miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Smá smakk

Hér að neðan má sjá youtube myndband þar sem einhver hefur sett saman lagið Beyond the horizon við brot úr Chaplin myndinni Modern Times. Svo er það myndbrot frá laginu Someday baby. En bæði lögin eru af margumtalaðri og frábærri nýrri plötu Dylans... Modern Times.

Beyond the horizon

Someday baby

Modern Times - dómur

Þá hef ég tekið tvær heilar hlustanir á nýju plötu Dylans, hina margumtöluðu Modern Times og það er gleði í mínu hjarta og léttir. Það sem hefur oft vantað á mörg lög á síðustu plötum Meistarans er hljómurinn, en á þessari er það einn helsti styrkur hennar.
Alvöru gamaldags rokk/blús hljómur á köflum (J.L Hooker, Muddy Waters, B.B.King - lög eins og Thunder on the Mountain,Rollin´And Tumblin´, Someday Baby og The Leevee´s gonna break ) og í þrem lögum má jafnvel heyra lagauppbyggingu er svipar til Noruh Jones (t.d. Spirit on the Water, When the Deal goes down og Beyond the Horizon) lög sem sennilega gætu fengið spilun á Létt Bylgjunni.
Lögin Nettie Moore og Ain´t talkin (sem minnir á perluna Ballad of a thin man) eru í þyngri kantinum og virkilega flott.
Eina lagið sem ég set spurningu við er Working Man´s Blues # 2, lagið er gott og vex við hverja hlustun en passar eiginlega ekki inn á plötuna - hefur ekki sama hljóm.

Það er skemmtilegt að sjá hvað þeir eru staddir á svipuðum slóðum Meistararnir tveir, Megas og Dylan. Megasukk platan var einmitt að leita í sagnahefðina, drykkjuvísur og aðra texta þjóðskáldanna með dassi af blús og Dylan leitar til baka í upphaf rokksins og blúsins. Einfaldleikinn - sem eins og oft hefur sannast getur virkað best.
Það er ákveðinn gæðastimpill á plötum, þegar það fyrsta sem maður vill gera er maður vaknar á morgnanna og hefur kysst sína konu er að fara og hlusta á plötuna. Öll lögin eru góð og alltof snemmt að nefna uppáhaldslag og það gerir sennilega líka fjölbreytileiki plötunnar.
Modern Times fær 5 stjörnur af 5.

Tvö textabrot:

(Spirit on the Water)

You think I'm over the hill
You think I'm past my prime
Let me see what you got
We can have a whoppin' good time


Platan endar á þessu (Ain´t talkin):

Ain't talkin', just walkin'
Up the road, around the bend.
Heart burnin', still yearnin'
In the last outback at the world's end.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Modern Times

Arnar Eggert fer lofssamlegum orðum um Bob Dylan á bls 38&40 í Mogganum í dag.
Segir m.a. ,, Væri maður að ryðja þessari lofgjörð út ef að platan væri eftir einhvern annan en Dylan? Eða öllu heldur, er það fyrritíma mikilfengleiki sem kemur svona hallelújahrópum í gang? Er platan kannski bara mjög góð, en af því að Dylan stendur á bakvið hana, þá má kalla hana meistaraverk, stórkostlega endurnýjun og hverjar þær klisjur sem maður verður uppvís að? Maður spyr sig og veltir þessu fyrir sér. Platan er frábær - en ég vill meina að það sé einmitt vegna Dylans sem hún verður eitthvað meira, verður satt að segja stórkostleg. Það er enginn tilviljun að maðurinn nýtur jafnmikillar listrænnar viðurkenningar og raun er. Dylan er snillingur og ef einhver hefur það í sér að að ýta plötu yfir í það að verða eitthvað meira er það hann. Töfrar sem einungis geta stafað frá Dylan leika um plötuna, sönnun þess að Dylan er í feiknarformi í augnablikinu, orðinn 65 ára gamall."
Jæja, ég er sjálfur farinn að hlusta og væntingarnar orðnar rosalegar - sýnist líka að platan hafi lengt sumarið um nokkra daga. Lifið heil!

