þriðjudagur, desember 30, 2008

Bækur fyrir borgara

Eitt af þeim atriðum sem Páll Skúlason taldi upp, þar sem breytingar yrðu að eiga sér stað á Íslandi (í viðtalinu í síðustu færslu) var að hver Íslendingur hætti að líta á sig sem þegn og breyttist í borgara - gæti ekki verið meira sammála. Í þessu felst breyttur hugsunarháttur, þar sem þegninn hættir á líta þröngt á sitt nánasta umhverfi og tekur virkan þátt í samfélaginu. Í stað þess að einblína á starfið sitt, fjölskylduna og ameríska lágmenningu eða enska boltann, þá fer hann að hugsa um samfélagið sitt í auknum mæli, hvaða hugmyndir hann hefur um það, hvernig samfélagi hann vill lifa í, myndar sér gagnrýna hugsun og hefur skoðun á því sem er að gerast í kringum hann (NB! það er enginn að tala um að menn og konur þurfi að hætta í vinnunni og yfirgefa fjölskylduna sína til að breytast í borgara). Í stað þess að vera rænulaus og finnast nóg að kjósa einu sinni á fjögurra ára fresti photo-shop-aða colgate bjána að þá notar viðkomandi höfuðið til að halda uppi gagnrýnu eftirliti með valdhöfum ásamt samborgum sínum. En hvar skal byrja?
Nú kunna menn ekki að vera sammála um hvað fólk ætti að lesa, víst eru menn ósammála um pólitískar skoðanir en ég ákvað engu að síður að benda á nokkrar bækur í ljósi ástandsins um framtíð Íslands, alþjóðavæðingar og samvinnu við Evrópu... vegna þess að umræðan um Evrópusambandið mun einungis aukast á næsta ári og komandi árum. Einhverjar hef ég nefnt áður:

1. Opið land: Staða Íslands í samfélagi þjóðanna - Titilinn segir nokkuð mikið um innihaldið. Eiríkur Bergmann veltir fyrir sér framtíð Íslands í breyttum heimi. Framtíðarsambandið við Evrópu og Bandaríkin og hvernig við eigum að leysa úr vandamálum okkar í náinni framtíð. Auðlesnar 133 blaðsíður sem koma sér vel sem grunnur fyrir þá sem vilja geta átt samtöl um annað en börn eða veðrið.Sérstaklega fyrir þá sem vilja getað þaggað niður í íhaldsömum miðaldra frændum sínum sem segja ,,við verðum að losa okkur við útlendingana áður en ÞETTA verður jafn mikið vandamál og í nágrannalöndunum"

2. Ný staða Íslands í utanríkismálum (tengsl við önnur Evrópulönd) - Mjög þægileg bók sem unnin er upp úr ráðstefnu árið 2006 þar sem fræðimenn á hinum ýmsu sviðum fluttu erindi. Meðal þess sem má lesa í bókinni eru:
a) Reynslan af EFTA og EES samningnum
b) Hvort að fullveldið glatist með inngöngu í ESB
c) Landbúnaðinn og ESB
d) Sjávarútveginn og ESB e)
Reynsla Svía og Finna af veru sinni í ESB...
...en auk þess margt, margt fleira.

Skyldulesning fyrir þá sem vilja getað þaggað niður í ofangreindum frænda sem vill slíta landið frá umheiminum og lifa á sjálfsþurftarbúskap og þorramat með hina stoltu íslensku krónu sem gjaldmiðil.

3. Making Globalization Work - Stiglitz. Það var rík þörf til að lesa þessa bók fyrir hrun frjálshyggjunnar, bankakerfisins og Íslands en nú er hún algjört möst. Hún fjallar í rauninni um annmarka alþjóðahagkerfisins og hvernig sé best að leysa hin ýmsu vandamál sem steðja að mannkyninu eða að minnsta kosti umbætur á henni. Útgangspunkturinn er sá að séum við ekki tilbúinn til að láta hnattvæðinguna virka íbúum heimsins eða ríkja hans til góðs að þá munu íbúarnir á endanum gefast upp og taka stöðu gegn henni í gegnum lýðræðið - sem eru nákvæmlega þær raddir sem heyrst hafa að undanförnu á Íslandi, en við höfum einmitt aldrei þurft eins mikið á hnattvæðingunni og erlendri samvinnu á að halda eins og nákvæmlega á þessu viðkvæma augnabliki í sögu þjóðarinnar. Nóbelsverðlaunahafinn Stiglitz fer bæði yfir hagsögu nútímans, galla kerfisins og hvernig ríki geta best komist hjá því að lenda í kreppu (humm?) en einnig um hin sameiginlegu vandamál á borð við umhverfisvernd. Hafi einhver áhuga á að víkka sjónsvið sitt út fyrir endimörk íslenska þjóðríkisins (sem ótrúlegt en satt er ekki miðja sólkerfisins) þá er þetta góð bók til að byrja á. Hér er fyrirlestur um bókina sem Stiglitz hélt og ég hef áður bent á.

