sunnudagur, nóvember 30, 2008

Hugleiðing um (sannleika og) réttlæti

Ég er orðinn fastur penni á Vefritinu, þar sem eftirfarandi grein birtist.

Verðleikar hvers manns eru samantekt af sannleikanum um hann.“
-Björgvin G. Sigurðsson

Það er ekki nýr sannleikur að það sé óhollt mönnum hugmyndafræðilega að vera eingöngu umkringdir „já“ mönnum. Ég á tvo góða vini sem ég í góðlátlegu gríni kalla pólitíska öfgamenn. Annar er vinstri sinnaður heimspekingur sem hefur lesið Marx, Lenin og Zizek en hinn hefur nýlega upplifað endalok sinnar „trúar“, þó að hann sé ennþá í afneitun og ef ég vissi ekki betur þá myndi ég ætla að hann væri sonur Hannesar Hólmsteins.

Um daginn hittumst við, ræddum málin og á einhverjum tímapunkti staðnæmdist umræðan við hugtökin sannleika og réttlæti. Þá kom annar þeirra með góða sögu af því þegar eldri bróðir hans var í strætó ásamt móður sinni þá mjög ungur.

Strætisvagninn stöðvast og inn í hann gengur fremur ófríður maður, bróðirinn ungi sem sat aftarlega í vagninum stendur þá upp í sætið sitt, bendir á manninn og segir hátt „þessi maður er ljótur – þessi maður er ógeðslega ljótur“ – ekki fylgdi sögunni hvort þetta hefði verið Björn Bjarnason; tvennt kemur þó í veg fyrir það a) Björn er ekki kommúnisti sem tekur strætó og b) hann er gullfallegur maður. Í dag langar mig þó til að leika þetta barn sannleikans að ofan.

Það sem þægi jafnaðarmaðurinn má ekki segja upphátt

Það er alltaf einhvern veginn meira sannfærandi þegar menn gagnrýna skoðanabræður sína en andstæðinga og því segi ég það hreint út: Björgvin G. Sigurðsson verður að segja af sér. Ég þekki Björgvin ekki neitt, en hef alltaf kunnað vel við hann. Nei, það er lygi – fyrst þegar ég sá hann hélt ég að hann væri gagnslaus sveitamaður en eftir því sem vitneskja mín um manninn óx og fordómarnir minnkuðu því meira álit fékk ég á honum. Björgvin er viðkunnalegur maður og vissulega veitti hann manni oft von á meðan ónefndur maður svaraði engu á fundum með fjölmiðlum, engu að síður verður hann að segja af sér – hann klikkaði á sinni vakt og væri meiri maður ef hann færi frá.

Þessi pistill og ofangreind krafa er ekki sett fram af einhverjum annarlegum hvötum eða í pólitískum tilgangi. Ætlunin er hvorki að gera lítið úr viðskiptaráðherra né að bæta ímynd eða fylgi Samfylkingarinnar, hvað þá sem útspil svo að Sjálfstæðisflokkurinn verði að fórna manni – heldur er þetta það rétta í stöðunni. Ég er ekki hluti af einhverjum armi innan Samfylkingarinnar, ég er ekki einu sinni skráður í flokkinn.

Að undanförnu hafa raddir hækkað þess efnis að forysta Samfylkingarinnar víki Björgvini sem viðskiptaráðherra en fáir, að minnsta kosti jafnaðarmenn, hafa farið fram á það að hann segi sjálfur af sér embætti, eins og sá möguleiki sé útlokaður – að við séum orðið þess háttar þjóðfélag að hver einasti einstaklingur ríghaldi í völdin þangað til þau eru tekin af honum. Önnur gagnrýni sem oft heyrist er að staða viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra skuli skipuð mönnum sem hafi þannig menntun á bakvið sig og að Björgvin G. sé heimspekingur.

Heimspekingur? Hvað skyldi hinn heimspekimenntaði Björgvin hafa skrifað um í BA-ritgerðinni sinni – jú hún ber heitið „Hugleiðing um réttlæti“. Þegar að ég sá þetta fann ég hvernig hjartað fór að pumpa hraðar, skúbbdólgurinn tók kipp og ég fékk enga innri ró til að halda áfram með MA- námið mitt fyrr en ég hefði lesið þessa ritgerð.

Inntak ritgerðar og tengingin við samtímann

Ritgerð Björgvins skiptist upp í þrjá hluta auk inngangs:

1. Staðbundið réttlæti
2. Íslensk dæmi um staðbundið réttlæti
3. Rétt og rangt (niðurstöður)

Strax í fyrstu tveimur setningum Björgvins í inngangi kemur fram að hann sé sammála Þorsteini Gylfasyni þegar hann vitnar í bókina „Tilraun um heiminn“ að réttlæti skipti meira máli en nokkuð annað undir sólinni – stendur Björgvin við þessi orð?

Björgvin telur að hans athuganir séu fyrsta skrefið í átt að því að takast á við það hvort þjóðfélagið sem við byggjum sé réttlátt, umræðan megi ekki litast af flokkadráttum og því lýðskrumi sem fram fer fyrir hverjar kosningar til Alþingis. Hann telur brýnt að stjórnmálin snúist um grundvallarhugtök á borð við réttlæti og rætt sé á yfirveguðum nótum um lausnir á hvers konar vandamálum staðbundins réttætis.

