laugardagur, mars 27, 2010

Tepruleg sýn á há(skóla)menningu

Formáli

Í vikunni fór fram afar áhugaverður fundur undir yfirskriftinni ,,Menning og klám í Háskóla Íslands” í Þjóðminjasafni Íslands. Undirritaður komst því miður ekki á þennan umræðufund en hefur verið andlitslaus yfir þeim smáborgaralega púrítanahætti sem þar virðist hafa magnast upp.

They fuck you up, your mum and dad.
They may not mean to, but they do.
They fill you with the faults they had
And add some extra, just for you.

Nánast undantekningalaust þegar undirritaður skrifar um menningu, þá situr hann í flauelsbuxum, skyrtu og hörjakka uppi á Háskólatorgi með vatnsgreitt hár, lætur rigna upp í nefið á sér og spyr menntaelítuna í kringum sig hvar við værum stödd án hámenningar Háskólans um leið og hann rennir yfir lyklaborðið með erótískum hætti. Að þessu sinni er ég hins vegar staddur í litlu bakherbergi á strippstað, með mottu sem klæjar undan, á hlýrabol og klæmist á lyklaborðið með groddaralegum hætti perrans á meðan Megas og Stormsker þenja raddböndin – svona til að syndlausir lesendur geti örugglega stimplað mig á þægilegan hátt.

Hvaða læti eru þetta?

Samkvæmt fréttum og almennri umfjöllun af umræðufundinum fór það fyrir brjóst, rassgöt og kynfæri áheyrenda hvers kyns svívirðilegur pervismi hefði viðgengist innan Háskólans síðustu ár – en hvað var það sem fór fyrir brjóstið á þeim?
Í fyrsta lagi heilsíðuauglýsing frá fyrirtæki, sem ennþá er löglegt, í útgefnu efni nemendafélaga vissra deilda innan Háskólans. Vissulega ekki besta valið en varla svo merkilegt að það sé gert að umfjöllunarefni í fyrirlestri um klám innan veggja Háskólans (og alveg örugglega ekki það heimskulegasta sem kom fram í þessu blaði).
Í öðru lagi barnaleg framkoma fullorðinna einstaklinga af báðum kynjum innan viðskiptafræðideildar (hinir ungu menn fóru á strippstað en dömurnar fengu heimsókn frá karlkyns strippara)... og hvað? Gerðist eitthvað þar sem Kolbrún Halldórsdóttir hefur ekki gert sjálf?
Í þriðja lagi klámvísur (á lokuðum vef) læknanema, vissulega grófar sem var kannski ástæðan fyrir því að þær voru inn á lokuðum vef, en ef að það er eitthvað sem segir íslensk menning í hnotskurn að þá eru það klámvísur – sú sem var birt var reyndar ekkert sérstaklega vel ort en það er aukaatriði.
Í fjórða lagi misheppnaður brandari lektors til fullorðina nemenda um að hann vilji taka upp kanadískan seðil vegna þess að á honum sé mynd af berbrjósta konu. Hér er vissulega á ferðinni óábyrgt tal en einungis útfrá efnahagslegu sjónarmiði. Það er ekki eins og maðurinn hafi verið að klæmast við börn um trú sína á ímynduðum guði, sem fáir virðast fetta fingur útí
Var þetta semsagt öll hin hræðilega klámvæðing?

Að þessu sögðu vil ég biðja fullorðna lesendur að játa eða neita í huga sér hvað af eftirfarandi þeir hafa gert:
1. Hefur þú horft á klámmynd?
2. Hefur þú farið á strippstað eða hefur einhver strippað fyrir þig/hefur þú strippað?
3. Hefur þú samið klámvísu?
4. Hefur þú sagt klámfenginn brandara eða komið með kynferðislega tilvitnun í ótengdu máli?

Sé raunin sú að þú hafir ekki gert a.m.k. tvö til þrjú ofangreind atriði þá má fremur segja að þú sért meira abnormal heldur en fólkið í kringum þig – ekkert að ofangreindu var á þessum tíma bannað með lögum.


Um uppeldi og fræðilega umfjöllun

But they were fucked up in their turn
By fools in old-style hats and coats,
Who half the time were soppy-stern
And half at one another's throats.