4. Globalization - Það verður seint sagt um Jan Aaart Scholte að hann sé hress fræðimaður og margar blaðsíður í þessari bók bragðast eins og þurr sandur fyrir þyrstan mann... EN - þessi bók er fyrir alla þá sem lesa Opið land: Staða Íslands í samfélagi þjóðanna en segja OK en bíddu af hverju fúnkerar kerfið svona? (Best til aflestrar sem uppflettirit við mismunandi vandamálum og jafnvel samhliða Stiglitz)

Fleiri bækur seinna... enda ágætis skammtur í bili.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

mánudagur, desember 29, 2008

Speki

Eva María ræddi við Pál Skúlason í gær, það var nokkuð fróðlegt. Ég átti samt von á meiru, fannst svolítið spólað í sama farinu - það var þó meira þáttastjórnandanum að kenna en Páli.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

Örstutt um Lakers

Einhvern tímann hefði það þótt skrýtið að gagnrýna lið sem er efst í vesturdeildinni með vinningshlutfallið 25-5 en það ætla ég þó að gera. Hvað er málið með þetta Lakers lið?
Mér sýnist á öllu sem að Lakers liðið sé að breytast í einhvers konar Phoenix Suns skrípalið. Ég hef alltaf verið talsmaður sóknarleiks en öllu má nú ofgera. Liðið sem tapaði í úrslitunum í fyrra vegna þess að það gat ekki spilað vörn og verið harðir virðast ætla að svara gagnrýninni með því að spila meiri sókn. Ég var að horfa á liðið leggja Golden State að velli 130-113 en varnarleikurinn var oft eins og hjá botnliði í íslensku deildinni. Annað sem pirrar mig ótrúlega við Lakers liðið er þrátt fyrir mikla hæfileika að þá virðist lykilmönnum (að Kobe undanskyldum) vanta hugarfar sigurvegarans, sem endurspeglast best í tveimur mönnum Odom og Gasol.

Odom á að heita þriðji besti leikmaður Lakers liðsins og ætti raunar að vera næst besti leikmaðurinn - hefur allt til að vera ofurstjarna að undanskyldu ofangreindu hugarfari. Í heimi þar sem höfuðið á Odom væri í lagi þá væri hann ekki síðri leikmaður en Paul Pierce sem leiddi Celtics til sigurs í vor. Í rauninni er Odom fjölhæfari enda getur hann spilað allt frá dripplara og upp í kraftframherja en Pierce frá dripplara upp í lítinn framherja. Odom er sjö sentimetrum hærri, þeir eru svipaðir að þyngd, Odom er með betri skotnýtingu (46,2% vs 42,1%) en Pierce með betri 3 stiga nýtingu (37,8% vs 34,5%), Odom tekur fleiri fráköst (6,3 vs 5,7) en Pierce gefur fleiri stoðsendingar (3,9 vs 2,3)... stærstur munur er þó á spiluðum mínútum og stigum þar sem Pierce skorar 18,3 stig að meðaltali á 36,7 mín í leik en Odom skilar einungis 8,6 stigum á 26,7 mín að meðaltali og hefur aðeins byrjað einn leik í vetur - sem er vægast sagt sorglegt fyrir mann af slíkri hæð og þyngd, með slíkan styrk og hæfileika... sennilega fer enginn leikmaður í NBA eins illa með hæfileika sína og Odom, ef hann hefði rétt hugarfar þá fullyrði ég að Lakers væru núverandi meistarar.

Hinn leikmaðurinn sem fer hroðalega í mig er Gasol. Samanborið við Garnett spilar Gasol að meðaltali fleiri mínútur, skorar fleiri stig, tekur fleiri fráköst, gefur fleiri stoðsendingar, er með betri skotnýtingu (og 3 stiga nýtingu) á meðan Garnett stelur fleiri boltum og blokkar meira. Munurinn liggur hins vegar í því að Garnett spilar rosalega vörn, er sterkur og mikill leiðtogi en Gasol gæti ekki verið líflausari, verri varnarmaður og meiri aumingi miðað við hæð og þyngd. Þannig er Gasol 2,13 m og 113 kg en Garnett er 2,11 m og 100 kg - samt lendir Gasol (sem ætti að vera miðherji) í meiri erfiðleikum með styrk kraftframherja undir körfunni en Garnett sem er kraftframherji lendir í þegar hann spilar sem miðherji.

