fimmtudagur, október 22, 2009

Oh you pretty things

Það lítur mögulega ekki þannig út í augnablikinu, en það mun senn renna upp sá fallegi dagur að Íslendingar hætta að líta á sig sem fórnarlömb og öðlast aftur trú á það að hér sé hægt að byggja upp trausta framtíð. Hjólin fara að snúast, vindáttin verður hagstæð(ari) og tóninn á spurningunni ,,Hvernig samfélag viljum við byggja hér upp?” verður yfirvegaður og jákvæður en ekki settur fram í öskrandi hugsunarleysi eða vantrú á framtíðina.

Krafan um breytingar verður á sínum stað, eðlilega, en traust á stofnunum og stjórnmálaflokkunum mun fyrr en síðar aukast aftur, það kemur sá tími að við getum hlegið að Búsáhaldarbyltingunni – sama verður hins vegar væntanlega ekki sagt um þá stjórnmálamenn sem koma út úr óveðrinu skítugir upp fyrir haus. Það er fyrirséð að Jóhanna og Steingrímur munu rétta fram kyndilinn þegar hið versta er afstaðið, en eru líkur á því að Bjarni Ben og Sigmundur Davíð lifi af sem leiðtogar? Ég er ekki viss.

Bjarni Ben hefur reynst margsaga og –skoðunar í öllum mikilvægum málum síðasta árið hvort sem það er IceSave, ESB eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ruglað þessu fram og tilbaka. Fyrst var hann með þessu öllu í ríkisstjórn, þá semi á móti ESB og vildi að Ísland tæki upp evru með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, svo á móti aðildarviðræðum við ESB, svo á móti Icesave en tilbúinn til að vinna með að breytingum sem hann svo sat hjá við atkvæðagreiðslu, svo á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv. Jafnmargar afstöður í andstöðu við sjálfan sig á innan við einu ári og meðal stjórnmálamaður er á öllum sínum líftíma. Hann situr núna pissublautur í pollagalla með sand í munninum og spyr fóstruna hvort að hann sé í krummafót. Þá hefur hann þann stimpil á sér að vera strengjabrúða ákveðinna afla og að hann hafi ekki þor til að láta leiðtogann í sér skína (sbr. meinta jákvæðni hans í garð ESB). Vægast sagt gríðarleg vonbrigði (sérstaklega fyrir okkur hægri krata) með mann sem hafði allt með sér: hæð, útlit, kyn (pólitískt rangt?), styrk, festu og skoðanir fyrir innan við ári síðan. Á hann framtíð?

Sigmundur Davíð kemur einnig grútskítugur og kjánalegur út úr þessum mánuðum sínum: á móti flokknum varðandi ESB, með óábyrgri afstöðu til IceSave sem fæstir virðast hafa og með því að fara kjánalega misheppnaða för til Noregs sem í þokkabót smurði aftur spillingarstimpli á Framsóknarflokkinn.

Stjórnmálaleiðtogar framtíðarinnar eru farnir að klæða sig í sparifötin og bíða krýningar – einhverjar uppástungur eða óskir um hverjir það eigi að vera? Verst geymda og augljósasta svarið liggur í Degi B. Eggertssyni sem bíður á hliðarlínunni með hreinan flipa tilbúinn að vefja húsmæðrum landsins um fingur sér. Sé það rétt greining margra að Bjarni Ben verði ekki langlífur (fremur en Þorgerður Katrín) liggur beinast við að Hanna Birna mæti í hvítu dragtinni í glansmyndakosningabaráttunni ,,Nýtt fólk á gömlum gildum” þar sem áhersla er lögð á það sem flokkurinn stóð eitt sinn fyrir (hvað sem það kann að vera). Hjá VG verður næsti leiðtogi óhjákvæmilega kona, annað væri skandall miðað við það sem flokkurinn gefur sig út fyrir að vera. Auk þess er nokkuð augljóst í augnablikinu (burt séð frá kyni) að menntamálaráðherra og umhverfismálaráðherra eru líklegustu kostirnir, en þarf það ekki að gerast fyrr fremur en seinna? Er það gott að þessi tvö leiðtogaefni séu viðriðin stjórn sem mun þurfa að taka fullt af óvinsælum ákvörðunum? Og að lokum ,,Hverjum er ekki drullusama um Framsóknarflokkinn?”