Ég er alinn upp á frjálslyndu heimili, þar sem menntakonur sem nú eru hluti af stofnanaelítum landsins hittust reglulega. Það eru 15-20 ár síðan og ég vona að enginn missi andlitið þegar ég segi að flestar þessara kvenna hafi verið mun grófari í talsmáta og framkomu (damn you feðraveldi!) en það sem hið unga fólk er nú gagnrýnt fyrir og ekki verður betur séð miðað við stöðu þessara kvenna en að þær geti sinnt sínum stöðum og tekið þátt í fræðasamfélaginu.

En hverjir eru þeir sem gagnrýna og hvað vilja þeir? Krafa fundargesta samkvæmt fréttum var að það þyrfti að endurmóta menningu okkar útfrá þeim siðferðilegu yfirburðum (frá hvers konar fólki heyrir maður slíkt) sem þeir greinilega hefðu yfir þessa skítugu perra í öðrum deildum og svo var það gamla góða tuggan um að svipta nemendafélög styrkjum og beita refsingum – hljómar allt mjög yfirvegað og fræðilegt. Samkvæmt þessum hugmyndafræðilegu prinsippum ætti þessi hópur jafnframt að spyrja þá sem þeir hyggjast sækja þjónustu hjá í framtíðinni hvort að þeir hafi einhvern tímann stigið álíka skref og ofangreind ungmenni og refsa þeim þá með því að sniðganga þá – gangi þeim þá vel ef að þau skyldu veikjast.
Það fyndna er að krafan um fræðilega umfjöllun og gagnrýna hugsun kemur einmitt frá þeim hluta Háskólans sem oft á tíðum gerir ekki greinarmun á milli fræðilegrar umfjöllunar og lífs- eða stjórnmálaskoðunar – þ.e. frá guðfræðideild og kynjafræðinni... en í báðum deildum má finna fjölmörg dæmi þar sem kennarar hafa gerst sekir um ófræðilega umfjöllun og hreinlega má efast um grundvöll þess að kalla stóran hluta námsins fræðigrein þar sem útgangspunktur allra hluta er sá sami (t.d. hvernig gvuð eða kyn hefur áhrif á verðurfar).

Það eina sem er fyndnara í hugum fólks en pólitísk ranghugsun er öfgakennd pólitísk rétthugsun. Í öfgakenndri pólitískri rétthugsun felst nefninlega að viðkomandi gerir sér enga grein fyrir húmor eða kaldhæðni, rétt eins og slíkt hafi verið fjarlægt með skurðaðgerð. Jafnframt trúir viðkomandi því að í hans hugmyndafræði búi einhverskonar siðferðilegir yfirburðir sem rétt sé að þröngva upp á, í þessu tilviki háskólasamfélagið, sem muni svo leiða til þess að skrílinn beygji sig og hneigi eftir vilja elítunnar – lítill er skilningur þessara aðila á mannkynssögunni.

Man hands on misery to man.
It deepens like a coastal shelf.
Get out as early as you can,
And don't have any kids yourself

-Philip Larkin, This be the verse

Niðurstaða: Hættum þessari ógeðslega leiðinlegu forsjárhyggju yfir fullorðnu fólki!

Höf. er stjórnmálafræðingur með kennsluréttindi og er að klára MA- ritgerð í alþjóðasamskiptum og hefur samtals um 10 ára reynslu af tveimur íslenskum háskólum.
Höf. skammast sín ekki rassgat fyrir að geta sagt já við öllum fjórum ofangreindu spurningunum.


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, mars 26, 2010

Ég þori, get og vil (sama hverjar afleiðingarnar verða)

Those who would give up essential liberty to purchase a little temporary safety deserves neither liberty nor safety.

Það er einhver ógurlega skemmtileg og barnaleg heimska í loftinu. Heimska sem snýr að því að helstu vandamál Íslands séu átök kynjaheima (til að smyrja þetta við heimsku Huntington) og barnaskapur að því leyti að margir þeir sem nú umgangast völd í fyrsta skiptið hegða sér eins og unglingar á sínu fyrsta fylleríi – en veit þetta fólk ekki að fyrsti sopinn getur leitt það út í vændi? (Hvar er kaldhæðnistakkinn?).