Í þessum samanburði á Odom og Gasol vs Pierce og Garnett finnst mér liggja sá munur sem mun skila Boston öðrum titli í vor - menn sem eru ekki með höfuðið í lagi og spila enga vörn verða ekki meistarar eða eins og Roy Keane orðaði það ,,góðu strákarnir vinna aldrei neitt". Púú á það!

Er lífið ekki dásamlegt?

mánudagur, desember 22, 2008

Fullveldið og ESB

Eiríkur Bergmann sparaði mér tímann með því að rita góða grein um fullveldið og ESB sem birtist í Fréttablaðinu 20. des og ég mæli með að allir lesi áður en þeir munu standa frammi fyrir því að taka upplýsta ákvörðun um ESB.

Ég vill bæta við tveimur punktum til glöggvunar:

1. Fyrir þá sem þora ekki inn í ESB vegna breytinganna er rétt að benda á þau svið sem eru nú þegar ekki til staðar með hinum víðtæka EES samningi og Eiríkur telur upp:
A) Landbúnaður - sem bændur munu loksins átta sig á að er hentugra fyrir þá þegar að ríkið byrjar að skera niður styrkjakerfið - allur almenningur mun fagna fjölbreytileika og ódýrari matarverði.
B) Sjávarútvegurinn - sem sérstaka grein þarf til að ræða um.
C) Utanríkisviðskipti, Efnahags og myntbandalagið - en þessi liður þ.e. evran og stöðugleiki er meginástæða þess að til umræðu er að stíga hið stutta skref frá EES til ESB.
Síðasta atriðið snýr svo að því að við fáum lýðræðislegan þátttökurétt sem við höfum ekki núna með EES samningnum.

2. Mér finnst undarlegt að Eiríkur noti ekki skemmtilegustu og einföldustu rökin fyrir þá sem eru hræddir við tap á fullveldi en það er tilvitnun í Clement Attle fyrrv, forsætisráðherra Breta. Inntakið er að líkt og almenningur framselur hluta af sínu einstaklingsbundna fullveldi innan múra þjóðríkisins til að öðlast meira frelsi - hvers vegna ætti slíkt ekki einnig að eiga við um þjóðir í alþjóðlegu samhengi? Annars svarar greinin þessu mjög vel á einföldu máli.

Þegar allt kemur til alls eru það hagsmunir almennings og þjóða sem ættu að vera uppistaðan í upplýstri ákvarðanatöku en ekki innantómur þjóðrembingur borin uppi af tilfinningarökum .

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

fimmtudagur, desember 18, 2008

Ísland – almost heaven?

Þessi pistill birtist á Vefritinu.

Síðasti pistill hófst á frásögn af heimsókn þar sem ég ræddi málin við tvo vini (pólitíska öfgamenn) áður en ég sýndi skoðanabróður minn, viðskiptaráðherra berrassaðan. Rætur pistilsins í dag má hins vegar rekja til samræðna við góðan vin sem benti mér á þátt sem á samleið með íslenskum veruleika.

Sagan endurtekur sig

Margir kannast við þættina ,,Weird Weekends” þar sem Louis Theroux fer á kostum. Í einum slíkum sem ég hafði ekki séð ferðast Louis til Idaho í Montana til að kynnast sjúkum ofur-þjóðernissinnum sem halda úti smáu samfélagi til varnar bandarísku stjórnarskránni (og reyndar heimsenda-kristni, en látum það liggja milli hluta) sem hefur það markmið að lifa af.

Þetta litla, byssuglaða og fársjúka samfélag er uppfullt af ranghugmyndum og samsæriskenningum, þar á meðal um hið nýja heimsveldi (Sameinuðu Þjóðirnar) sem ,,hefur það illa innrætta og leynilega plan að stjórna heiminum”. Gegn SÞ ætlar þetta litla samfélag að verjast fram í rauðan dauðann og hefur komið sér upp leynilegum kjarnorku- og eiturefnabyrgjum ,,þegar” árásirnar hefjast.