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Haustið er mætt

Átti rétt í þessu eitt af þessum ömurlegu Nóa Albinóa augnablikum hvers árs. Steig út fyrir húsins dyr hér á næturvakt og horfði á gul haustlaufblöðin svífa og festast við glitrandi malbikið sem ljósastuaranir lýsa á í rigningunni.
Ég þorði varla að anda en neyddist loks til þess, og jú það sem ég hafði óttast var orðið að raunveruleika - haustið er mætt.
Mér finnst rétt vera andartak síðan að vorilmurinn læddist gegnum rifuna á glugganum góða vestur í bæ og vakti mig en svo var þetta bara gabb - ekkert sumar á árinu 2006 og:

,,engar horfur á batnandi tíð
og engin leið - engin leið út
nema ein svo þú komast megir í hvarf
þú getur dreymt þig burt frá sorg og sút
svefn er allt sem þarf...
...vakan býður volæði eymd og böl
vonleysi ræfildóm hörmung bömmer og blús"

Fyrir mér er haustið alltaf tími sjálfsskoðunnar, spurningar á borð við ,,Hvað í andskotanum er ég að gera á þessu landi?" eru órjúfanlegar haustinu og oftast fylgja spurningar á borð við ,,Af hverju er ég ekki búinn að gera neitt af því sem ég ætlaði að gera í sumar?" og ,,Nenni ég að halda áfram í þessu námi?" (svarið er í fyrsta skipti já ca. síðan ég byrjaði í 7.bekk í grunnskóla).
,,En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott" segir máltækið og það er mikil tilhlökkun í mér að fylgjast áfram með ljóðaferli Daða og svo er nú gott að vita af því að maður getur lagst undir sæng einn eða með góðan félagsskap heilu og hálfu daganna án þess að skammast sín... ,,svefn er allt sem þarf" eins og Megas orðar það hérna að ofan. Og það er um að gera að ganga lengra og búa sig andlega undir hörmungarnar...

"... það er sama hvaða guð og það er sama hvaða lögmál,
það er sama hvaða mátt þú nefnir
þessi alíslenska hríð já hún er ævinlega í fangið
sama í hvaða átt sem þú stefnir"

Það er gott að gleyma ekki því sem bíður manns næstu mánuðina, fimbulvetur og almennur djöfulgangur en þá er líka gott að leita í þýðingar Gunnars Hersveins á verki Schopenhauer sem minnir okkur á að: ,, ...dauðinn eyðir öllu; hinu góða, voninni, verkunum, ánægjunni og gleðinni. Lokadómur náttúrunnar er dauðinn, dauðinn sem sannar að vegur lífsins er falskur."

,,I just don't see why I should even care
It's not dark yet, but it's getting there"

Annars er ég bara hress og segi gleðilegan vetur!

Lauga-dagur og fræðimaður fagur

Vaknaði frekar snemma í morgunn á minn mælikvarða og skellti mér niður í Laugar til að berja augum hið stór skemmtilega lið West Ham er heimsótti stórliðið Liverpool. Liverpool liðið var með skemtilegra móti í dag þó að það hafi sannarlega verið leiðinlegra liðið á vellinum. Hins vegar ef að Liverpool liðið sleppur við mikil meiðsli lykilmanna þá er það líklegt til að vinna ansi marga 1-0 sigra á þessari leiktíð, voru hins vegar heppnir að Bowyer skildi ekki stela tveimur stigum af þeim í dag. Held að Kuyt muni setja 15+ á þessari og 20+ á næstu.
Ætlaði svo að horfa á mína menn í Manutd sem samkv. fréttum sluppu naumlega með sigur en fékk þá símtal þar sem seiðandi rödd sannfærði mig um að koma í heimsókn.

Úr lágmenningunni á Anfield og var sem sagt haldið í heimsókn til Andra Fannars, þar sem hámenningin er sjaldnast langt undan. Við kumpánarnir settumst og horfðum á heimildarmyndina um Zizek sem ég hef áður minnst á. Myndin var stór góð, bæði fræðileg og fyndin.
Mæli eindregið með því að þenkjandi menn kíki á hana, hvar í flokki sem menn kunna að standa og ég er ekki frá því að ég muni lesa einhverjar af bókunum hans að lokinni haustönn. Andri benti mér reyndar á að sennilega mun verða gefin út þýdd bók eftir Zizek í ,,lærdómsritaröð" hins íslenska bókmenntafélags. Það er þó sennilega eitthvað í það.

Annað?
Þarf maður eitthvað að ræða fréttir síðustu daga. Sama gamla sagan, ríkisstjórnin að skíta á sig en ætli fólk kjósi hana ekki yfir sig aftur?

föstudagur, ágúst 25, 2006

Örsögur tvær úr daglegu lífi

Sá Eyþór Arnalds í gær þegar ég var á leiðinni í World Class, hann var með tösku á öxlinni og var greinilega að koma af æfingu og gekk í átt að Suðurlandsbraut - hugsanlega til að taka strætó. Gott að menn þurfi stundum að taka afleiðingum gjörða sinna í þessu samfélagi.

