mánudagur, september 29, 2008

Tvær heimildamyndir

Ég fór og sá tvær fínustu heimildamyndir um helgina sem vert er að minnast á:

Rafmögnuð Reykjavík heitir sú fyrri og fjallar um raftónlistarbyltinguna á Íslandi upp úr 1990, sem var að einhverju leyti önnur pönkbylgja. Myndin er afar hressandi fyrir okkur sem vorum hreinlega börn og sátum við útvarpið að taka upp nýjasta hardcore-ið og svo yfir í að taka upp Party Zone þættina en höfðum engan veginn aldur til að fara á Rosenberg eða á Tunglið frá 1990-1994 - en í þessari mynd má einmitt kíkja inn um skárgatið á þennan tíma með myndefni frá þessum stöðum plús viðtöl við helstu tónlistarmenn og plötusnúaða þess tíma (sem þó hefði mátt vera meira efni). Þar kemur m.a. fram það skilningsleysi sem að þessi kynslóð mætti í upphafi við tónlistargerð með tölvum - eitt mjög svo sniðugt dæmi nefnir Þóhallur ,,Ajax" Skúlason sem ég vill ekki eyðileggja fyrir þeim sem ætla á myndina.
Fyrir mér hefði þessi mynd mátt eingöngu fjalla um tímabilið 1990-1994/5 og þá hefði mátt taka fleiri viðtöl við aðalgerendur þess í nútímanum ef að viðtöl voru ekki til frá þeim tíma, engu að síður er restin af myndinni þ.e. fram til dagsins í dag bæði ágætlega fræðandi og mjög skemmtileg, þó að það séu margar eyður í henni. Það sem mér fannst hvað skemmtilegast við þessa mynd var að sjá hvernig fólk skiptist í hópa eftir klæðaburði. Fyrir þessum 13-18 árum síðan þótti ,,mainstream" liðinu við sem gengum í víðum buxum, hettupeysum, með derhúfur og í old school skóm vera hallærislegir en heimildirnar sýna vel hvor hópurinn var sá bjánalegi enda fyrrnefndi hópurinn í þröngum velgirtum 501 gallabuxum og belti með sylgju, rúllukragabol og vesti yfir hann plús forljótum Hagkaups skariskóm - svo sannarlega ,,mainstream" fólki nútímans víti til varnaðar.
Það var svolítið fyndið að mæta á þessa mynd því að salurinn var nánast fullur af raftónlistarelítunni, ekki einungis tónlistarmönnunum heldur sá maður fólk sem maður hafði ekki séð síðan á ákveðnum skemmtistöðum fyrir nánast eilífð, sem var fyndið - sumir höfðu ekkert breyst á meðan aðrir voru greinilega farnir að vinna í banka.
Niðurstaða: Góð mynd og sérstaklega hressandi fyrir alla þá sem hlustuðu en upplifðu ekki raftónlistarbyltinguna á Íslandi.

Seinni myndin heitir Heilagt stríð fyrir ástina og fjallar um líf samkynhneigðra í samfélögum múslima. Raunar fjallar myndin fremur um einstaklinga sem áður bjuggu í samfélögum múslima en urðu að flýja sökum hættunnar á því að verða drepnir.
Mestmegnis af myndinni fer í að fylgja nokkrum einstaklingum eftir en mér fannst vanta að leikstjórinn færi og næði viðtölum við ráðamenn í þessum löndum eða háttsetta trúmenn (en að slíkt hafi ekki verið gert verður kannski skiljanlegra þegar að kvikmyndagerðarmaðurinn er líka samkynhneigður). Þó voru nokkrir mjög fínir punktar þar sem hinir hugrökkustu úr hópi hinna samkynhneigðu (blandast þó líka við hversu mikið trúarofstæki var í hverju ríki) fóru og ræddu við trúmenn og einn bæði við trúmann og hluta safnaðar. Þar skein í gegn hvers konar afturhaldsseggir það eru sem fara fyrir flestum trúarbrögðum, enda niðurstaðan oftar en ekki islömsk útgáfa af orðum Gunnars í Krossinum en sumir safnaðarmeðlimir voru reyndar ekki eins afturhaldssinnaðir.
Hafi raftónlistarelítan verið áberandi á fyrri myndinni að þá vorum við ekki mörg sem vorum gagnkynhneigð í Iðnó í gær, það kom á óvart að ekki skyldu fleiri menntamenn, trúmenn og/eða stjórnmálamenn láta sjá sig á þessari mynd en það eru ennþá tvær sýningar eftir og mögulega
munu Egill Helgason, Þorgerður Katrín og Karl Sigurbjörnsson láta sjá sig á þeim tveim.
Niðurstaða: Ágæt mynd sem hefði getað verið betri og beinskeyttari.
Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