Samfélag þetta var stofnað af Bo Gritz (sem telur sjálfan sig fyrirmynd Rambo) bæði út frá hernaðarlegu og einnig náttúruhamfara sjónarmiði, sem öruggsti staður í öllum Bandaríkjunum – nafnið á staðnum er því viðeigandi, hann heitir ,,Almost Heaven”.

Louis gerir sér lítið fyrir og leggur það á sig að kynnast og gista hjá íbúum á einu sveitabýlanna. Húsbóndinn, hægri öfgamaður, rekur sögu sína og hvers vegna hann hafi lagt af stað í þetta afskekkta ,,himnaríki”. Í sem fæstum orðum má rekja það til þess að skattayfirvöld í Bandaríkjunum eyddu reikningnum hans og dóttur hans sem átti 12 dollara í sparifé (réttið upp hönd þegar þið farið að sjá munstur) auk þess sem þau völdu afskekkt öryggi umfram lífsgæði.

Næsti viðkomustaður er hjá gömlum vinstrisinnuðum hippa sem hafði lifað á mun afskekktari stað ,,neðanjarðar” í 28 ár, honum stóð á sama þó að himinn og haf væru milli hans lífsskoðanna og hinna (hægri öfgamannanna) – þeir berðust að sama markmiði; sjálfstæði sínu gegn heimsveldinu illa. Sá var svo vinsamlegur að benda Louis á hvar finna mætti mjög rasíska, hommafælna en þjóðholla menn.

Louis hélt leið sinni áfram og næsti viðmælandi var sjálfur leiðtogi hinnar arísku þjóðar (safnaðarins, svo að það sé á hreinu) og prestur sem var hans hægri hönd, en þetta ,,krúttlega” félag hafði staðið fyrir allskyns ofbeldisverkum og morðum. Þeir reyndust vera miklir þjóðernissinnar og vildu verja stjórnarskránna… tja, það sem snéri að hvíta kynstofninum allavegana!

Áfram hélt Louis, spjallaði m.a. við mann sem bjó í húsi úr heyböggum sem SÞ myndi aldrei detta í hug að ráðast á, enda liti það út sem gras fyrir dýrin (ég ætla ekki einu sinni að byrja á því að greina þessa löngu rökvillu). Að lokum snéri hann aftur til hægri öfgamannsins sem var að byggja sér nýtt líf eftir að skatturinn hafði ,,rústað” hans fyrra lífi með því að taka 12 dollara af dóttur hans. Hann var ennþá að undirbúa sig undir stríðið: Almost Heaven vs The New World Order sem gæti átt sér stað fyrir aldamótin. Auðvitað varð ekkert af því, fremur en tölvuvírusnum sem átti að senda okkur aftur á steinöld. ,,Andstæðingurinn” hefur ekki skotið einu skoti og þeir fáu sem hafa særst, hafa gert það af eigin hendi – þar á meðal stofnandi Almost Heaven, Bo Gritz sem reyndi að fremja sjálfsmorð og flutti síðan úr himnaríkinu ásamt mörgum öðrum.

Ísland og samtíminn

Nú stendur Ísland á tímamótum, þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma nú hver á fætur öðrum út úr ESB skápnum og líklegt má teljast að tveir flokkar til viðbótar við Samfylkinguna verði því jákvæðir í garð ESB í janúar (D og B) og samþykki að fara í aðildarviðræður um inngöngu – meira að segja Ingvi Hrafn er orðinn fremur meyr og mjúkur.

Eins og allir ,,sannir Íslendingar” vita hins vegar að þá er ESB illa innrætt bandalag sem tók áratugi að byggja upp til þess eins að fara illa með Íslendinga samkvæmt leynilegu plani – hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir ætla íslenskir þjóðernissinnar út í þegar að þjóðin samþykkir inngönguna?

Er hægt að komast að samkomulagi um að við afhentum þeim Papey? Nei líklegast vilja þeir ráða því sjálfir hvaða afskekkti eyðistaður er öruggastur, jafnt hernaðarlega sem og út frá sjónarmiði náttúruhamfara - það yrði líklega erfitt að koma fyrir kjarnorkubyrgjum á eyjunni. Þeir ættu þó að byrja að safna fyrir þeim, því þau kostuðu 35.000 dollara stykkið eða nákvæmlega óteljandi íslenskar krónur miðað við það ástand sem þessir menn hafa skapað í nafni sjálfstæðrar myntar – mögulega fá þeir þó afslátt hjá fyrrverandi íbúum Almost Heaven og þá skiptir engu hvort þeir eru vinstri eða hægri þjóðernissinnar. Þar geta þeir lesið um Bjart í sumarhúsum og stoltir sagst hafa valið afskekkt öryggi fram yfir lífsgæði.