En hvað segið þið. Hvert er ykkar mat og hverja viljið þið sjá? Er einhver tilbúinn að koma með spá og jafnvel tímasetningu? Er Steingrímur að hætta? Lifa Bjarni og Sigmundur af? Svör við þessum spurningum og fleirum í næsta þætti... damm damm dammdamm

Oh you pretty things (oh you pretty things)
Dont you know youre driving your
Mamas and papas insane
Let me make it plain
You gotta make way for the homo superior

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, október 21, 2009

Smá um enska og NBA

Enski boltinn: Nú er tæpur fjórðungur af mótinu búið og þetta er nokkuð skrýtið tímabil að mínu mati. Það að United sé á toppnum gefur afar skakka mynd af frammistöðu liðsins sem hefur í mörgum, jafnvel flestum leikjum verið slakt og heppnin oftar en ekki með því. Mögulega ýtir það stoðum undir kenningu sumra að deildin í ár vinnist á færri stigum en áður, en tölfræðilega á það ekki við í augnablikinu.
Chelsea eru líka að hiksta meira en ég bjóst við og þó að ég hallist ennþá að því að þeir taki deildina að þá er liðið búið að strá kornum efans að einhverju leyti í huga minn. Arsenal lúkka vel knattspyrnulega og eru á siglingu en hafa einungis tekið tvö alvöru próf í deildinni og fallið á þeim báðum (gegn Manchester liðunum).
City og Tottenham eru að gera það sem fáir bjuggust við, þ.e. að byrja vel - Tottenham byrjar yfirleitt illa og flestir gerðu ráð fyrir því að City myndi byrja hægt og koma sér inn í þetta í seinni hlutanum en góð byrjun gæti orðið lykillinn að því að annað þessara liða næði inn í topp fjögur.
Liverpool er í mesta veseninu þó að tímabundið kunni að vera, liðið verður nánast að vinna bæði United og Arsenal (plús Lyon í Meistaradeildinni) á næstu vikum til að tímabilið fari ekki í vaskinn löngu fyrir jól og þá yrðu dagar Rafa líklega taldir. Sigur hins vegar í þessum leikjum og smá heppni t.d. varðandi meiðsli lykilmanna gætu komið liðinu í fluggírinn og spilamennska annarra liða ætti að vera Liverpool hvatning til að sjá að toppliðin öll eiga eftir að missa fullt af stigum. 10+ stiga munur frá toppsætinu er hins vegar ávallt sálfræðilega mjög erfitt.

NBA/Lakers: Er búinn að sjá tvo síðustu leiki Lakers og styrkur liðsins er ógnvænlegur. Á sama tíma er einhver undirliggjandi órökstudd hræðsla við það að eins gæti farið fyrir þessu liði og þegar Payton og Malone komu og spiluðu með Kobe og Shaq. Við erum að tala um Fisher - Bryant - Gasol - Odom - Artest og Bynum sem lykilmenn og af leikjunum tveimur að dæma sem ég hef séð að þá virðist það hafa þroskað varamennina mjög að vera partur af meistaraliði því Shannon Brown, Famar og Powell hafa verið að skila góðri vinnu og skynsömum sóknarleik og Adam Morrison er að setja niður þær fallegustu þriggja stiga körfur sem ég hef séð í lengri tíma (háar og alveg hreinar a la Larry Bird).
Tvennt stendur þó upp úr: Bynum er að spila mun betur en eftir að hann kom til baka í fyrra og er jafnframt að verða meira en einungis stór þéttvaxinn körfuboltamaður. Hann er að búinn að sýna margar alvöru mjúkar miðherjahreyfingar í þeim leikjum sem ég hef séð og ef að hnéið heldur að þá gætum við verið að horfa á 20 stig +10 frákasta mann í vetur. Hinn maðurinn er Artest sem menn voru að tala um sem einhvern Rodman vegna fyrri skandala en virðist vera hinn allra rólegasti. Ariza var í miklu uppáhaldi hjá mér en þegar maður horfir á Artest inn á vellinum með ofangreindum leikmönnum að þá verður að segjast að Lakers liðið lítur mun fremur út fyrir að vera þungavigtar meistaralið en í fyrra með Ariza.

Stjórnmál: Djöfull eru þau leiðinlega fráhrindandi í augnablikinu.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

þriðjudagur, október 20, 2009

Jæja...



Er lífið ekki dásamlegt?