Almennt má segja að afleiðingar kreppu séu að margir af viðbjóðslegustu hlutum og hugmyndum mannskepnunnar fari að grassera. Spilling innan stjórnsýslunnar eykst, fólk leitar til gvuðs með allan fjandann, þjóðernishyggja eykst semog útlendingahatur, fólk fer að drekka meira, heimilisofbeldi eykst og staða kvenna versnar. Við Íslendingar sem vorum svo sérstök að um okkar efnahagsmál giltu sérstök lögmál ætlum hins vegar að koma okkur útúr kreppunni með öfgafullum feminisma (sem að hlýtur að teljast einsdæmi). Frá freyðvínsleppjandi frjálshyggjuöpum til forræðishyggju feminista – Saga Íslands frá 1990-2010.

Á meðan landsmönnum og fyrirtækjum blæðir út, á meðan Icesave er óleyst og Evrópuferðin á hraða snigilsins, á meðan ekki hefur verið gripið til róttæks niðurskurðar í landbúnaði né með aðskilnaði ríkis og kirkju, þegar þúsundir eru atvinnulausir og peningamálastefnan er í lausu lofti þá er svar þessarar hörmulegu ríkisstjórnar og Alþingis að fara að dúlla sér í einhverju ópraktísku kynjablaðri.

Blaðamaðurinn og feministinn Julie Bindel ritar um þetta eina verstu staðreyndarvillugrein sem skrifuð hefur verið í The Guardian (en hún telur m.a. að bann á strippstöðum sé mögulega tilkomið vegna kynhneigðar forsætisráðherra). Þessari grein sveifla íslenskir feministar með erótískum hætti framan í fólk á alnetinu að hætti glenntra dansmeyja. Sjarminn minnkar hins vegar ögn þegar Bindel fullyrðir að Ísland sé fyrsta landið sem gangi þennan veg sökum feminisma en ekki vegna öfgatrúar. Að öðru leyti er þetta rosalega vond áróðursgrein þar sem því er meðal annars haldið fram að Ísland sé á mörkum þess að loka kynlífsiðnaðnum hérlendis og að þjóðin hafi sameinast um hugmyndafræðina (ekki man ég til þess að hún hafi sérstaklega verið spurð að því).

Samt eru það ekki eingöngu forgangsmál sem mæla gegn þessum lögum. Fólk festist strax í leiðinlegri rökræðu um það hvort að það sé með eða á móti strippbúllum, sem snýst fljótlega upp í hugmyndafræðilegan leik þar sem annar leikur Hannes Hólmstein (og dásamar einstaklingsfrelsið) en mótaðilinn bregður sér í líki Sóleyjar Tómasdóttur (og dásamar kvenfrelsi og jafnrétti).

Fáir virðast hins vegar fara í hlutlausan gír og spyrja hverjar afleiðingarnar kunni að verða? Enginn virðist spyrja sig að því hvað verður um þær konur sem störfuðu við að dansa? Samkvæmt grein Bindel (sem ég reyndar efast um þar sem nánast engin af hennar fullyrðingum virðist standast) að þá mæta hingað um 100 konur árlega. Hefur Alþingi boðið einhverjum af þessum konum að hefja hér nýtt og betra líf eða er það úr þeirra verkahring þegar að flugvélin hefur sig á loft og flýgur með þessar konur sem (samkvæmt fréttum) margar hverjar eru frá A-Evrópu í miklu mun verri aðstæður... eða halda þingmenn að þær fái allar starf við það að búa til jafnréttis- eða umhverfisáætlanir í heimalandinu?

Hvað með þær sem eftir verða, verður eftirlit hert eða trúa þingmenn því raunverulega að bann samkvæmt lögum verði til þess að allt blessist? Er ekki miklu mun líklegra að það sama gerist og þegar bjór var bannaður, að menn fari yfir í sterkari drykki (leiti þá í eitthvað annað svipað, í stað þess að gera eitthvað nytsamlegt)? Nú ef að flugufótur er fyrir þeim óstuddu fullyrðingum að á þessum stöðum hafi grasserað vændi, þá má gera ráð fyrir því að það haldi áfram neðanjarðar (það er engin klisja heldur mjög líklegur möguleiki) og hverjir eru það þá aðrir en verstu níðingarnir sem brjóta lögin og er þá ekki allt eins líklegt að vegna þess að erfiðara verður að hafa eftirlit að þá færist aukin harka í spilið? Er þetta í rauninni ekki táknrænn sigur á blaði, en valdi stórskaða í raunveruleikanum? Að staða þessara kvenna versni og það á kostnað skattborgara.