Í niðurstöðunum kemst Björgvin að því að gagnlegt sé í hverju dæmi hvort finna megi sameiginlegan grunn fyrir réttlætið. Algildar réttlætisreglur sem allir fallast á að hætti Rawls. Að hans mati er valddreift samfélag þar sem völdum er dreift á sem flestar stofnanir samfélagsins grundvöllur að réttlátu samfélagi. Tryggja verði valddreifingu á öllum stigum stjórnsýslunnar og setja lög gegn myndun auðhringja sem drepa frjálsa samkeppni. Sama eigi við um fjölræði þar sem fjölmiðlar eigi að vera óháðir valdshöfum og öflugum fyrirtækjum. Máttugustu rök fyrir dreifingu valds eru þó að koma í veg fyrir misbeitingu og harðræði sem skapast geti, lendi það á fárra höndum, þannig hafi stofnanir eftirlit með hverri annarri ef tryggt er að skörp skil séu á milli þeirra og sjálfstæði þeirra tryggt, en auk þess kallar hann eftir skýrari reglum.

Pistlahöfundur getur tekið undir allt ofangreint en hver er niðurstaðan eftir setu ráðherrans? Eru völdin ekki enn á fárra höndum? Var kerfið ekki handónýtt og hvers vegna breytti hann því ekki – hvað varð um að setja skýrari reglur? Hvað með fjölmiðlana? Hvernig tókst Jóni Ásgeiri að kaupa aftur fjölmiðla á hans vakt eftir alla gagnrýnina á fákeppni og að fjölmiðlar væru of háðir? Hvernig tryggði ráðherra sjálfstæði stofnana og hvers vegna var slíkt eftirlitsleysi á hans vakt? Hverja telur Björgvin sína ábyrgð vera?

Hvað með sjálfsvirðinguna? Hvað myndi Rawls ráðleggja Björgvini? Þarf Björgvin mögulega að komast undan fávísi stjórnmálamannsins og undir fávísisfeld Rawls til að komast að hlutlausri niðurstöðu um réttlæti? Völdin virðast hafa sljóvgað réttlætiskenndina, umburðarlyndi kjósenda (hvort sem þeir eru háríkis- eða lágríkismenn) er á þrotum.

Ég get ekki séð betur en að ef Björgvin segir ekki af sér, að þá sé hann orðinn einhvers konar ýkt útgáfa af fjandmanni sínum Nozick á þann hátt að hann standi vörð um fákeppniselítu auðmanna og sín eigin völd sem komin séu (að mati Nozick) á réttlátan hátt og verði ekki tekin af honum (nema þá með kosningum væntanlega) – orðinn hliðhollur því sem hann taldi sjálfur kenninguna um ranglæti.

Að lokum til að vitna í hans eigin orð í ritgerðinni; réttlátar og ranglátar athafnir eru það, án tillits til hvatanna sem liggja að baki og það sama á við um sannleikann – pistlahöfundur trúir því ennþá að hann sé góður maður. En segi Björgvin ekki af sér sökum ábyrgðaleysis í starfi, uppgjafar á eigin hugmyndafræði og það í andstöðu við eigin samvisku og hugmynd um réttlæti, þá tel ég það rétt að standa upp í þessum strætisvagni veraldarvefsins að hætti barnsins, benda á Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og segja upphátt „Þessi maður er ljótur – þessi maður er ógeðslega ljótur.“

Ég óska viðskiptaráðherra góðs gengis í sinni ákvarðanatöku, ritgerðin stendur enn fyrir sínu og ætti að hjálpa til við skýrari framtíðarsýn, bæði hans og okkar allra. Megi Björgvini G. Sigurðssyni farnast vel í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur og megi þessi dæmisaga úr raunveruleikanum verða öðrum víti til varnaðar – réttsýnir góðir menn, á réttum stað, á réttum tíma verða að taka réttar ákvarðanir ef vel á að fara.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, nóvember 29, 2008

Að halda í vonina...
















Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

The times they are a-changin’

Þessi pistill birtist á Vefritinu

Það er þekkt staðreynd að oft gerast óvenjulegir hlutir í kjölfar óvenjulegra atburða. Nákvæmlega níu mánuðum eftir að Englendingar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu árið 1966 voru sjúkrahús að sligast undan óléttum konum. Sömu sögu mætti segja af fólki sem hefur lent í flugslysum, hefur hringt í mæður sínar og frænkur og sagst elska þær, án þess að því hefði nokkurn tímann annars dottið slíkt í hug. Í dag eru óvenjulegar aðstæður og því ætla ég að bregða mér í líki byltingarmanns, en yfirleitt er ég fremur þægilegur og ljúfur hægri krati.

Það þykir töff að lýsa yfir dauða einhverrar stefnu eða fyrirbæris: Megas oft (jafnvel sjálfsprottið), Bubbi með sinni sölumennsku, krúttkynslóðin sem reyndist svo vera group-kynslóðin, útrásarvíkingarnir sem sukku djúpið í og loks frjálshyggjan sjálf hafa öll lent í þessum hremmingum að undanförnu og margir fleiri til, með þar til gerðum blaðadeilum. Ég get ekki verið minni maður og verð að elta þessa tísku eða eins og alskeggjaður Gunnar Smári sagði: „ég geng bara í gallabuxum vegna þess að aðrir gera það“.

Í allri ofangreindri slátrun auk ótímabærra yfirlýsinga um dauðdaga ýmissa stjórnmálamanna og flokka að undanförnu hefur eitt yfirsést, eitthvað óþægilegt sem enginn vill segja frá, hvorki fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn, né aðrir þeir sem stjórna umræðunni og það er dauði ‘68 kynslóðarinnar.