laugardagur, september 27, 2008

Fyrstu rökræður forsetaefnanna

Það var töluverð spenna í loftinu þegar að fyrstu rökræður McCain og Obama fóru fram í nótt, en Obama hefur verið með ca. 5% forskot í könnunum að undanförnu og því þurfti McCain að eiga gott kvöld til að draga á demókratann eftir þá hræðilega missheppnuðu ákvörðun að setja framboð sitt á frest til að takast á við efnahagsvandann.
Nóttin átti að vera undirlögð utanríkismálum en tæplega helmingur tímans (fyrri hlutans) fór í að ræða efnahagsmál og þar komu þeir báðir frekar illa út, hvorugur gaf skýr svör um hvað þeir myndu gera sem forsetar í núverandi ástandi en samkvæmt skemmtilegum áhorfsmælingum (línurit sem mældi stuðning við frambjóðendur) að þá má segja að Obama hafi verið skárri (sjálfum fannst mér þeir jafnir).
Svo kom að utanríkismálunum, sérgrein McCain en það málefni sem Obama á að vera hve slakastur í. McCain varði rosalegum tíma í að segja hvar hann hafði verið og hvern hann þekkti og að hann væri reiðubúinn til að leiða landið núna, það sem hann virtist hins vegar skorta var þá framtíðarsýn sem kjósendur (samkvæmt línuritinu góða) virðast vilja. Obama náði hins vegar til kjósenda, benti ítrekað á hvernig hann hefði sjálfur greitt atkvæði síðustu átta árið gegn Bush stjórninni og hvernig McCain hefði í 90% tilvika verið sammála Bush og hvernig hann myndi reisa við álit heimsins á Bandaríkjunum auk þess sem hann myndi verja þeim gríðarlega miklu fjármunum sem fara til Íraks beint í Velferðarkerfið. Áhorfsmælingar sýndu ítrekað að jákvæð nálgun Obama á framtíðina og að hann bendlaði McCain við Bush stjórnina virkuðu, en á sama tíma varð McCain pirraður og sakaði Obama um skort á reynslu sem fór ekki vel í áhorfendur - Obama virtist því alltaf hafa yfirhöndina á hinum óháðu og óákveðnu.
Eftir þessar rökræður fóru af stað kannanir þar sem spekingar CNN tjáðu áhorfendum að væru hliðhollar Obama. Í fyrsta lagi hvor stóð sig betur: þar hafði Obama sigur með 15%. Í öðru lagi hvor myndi gera betur í Írak: Þar sem þátttakendur töldu að Obama myndi gera betur þó að naumt væri að mig minnir 2-4% og að lokum hver myndi hafa betri stjórn á efnahagnum: þar vann Obama aftur með 15% mun.
Þannig að af fyrstu viðbrögðum má dæma að Obama hafi haft betur, hann er þar að auki með forskot, er búinn að klára af það sem hann er verstur í og McCain það sem hann er bestur í og næstu rökræður verða milli varaforsetaefnanna þar sem spekingar CNN ýjuðu að slátrun eftir mjög svo mislukkað viðtal Söruh Palin (hér er partur af því) á meðan Biden er sennilega betri í rökræðum en Obama.
Þeir sem misstu af ,,einvíginu" geta séð það hér í bútum (sjá hina bútana fyrir neðan video-ið), en þeir sem vilja örstutta yfirferð um þessar 90 mín bendi ég á að lesa pistil eftir Joseph Stiglitz í Fréttablaði dagsins (Laugardaginn 27.sept) á bls 12. Hér er svo helsti málefnaágreiningurinn.
Svona lítur staðan svo út á landsvísu í augnablikinu.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

föstudagur, september 26, 2008

Yfirstétta-beatbox



Sjá einnig: Kenny Muhammad - NY Philharmonic

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, september 25, 2008

Orsök og afleiðing?