Sagan er uppfull af boðum og bönnum misgáfulegra stjórnmálamanna sem vilja samkvæmt einhverri stórkostlegri yfirburða siðferðiskennd hafa vitið fyrir öðru fullorðnu fólki. Oft virðist hafa verið rennt blint í sjóinn og því ekki velt upp hvort að bannið sé betra en að leyfa það. Hvers vegna skyldi það vera að aðrar vestrænar þjóðir hafi ákveðið að leyfa strippstaði? Ætli það sé vegna þess að bandarísk og evrópsk stjórnvöld séu svo miklir perrar? Í einhverjum tilfellum kann svarið að vera já að hluta, en ætli það hafi ekki spilað mest inní að bannið var verra en leyfið. Hringir það í alvörunni engum viðvörunarbjöllum þegar það er fullyrt að Ísland sé fyrsta landið sem stígur þessi skref vegna feminisma en ekki vegna öfgatrúar?

Að lokum má snúa út úr orðum Benjamin Franklin og segja að þeir sem eru tilbúnir til að fórna frelsi einstaklingsins fyrir skammgóða foræðishyggju eiga hvorki skilið frelsið sjálft né réttinn til að taka ákvarðanir (hvort sem er fyrir sjálfa sig eða aðra).

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 04, 2010

Framkvæmdu vel, fláa ríkisstjórn ellegar Fuck Off!

Það er rétt að óska konum (og þeim körlum sem tóku þátt) til hamingju með það skref sem stigið var í dag, þann 4. mars þegar Alþingi samþykkti lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.(1) Konur eru jafnt og þétt að stíga þau skref sem þarf til að jafna hlut kynjanna á hinum ýmsu stöðum, hvort sem er í viðskiptalífnu eða í stjórnmálum (þó að vissulega megi taka undir að það ferli mætti ganga hraðar fyrir sig, sama hvaða skoðun konur og karlar hafa á kynjakvóta). Þessi tímasetning er hins vegar handónýt hvort sem menn eru sammála henni eða ekki.

Fyrir rétt rúmum 100 árum var staða tveggja hópa mjög lík, kvenna sem börðust fyrir kosningarétti og þeirra sem vildu aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrstu fjóru konurnar voru kjörnar í bæjarstjórn Reykjarvíkur árið 1908 (með þartilgerðum óþægindum fyrir íbúa og fyrirtæki í Túnahverfi rúmum 100 árum síðar).
Ári seinna þann 26.mars 1909 samþykktu dugmiklir Alþingismenn neðrideildar (með vott af gagnrýnni hugsun) þingsályktunartillögu þess efnis að skorað væri á landsstjórnina að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um aðskilnað ríkis og kirkju.(2)

Margt hefur breyst frá því að Ísland var eitt fátækasta ríki Evrópu í byrjun 20.aldar, til þess að verða eitt það allra ríkasta í heiminum í lok og byrjun þessarar aldar, til þess eins að verða aftur í stöðu meðal þeirra verst settu í Evrópu í augnablikinu. Að sama skapi hefur barátta kvenna farið í gegnum marga sviptivinda síðastliðna öld en staðan er þó gjörbreytt – en enn lifir aðskilnaðarmálið í sama farvegi og sömu rökin gilda nú og þá.

Í nefndaráliti viðkomandi neðri deildar árið 1909 kom fram að óeðlilegt fyrirkomulag fælist í þjóðkirkjunni ,, jafn gagnstætt eðli kirkjunnar eins og eðli ríkisins” og að ,,andlega lífið í þjóðkirkjunni sé mjög dauft og trúaráhuginn hjá meðlimum hennar yfirleitt sljór”. Rök fyrsta flutningsmanns þingmálsins eru einnig áhugaverð fyrir nútímann en þau eru í hnotskurn að a) það væri óréttlátt að einstaklingar utan þjóðkirkjunnar þyrftu eigi að síður að greiða til jafns við meðlimi hennar b) að fáar hræður mættu til messu og kirkjan því orðin gagnslaus og c) að prestarnir séu orðnir steingervingar.
Andstæðingar tillögunnar höfðu að sjálfsögðu allt á hornum sér og töldu að með aðskilnaði yrði fólk afvegaleitt (þvílík kaldhæðni í ljósi sögunnar).(3)

