laugardagur, nóvember 27, 2010

Allir á kjörstað

Í dag er stór dagur í sögu íslenska lýðveldisins, dagur sem síðar meiri gæti orðið minnst sem upphafsdags nútíma lýðræðis á Íslandi, en þá þarf vel að takast til. Við þurfum ekki einungis að velta fyrir okkur hvaða einstaklingar eru best til þess fallnir að vera hluti af 25 manna hópnum, heldur að mæta á kjörstað til að sýna að stjórnlagaþingið hafi lögmæti - hafi almenning í landinu á bakvið sig.

Séum við á þeirri bjartsýnu skoðun að það sé hægt að breyta íslensku samfélagi til hins betra (sama hvaða leið við teljum besta að því markmiði) að þá gefst fyrsta tækifærið í ansi langan tíma í dag. Það er nóg að kjósa einn frambjóðanda en heppilegast að fylla út allan seðilinn. Þeir sem ekki mæta á kjörstað og ætla að sitja heima í hinu séríslenska nútíma andrúmslofti neikvæðninnar skulu að sama skapi ekki voga sér í náinni framtíð að kvarta yfir þjóðfélagsmálum.

Við getum haft mismunandi skoðun á frambjóðendum og hvort að stjórnarskráin eigi að vera stutt eða ítarleg. Enginn ætti hins vegar að láta blekkjast af orðum lögfræðielítunnar um að íslenska stjórnarskráin sé góð, hún hefur hag af óbreyttu ástandi. Megi segja eitthvað um þessa stjórnarskrá þá eru hún í besta falli ruglingsleg, ekki í samræmi við nútímann og til þess fallinn að kljúfa þjóðina fremur en að sameina.

Strax í annarri grein í fyrsta kafla stjórnarskrárinnar kemur upp atriði sem enginn sátt hefur verið um hvernig skuli túlka síðustu áratugina. Samt er þetta sú grein sem fyrst aðgreinir hver(jir) skulu fara með valdið.
Beint á eftir þessari annarri grein í fyrsta kafla hefst annar kafli alls í 28. greinum (rúmlega þriðjungur stjórnarskrárinnar) um forsetaembættið sem engin sátt ríkir um hvort að:
A)Embættið eigi rétt á sér
B) Ef að það á rétt á sér hvað á að felast í því og...
C) Hvert valdsviðið er (sem hefur verið túlkunaratriði í lengri tíma).
Í þriðja kafla eru fjórar greinar. Sú sem skiptir mestu máli (31.gr) er gjörsamlega galin. Þar er kveðið á um sérstök kjördæmi, sem hygla landsbyggðinni, sem er rótin að flest öllum þeim óþverra sem almenningur hefur fengið yfir sig frá því um fyrri heimsstyrjöld. Öll fyrirgreiðslu pólitík, niðurgreiðslur, tollar og höft eiga rætur að rekja til þessa kjördæmakerfis. Ekki einungis er það óþverrinn heldur er kerfið beinlínis andlýðræðislegt, þar sem atkvæði eins manns gildir margfald á við annars vegna mismunandi búsetu á landinu - myndum við sætta okkur við að þetta viðgengis ef að atkvæðavægið snérist um kyn, kynþátt, trú eða annað slíkt?
Fjórði kafli er sennilega með þeim bærilegri, ekki vegna þess að hann sé svo góður, heldur vegna þess að þar er ekki að finna neitt stórt atriði sem gjörsamlega klýfur þjóðina.
Í fimmta kafla er fjallað um skipan og hegðun dómsvaldsins, kafli sem er greinilega ekki nógu skýr sé tekið mið af ráðningum síðasta áratuginn.
Í sjötta kafla er hin margfræga 62.grein um evengelísku lúthersku þjóðkirkjuna sem rúmlega 70% landsmanna eru á móti og rúmlega helmingur hefur verið á móti síðustu 15 ár. Í framhaldinu er 64. grein sem byggir einnig á misrétti gagnvart þeim sem standa utan trúfélaga.
Sjöundi kaflinn er sennilega sa besti, mannréttindakaflinn sem endurskoðaður var árið 1995 en má eflaust bæta orðalagið í einhverjum greinum, jafnvel bæta við greinum (það er smekksatriði).

Niðurstaða: Sjöundi kafli er góður (má samt alveg skoða og breyta orðalagi), fjórði kafli er sér beinlínis ekki til skammar en mætti vera skýrari. Hinir fimm kaflarnir innihalda allir atriði sem gríðarleg ósátt er um og varða grundvallarþætti í uppbyggingu samfélagssáttmála.

Þeim 25 manns sem falið verður þetta verðuga verkefni þarf að misheppnast allsvakalega ef að útkoman verður verri en sú sem fyrir er.


Er lífið ekki dásamlegt?

laugardagur, nóvember 06, 2010

Based on a true story

Á reykmettaðri efri hæð Grand Rokk, meðal barlóma, svolara og andlitslausra ógæfumanna blasti hún við þessi toppklippta snót í hvítri prjónapeysu. Hún sat í horninu í skugga hátalara ásamt vinkonu sinni og horfði á Megasukkið flytja tíðindi úr undirheimum með dramakómískum áherslum þriðja eyrans sem riðlaðist á verkfæri sínu berskjaldaður en þó einkum að ofan, svo að eyrnasneplar hennar blöktu í hljóðbylgjunum.

Hvað var hún að gera á þessum stað, fjarri ísfirskum heimkynnum sínum og því rúmfræðilega mengi sem slíkar stúlkur yfirgefa ekki svo glatt? Gat verið að hún væri mætt inn á þennan vígvöll til vísindalegs undirbúnings? Að hún væri mætt til að kanna viðfangsefnið, taka fyrsta skrefið í átt að því stórvirki að draga verðandi barnsföður sinn upp úr eymdinni og gefa honum trú á lífið? Hún brosti feimnislega er hún uppgötvaði að ég hafði nappað hana fylgjast með mér en sveif svo út í nóttina án allrar viðvörunar.

Ég sat áfram klístraður í stólnum eins og ég hafði gert svo mánuðum skipti. Megasukkið var farið að breytast í klið úr fjarlægð vegna fúkyrða flækingja og reykingja frillnanna sem lyktuðu eins og togari sem er nýkominn í höfn. Á næsta borði sátu tannlausar bölvandi byttur að leik á tættum dúk sem einhvern tímann hafði verið skákborð og á bakvið mig nudduðust ungir drengir sem pettuðu hvorn annan eins og þeir ættu lífið a leysa. Ég hélt að ég gæti ekki orðið hamingjusamari.

Síðar meir hittumst við á fallegu vorkvöldi, ung og skuldlaus. Eftir snarpar samningaviðræður að viðstöddum lögfræðingum varð niðurstaðan sú að ég yfirgaf ghettóið fyrir hana og hún guð fyrir mig. Síðan þá hef ég ekki litið til baka eða eins og eitt þekktasta íslenska skáld 20.aldarinnar orðar það ,,hamingjan er hér".

Er lífið ekki dásamlegt?