Sá svo okkar ástkæra trommara Orra úr Sigur Rós áðan á leið niður Laugarveginn, vakti það kátínu mína að hann var klæddur í rauða Sigur Rósar peysu úr nakta apanum.
Þegar ég verð frægur ætla ég pottþétt að gera eitthvað svona - ganga t.d. í bol með risa mynd af mér framan á.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Í léttum þönkum yfir skífuskönkum

Líkt og þegar helvítis geðsjúklingurinn hann Jónas frá Hriflu bölvaði og ragnaði yfir nútímamyndlist á 5.áratugi síðustu aldar þá hnussar ennþá í sumum þegar talað er um listformið skífuskank.
Nú ætla ég ekki að þykjast vera einhver fræðimaður um það að skanka skífum en vill endilega benda á merkilega þróun síðustu u.þ.b. 30 árin.Ég bendi þeim á sem eru ekki svo víðsýnir að kíkja á næst síðasta brotið með heimsmeistara genginu C2C frá 2005.
Er ekki rétt að byrja á broti úr myndinni The Scratch Story with Jessica Jason - mikið vatn runnið til sjávar síðan að Jazzy Jay, Grand Master Flash og fleiri voru að taka sín fyrstu spor.
Það mætti eflaust telja upp þúsundir skífuskankara en þar sem þetta er meira til gamans gert en að vera einhver fræðilega útekt þá er næsta brot með heimsmeistaranum árið 1995 sem sótti Ísland heim seint á 10.áratugnum þegar Hip Hop bylgjan var orðin frekar stór, enginn annar en Roc Raida úr X-men (sjáið sérstaklega síðustu mín). Á svipuðum tíma var Rob Swift að gera góða hluti með allt aðra tækni.
Af hljómsveitum náðu líklega Cold Cut mestum vinsældum enda notaði hljómsveitin flott sjónræntshow á tónleikum og var frekar pólitísk - ég og ástin mín hann Baldur Knútsson sáum hana einmitt í Brighton á tónlistarhátíð sem ég man ekki lengur hvað heitir.
Á svipuðum tíma var gerði DJ Shadow reyndar gott mót sem sést hér í myndbroti með Cut Chemist
Eftir að þeir félagar í Sigur Rós mættu hins vegar í funkþátt Þossa fyri einhverjum átta árum síðan hef ég hins vegar ekki mikið fylgst með þessari senu.
Hins vegar fann ég myndbrot með fyrrnefndu heimsmeistaraliði í skönkun árið 2005 og greinilegt að þróunin heldur enn áfram - þvílík snilld.
Að lokum læt ég svo fylgja með myndbrot frá minningartónleikum JMJ sem snéri plötum forðum fyrir Run DMC blessuð sé minning hans.

Tvífarar morgundagsins

Menn eru í blússandi sykurneyslu hér klukkan 04:40. Ákvað að stela einni mynd af annarri síðu og geri það blygðunarlaust þar sem maður á nú þátt í því að benda á þetta og auk þess sem ég sá um að gera þennan bloggara að manni á B4 - djöfull er maður gamall.
Hér að neðan má sjá Jarlinn með eiganda veitingarhús hér í bæ, það er óneitanlega svipur með þeim. Tvær fallegar sálir.

Forskot á sæluna



Ég ætla ekki að gerast svo kræfur að skrifa spekingslega um Megas þeirra Bandaríkjamanna, enda hefur hann eins og okkar maður á Íslandi verið krufinn fram og til baka (en aldrei þó til mergjar).
Hins vegar vildi ég rétt aðeins benda á brot úr viðtali við kappann, en glöggir menn ættu að átta sig á því hvar má komast yfir restina af þessu viðtali. Viðtalið er auðvitað tekið vegna væntanlegrar plötu sem út mun koma út næsta þriðjudag (29/8) og ber heitið Modern times. Tilhlökkunin orðin mikil, reyndar búinn að heyra eitt lag sem olli vonbrigðum en það detta vonandi inn einhverjar perlur.

Meðmæli



Það er vægast sagt heiður, að hinn þrautreyndi bloggari ,,Keðjufíflið" (sem er hálfbróðir formanns fjárlaganefndar) skuli gefa síðu þessari meðmæli.
Fyrir þá sem ekki þekkja til er Keðjan ólíkt hálfbróður sínum að klára stjórnmálafræðina. Hann er afbragðs miðjumaður og frjálshyggjumaður (ekki það að það sé hægt að vera afbragðs frjálshyggjumaður) og hef ég gert við hann munnlegan samning um að við munum giftast ef að við verðum báðir ókvæntir er hann nær 40 ára aldri - þann samning þarf samt að lögfesta á pappírum... kannski að Biskup undirriti hann næstu jól?

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins kynnir með stolti: Formann fjárlaganefndar



Birkir Jón Jónsson: Fjárlaganefnd (formaður), félagsmálanefnd, landbúnaðarnefnd, Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og Íslandsdeild NATO þingsins (varafulltrúi).