A) Geir H. Haarde hringir lokabjöllunni á Nasdaq.
B) Bush stekkur til og ávarpar þjóðina vegna efnahagskrísu og forsetaframbjóðendunum tveim er flýtt til Washington til að taka þátt í neyðaraðgerðum.

Tilviljun?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

miðvikudagur, september 24, 2008

Þörf lesning

þriðjudagur, september 23, 2008

Á hverju byggist gott siðferði?

Á nítjándu öld var hugmyndin sterk í kristnum samfélögum um að trúin væri grunnurinn að siðferði og trúleysingjar væru siðlausir. En mér finnst slík hugmynd byggð á tiltölulega ljótri mynd af mannskepnunni, sem væri mjög dýrsleg ef hún þyrfti á guðsótta að halda til þess að hegða sér almennilega, afarkosti um líf eftir dauðann í helvíti eða himnaríki. Ég held að það sé ekki uppbyggileg hugmynd. Ef mannskepnan elst upp í uppbyggilegu umhverfi, í faðmi ástríkrar og umhyggjusamrar fjölskyldu og í samfélagi þar sem manneskjan er ekki bara tæki, hálfgerður launaþræll, þá verður hún góð manneskja – hún verður bara góð manneskja. Hún hugsar um aðra, er umburðarlynd og hjálpsöm, og þar að auki mjög sjálfstæð. Hugmyndin um hvernig siðferði hvílir á trú er ekki hugmynd um sjálfstæða veru, heldur veru sem þarf að stjórna til þess að hún hegði sér almennilega og hugsi rétt. Svo ég er eiginlega á móti þessari hugmynd. En þetta er hugmynd sem fer mjög vel saman við samfélag, þar sem meiningin er að stjórna fólki með hræðslu, eins og við sjáum víða, ekki síst í Bandaríkjunum. Sjálfstæði og sjálfræði er byggt á góðri skapgerð, sem myndast í uppbyggilegu samfélagi og fjölskyldu.