Þáverandi ráðherra Íslands Björn Jónsson (faðir Sveins Björnssonar fyrsta forseta lýðveldisins) lýsti yfir stuðningi við að málið yrði tekið fyrir í milliþingnefnd en að niðurstaðan yrði sú að málið yrði látið í almenna atkvæðagreiðslu þar sem vilji þjóðarinnar kæmi fram (en málið var þá talið hafa fylgi töluverðs meirihluta þjóðarinnar). En enn bíðum við hér árið 2010, þrátt fyrir að meirihluti Íslendinga hafi stutt og styðji ennþá aðskilnað samkvæmt könnunum Capacent Gallup frá árunum 1994 til lok ársins 2009, en nýjasta könnunin sýndi að 74% landsmanna væru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju.(4)

Núverandi stjórnarflokkar héldu síðasta vor landsþing sem reyndust nokkuð frjálslynd þegar kom að trúmálum - VG ályktuðu að stefna skyldi að aðskilnaði ríkis og kirkju. Það var því eitthvað gubbulegt fyrir undirritaðan, sem mætti sem frjálslyndur trúlaus evrópusinni á Landsfund Samfylkingarinnar, að þurfa að horfa upp á það hve barátta þeirra sem berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju annars vegar og kvenréttindum hins vegar hefur farið sitthvorn veginn. Á sama tíma og Samfylkingin var að kjósa sér formann sem svo varð fyrsti kjörni kvenkyns forsætisráðherrann og það samkynhneigður, í ríkisstjórn með jafnt kynjahlutfall (allt saman frábært) að þá var tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju vísað til framkvæmdarstjórnar vegna þess að málið væri of skammt komið í umræðunni til að greiða um það atkvæði(5) - 100 ára umræða einungis til þess að málið fengi að koðna niður í framkvæmdarstjórn.

Á laugardaginn kemur fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla ef fram fer sem horfir. Ein af kröfum samfélagsins eftir efnahgshrun var krafan um beint lýðræði. Í aðskilnaði ríkis og kirkju felst tvenns konar tækifæri fyrir ríkisstjórnina, annars vegar að taka mark á kröfum þjóðarinnar og afleiðingarnar yrðu milljarða sparnaður fyrir ríkissjóð. Í könnun frá árinu 2007 kom einnig fram að 62% kjósenda stjórnarflokkanna tveggja vilja aðskilnaðinn og hefur sú tala eflaust hækkað eftir síðustu könnun – hún gæti því aukið vinsældir sínar sem síst er vanþörf á.

Hafi Alþingi tíma til að standa í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave (lög sem að allir vita að eru markleysa á þessum tímapunkti) og að samþykkja lög um kynjakvóta, þá hefur Alþingi og einkum Samfylkingin tíma á þessu kjörtímabili til að hysja upp um sig buxurnar í þessu máli. Ég lýk þessu með sömu orðum og í þingsályktunartillögu frá árinu 1909 um að ég ,,... skori á landsstjórnina að undirbúa og leggja fyrir alþingi frumvarp til laga um aðskilnað ríkis og kirkju”(6) sem svo fari í þjóðaratvkæðagreiðslu, jafnvel þó að hún fari fram 101 ári eftir upphaflega áætlun.

Með ástarkveðju jafnt til trúaðra sem trúlausra og megi vísindin vera með ykkur, Bjarni Þór Pétursson.

PS. Pistillinn er byggður á öðrum eldri.

1.http://www.visir.is/article/20100304/FRETTIR01/744103429
2. Alþingistíðindi BII 1909.
3. Alþingistíðindi BII 1909.
4. http://www.capacent.is/Frettir-og-frodleikur/Thjodarpulsinn/Thjodarpulsinn/2009/12/04/Adskilnadur-rikis-og-kirkju/
5. http://sidmennt.is/2009/03/31/a%C3%B0-loknum-landsfundum-2009/
6. Alþingistíðindi BII 1909.

Efnisorð: ,