Stúdentspróf Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki 1999. Nám í stjórnmálafræði HÍ frá 2000.

Fíflagangur!!!

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Tvífarar dagsins




Tvífarar dagsins eru þeir Darko Milicic leikmaður Orlando Magic og Helgi Magnússon leikmaður KR og söngvari í hljómsveitinni Sveittir gangaverðir sem gerði það gott í upphafi aldarinnar. Má vart á milli sjá hvor er hvor.

Hlauparar samtímans

Við hlaupum áfram Jakob
því við erum guðir jarðarinnar
sem berjumst um auðinn,
sem berjumst um valdið og orðurnar,
og við hlaupum endalaust áfram
og enginn veit lengur til hvers
-nema við tveir minn kæri Meistari Jakob

Yndislega youtube I

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Tvífarar dagsins




Tvífarar dagsins eru þeir Peter Jackson leikstjóri (til vinstri) sem sést hér í sinni fystu mynd (að mig minnir) - tímamótamyndinni Bad Taste og hins vegar róttæki heimspekingurinn og menningarfræðingurinn Slavoj Zizek, en um hann hefur nú verið gerð heimildarmynd sem Björn Þór Vilhjálmsson fjallar um í Lesbók Morgunblaðsins 19.ágúst, þar kemur m.a. fram að Zizek telur sig vera skrímsli og PJ ber sig vel sem eitt slíkt á myndinni hér að ofan. Zizek hefur meðal annars skrifað þessa skemmtilegu grein um 24: http://www.inthesetimes.com/site/main/article/2481/

föstudagur, ágúst 18, 2006

Ljóðafréttir Daða sumarið 2006 vol.2

Sálarlausar verur úr slímkenndu efni
sækja mig heim og segja í svefni
að bróðir hans muni sækja mig, þessi betur gefni
hr. Da(u)ði að segja að við séum dauð
Milliliða- og hrygglausir takast á ólíkir maðkar
bankastjórinn í liggjandi öreigann sparkar
sem blóðugur af sér það harkar
og þiggur bætur af hans marg milljarða auð

Fitug prentfingraför á borði eftir Mogunblaðið
sem segir ,,Palestínumenn þið sjálfa ykkur skaðið”
ég held að Styrmir ætti að þiggja baðið
og baða fyrirgefningarhöndunum í átt til Guðs
Því þríklofinn almáttugur myndi segja við Styrmi
,,Sannarlega ég yðar lífi þyrmi
og ef ég sé að hið sanna á blaðsíðunni vermi
skal ég meira að segja ganga í SUS”

Á bækistöðvum og í bönkum
sitja menn í þungum þönkum
og ræða sölu RÚV og verð á bensíntönkum
og hver taki við af Halldóri
En ein blók les tilvitnunarbók
skrifar ljóð yfir smók
finnst lífið bara lame djók
en hugsar ,,ég vona samt að ég tóri”

Innblásin virðist að helmingi vor æska
útblásin hinn - skyndibita upp í háls, sig þarf að ræskja
það eru ofbeldis jaðarhópar og Zimmermanngæska
Og við skulum vona að sátt nái hver
mönnum líður best ef þeir sjálfa sig þekkja
það er víst verst að vera ekill eða ekkja
samt vilja sumir í stað Íslands Valgerði drekkja
en betra hefði verið að biðja hana um að drekkja sjálfri sér

Lemur Jón konuna sína?
er alkinn Halldór verst staddur meðal vína?
á milli snilldar og geðveiki ku vera fín lína
og Lína Langsokkur dansar, á henni
Slúðurblaðamennska er bráðum horfin
og ónýt fréttaskáld þurfa að taka upp orfin
því á vorin eru horfin öll góðu störfin
og við blessunarlega laus við uppgerðarillmenni

Fær fræðimaður fróður
í skjóli nætur sprayar one-liner áróður
á veggi, því óður hann vill ekki Stóra bróður
né móður-serðandi ríkisvald
Og Stefán Jón hann dreifir alþýðuflokksrósum
í von um að nýjan Dag við kjósum
en í straumhörðum ám og ósum
situr Ingvi Hrafn með tangarhald

Virtir menn þeir skrifa uppkast
er þeir vilja skjóta á menn mjög fast
Roy Keane segir ,,undirbúðu þig undir að mistakast
ef þér mistekst að undirbúa sjálfan þig”
Og hún horfði á mig döpur en dreymin
feimin, búin að bragða beiska lífskeiminn
en menn og konur eiga víst að smile-a framinn í heiminn
þegar hvunndagsraunirnar ríða þeim á slig