-Mikael M. Karlsson

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

mánudagur, september 22, 2008

Mark ársins



Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Örstutt um Silfrið

Egill Helgason byrjaði Silfrið sitt núna um helgina með þeim orðum að sumir teldu að frjálshyggjan væri fallin en hafði áður skrifað pistil sem að slíku var ýjað - raunveruleikinn væri sá að mati Egils að ríkisvæðing hefði farið fram í Bandaríkjunum, sama væri að gerast í Evrópu og Rússlandi. Viðmælendur Egils voru flest sammála um að nú væri komið að einhvers konar vatnaskilum og kom það þeim á óvart að bandaríska ríkið skyldi grípa inn í atburðarásina svo að markaðurinn fyrirfæri í raun ekki sjálfum sér - öllum auðvitað nema Birgi Tjörva frjálshyggjumanni sem sagði þetta auðvitað engan dauðadóm yfir stoðum frjálshyggjunnar, inngrip ríkisins mætti réttlæta varðandi björgun á eignum almennings en að aðrir yrðu að taka ábyrgð á heimskulegri ákvarðanatöku.
Nú eru flestir orðnir sammála um að flest allt brást við einkavæðinguna hérlendis, fyrirtæki í eigu ríkisins voru nánast gefin, regluverkið var nánast ekkert og þar af leiðandi gerðu menn og gera enn það sem þeir vilja, Seðlabankinn er handónýtur með Davíð og krónan einnig (án hans eða með) og þetta eru hlutir sem menn verða að læra af, en ætla menn í alvörunni að leita að sökudólgum og reyna að koma þessum hlutum í lag án þess að vita hvernig á að takast á við núverandi ástand? Á það að koma einhverjum á óvart að bandaríska ríkið skyldi grípa inn í eins og það gerði?
Ég veit ekki mikið um hagfræðikenningar en örlítið um það hvernig saga efnahagslegra framfara hefur gengið fyrir sig og staðreyndin er sú að bandaríska ríkið hefur alltaf spilað lykilhlutverk í markaðshagkerfinu og þegar það hefur ekki gerst að þá hrynja hlutirnir - við þurfum ekki að fara í langan samanburð um valdatímabil Reagans&Bush eldri vs Clintons og svo aftur vs Bush yngri til að átta okkur á því hvað virkar... hvað þá um vaxtastefnuna ...(Ólafur benti líka á þetta sem ábæti).
Eftir fall Berlínarmúrsins fóru menn svo í tilraunastarfsemi víða um heim þar sem óheftur kapítalismi átti að vera svarið við öllu enda kommúnisminn búið spil. Niðurstaðan hefur sýnt sig á undanförnum árum í því að Washington samkomulagið (e. Washington Consensus) og molakenningin (e. Trickle down economics) sem eru bæði á forsendum kenningar um óheftan kapítalisma hafa klikkað og ljóst að margir breytu stefnu sinni – mörg ríki áttuðu sig á því að inniviði þurfa að vera í lagi og stjórnvöld þurfa að taka virkan þátt í markaðshagkerfinu og spila inn á styrkleika viðkomandi þjóða. Suður-Ameríka, Afríka og fyrrum kommúnistaríki fóru illa úr þessari tilraun og fyrir rúmlega áratug lærðu þjóðir A-Asíu af hrikalegri kreppu að best væri að hafa stjórnina sjálf og með þeirri stjórn hefur þeim gengið flest allt í haginn síðan.
Á íslenska ríkið að standa hjá og loka augunum fyrir sögunni og er það svo að innanflokksátök í einum stjórnmálaflokki sem ber ábyrgð á einkavæðingunni og á aðgerðum núna muni líka endanlega senda heimili landsins til helvítis með aðgerðaleysi, ónýtri krónu og afsökun um það að ákveðnir menn séu ekki tilbúnir í umræðu um Erópusambandsaðild - er það málið?
Ef að ekkert gerist þá verða næstu kosningar áhugaverðar og þá mun endanlega sannast hvort að fólk kjósi Sjálfstæðisflokkinn hvernig sem viðrar, vonum að við verðum ekki öll gjaldþrota þegar að því kemur.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, september 21, 2008