Vonandi fáum við að sjá álíka þátt um svona menn hérlendis í framtíðinni, því í fjarveru þeirra yrði íslenskt þjóðfélag mun heilbrigðara – nafnið er líka komið: ,,Næstum því Valhöll”.

Með laufléttri ástarkveðju, ykkar einlægur BÞP.

Er lífið ekki yndislegt?

Efnisorð:

mánudagur, desember 15, 2008

Að aðlagast Evrópusambandinu - inngangskafli fyrir dauðhrædda Íslendinga

Formáli

Nú þegar að týndu synir og dætur Evrópu snúa bráðlega aftur heim, eftir útlegð á eyðiskeri ömurleikann, algjörlega óhæf um að stjórna sér sjálf er rétt að líta á stöðu mála og sjá hversu fljótt almenningur mun aðlagast ytri þáttum Evrópusambandsins - þegar frá eru dregnir styrkir, efnahagslegur stöðugleiki með alvöru mynt og önnur þau hlunnindi sem Ísland mun fá. Ákvað að hafa þetta á barnaskólastigi og þetta er einungis inngangur í umræðuna.

Mottó

Þar til fyrir örfáum árum var íslenska þjóðin jafnaðarmenn. Hún ann jöfnuði meira en frelsi efnahagslega og spurningin var einungis hversu miklum jöfnuði var barist fyrir. Sumir börðust fyrir stétt með stétt, aðrir fyrir útópíu kommúnismans og aðrir þar á milli – enginn var of góður til að hjálpa né ræða við helstu Ólukku Láka samfélagsins. Eftir fals gróðærisins er okkur núna gert að halda berrössuð til baka í átt til annarra gilda, gilda sem ráðast af manngæsku en ekki barbarahætti. Öll ættum við að geta samþykkt mottó Evrópusambandsins ,,Unity in diversity” með bros á vör. ESB 1 – Ísland 0

Fáninn

Af sama meiði er fáni Evrópusambandsins. Upphaflega tekið upp af Evrópuráðinu árið 1955 ekki eingöngu fyrir það sjálft heldur fyrir alla Evrópu. Nú til dags deilir það fánanum með sjálfu sambandinu. Fyrir allra hræddustu sannkristnu íhaldsmennina má benda á að hönnuður fánans sagði að hugmyndin á bakvið hann væri tilvísun í Biblíuna, við trúleysingjarnir getum líka litið framhjá því enda vanir hinum óréttláta íslenska fána með trúartákni kristinna manna. Í því rænuleysi sem hér ríkir ættu jafnvel hinir allra hörðustu and-evrópusinnar að vera orðnir vanir að sjá stjörnur af öllum svimanum yfir gengi íslensku krónunnar. Hvor er fallegri sá íslenski eða fáni Evrópusambandins? ESB 2 – Ísland 0. Legg ég hér raunar til að Ísland skipti um fána. Haldi í bláan flötin en losi sig við annað hvort lárétta eða lóðréttu línuna sem mynda krossinn og bæti síðan 12 stjörnum ESB yfir.

Þjóðsöngur

Mörgum hefur þótt íslenski þjóðsöngurinn þunglamalegur, illsyngjanlegur og orðin niðurdrepandi. Það á ekki við um söng Evrópusambandsins, samin af Beethoven og ber heitið ,,Óður til gleðinnar” og stendur fyllilega undir því nafni – laginu er reyndar ekki ætlað (frekar en fánanum) að koma í stað þjóðsöngva ríkjanna, fremur að minna ríkin á þeirra sameiginlegu gildi. Íslendingar eða í það minnsta íslenskir karlmenn ættu ekki að vera lengi að aðlagast laginu enda það iðulega spilað fyrir leiki í Meistaradeildinni. Glæsilegt mark ESB 3 – Ísland 0.