Að fortíð skal víst hyggja
ef framtíð bjarta skall sér byggja
mér er sama, bara ef þær á maganum liggja
og leyfa mér að klára mig af
Dylan segir ,,Ég skal leyfa þér að vera í draumunum mínum
ef þú leyfir mér að vera í draumunum þínum”
og fylgismaður Múhammeðs hyggst éta og sofa hjá svínum
ef svínin vestanhafs sofandi verða skotin í kaf

Zizek spyr ,,hvað býr að baki kapítalískum sannleika?”
og viðskiptavinur spyr portkonu ,,bíddu, varstu að feika?”
og ég spyr sjálfan mig ,,hvað þarf marga jarðaberjasjeika
til að fylla þetta fagra hold?”
Og Ísland það alþjóðavæðist
ég að því hæðist, því þú það hræðist
en Hallgrímur Pétursson segir ,,það er sama hverju þú klæðist
hold það verður ávallt mold.....

Gore hann vill stöðva náttúruspjöllin
og sjálfstæðismenn þeir vilja færa völlinn
en fortíðar Framsóknarnátttröllin
vilja ekkert – tja, nema sín hefðbundnu völd
Hafró leggur til minni veiðar á ýsu
og ég söngla þessa óreiðu vísu
sem veldur pirring hjá einni skáldlegri skvísu
sem boðar skelfingu og bölsýnisöld

Ég mætti tveimur frakkaklæddum draugum
sem sögðu það ósmekklegt af skáldum að lyfta í Laugum
ég held að þeir myndu missa sjón á báðum augum
ef þeir vissu hverjir mættu þar
Og víst er fáfræði og fordómar víða
og eftir betri tíð flestir eru að bíða
nema þessi fríða, víða sem gott er að ríða
og heim mun ég skríða um leið og ég fæ far

Ljóðafréttir Daða sumarið 2006 vol.1

...Og þú gjammar eins og forrituð tölva
,,peningar tala” nei, peningarnir bölva
og með ábyrgðaleysi nú allt þeir mölva
greiningardeildir eins og Séð og heyrt völva
spá öllu góðu á meðan fjármunir almennings brenna.
Og víst kann mönnum orð mín að blöskra
flæktir í kóngulóarinnar flóknu netmöskva
það er í okkar olíuþágu ef vélbyssur öskra
en menn spyrja ,,Er það Vaka eða Röskva?”
á meðan ráðmenn þjóðarinnar á rassgatið renna.

Og af 14 ára pilti þú getur enn kynlíf keypt
en ódýrt erlent lambakjöt er ekki leyft
því það liggur á, að eignarhald fjölmiðla sé dreift
svo að fávitarnir geti brjóstmynd, af fráfarandi forsætisráðherra steypt
á meðan þjóðin vonar að ríkisstjórn hans verði steypt í næstu kosningum.
Og foreldrar við skólana þeir fyllast af heift
ef börnunum þeirra er úr skólanum of snemma hleypt
á meðan úttroðnu pizzakrakkarnir þeirra geta sig varla hreyft
frá PoppTV, sem stillt er á því þau hafa fjarstýringuna gleypt
og drengirnir eru of latir til að fitla í sínum litlu typpalingum

Og virtir borgarar þeir spariklæddir dansa vals
á meðan efnahagskerfið það riðar til falls
en hafa ekki áhyggjur, þeir eiga allt til alls
og svo eru hættumerkin tvíræð og oftast fals
þó þeir viti að það kemur einhvern tímann að skuldadögum
Og þá eru allar eignir hvort eð er í skattaparadís
og þá íslensk viðskiptaparadís þar rís
ef skuldafjallið yfir landsmenn gýs
og þó millistéttapeðin væli ,,Æi plís, ég Framsókn kýs
hvað ef við meira af öryrkjum við drögum?”...
þá verður nóg af slíkum sorglegum sögum.

Og það er staðreynd að kaffi er kók nítjándu aldar
og að stjórnmálahugmyndir þínar eru mjög einfaldar
þú skoðar kosningabæklinga og fegurstu konur flokkana valdar
og þú velur þann flokk sem þú telur að þær séu fæstar kynkaldar
og kýst þó að þær lofi að senda þig til helvítis.
Og sekunduvísirinn tikkar í átt að heimsenda
og Fox spyr ,,á hverjum mun næsta sprengjuregn lenda?”
og álitsgjafar á allar heimsálfur nema sína benda
en þú hefur áhyggjur af því hvort þú fáir pizzuna nokkuð brennda
og hvort Manutd vörnin lifi af án Vidic...

