um að verð til bænda í Finnlandi hafi lækkað um 45-50% því að til móts við þá var komið bæði fyrir inngöngu og einnig í formi byggðarstyrkja eftir inngöngu. Þannig hefur hlutur landbúnaðarins í þjóðarframleiðslunni verið um 4 prósent við inngönguna, en er 1,5 prósent í dag.

Að lokum var ótrúlega fyndið þegar andstæðingur ESB og hagsmunaaðilar voru beðnir um kosti ESB, allir voru þeir of þröngsýnir og þrjóskir til að sjá þá. Ragnar Arnalds sendi þó fimm punkta í tölvupósti lítum á þá:
1. Sameinuð Evrópa öflugri gegn öðrum heimsálfum EN völd smáríkja minnka.
2. Hlutdeild í valdaákvörðunum ESB EN valdaframsal á mörgum sviðum.
3. Bætum íslenska löggjöf á mörgum sviðum EN margar ESB reglur henta ekki.
4. Landbúnaðarvörur gætu lækkað í verði EN valda skaða í sveitum og bæjum.
5. Lægri vextir og minni gengissveifla með evru EN gengi evru hentar íslenskum hagsmunum afar illa.
Varðandi fyrsta atriðið þá sýna allar rannsóknir í smáríkjafræðum að hagsmunir og völd smáríkja aukast við inngöngu í ESB. Varðandi annað atriðið þá yrði valdaframsalið ekki meira en varð með EES samningnum og við myndum raunar vinna hlutdeild í ákvarðanatöku til baka þar. Í þriðja lagi hvaða reglur eru það sem henta ekki Íslandi? Í fjórða lagi, skaði í sveitum og bæjum gerist ekki sjálfkrafa og íslenskir bændur munu hvort sem er verða varir við tekjuskerðingu og verða að vera tilbúnir að nýta tækifærið við inngöngu - það er auk þess ekkert að því á þessum síðustu og verstu tímum að bændastéttin læri merkingu orðsins hagkvæmni, í því felst stærri býli á kostnað þeirrar rómantísku fjölskyldustefnu sem hér hefur verið rekin alltof lengi. Þá er bændum nú þegar að fækka.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta einfalt. Förum í aðildarviðræður og sjáum hvað kemur út úr þeim. Þjóðin metur svo samninginn og samþykkir hann eður ei. Neitar því einhver sem ekki á einokunarhagsmuna að gæta?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Háður Dylan

Það er þannig með mig eins og marga aðra að þegar ég á annað borð byrja að hlusta á Dylan (sbr. nýju lögin) þá rifjast eldri lög jafnframt upp og þá er erfitt að slíta sig frá lögunum. Hér eru nokkrar upptökur sem ótrúlegt en satt komust ekki á nokkrar breiðskífur en myndu sennilega prýða ,,Best of" diska með öllum öðrum tónlistarmönnum, sum lögin komust alls ekki á disk en í öðrum tilvikum voru aðrar útgáfur notaðar.

Most of the time (demo)

Dignity (demo)

If not for you (slow version)

Farewell, Angelina

Mama, You Been On My Mind

Hurricane (Unreleased)

Corrina Corrina (Outtake)

Most of the time (útgáfa 3)

...nóg í bili!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 07, 2009

Um knattspyrnulegar staðreyndir

Það eru vissulega undantekningar en almennt gildir það lögmál í knattspyrnu að maður kemst ekki nema ákveðið langt þegar innanborðs eru ofmargir farþegar. Lýst er eftir Wes Brown, Rafael og Ferdinand til að loka gjánni sem myndast ítrekað í vörn United, jafnframt er lýst eftir Evra sem hefur verið andlega fjarverandi í lengri tíma. Á miðjunni á það sama við, lýst er eftir andlega fjarverandi Carrick, þeim Scholes sem kann að senda sendingar en ljóst er að Fletcher er afar takmarkaður. Á köntunum er lýst eftir ferskum fótum, Park og Ronaldo eru orkulausir og frammi er lýst eftir mönnum til að standa inni í teig en ekki úti á kanti eða í hægri bakverði þegar sótt er. Djöfull þarf þetta lið alltaf að gera allt erfitt og mögulega er þetta skref United ofviða. Með þessu áframhaldi springa þessar þrjár keppnir allar í andlitið á þeim.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Nýtt Dylan lag fyrir afmælisbarn dagsins

Megas er afmælisbarn dagsins, hann fær annað lagið af nýju Dylan plötunni sem kemur út í lok mánaðar að gjöf Bob Dylan - I feel a change coming on. Tvö góð lög hingað til af þessari plötu, boðar gott - Beyond Here Lies Nothin' er þó betra að mínu mati.

Well now what’s the use in dreaming?
You got better things to do
Dreams never did work for me anyway
Even when they did come true

...I feel a change coming on
And the forth part of the day is already gone

-Bob Dylan

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, apríl 05, 2009

Football - bloody hell!!!

Þvílíkur rugl leikur sem United vs Villa var áðan - úff!!!

Ég get svo svarið það að vörn United manna með Neville og O´Shea fremsta í flokki var ekki skárri en þegar David May og Pallister (á lokasprettinum) voru að valda usla á sínum eiginn vallarhelmingi fyrir margt löngu. Það er eins gott að Vidic og Ferdinand snúi aftur í næsta leik og verði í þessari vörn til loka tímabilsins og ekki væri verra ef að Wes Brown eða Da Silva (annar hvor) snéru til baka úr meiðslum til að gefa Neville tíma til að jafna sig á þessari hræðilegu frammistöðu í hægri bakverðinum.

Þessi leikur var því eins konar afturhvarf um áratug, snérist um það að United vissi að þeir myndu fá á sig mörk og urðu hreinlega að skora fleiri. Það leit mjög illa út eftir 70 mín og staðan 1-2 fyrir Villa og United að spila hörmulega. Eftir 80 mín virtist þriðja tapið í röð ætla að verða staðreynd þegar upp úr þurru Ronaldo (sem var annars hræðilegur) skoraði sitt annað mark í leiknum og eitthvað grunsamlega kunnulegt í loftinu. Það er svo varla hægt að lýsa endinum... 17 ára gamall Ítali að nafni Macheda (sem ég hef áður minnst á) í sínum fyrsta deildarleik fær boltann utanlega í teignum vinstra megin í uppbótatíma, snýr sér á punktinum og leggur boltann ofarlega í fjærhornið og allt ærðist gjörsamlega á Old Trafford - ekki vantaði heldur upp á hrokann hjá gaurnum og sendi hann létta kveðju á Gerrard...














Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, apríl 04, 2009

Leiðtogaumræðurnar

Eins og lesendur þessarar síðu vita þá er ég ómarktækur spunameistari ákveðins flokks og því spyr ég: Hvað þótti mönnum og konum um Leiðtogaumræðurnar í gær? Hver(jir) voru bestir/skástir og verstir?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Trúfrelsi í nánd?

Það hefur eflaust farið framhjá mörgum (enda margt annað í deiglunni) að á nýafstöðnum Landsfundum voru ansi margar ályktanir samþykktar varðandi trúmál sem myndu í venjulegu árferði kallast stórtíðindi. Í fyrsta lagi komust allir stóru flokkarnir að því varðandi hjónabönd samkynhneigðra að sameina eigi hjónabandslöggjöfina í ein lög.
Samfylkingin ályktaði einnig að ,,Að flokkurinn skuli taka til við að endurskoða hjónabandslögin varðandi eðli þess sem borgaraleg stofnun þannig að hugsanlega eigi lagalegi hluti þess að vera alfarið í höndum sýslumanna."

Vinstri Grænir fá stóran plús en þeir gengu lengst í átt til þess að koma á raunverulegu trúfrelsi er þeir ályktuðu: ,,Stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga. "
Samfylkingin lagði fram álíka tillögu um að leggja niður 62. grein stjórnarskrárinnar um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja, en henni var vísað til framkvæmdarstjórnar, enda þótti hún hafa fengið of litla umfjöllun. Það verður því ekki betur séð en að bátnum hafi verið ruggað og ómögulegt að segja hvað getur gerst á næsta kjörtímabili ef að þessir flokkar mynda stjórn.

En vinstri flokkarnir voru ekki hættir í ályktunum sínum og ályktuðu báðir að
a) Hætta skal sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður
b) Veraldleg lífsskoðunarfélög öðlist sömu lagaleg réttindi og þau trúarlegu. Þetta mun þýða að Siðmennt fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og fái að njóta sóknargjaldakerfis ríkisins. (Sem er reyndar skref í ranga átt þegar allt er skoðað)
c) Virða beri réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna. Trúboð eða trúarlega starfsemi eigi því ekki að leyfa í leik- eða grunnskólum.

Hver veit kannski getum við farið að kalla okkur siðmenntað þjóðfélag strax á næsta kjörtímabili?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Velvaldar bækistöðvavísur fyrir flokksstjóra