Byltingin sem mistókst

Kynslóðin sem kom eins og stormsveipur inn í líf þjóðarinnar og ætlaði sér að bylta samfélaginu í vinstri sinnað réttlátt samfélag er nú að ranka við sér á dánarbeðinu í jakkafötum frjálshyggjunnar á öfgunum hægra megin. Frjálsar ástir urðu frelsi í viðskiptum og uppi sitja komandi kynslóðir með fjárhagslega eyðniveiru.

Dauðinn felst ekki eingöngu í hugmyndafræðilegum dauða kommúnismans og núna frjálshyggjunnar og svo einkavinavæðingunni, sem var hræðilega illa framkvæmd frá A-Ö eins og Eiríkur Bergmann rakti í 13 liðum í Viðskiptablaðinu þann 14.nóv., heldur einnig framtíðarsýninni; á meðan yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill fara í aðildarviðræður við ESB þá beinlínis stendur ‘68 kynslóðin með sínum völdum í vegi fyrir því – aðeins einn formaður hefur lýst yfir vilja sínum til þess.

Eina ástæðan fyrir því að enginn hefur gert það eina rétta í stöðunni, sem er að setja kodda yfir höfuð hins lifandi líks og kæfa það, er að ekki er einungis um fjárhagslega eyðniveiru að ræða heldur einnig hugmyndafræðilega. Það er varla orðum ofaukið að a.m.k. 75% þeirrar kynslóðar sem verður að taka við hefur haft frjálshyggju sem einhvers konar rót, hvort sem það eru „þriðju leiðar” jafnaðarmenn eða þegjandi Framsóknarmenn sem létu íhalds og/eða frjálshyggjutrúboða Sjálfstæðisflokksins dáleiða sig – ég er jafn sekur og hinir.

Ekki bætir það heldur ástandið að þessi kynslóð hefur haft afar takmarkaðan áhuga á stjórnmálum, svokallað „hæfasta fólkið“ sogaðist inn í bankanna og virðist a.m.k. að hluta hálf heiladautt núna (í það minnsta rænulaust), þegar það stendur uppi atvinnulaust og orðið gjaldþrota, á hinum enda alþjóðavæðingarinnar sem áður var aðeins tölulegur hagnaður á skjám – sama fólkið og lýsti yfir dauða stjórnmálanna á kostnað viðskiptanna.

Hvar eru ungliðarnir?

Það fólk sem þó tók það að sér að fara út í stjórnmál er varla heldur að fara að bjarga okkur; hvar eru ungliðahreyfingarnar núna? Ég hef hvorki heyrt í einni sannfærandi ungliðahreyfingu né einni manneskju innan hennar sem virkilega blöskrar ástandið og er tilbúin að taka við keflinu af þessum tilgangslausa örmagna hlaupara sem ´68 kynslóðin er. Er trúin ennþá sú að ef allir verði þægir núna að þá muni ´68 kynslóðin draga einn eða tvo einstaklinga upp í með sér og þeir fái að leika sér með „fullorðna fólkinu“? Ætla ungliðarnir að halda áfram að tala undir rós þegar kemur að gagnrýni á sína flokksforystu? Ég er reyndar ekki tengdur inn í nokkra ungliðahreyfingu og veit lítið um það sem gerist bakvið tjöldin, en sem fréttafíkill virðist fátt vera í gangi – en ég myndi að sjálfsögðu fagna því ef að þessi kynslóð er komin með koddann í höndina og sé að bíða færis. Fyrir mína pólitísku sýn á framtíðina þarf ég ekki að leita langt, raunar aðeins yfir höfundalista Vefritsins til að finna ungt, vel menntað og bráðgáfað fólk sem ég treysti mun betur fyrir minni framtíð en þeirri kynslóð sem nú makar krókinn á dánarbeðinu og ætli möguleikar Samfylkingarinnar á aðildarviðræðum við ESB væri ekki meiri ef að ungliðarnir í VG tækju völdin í flokknum? Má ekki sama segja um aðra flokka?

Hvenær ef ekki núna?

‘68 kynslóðin er ekki að fara að gefa eftir sín völd, við þurfum ekki nema að líta á helsta geranda og/eða gerendur þeirrar kynslóðar til að átta okkur á því; þeir hafa flestir lifað af fleiri en einn pólitískan dauðdaga jafnvel innan Samfylkingarinnar og til marks um að kynslóðarbyltingar sé þörf að þá er hún þegar hafin og þar sem maður síst hefði ætlað – í mesta afturhaldsflokki síðustu aldar á Íslandi.

Heiti þessa pistils er tilvísun í meinta rödd ‘68 kynslóðarinnar (sem reyndar vildi svo ekkert með hana hafa) en hún virðist núna hafa horfið frá orðunum „The times they are a-changin’“ og staðnæmst við aðra fleyga setningu meistarans áratugum síðar „I used to care, but things have changed“. Okkar kynslóð virðist vera algjör andstæða, okkur sem alltaf hefur verið sama (eða höfum í það minnsta hegðað okkur þannig) er nú ætlað að standa fyrir breytingum – við sem þekkjum fátt annað en frjálshyggju verðum að leiða þessa þrautargöngu í átt að réttlátu samfélagi, þá skiptir engu hvar í flokki við stöndum. Það gerist ekki baráttulaust, þekkið ykkar söng áður en þið byrjið að syngja – upp með koddana!

(Ef ekki þá vinsamlegast segið af ykkur, hættið í stjórnmálum og hleypið að öðru ungu fólki sem er tilbúið!)