Menn tilbiðja himinn og klofningu á hafi
og fagna með myndum dauða al-Zarqawi
fyrirgefið mér þó ég ekki af hlutunum skafi
og myndi hér setningar, orð og stafi
og staksteinar spyrja fylgja vestrænum gildum eðli skítlegt?
Og Halldór tengir flokkinn við framfarir
og segist hafa haft við Maríu Mey samfarir
og með Framsóknalausu Íslandi kæmu pestir og hamfarir
stríð, afturför og almennar ófarir
en hyggst flýja í embætti sem Davíð finnst skemmtilegt

Já, menn fremja sjálfsmorðsárás á Þingvöllum
en hvers er að vænta af mönnum af fjöllum
sem hafa trú á sjálfum sér, álfum og tröllum
og heyra ekki í vitleysunni í sjálfum sér fyrir hlátrasköllum
og vita ekki hvar þeir eru staddir í heiminum fyrir lygi
En íslamskar konur segjast ekki kúgun sæta
og dr. Lecter sagði ,, ég er ekki mannæta”
og Vilhjálmur sagði ,,við munum ástand eldri borgara bæta”
en er strax búinn buxur sínar að væta
og kjósendur að græta með sorglegum meirihluta

Og ríkisstjórnin nú hún stokkar spilin
11 jókerar með en formaðurinn skilinn
Og menn horfa djúpt í heimskunnar hylinn
En Framsókn rjáfar stefnulaust í gegnum bylinn
og nýr utanríkisráðherra er stoltur stúdent
Og Vilhjálmur ónýtt kálið úr ausunni saup
og stjórnin er sorglegri en árlegt kvennahlaup
og menn halda daglega í fréttum áramótarskaup
þegar fíflin gera með sér helmingakaup
og ég er spurður er ástæða til að setja þetta á prent?

Öld öfgana þeir fullyrða að víst sé hún liðin
Öflug vestræn ríki muni færa okkur heimsfriðinn
Copy – paste-a yfir alla sama siðin
En segðu mér hví er hún svona löng biðin?
var rennt blint í óþekkt miðin og óþekkt innviðin?
Og víst má blanda saman skáldskap og raunveruleika í ljóð
Og víst verða sum þeirra vond en önnur góð
Og ef að í æðum þínum rennur rósrautt blóð
Ættirðu að dritta þeim á blað og safna í sjóð
Og sannarlega munu þau smám saman heyrast í gegnum kliðinn.

Á æðstu stöðum er öxlum oftast yppt
Og löngum hafa aðrir þeim þangað lyft
Þó sjaldnast sé sagan þannig skorin og klippt
En það eitt er víst að eignum er misskipt
En hvar voru lög að slíku lögð?
Og hver getur samfélagssáttmálanum rift?
Og getur Guð einn mennina til sín kippt?
Og ef svo er getur maður þá í hann hnippt
Eða má kannski bara nota control, alt og shift?
En við Hr.Stift ættirðu ekki að ræða um slík tölvutrúarbrögð

Saklaus hann setti á sig ótal hlekki
Og lífshlaup hans það hljóp í kekki
Og með kossum vorsins ég hann blekki
Því slíkir kossar þeir blómstra ekki
Eftir manns eiginn smekk - það ég þekki
Á rósin aðeins einn kjól eða er hún nakin?
Myndi hún lykta illa, skitu þakin?
Og spyr hún sig sömu spurningar sofin og vakin
,,Hvar og hvenær verður fundin makinn?
Eða er það munn-makinn sem ég að trekki”

Og hafmeyjan fegurst í hákarlsins gini
Lenti og hver þarf í eyðimörkinni vini
Sem hefur vin og fjölmarga syni
Myndirðu leggjast hjá Birki, Reyni eða Hlyni?
Eftir að hafa átt samskipti við þurran andlausan kaktus eins og mig
Hún sefur lítið, því hún sér sýnir
En detta af gulir reykingarfingur þínir?
Líkt og laufið sem slagæðarhnífinn sinn brýnir
Og segir ,, nú eru taldir allir góðu dagar mínir”
Og lífi sínu sjálft að lokum sviptir sig

Feður landsins við mæður æfir
Og barn nútímans sjálft sig svæfir
En stúlka ein í hjarta mig hæfir
Og hæfur maður sjálfan sig kæfir
Því kærast-ar og –ur lama hugann
Svo grætur mey yfir Ginsberg orðum
Eins og gamalt skáld yfir Carlsberg forðum
Og menn gera lítið úr Ísraels þjóðarmorðum
En bölva blaði Frjálsrar Verslunar á almúgans borðum
En borðar skyndilausnir Frjálshyggjuryksugan?

Neruda bölvar dauðans landafræði
,,að nýta og njóta”, Cheerios - betra bæði
Í bræði rennur á menn málæði
Er rætt er um fjórfrelsi – fjórflæði
Gefast upp og í næði yðka sína trú
Hví bragðast ísinn betur í Róm?
Og hvers vegna er tæmandi sundurliðun ekki tóm?
Og hví er Meistarinn bitinn af 10.000 flóm?
Og því heyri ég óm úr húmi lágu og af klórandi klóm?
En dauðaóm-ur bíður víst ekki þess er byggir trúarbrú

Ég hitti trúleysingja sem trúði á gen
Engan guð eða spámann eða slíkt vesen
Er ég hnerraði sagði hann ,,Guð blessi þig og amen”
Og sat í lótusarstellingu buddisma Zen
Brosandi með bumbu og í fráhnepptri skyrtu
Kaldhæðið er brosið af vorsins vörum
Og viðkomandi bíður spurninga fullur af svörum
Það er skáldað og skálað og dregið á tálar á reykvískum börum
Og vændiskona semur sáttmála á kaupum og kjörum
En kapitalískur feministi öskrar ,,sjálfa þig hærra virtu!”

Og hámenntaðir hagfræðingar gróðann hirtu
Og Olíufélögin sjálf sig þau að lögum firrtu
Og sumum líður best í myrkri öðrum í birtu
Og því birtu félagar þeirra ekkert það sem þá svívirtu
Og nú sitja þeir með bindi við skyrtu í öðrum stjórnum
Og lífið það er hræðilegt í hlutafélgastjórnum
Bónusar og snittur og nóg af bjórnum
Mikið um prósentu af hagnaði minna af fórnum
,,Ekki benda á mig” eins og varðstjórinn forðum í lögreglukórnum
En einstaka sinnum verður þú að fórna þér á prammann – með starfslokasamning.

Hví flæða ekki öldurnar að hafsins miðju?
Hví hættir ótilneydd hóra ekki sinni iðju?
Hví er ég aldrei stoppaður á götu af gyðju?
Og hvers vegna byggja þeir ekki hugmyndaverksmiðju?
Fyrir allt heimska fólkið sem býr á Austfjörðum
Mig dreymdi um dána konu erótískan draum
Og reif upp með því löngu gróinn saum
Og sumar tilfinningar eru sterkar en þessi var aum
En garðálfurinn minn heldur uppi gleði og glaum
En gubbar að lokum á húdd mitt lambaspörðum

Og móðirin lét græða á dóttur sína hala og horn
Og ég vil gult M í stað kross á þjóðfána vorn
Eða afmyndaðan mann með slæmt líkþorn
Ellegar fyrir landbúnaðarhöft sauðfé og korn
Jafnvel stjörnur í vinstra horn fyrir utanríkisstefnu
Hann seldi mér sár sín hann seldi mér teip
Ég skrifaði hana hraðar en ég sjálfur hleyp
The Rape – The Abuse and The Big Escape
Hann seldi mér sögu sína frá Abu Ghraib
Og vinnubrögðum ,,hins frjálsa lands” – hinna betur gefnu

Ég vona að ég hald ei fyrir yður með þessu vöku
En viltu áður en þú sofnar bragða aðeins á þessari manndrápsköku
Utanríkisráðherra spyr ,,viltu þrykkja í þurrt eða á ég að halda rassgatinu röku?
Þú mátt þjösnast og slá mig eða slá bara við slöku
Við fylgjum ykkur ávallt eins og Guð almáttugur sé hér á ferð”
Í fínum skýjakljúfum og manngerðum völundarfjöllum
Í íslamstrúarríki og á Wall Street, komst menn áfram með hrópum og köllum
Og menn grýta steinum og blaðasnifsum og hringja svo bjöllum
Og slaka svo á, á víg- eða knattspyrnuvöllum
Uns það er hringt inn nýjum degi og þeir taka upp penna eða sverð

Vitnað er í Kalachakra heimsslitaritið
Að konungur Shambala muni hafa fyrir okkur vitið
Það hefst þó fyrr ef notuð er skynsemin og stritið
Og yfir fordóma og kreddur er yfir skitið
Og skoðaðar þær leiðir sem virkilega eru fyrir hendi
Einum er kennt og öðrum er bent
Og trúin hún skiptir góðum þjóðum í tvennt
og óargadýrið er djöfulli illa tennt
Og barnið sækir í bálið ef það er brennt
Og tekur þig með í vítisloga ef það varst þú sem það brenndir

Það er vor og það er war að venju fyrir miðjarðarhafsbotni
Og það má gera ráð fyrir að illa staddur sé sá skotni
Nema það sé skot hjartans og viðurkenningu konunnar hlotnist
Annars er ákveðinn hætta á að sjúkrhúslaus hann rotni
Islamstrúardrengurinn innilokaður í nútímans Ghettói.....
Tveir karlmenn nú á bar þeir vanga
Því í stað Keflavíkur- er nú Gay Pride ganga
Því kanarnir nenntu ekki hér að hanga
Uppteknir að senda í Guantanamo saklausa fanga
Hugfangnir af sjálfum sér en sjá ekki eigin heimsku