Örstutt um aðskilnað ríkis og kirkju

Að ræða við þá sem ekki vilja aðskilnað ríkis og kirkju eru að mörgu leyti líkt og að ræða við þá sem vilja halda uppi tollum og höftum á landbúnaði. Rökin eru götótt, rómantíkin í hámarki og reynt að upphefja tengsl milli þjóðarinnar og annars vegar kirkjunnar eða hins vegar landbúnaðarins.
Á meðan landbúnaðardýrkendur tala um bestu vöru í heimi þá benda talsmenn ,,Þjóðkirkjunnar" (þar á meðal núverandi biskup) á þokkukennd hugtök á borð við sögu, siði og menningu (sem þeir ættu fremur að skammast sín fyrir en að upphefja) og að lokum þau þunnu rök sem ég ætla að ræða hér mestmegnis um - en það er að mikill meirihluti landsmanna sé í kirkjunni (mýtan um 90%) og vilji byggja á þeim gildum sem hún stendur fyrir.
Nú ef að þetta stæðist hjá biskupi og ,,Þjóðkirkju"fylgjendum að mikill meirihluti þjóðarinnar sé kristinn og vilji byggja á þeim gildum er þá ekki einmitt rétt að aðskilja ríki og kirkju og afnema sóknargjöld, því varla minnkar við það trú almennings?
Nei, það er auðvitað löngu ljóst að ,,Þjóðkirkjan" er eitthvað ógeðfelldasta hagsmunabandalag landsins og svífst einksins í lygi sinni í þessu lífi og um hið næsta. Þeir vita sem er að ef að ríki og kirkja yrðu afnumin, sóknargjöld felld niður hjá ríkinu og þau hræðilegu lög látin niður falla að barn skráist í sama trúfélag og móður þess, að þá yrðu mjög fáir eftir og hálfrar milljón krónu plús launaseðillinn úr sögunni enda ekki markaður til að einkavæða trúnna nema mjög afmarkað. Mýtan um 90% sem til komin er vegna þess hversu mörg börn skírast stæðist ekki enda innan við helmingur landsmanna sem samþykkir kennisetningar Þjóðkirkjunnar og jafnvel stór hluti þeirra myndi taka skattleysinu fegins hendi og standa utan trúfélags.
,,Þjóðkirkjan" heldur því dauðahaldi í pilsfald ríkisins og neitar í senn að viðurkenna óumflýjanlegan dauða sinn um leið og hún nær engan veginn að festa sig í sessi í okkar nútímasamfélagi. Án ríkisins og hagsmunapottsins sem byggist á skattheimtu hinna trúlausu, mannréttindabrotum á minnihlutahópum auk þess sem hún stendur í vegi fyrir alvöru trúfrelsi er hún einskins nýt. Því þjóðin er að innan við hálfu leyti kristin og mun færri geta krossað við alla kennisetningarnar (tölur árið 2006 sýndu að einungis 8,1% trúðu því að ,,Maðurinn rísi upp til samfélags við Guð") og eru því ekki kristin í raun - allt tal um kristin gildi eða siðgæði eru því einungis hjákátlegur orðaleikur sem algilt siðferði t.d. mannréttindasáttmála, lög og siðareglur geta komið í staðinn fyrir og þjónað mun betur (enda snúast helstu boðorð trúarinnar um guð en ekki manninn og þau sem gera það er hreinlega stolin eða endurnýtt efni).
Siðir og menning þjóðarinnar eru sem betur fer að breytast með miklum hraða í takt við aukna alþjóðavæðingu og menntun þjóðarinnar og með því sagan sjálf - kirkjan er að verða eins og illa lyktandi þorramatur sem eldri kynslóðin grípur til á hátíðarstundum með þeirri undantekningu, að þó að þorramaturinn sé viðbjóður að þá er hann í það minnsta orginal, það er ,,Þjóðkirkjan" og Lútherstrúin alls ekki. Líkt og með þorramatinn er svo öllum bumbult langt fram eftir vikunni eftir eina kvöldstund.
Það er þó varla við því að búast að þeir forpokuðu íhaldsplebbar sem nú sitja á Alþingi Íslendinga skilji að ríkið okkar og trú þá sem hluti þegnanna hefur strax á morgun.
Þú getur hins vegar strax í dag skráð þig úr,,Þjóðkirkjunni" og stoltur sagt barnabörnunum þínum í framtíðinni að þú hafir staðið fremst í hópi þeirra frjálslyndu manna sem vildu virða mannréttindi minnihlutahópa, trúfrelsi einstaklingsins, virðingu gagnvart börnum og stuðlað að bættu heilbrigðu samfélagi Íslendinga. Það væri ekki verra að senda þingmönnunum þínum bréf í beinu framhaldi.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, september 20, 2008

Súrt er það...

Er þetta ekki viðeigandi á allan hátt?


Er lífið ekki dásamlegt?

þriðjudagur, september 16, 2008

Vonbrigði

Núna þegar allir eru löngu búnir að jafna sig á vonbrigðunum er rétt að mæla með fyrstu 40 sekúndunum af myndbandinu hér að neðan.



Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Fleiri píanóperlur fyrir haustið

fimmtudagur, september 11, 2008

Sögur af Laugarásnum

Á meðan ég vinn myrkranna á milli sér Arna um hvunndagsævintýrin.

Sagan er í commentakerfinu hennar!

Er lífið ekki dásamlegt?

miðvikudagur, september 10, 2008

Stjórnmál

Loksins segir einhver eitthvað af viti.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

þriðjudagur, september 09, 2008

Andfótbolti

Ef að einhver hefur haldið að við værum af baki dottnir á andfotbolti.net þá ætti sá hinn sami að fara í kalda sturtu, láta einhvern slá sig utan undir og endurmeta stöðuna.