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Grasserandi

Það er margt hægt að segja um ástandið en alls ekki að það sé leiðinlegt. Upp spretta allskyns samtök og lýðræðið í rótinni hefur sennilega aldrei verið virkara. Í vikunni benti ég á hina vinstri sinnuðu Smugu og hér er hin þenkjandi listaelíta sem færir fréttir á miðlinum Nei sem borið er uppi af ungu fólki. Þá er vert að minnast á síðu sem vill gleymast og ber heitið Vefritið þar sem ungir jafnaðarmenn tjá sig. Það hefur verið töluverð eftirspurn eftir því hér á þessari síðu til að taka við af þeim sem því miður hafa ekki staðið sig nógu vel. Fyndið að sjá þessa Fréttablaðskönnun, rétt um 50% myndu ekki kjósa, skila auðu eða eru óákveðnir - hver segir að stjórnmál skipti ekki máli?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, nóvember 21, 2008

Hugleiðing um framtíðina

(Ég hef ekki tjáð mig almennilega um pólitíkina á Íslandi í smá tíma, svo að hér kemur langloka - algjört óverdós.)

Jæja, þá eru það væntanlega upphafið að endalokum þessarar ríkisstjórnar sem átti eftir 12 ára hörmungar að koma okkur á viturleg mið, því miður varð rænuleysi hennar á fyrsta árinu til þess að svo varð ekki.
Ég endurtek að ég get tekið undir það að Samfylkingin beri ábyrgð en það er aðeins á rænuleysinu síðasta árið og þar ber þó Sjálfstæðisflokkurinn mun meiri ábyrgð og annað verður að skrifast á fyrrum ríkisstjórnir og manninn sem enginn má tala um, plús FME.

En hvað með framtíðina? Hver á að reisa þessa vitleysu við og búa til samfélag sem ekki er byggt á ímynduðum auð? Hvaða flokki er best treystandi fyrir því að koma manninum sem ekki má tala um út úr Seðlabankanum og endurvekja þar með traust og trúverðugleika og hver ætlar að leiða þá 70% þjóðarinnar sem vill kanna aðild inn í ESB?

Skyldi það vera flokkur sem ekki er búið að stofna? Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem þorir ekki að takast á við ,,jú nóv hú" og hefur lokað á alla Evrópuumræðu? Er það 5% Framsókn, forystulaus og allslaus sem ætlar að taka Evrópuumræðuna í gegn í janúar? Eru það VG með Steingrím sem hefur verið einn helsti stuðningmaður ,,jú nóv hú" frá því kreppan skall á og vill hvorki ESB aðild né evruna? Er það Frjálslyndi flokkurinn sem varla mælist þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu í kreppu, sem hefur staðið gegn Evrópusambandinu?

Er ekki tími til kominn að horfast í augu við staðreyndir?

Ég myndi fagna nýjum flokki manna og kvenna sem vilja koma okkur inn í ESB og gæti alveg hugsað mér að kjósa hann - en þangað til er jafn ábyrgt að tala um hann og eins og mögulega olíu sem muni bjarga okkur kannski, einhverntímann.
Samfylkingin þarf að rífa sig upp á rassgatinu og auðvitað verða menn þar innan borðs að bera ábyrgð og hverfa frá, hversu vel eða illa sem þeir hafa staðið sig - hæst heyrist hrópað nafn Björgvins G. en spurningin er hvort að Össur og fleiri eigi ekki að stíga frá og gefa yngri kynslóðinni (sem þarf að borga brúsann) tækifæri á því að takast á við verkefnið eins og skuldirnar. Í stöðunni hvort sem okkur líkar það betur eða verr að þá vill um 70% þjóðarinnar hefja aðildarviðræður við ESB og taka upp evru, það hlýtur að vera krafa um aukið lýðræðið að þjóðin fái loksins að kjósa um aðildarsamning og þá er eins og stendur einungis einn flokkur sem hefur jafnt innan flokksins og ungliðahreyfingarinnar barist fyrir inngöngu í ESB og aftur hvort sem okkur líkar það betur eða verr að þá er sá flokkur Samfylkingin - NB! ég er ekki í Samfylkingunni og flokkurinn er ekki gallalaus frelsari.

En hvernig getur þetta gerst?

Menn hafa bölvað Samfylkingunni og réttilega kallað eftir ábyrgð og að stokkað sé upp eins og útrásarskáldið svokallaða krafðist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn (það er í rauninni óhjákvæmilegt, annað væri að skjóta sig í fótinn) en hvað með framtíðina?
Menn vilja kjósa strax og ég sveiflast til og frá í þeirri skoðun. Auðvitað er rétt að borgarar landsins fái að kjósa aftur en hverju breytir það í lífi okkar? Segjum rökræðunnar vegna að kosið yrði á morgun og útkoman yrði að Samfylkingin yrði stærsti flokkur landsins (sem væri rökrétt miðað við það að 70% landsmanna vilja aðildarviðræður) hvar stöndum við þá? Samfylkingin fengi umboð til að mynda ríkisstjórn, því hún myndi aldrei fá hreinan meirihluta og hverjir eru valmöguleikarnir? Framsókn og Frjálslyndir eru útilokaðir strax vegna smæðar og stefnuleysis og þá stendur Samfylkingin uppi með tvo valmöguleika. Þann óstjórnhæfa Sjálfstæðisflokk sem hún klauf ríkisstjórnina með og fólkið vildi ekki og svo VG sem er eini flokkurinn sem ekki hefur sagst ætla að endurmeta afstöðu sína til ESB. Mörður Árnason skrifar á hina vinstri sinnuðu síðu ,,Smugan" grein sem ber heitið ,,Hvað er VG eiginlega að hugsa?" og innihald greinarinnar er í rauninni það að síðan þessi kreppa hófst að þá hefur VG reynt að vera eins ósammála Samfylkingunni og hægt er, með stuðningi Steingríms við ,,jú nóv hú" og andstöðunni gegn ESB sem er í hrópandi mótsögn við vilja kjósenda flokksins og þá komum við enn og aftur að framtíðinni.

Hvaða fólk er það sem á að leiða okkur áfram?

Fólk af 68 kynslóðinni hefur hafið sjálft sig upp til skýjanna en hver er niðurstaðan? Kynslóðin sem átti að standa fyrir vinstri sinnaðri byltingu fyrir réttlátu samfélagi og kom sem stromsveipur inn í íslenska pólitík en endaði svo í frjálshyggjubyltingu, hugmyndafræði sem nú er steindauð - þessi kynslóð verður að stíga upp úr stólunum og kveðja meira eða minna. Eins og með svo margar byltingar að þá virðist hún fyrst ætla að eiga sér stað þar sem hún var talin ólíklegust en vonandi fylgja hinir flokkarnir í fótspor ógeðis Framsóknar - ég henti upp þessum byrjunarlista í þessari bloggfærslu:

,,Geir H. Haarde, Davíð Oddsson og Seðlabankastjórnin, Björn Bjarnason, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Valgerður Sverrisdóttir, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J., ÖgmundurJónasson, Ellert B Schram, Jón Bjarnason og aðrir þeir sem hafa enga samleið með samtímanum né framtíðinni."

En hverjir eiga að taka við?

Það er eiginlega það sem er verra. Því þó það felist ömurleiki í því að 68´kynslóðin hafi farið frá vinstri yfir í öfga hægri að þá er okkar kynslóð sem á að taka við í verri málum. Ætli það sé orðum aukið að segja að frjálshyggja hafi verið einhvers konar rót hjá a.m.k. 75% þeirra sem eru á aldrinum 24-36 ára? Þetta er mun þyngri hugmyndafræðilegur dauði fyrir hana en þá kynslóð sem þó man eftir einhverju öðru, þó ekki væri nema fyrir jafnaðarmenn. Ekki bætir það ástandið að þessi kynslóð hefur haft lítinn áhuga á stjórnmálum og mikið af svokölluðu ,,hæfasta fólkinu" virðist hafa lamast í heilanum innan bankakerfisins og stendur núna hugmyndafræðilega dautt, án atvinnu og orðið gjaldþrota eða við það að verða efnahagslega gjaldþrota. Sá hluti sem þó ákvað að fara út í pólitík er lítt skárri, þar hefur ekki komið neinn vilji frá ungliðahreyfingunum til að bylta flokknum - stíga fram og heimta það að taka við af þeim sem komið hafa okkur í þessa stöðu, enda hefur leiðin uppá við innan flokkanna leigið í því að þeir sem eru þægir og góðir, forystunni hliðhollir að þeir fá pólitískt líf, aðrir ekki... og þetta er ekki bara bundið við Sjálfstæðisflokkinn. Ég skoðaði aðeins hverjir eru talsmenn þessarar kynslóðar (18/24-36 ára sem mun þurfa að takast á við afleiðingar þessarar ömurlegu einkavæðingar) á Alþingi og þetta er niðurstaðan: Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar sem var frystur út úr ríkisstjórn, Birkir J. Jónsson úr Framsókn sem þarf að sína fram á skilríki til að sanna að hann sé undir 50 ára aldri, Höskuldur Þórhallsson annar Framsóknarmaður með vondar skoðanir rétt sleppur aldurslega, Katrín Jakobs OK gefum henni séns, Katrín Júlíusdóttir Samfylkingunni alls ekki áberandi, Sigurður Kári hugmyndafræðilega gjaldþrota og niðurbarinn Sjálfstæðismaður.

Af þessum má segja að Ágúst Ólafur og Katrín Jakobs eigi séns - fleiri eru það ekki! Hvað með ungliðahreyfingarnar? Man einhver eftir að hafa séð einhvern þar sem hefur komið fram með einhvern þunga og krafist raunverulegra breytinga? Hafa þessar ungliðahreyfingar ekkert til málanna að leggja annað en mjálm undir rós á sínum heimasíðum, ennþá með þá von í hjarta að ef að þau verði góð að þá muni 68´kynslóðin leyfa þeim að spila með fullorðna fólkinu?

Er ekki tími til kominn að einhver rísi upp, steyti hnefa og segi: 68 kynslóð fuck off!!! Við ætlum í ESB eða við skiljum ykkur eftir í skítnum ykkar!!!

Ef það er ekki tími til að taka við núna - hvenær þá?

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Gestaþraut dagsins

Eiríkur Bergmann reynir að greina öll þau mistök sem urðu til þess að Ísland er nánast gjaldþrota og rúið öllu trausti á alþjóðavettvangi í grein í Viðskiptablaðinu þann 14. nóv síðastliðinn. Flest allir eru sammála um þessa atburðarás en hér kemur gestaþraut dagsins: Reynið að benda á einn lið af 13 sem ekki er beinlínis hægt að rekja beint til ákvarðanatöku eða gjörða Davíðs :

1. Fjármálamarkaðurinn opnaður upp á gátt án þess að koma örgjaldmiðlinum okkar í skjól. Þá óráðsstöðu hafði ekkert annað land í EES komið sér í. Minni á að norska krónan er varin af olíusjóðnum. Annað hvort varð að þrengja að frelsi í fjármagnsflutningum og koma bönkunum úr landi eða taka upp lífvænlegri gjaldmiðil.

2. Af hugmyndafræðilegum ástæðum voru eftirlitsstofnanir hafðar veikburða þegar atvinnulífinu var gefinn laus taumurinn með einkavinavæðingu. Það mátti ekki trufla hinn frjálsa markað. Úlfakapítalisminn tók svo öll völd í samfélaginu þegar taumhaldið skorti.

3. Í kjölfar einkavæðingarinnar var bindiskylda bankanna lækkuð þegar hana átti auðvitað að hækka í viðleitni til að koma böndum á brjálæðið.

4. Gjaldeyrisvarasjóður hafður allt of lítill miðað við stærð fjármálakerfisins, sem skildi fjármálakerfið eftir berskjaldað og auðveldaði áhlaup skortsölumanna á krónuræfilinn.

5. Stjórn Seðlabankans skipuð stjórnmálamönnum sem höfðu pólitískan hag af því að verja tiltekna hugmyndafræði frekar en að stýra peningastefnunni af fagmennsku. Um leið skorti Seðlabankann trúverguleika sem er ein ástæða þess að nágrannaríkin hikuðu við að koma til aðstoðar.

6. Einkabönkum leyft að veðsetja þjóðina í útlöndum án hennar vitundar, samanber Icesave hneykslið

7. Stýrivextir hafðir í hæðstu hæðum þrátt fyrir að þeir bíti lítið á staðbundna verðbólgu í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Um leið sogaðist inn í landið eitrað áhættufjármagn sem felldi krónuna um leið og harnaði á dalnum. Hundruð milljarða fuku út úr þjóðarbúinu í hávaxtagreiðslur til útlendinga.

8. Þjóðnýting Glitnis var til þess fallin að loka endanlega fyrir allar lánalínur inn í landið og hratt af stað þeirri hroðahrinu sem enn stendur yfir og ekki sér fyrir endann á.

9. Ógætileg ummæli í Kastljósi þess efnis að erlendir kröfuhafar fái ekki greitt einangraði landið og rétti Bretum vopnin í hendurnar.

10. Gengið fest tímabundið með ótrúverðugum hætti svo Seðlabankinn varð að afnema hina nýju fastgengisstefnu innan tveggja sólarhringa.

11. Vextir lækkaðir og svo skyndilega hækkaðir langt upp yfir fyrri stöðu á einni viku.

12. Sagt frá fyrirhuguðum lánafyrirgreiðslum ólíklegustu landa án þess að nokkuð lægi fyrir annað en óskhyggjan ein.

13. Bretum leyft að setja á okkur hryðjuverkalög og traðka orðspor landsins í svaðið án þess að brugðist væri til varna í því PR-stríði sem brostið var á.

Er lífið ekki dásamlegt?

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Perlur fyrir haustið vol. 8

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Framtíðin

Er að drukkna í náminu mínu. Um jólin ætla ég að skrifa fleiri ,,Lykla að regninu". Sá fyrsti á jafnvel betur við núna en í upphafi árs.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

mánudagur, nóvember 17, 2008

Afsögn

Guðni Ágústsson segir af sér formennsku í Framsóknarflokknum - því ber að fagna. Það væri fínt ef að stór hluti 68 kynslóðarinnar myndu gera slíkt hið sama. Hér er ágætis byrjunar listi:

Geir H. Haarde, Davíð Oddsson og Seðlabankastjórnin, Björn Bjarnason, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Valgerður Sverrisdóttir, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J., ÖgmundurJónasson, Ellert B Schram, Jón Bjarnason og aðrir þeir sem hafa enga samleið með samtímanum né framtíðinni.

aðrir

Árni Mathiesen, Einar K Guðfinnsson, Ásta Möller, Björgvin G Sigurðson, Kristján Möller, Kolbrún Halldórsdóttir, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir

Tiltekt í fjármálaeftirlitinu og hreinsun vina og fjölskylduvæðingar í hæstarétti.

Þá væri gott ef að Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkur leggist af.

Einhverjar aðrar tillögur? Er örugglega að gleyma mörgum.

Er lífið ekki dásamlegt?

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Punkta og linkablogg

Almennt: Ég er almennt hress að ástandinu undanskyldu, ég og Tjörvi erum duglegir í ræktinni og ég er að drukkna í lærdómi - blessunarlega miðað við allt. Það hafa borist kvartanir vegna bloggleysis en ég hef svarað því með því að ef að ég ætlaði að blogga um allar stórfréttir að þá myndi ég ekki gera nokkuð annað, Egill Helgason hefur stundum skrifað 10 færslur á bloggið sitt á sama degi.

Stjórnmál: Menn reyna að gleðjast þegar að ríkisstjórnin gerir bara eitthvað, en nýjasta aðgerðin er eins og tómur ,,jól í skókassa glaðningur". Þessi kryfur málið ágætlega og ég vill bæta því við að þessi aðgerð gerir ekkert til að snúa þeim 30.000 manns sem íhuga það alvarlega að flytja af landi og skilja skuldir sínar eftir.

Svo ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að skipa Evrópunefnd og flýta Landsfundi fram í janúar. JANÚAR!!!! ER ÞETTA GRÍN? Þessi flokkur hegðar sér eins og hann einn geti bjargað málunum en gerir sér ekki grein fyrir að hann er þriðji stærsti flokkur landins, það er nánast ekkert sem hægt er að gera til að hefja uppbyggingu hérna án afstöðu til ESB og þessi ógeðisflokkur ætlar að láta okkur blæða í tvo og hálfan mánuð til viðbótar við þann einn og hálfa sem þegar er liðinn.
Til hvers að tefja þetta? Af hverju er Björn Bjarnason ekki í þessum þriggja manna hópi? Hvar er leiðarvísirinn sem hann talaði um fyrir mörgum mánuðum? Hvað þarf þessi nefnd að athuga sem ekki liggur fyrir nú þegar? Af hverju er ekki Landsfundur strax í lok þessa mánaðar?

NBA: Yfir í öllu skemmtilegri mál. Lakers eru stórveldi, hafa verið það frá upphafi og verða áfram. Liðið er á skriði, þrátt fyrir tap í síðasta leik og með 87,5% vinningshlutfall og eru efstir í deildinni - stefnan er sett á titilinn og á meðan Lakers eru með betra vinningshlutfall en Boston að þá lítur þetta vel út.

Knattspyrna: Er komið að því að Liverpool menn geti loksins sagt að þetta sé þeirra ár og þeir hafi rétt fyrir sér? Shit, það eru góðar líkur á því þrátt fyrir að knattspyrnan hafi ekki skánað hjá þeim.
United er í slæmum málum átta stigum á eftir Chelsea og Liverpool en með leik til góða. Þeir þurfa að vinna næstu fjóra leiki áður en þeir fara á Heimsmeistaramót Félagsliða ef þeir ætla ekki að taka Liverpool á þetta og vera úr leik fyrir áramót - það eru hins vegar ekki auðveldir leikir framundan m.a. gegn hinu gríðarsterka Villa liði og City, bæði á útivelli.
Andfótbolti er enn á lífi, en nánast eins og krónan - við dauðans dyr... sjáum til!

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Byltingarlög

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Bob Dylan - Last Thoughts On Woody Guthrie

Skilaboð dagsins

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Megas - Volga Volga / Stenka Rasin

Byltinarlag dagsins!

laugardagur, nóvember 08, 2008

... and the first one now, will later be last

,,Well I was born in 1941, the year they bombed Pearl Harbor. Been living in darkness ever since. Looks like thats all gonna change now" (hlær)

- Bob Dylan á kosninganótt áður en hann söng Blowing in the wind.

Er lífið ekki dásamlegt?

föstudagur, nóvember 07, 2008

Hiphop listi fyrir Obama

BF hóf þetta með Nas- Black President og ég varð að halda áfram með nokkur lög fyrir Obama, endilega bætið í sarpinn með commentum.

The Treacherous Three - Yes We Can Can

Gangstarr - Words I manifest

BDP - I'm Still #1

YZ - Thinking Of A Master Plan

Nas - If I Ruled The World

Redman – Time for Some Action

Rakim – It’s Been A Long Time

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Hiphop listi

1979: Fatback Band - King Tim III (Personality Jock)

1980: Kurtis Blow - The Breaks

1981: Grandmaster Flash & The Furious Five - Adventures of Grandmaster

1982: Afrika Bambaataa - Looking For the Perfect Beat

1983: The B-Boys - Rock The House

1984: T La Rock - It's Yours

1985: Doug E. Fresh & Slick Rick - The Show

1986: Boogie Down Productions - South Bronx

1987: Eric B. & Rakim - Paid In Full

1988: Rob Base - It Takes Two

1989: De La Soul - Eye Know

1990: A Tribe Called Quest- Bonita Applebum

1991: Naughty By Nature – O.P.P

1992: Pete Rock & C.L. Smooth – T.R.O.Y.

1993: Digable Planets Examination of What

1994: Group Home: Supa Star

1995: Mobb Deep - Shook Ones Pt. Ii

1996: Dr. Octagon - Bare Witness

1997: Laster – Off Balance

1998: Dilated Peoples - Work The Angles

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

20.JANÚAR 2008 - UPPHAF NÝRRA TÍMA

SÖGULEG STUND! EIGINLEGA OF ROSALEG TIL AÐ MELTA Á ÞESSU AUGNABLKI! FÓLK ÚT UM ALLAN HEIM FAGNAR! ÞETTA HAFA VERIÐ HRIKALEG ÁTTA ÁR FYRIR HEIMINN OG VIÐ SKULUM VONA AÐ HIN NÆSTU ÁTTA VERÐI JAFN GÓÐ OG ÞESSI SÍÐUSTU VORU SLÆM! ÞAÐ MUN TAKA TÍMA OG OBAMA MUN ALDREI STANDA UNDIR ÞEIM VÆNTINGUM SEM GERÐAR HAFA VERIÐ TIL HANS, EN EF HANN HELDUR BILL CLINTON NÆRRI SÉR OG FER EFTIR EIGIN SANNFÆRINGU AÐ ÞÁ MUN ANSI MARGT BATNA Á ALÞJÓÐAVETTVANGI OG VONANDI Í ALÞJÓÐAHAGKERFINU LÍKA!


















Er lífið ekki dásamlegt?

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Innan við sólarhringur



















Það kom eiginlega engin önnur mynd til greina eftir að ég fann þessa... nema kannski þessi eða þessi.

Spá: Obama klárar þetta auðveldlega og fær a.m.k. 338 fulltrúa (minnst 311 - mest 364).

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

mánudagur, nóvember 03, 2008

Evrópuumræðan að fara af stað?

Það eru komnir brestir í stífluna og brátt fer Evrópuumræðan á fullt, margir hafa áhuga en vita ekki hvert á að snúa sér í þeim fræðum - hér er smá endurupprifjun í formi linka. Því miður hafa okkar bestu fræðimenn í evrópumálum fæstir opnað á greinar sínar á netinu en Eiríkur Bergmann er undantekningin. Þið sem viljið ganga lengra í leit ykkar að efni er bent á Þjóðarbókhlöðuna og leitarvélina gegnir.is þar sem slá má upp leitarorðum á borð við ESB, Evrópusambandið, Úlfar Hauksson, Baldur Þórhallsson, Eiríkur Bergmann, Auðunn Arnórsson... til að gefa einhverjar hugmyndir.

Hér er skýrsla Evrópunefndar sem ber heitið ,,Tengsl Íslands og Evrópusambandsins"

Eiríkur Bergmann skrifar fræðigreinina ,,Hvað breytist raunverulega við aðild að ESB"

Eiríkur Bergmann skrifaði aðra grein, sem ber heitið ,,Þjóðernishugmyndir Íslendinga og afstaðan til Evrópu"

Eiríkur Bergmann: Hvers vegna EES en ekki ESB

Eiríkur Bergmann: Undanþágur og sérlausnir í aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Eiríkur Bergmann: Verktakinn í Brussel

Hér er að lokum blogg Evrópusamtakanna

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Punktar

Sögur af landi og þjóð: Ísbjörninn er þekktur fyrir góðar föstudagssögur og mæli ég með þeirri nýjustu. Uppátæki þetta sem sagan snýst um varð svo langlíft og dreifðist svo víða að lesendur þessarar síðu kannast eflaust við uppátækið, þar á meðal Keðjufíflið og pennar knattspyrnuvefmiðils.

Stjórnmál: Allir góðir menn fagna endurkomu Freedomfries, sérstaklega nú þegar að dregur að kosningum í USA.

NBA: Lakers byrjar með góðum útisigri á Denver

Gullmoli: Lords of the Underground - Chief Rocka (man einhver eftir þessu lagi úr NBA action?)

Knattspyrna: OK, segjum sem svo að þú sért tvítugur gaur að spila fyrir einn stærsta klúbb veraldar með endalausum ofurstjörnum og kannt ekki stakkt orð í ensku, hvað gerir þú til að skemmta sjálfum þér og öðrum? Það þarf eistu í svona grín.

Er lífið ekki dásamlegt?

laugardagur, nóvember 01, 2008

Stjórnmál - Trúmál - Knattspyrna og NBA

Stjórnmál: Það þarf varla að endurtaka það hversu mikill hörmungarmánuður október hefur verið pólitískt en spurningin er hvort að nóvember geti ekki orðið nokkuð góður - þó að ástandið verði áfram mjög slæmt.
Þetta hefst allt með forsetakosningunum 4.nóv og vonandi nýrri 4-8 ára framtíð með Obama, 5.nóv (eitt viðeigandi OldSchool) fáum við svo loksins fréttir frá IMF og við getum komið þessu landi aftur af stað, hversu sársaukafullt sem það mun reynast. Síðast en ekki síst virðist stíflan innan Sjálfstæðisflokksins vera að bresta því Hólmsteinninn sjálfur fór að daðra við ESB í Kastljósi kvöldsins - enda Sjálfstæðisflokkurinn sem venjulega mælist tæp 40% orðinn að 20% flokk í dag.

Stjórnmál: Vefritið er miðill sem vill gleymast, ekki gleyma því!

Fótbolti: Lífið heldur áfram á andfotbolti.net

Trúmál: Pat Condell - Godless and free.
Á þessum síðustu og verstu tímum þurfa Íslendingar að huga að hverri krónu, skráðu þig úr ,,þjóð"kirkjunni og fagnaðu þínu náttúrulega trúleysi í commentakerfinu.

NBA: NBA er komið af stað og ég var að horfa á með öðru auganu á ,,round table" þátt þar sem ,,stórir menn" ráðlögðu Greg Oden um framtíð sína. Tvennt fór óstjórnlega í taugarnar á mér, annars vegar að kynnirinn dúndraði því fram að Oden yrði í þessum hópi en hann hefur ekki spilað einn leik í NBA og var meiddur allt nýliða tímabilið sitt og hins vegar að af þessum fimm stóru leikmönnum var enginn frá Lakers - hvernig er það hægt?
Bill Russell var þarna með réttu, Bill Walton sem er ekki nema semi miðherji í sögulegu tilliti, þá David Robinson sem er ekkert sérstaklega merkilegur, Patrick Ewing sem er hlægilegur og svo Bob eitthvað bla - enginn Lakers maður! OK George Mikan og Wilt Chamberlain reyndar dánir en hvað með Jabbar og Shaq, báðir merkilegri en þessir allir, að undanskyldum Russell sem þeir eru á pari við.
En hvað með Greg Oden, hvað hefur hann gert til að verðskulda þátt? Eins og áður sagði hefur hann ekki spilað leik í NBA og var meiddur allt síðasta tímabil og meiddist í sínum fyrsta leik án þess að skora stig á 13 mín og verður því ekki tilbúinn fyrr en eftir 2-4 vikur og á ekkert meira en youtube myndbönd sem segja að hann gæti orðið eitthvað.
Hann er jafn stór og Bynum, svipaður í þyngd en aðeins einu ári yngri og Bynum með þriggja ára reynslu - er ekki rétt að maðurinn skori sín fyrstu stig áður en hann er tekinn inn í Hall of fame?
Portland er hins vegar með gott lið og gætu orðið New Orleans þessa árs.

Er lífið ekki dásamlegt?