Hvað eru hryðjuverk? Og hvað er uppreisn, andóf?
Hvar halda hvítflipa glæpamenn sitt lokahóf?
Hvar er maðurinn sem sína gröf sjálfur gróf?
Og hvað þá maðurinn sem mygluna af matnum mínum skóf?
Hann hefur skilið slatta af henni eftir!
Það er alið á fáfræði, skelfingu og ótta
En hvaða fólk er þetta sem er sífellt á flótta
Undan kúlnahríð og þarf að horfa upp á syni sína sótta
Dauða, og andlega uppurið allra sinna lífsþrótta
En áhyggjur þínar eru valkvíðin: KR eða Grótta?
Og þér gæti ekki verið meira sama um hversu menn eru heftir.

Fórnarlaus Abraham eignaðist að lokum sonarson
Og afkomendur hans murka nú lífið úr fólki í Líbanon
Og fólk mótmælir í London, Laos og Lisabon
En vegna neitunarvalds er ekki nokkur friðarvon
En munum við ekki að lokum söguna aftur segja?
Kain hann var ávallt góður sínum bróður
Og helvítið hann Sæmi var andskoti fróður
En ýkju- og lygasögur eru á sagnfræði ljóður
En staðreyndin er að Bandaríkjamenn eyða meiru í hundafóður
En til fátækra sem eru úr hungri að deyja

Það má finna asískan tárakeim af nýjum Adidasjökkum
Og enn má heyra hvína í snoðkollum í brúnstökkum
Og sjá frygðarljómann á viðskiptamönnum í nýjum Boss frökkum
Og fliss fjá skökkum dreymdandi krökkum
Sem eiga flest þó eflaust eftir að gera það gott í lífinu
Og senn verða örlög mín dregin að húni
Og svo mun hnífurinn og standa í kúnni
Og ég vona að ég verði alltaf góður kúni
Og ei drukkinn múni svo ég verði ekki til skammar frúnni
Því þá yrði heilagt mannorð mitt dregið í stöngina hálfa.

Bókasafnspíuna inni á kvennasögusafni ég oft tók´ana
Milli þess sem ég reyndi að berja mig í gegnum bók bókanna
Menn ættu að rífa hana, rúll´enni upp og smók´ana
Og skipta svo yfir í sögu biskupa og hrókanna
Eða útþynnta hentistefnu mannkynssögu
Inn á hlöðu lyktar allt af konum og hlandi
Ég held ég aðeins lengur við hér strandi
Á þessum stað þar sem efnið er allt en enginn andi
Og ekki áhugi á öðru en holdlegu skyndisambandi
Fólk innprentað með ísetta tölvuflögu

Menntamenn þeir leigja á stúdentagörðum
Og fríska upp á heilann með efnum hörðum
Og taka svo einir ábyrgð á sínum gjörðum
Og biðjast fyrirgefningar á konum sínum börðum
Og hjólbörðum og hjólagjörðum öðrum
En í fjörðum og öðrum krummaskuðum og skörðum
Er nóg af lyga - Hannesum og Mörðum
Framtíðar strætóbílsstjórum og öryggisvörðum
Sem saurlúsugum klæjar í sínum hárssvörðum
Og svo yfir í fingur, af fögrum smáborgaradraumum

En víst er heimurinn í senn ógeðfelldur og fagur
Og víst blívar í honum einnig snotur borgarbragur
Það er Dagur... Sigurðar, Hr. Garcia og Megas magur
Og glettinn trúbador sem er ennþá alltof ragur
En ratar leiðina að velgengni og aftur heim(sfriður)
Og það væru klén skrif að enda í tortímingu og dauða
Eða að stela sögunni um rúturnar, bláa og rauða
Eða beina athygli ykkar til kauða, plastfrauðaskauða
og skilja þar með eftir huga ykkar auða
Svo andskotinn hafi það ég tjúna ykkur niður

Á haustdögum detta regndropar á bárujárnsþakið
Hlustið á gosið kitla áldósina ef sumarnætur vakið
Á snjókornin horfið, svo að á veturna þið á slakið
uns á vorin vindar ferskir leika - þá kynfæri ykkar rakið
og skotapilsið eitt það klikkar ekki.
Það er logn og ég lít til himinsins stjörnuljósa
Á Karlsvagninn og veru sem minnir mig á ljósálfinn Bósa
Og hún kyssir mig með kóralvörum sínum hún Rósa
Og ég vel Hallgrímsbrag fram yfir fagra prósa
En passa mig að overdósa ekki - á þeirri sem ég þekki!