Við Biggi sem héldum þessu að mestu leyti tveir uppi í fyrra höfum nú fengið Hagnaðinn inn í þetta aftur og Sigurjón kemru af enn meiri krafti, en auk þess þrjá nýja penna og yfirhalningu á síðuna (sem enn stendur yfir). Nýju mennirnir fara vel af stað og þegar þetta bölvaða landsleikjahlé er búið að þá kemst tímablið loks á skrið með þar til gerðri gleði okkar og pirrings annarra.

Fylgist með okkur ef að þið hafið einhvern áhuga á fótbolta!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

mánudagur, september 08, 2008

Efnahagsmál

Hér er hressandi viðtal við Jónas H. Haralz. Gaman að sjá gamalmenni segja eitthvað að viti (ólíkt þessum arfavitlausa og hundleiðinlega minningarþætti um Sigurbjörn Einarsson sem ég minntist hér á að neðan). Stundum fannst mér eins og Jónas væri að lesa upp úr bók slíkt var skipulagið. Það kom nánast aldrei hik á hann, hann rakti rök sín skipulega og spurði svo sjálfur spurninga og svaraði þeim - allt mjög svo niðurnjörfað og fallega gamaldags, ein af fáum hefðum sem við ættum að temja okkur í ríkari mæli.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

Eru orð þín ætluð mér?

Jæja, þá er vonandi þessari smeðjulegu, hádramatísku fjölmiðlaumfjöllun um Sigurbjörn Einarsson lokið. Eins og alltaf þegar einhver sem hefur fengið nafnið sitt prentað í blaði deyr að þá eru allir fullir lotningar en í þessu tilfelli verð ég að spyrja fyrir hvað?
Ég tók mig til og reyndi eftir fremsta megni að komast yfir allt það efni þar sem minnst var á hann og það er varla á nafn nefnandi öll þessi meinta snilld mannsins og ekkert eftirminnilegt virðist standa eftir nema innantómar lýsingar um að Sigurbjörn Einarsson hafi verið einhver mesti andans maður Íslands fyrr og síðar og að fáir hafi verið eins mikið í sviðsljósinu og hann á liðinni öld (hvorugt þessara atriða segir nokkuð og hið síðarnefnda segir okkur aðeins hversu sorglegt það er að trúarleiðtogi hafi yfir höfuð einhver áhrif á almenna umræðu).
Við erum að tala um svo mikinn afturhaldssinna að Ögmundur Jónasson lítur út fyrir að vera frjálslyndur hommi í samanburði. Við erum að tala um svo þröngsýnan og fordómafullan mann að jafnvel mestu þjóðrembur samtímans roðna.

Við erum að tala um mann sem sagði í rökræðum um samkynhneigð: ,,Út af fyrir sig skaðar það ekki hjónabandið sem stofnun að þeir giftist. Það er bara algjör fjarstæða." "Óskynsamlegt sé að vatna út hjónabandið með slíkri skammsýni."

Við erum að tala um mann sem sagði: Auðvitað er evrópsk móðursýki líka til og hefur aldrei verið keppikefli Íslendinga né æskilegt hlutverk okkar að skríða eftir allri evrópskri sérvisku. (Þegar Menntamálaráðherra tók mið af úrskurði Mannréttindadómsstóls Evrópu).

Við erum að tala um mann sem taldi það ekki aðeins rétt kirkjunnar að heilaþvo börn með trú heldur einnig að kalla þeirra náttúrulega eðli, þ.e. trúleysið óeðli.
Við erum að tala um mann sem trúði því að frásögnin um vitringana þrjá væri sönn saga og við erum að tala um mann sem líkti gagnrýnendum Kristnitökuhátíðarinnar við nasista en var sjálfur mikill aðdáandi gyðingahatarans Marteins Lúthers.
Og mann sem hélt því fram að trúarbrögð væru betri eftir því sem guðirnir væru færri en áttaði sig ekki á því að ganga alla leið.
Ég hvet alla til að horfa á minningarþáttinn um Sigurbjörn Einarsson þar sem klippt var saman ,,best of" af 42 ára viðtalsefni við hann og það væri gaman ef að einhver gæti bent á eitthvað merkilegt sem kemur fram á þessum ómerkilega hálftíma annað en endalausir og innihaldslausir Guðfræðifrasar auk þess sem hann var í þversögn við sjálfan sig og fullur af fordómum gagnvart nútímanum.
Fyrir mér var þessi maður ímynd afturhaldsafla og það er þyngra en tárum taki að hugleiða hversu mikið þessi maður hefur rænt úr ríkissjóði til þess eins að halda aftur af framförum.