Hátíðardagur

Evrópudagurinn vs 17. júní. Þarna er komið atriði sem mögulega gæti skorað mark fyrir Ísland. Reyndar er það svo að Evrópudagurinn er haldinn bæði 5. og 9. maí - annars vegar til að fagna stofnun Evrópuráðsins 5. maí 1949 og hins vegar til að fagna Schuman yfirlýsingunni frá 9. maí árið 1950 um að Þjóðverjar og Frakkar mynduðu kol- og stálbandalag sem þróaðist svo áfram yfir á önnur svið, markmiðið með samvinnunni var að með því að binda saman efnahagslega hagsmuni yrði endanlega komið í veg fyrir stríð í Evrópu. 17. júní verður alltaf 17. júní sama hversu plebbalegur hann er í útfærslu og þó að Evrópudagarnir séu tveir að þá geta menn bent á 1. desember. Ég segi, fögnum öllum þessum dögum - gerum maí að partý mánuði (1. maí, 5. maí, 9. maí, Eurovision, úrslitaleikur í enska bikarnum og Meistaradeildinni og lok ensku deildarinnar + kosningar annað hvert ár). Ísland skorar mark, en ESB kemst í skyndisókn og skorar strax, 4-1 fyrir ESB.

Gjaldmiðill

Myndi einhver gráta þó að hann sæji aldrei aftur íslenska mynt eða seðla? Líklega ekki. 500 kr. seðlar eru þeir einu sem einhver virðing er yfir en þeir eru fáir, en helmingur landsmanna gæti líklega ekki nefnt hverjir eru á hinum seðlunum, klinkið er bara bjánalegt og allir komnir með ógeð á dauðri krónu. Evran er hins vegar ekki einungis stöðugur gjaldmiðill, heldur einnig fallegur. Ólíkt því sem hræðsluáróðursmenn vilja halda fram um að evran gæti orðið dauð eftir innan við 10 ár að þá er mun líklegra að evran geri sama fyrir Evrópu og dollarinn gerði á sínum tíma fyrir Bandaríkin. Þá er óupptalið að við myndum losna við stjórnmálamenn úr Seðlabankanum. ESB 5 - Ísland 1.

Þetta er auðvitað allt sett fram í léttu gríni. En er einhver annars þegar orðinn hræddur við þessar hræðilegu breytingar?

Þeir geta þá hughreyst sig við það að meira að segja heimastjórnarmenn innan Sjálfstæðisflokksins vilja fara í aðildarviðræður, margir innan vinstri grænna líka og við tökum nú þegar upp mikinn meirihluta af öllum lögum og reglum sambandsins. Á bakvið hvað er þá hægt að fela sig?

PS. Það er kominn formlegur meirihluti á þingi fyrir inngöngu í ESB.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, desember 14, 2008

Jólin

10 dagar til jóla og rétt að rifja upp uppruna þeirra og hvers vegna við höldum þau.

Er lífið ekki dásamlegt?

laugardagur, desember 13, 2008

Fleiri kreppulög

föstudagur, desember 12, 2008

Volgar stórfréttir

Rétt er að óska knattspyrnumanninum og ljóðskáldinu Daða og barnsmóður hans Álfheiði til lukku með nýfætt stúlkubarn. Hafi einhver áhuga á að sjá hvernig Daði Guðmundsson leit út sem nýfætt barn benti ég vinsamlegast á meðfylgjandi myndir við þessa færslu.

Innilega til hamingju með þessa fallegu stúlku Daði og Heiða

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, desember 11, 2008

Emilíana og Megas

Svo fallegt - svo ósköp fallegt!

þriðjudagur, desember 09, 2008

Í átt að Evrópusambandinu

Árni Snævarr skrifar góða grein um ESB, fullveldi og fiskveiðstjórnun sambandsins.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, desember 07, 2008

Jólalag afmælisstráksins

fimmtudagur, desember 04, 2008

Life is Just a Bowl of Cherries

People are queer, they're always crowing, scrambling and rushing about;
Why don't they stop someday, address themselves this way?
Why are we here? Where are we going? It's time that we found out.
We're not here to stay; we're on a short holiday.

Life is just a bowl of cherries.
Don't take it serious; life's so mysterious.
You work, you save, you worry so,
But you can't take your dough when you go, go, go.
So keep repeating it's the berries,
The strongest oak must fall,
The sweet things in life, to you were just loaned
So how can you lose what you've never owned?
Life is just a bowl of cherries,
So live and laugh at it all.

miðvikudagur, desember 03, 2008

Spurning um framtíðina

Ein leið til að hjálpa þeim sem eru hræddir við nýbreytni og/eða eiga erfitt með að mynda sér skoðanir þegar mikið liggur við er að snúa umræðunni á haus og því spyr ég: Ef að Ísland væri hluti af Evrópusambandinu myndi þá einhver í alvörunni íhuga það að ganga úr því, taka upp íslenska krónu og ráða Davíð Oddsson sem Seðlabankastjóra?

Ætli það sé ástæða fyrir því að ekkert land sem hefur gengið í ESB hefur farið út úr sambandinu?