Vonandi eru þessi tímamót fyrsta skrefið í átt að heilbrigðu íslensku samfélagi.

Nú er rétti tíminn!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, september 07, 2008

Menn að kúka í buxur

Af því að ég var að tala um tilbúning og bull í bandarískum fjölmiðlum í síðustu færslu. Hér er fyrsta flokks hræsni sem ég sá í hinum frábæra þætti Jon Stewart sem vonandi fer sem allra fyrst í loftið á íslensku stöðvunum. Gjörið svo.





Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, september 06, 2008

Stjórnmál vestanhafs

Byrjum á American Politics for dummies. Hér er síða með nokkrum af allra einföldustu spurningunum og svörunum um bandarísk stjórnmál - fyrir þá sem vilja vera með en þora ekki að spyrja barnalegra spurninga.

Hér er önnur undirsíða CNN sem tekur fyrir þýðingu hugtaka sem við munum heyra í erlendum fjölmiðlum næstu tvo mánuði. (Dæmi: Purple State er ríki sem sveiflast milli flokkanna í kosningum en er ekki þekkt fyrir að vera annað hvort Demókrata ,,blue state" eð Repúblikana ,,red state")

Það er rétt að benda á tvær síður sem vert er að minna á nú þegar tæpir tveir mánuðir eru í bandarísku forsetakosningarnar. Önnur er Truth-O-Meter sem ég hef áður minnst á og svo er sambærilegur dálkur á vefsíðu CNN sem heitir FactCheck (sjá einnig FactCheck.org). Þessar síður eru hressandi því þær leggja mat á hvort að fullyrðingar frambjóðendanna standist.

Bill Schnider fer yfir stöðu mála eins og hún er í dag varðandi þau ríki sem mest spenna verður um í nóvember. Þá er jafnframt rétt að rifja upp undanfarnar kosningar í Bandaríkjunum og hvernig úrslit hafa fallið.

Hér er skemmtileg nálgun úr þættinum The Campaign Trail sem fór yfir nokkrar fact or fiction fullyrðingar úr nýlegum ræðum á Landsfundi Repúblikana og í lokin yfir í gælunöfn frambjóðenda á yngri árum (How did "Barracuda", "McNasty", "O'Bomber", and "The Dash" get their nicknames?)

Hér er ræða Obama á Landsfundi Demókrata sem hægt er að horfa á eða lesa

Hér er ræða McCain á landsfundi Repúblikana sem hægt er að horfa á eða lesa

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

fimmtudagur, september 04, 2008

Píanóperlur fyrir haustið

Sniðugt...



Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

þriðjudagur, september 02, 2008

Berbapabbi mættur á Old Trafford

Húðlatur 27 ára að verða 28 ára gamall fýlupoki er mættur til Manchester fyrir hrottalega mikinn pening sem ekki er á nokkurn hátt hægt að réttlæta - vonandi verður það til þess að losa pressuna af kappanum sem hefur þrátt fyrir allt rosalega hæfileika og mun gefa United liðinu algjörlega nýja möguleika. Kaupverðið mun svo fljótlega gleymast EF hann raðar inn mörkum og EF United liðið heldur áfram á siglingu - en persónulega hefði ég viljað sjá yngri, betri og öðruvísi leikmann koma fyrir þessar 30,75 milljónir punda (plús eins árs lán á Campbell). Campbell fær svo vonandi marga leiki þannig að United geti notað hann á komandi árum eða selt hann fyrir 10-15 milljónir (sem væri ekki slæmt fyrir uppalinn leikmann). Heilt yfir er samt ekki hægt að réttlæta þessa fjárhæð og sennilega er Tottenham að græða ca. 5 milljónir punda á þessum eigendaskiptum hjá City í dag (sem reyndu líka að fá Berba-pabba). En hann er fallegur strákurinn, því getur enginn neitað.



















Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: