Í maí fyrir ári síðan skrifaði ég lítinn pistill undir heitinu ,,
Hið hálftóma glas" en þar fór ég yfir stöðu mála hjá Liverpool í andrúmslofti þar sem aðdáendur liðsins voru þegar farnir að fagna titlinum árið 2010. Nú ári síðar er ljóst að það var engin innistæða fyrir nokkru titla tali, en í staðinn hafa aðdáendur Liverpool sjaldan verið eins neikvæðir...
en er þetta svona slæmt?Fyrst ætla ég að meta ástandið og svo ætla ég að koma með nokkur atriði sem ég spái fyrir komandi tímabili hjá Liverpool.
Liverpool endaði þetta tímabil í 7.sæti, titlalaust og 23 stigum á eftir toppliðinu. Aðeins fjórum sinnum hefur liðið fengi færri stig frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð og aðeins einu sinni hefur liðið endað neðar í töflunni. Það klikkaði nánast allt sem klikkað gat, það hefur verið farið yfir það margoft.
Eftir stendur félag sem lítur einhvern veginn svona út. Liverpool er stórveldi, án þjálfara í augnablikinu sem var að koma út úr einu sínu versta tímabili sögunnar miðað við væntingar. Eigendur liðsins eru búnir að demba liðinu í skuldir og vilja selja það fyrir pening sem fáir virðast tilbúnir að kaupa það fyrir. Í leikmannahópnum hefur ríkt upplausn frá því fyrir jól, þegar ljóst var að ekkert yrði úr tímabilinu. Það fer tvennum sögum af því hverjir vilja fara og hverjir vilji vera áfram - það ræðst sennilega eftir HM. Fyrir neðan aðalliðið eru tvö lið sem yfirleitt spila stórt hlutverk í framtíðinni: varaliðið og ungmennaliðið. Það er ekki að fullu ljóst hverjir koma og fara af þjálfarateyminu, en varaliðið er ólíklegt til að ýta upp stórstjörnum á þessum tímapunkti og þjálfari ungmennaliðsins taldi eftir tímabilið að staða þess væri svo slæm að sennilega væru 2-3 ár áður en að einhver þeirra ætti möguleika í aðalliðið. Ekkert sérstaklega bjart yfir eða hvað?
Menn geta grátið í koddann og bölvað þessu öllu saman en ég ætla að setja hér niður nokkra punkta um það hvað ég held að muni betur fara á komandi tímabili en á því síðasta.
1. Liverpool mun enda ofar í deildinni og með fleiri stigAð því gefnu að eigendurnir selji ekki alla bestu leikmenn liðsins og stingi peningunum í vasann að þá spái ég því að næsti þjálfari geri betur en Rafa. Hvort sem að nýr þjálfari fær einungis að halda í sama hópinn eða að nota peningana sem fást fyrir sölur að þá mun Liverpool ná betri árangri í deildinni og jafnvel í bikar líka.
2. Liverpool mun spila skemmtilegri knattspyrnu Hver svo sem tekur við liðinu mun láta liðið spila skemmtilegri knattspyrnu en Rafa gerði á sínum sex árum, sem var mjög leiðinleg (fyrir utan þrjá mánuði vorið 2009). Við munum sjá líflegri og glaðari Liverpool leikmenn, meiri sóknarknattspyrnu og fleiri lausnir gegn litlu liðunum. Við munum sjá fjölhæfari sóknarleik og liðið mun sækja á fleiri mönnum. Bakverðirnir munu nýtast betur, Liverpool hættir að spila með tvo afturliggjandi miðjumenn og mögulega spila með tvo sóknarmenn í framlínunni gegn minni liðum á heimavelli. Vonandi lætur Kuyt sig hverfa og Liverpool fær sóknarsinnaðan hægri kantmann... og hver veit, mögulega springur Babel loksins út. Carragher mun ekki fá að hreinsa boltann jafn oft og tilgangslaust upp völlinn.
3. Fleiri tækifæri og tilraunirNýr þjalfari kemur með nýjar áherslur og mögulega nýja leikmenn. Við munum sjá breyttar áherslur og fleiri tilraunir - ekki eins mikla róbótaknattspyrnu. Áherslan verður á Liverpool og hvaða lausnir það ætlar að færa fram í sóknarleik, með minni áherslu á andstæðinginn. Fleiri ungir strákar munu fá tækifæri og það mun vonandi leiða aftur til þess módels sem hefur virkað best, þ.e. blöndu af uppöldum leikmönnum og dýrum hágæðaleikmönnum.
4. Skemmtilegri þjálfara
Þegar nýr þjálfari tekur við og stendur brosandi með treyju eða trefil á Anfield að þá mun hann hafa sýnt meiri persónutöfra en síðasti þjálfari. Ef að hann sýnir tilfinningar þegar að Liverpool skorar fyrsta markið í deildinni að þá mun kop stúkan sennilega klofna.
5. Aðdáendur liðsins verða skemmtilegri Aðdáendur Liverpool eru búnir að vera daufir og pirraðir frá því síðasta haust. Það er búið að kljúfa klúbbinn þeirra í pólitík eigenda gegn þjálfara (sem hefur snúið þeim um fingur sér). Um leið og Liverpool liðið mætir ferskt til leiks með nýjum þjálfara og fer að vinna leiki byggðan á skemmtilegum sóknarbolta að þá munu þeir taka aftur við sér - sérstaklega nú (í fyrsta skiptið í 20 ár sem þeir spá ekki sjálfum sér titlinum).
6. Eigendamál í betri farvegi Hvort sem að það gerist núna í sumar eða næsta vor að þá finnst manni nokkuð ljóst að liðið mun fá nýja og mögulega betri eigendur, sem setja meiri peninga í leikmannakaup og fara að byggja nýjan völl. Ef að fjögur ofangreind atriði fara vel að þá mun klúbburinn á endanum lenda í betri höndum.
Leikmannahópurinn og framhaldið - Ef, Ef, Ef Ef að fyrsta atriðið heldur þ.e. að eigendur liðsins selji ekki sína bestu leikmenn og stingi peningunum í vasann að þá lítur þetta ekki svo illa út.
A) EF að lykilleikmenn ákveða að gefa nýjum stjóra séns að þá er ljóst að það er sterkur kjarni í Reina, Agger, Johnson, Mascherano, Gerrard og Torres (jafnvel Carragher). Nýr stjóri á alltaf sína leikmenn sem hann getur gabbað í nýtt félag og það má finna nokkra leikmenn hjá Liverpool sem seljast fyrir ágætis pening til að fylla upp í skörðin eftir því hvaða áherslur verða(leikmenn á borð við Skrtel, Riera, Aquilani, Lucas, Benayoun, Babel og Kuyt).
B) EF að lykilmenn vilja fara að þá er Liverpool í fínni samningsstöðu varðandi samningamál þeirra. Þeir þrír sem helst eru nefndir eru Mascherano sem fer væntanlega á ca. 25 milljónir punda, Gerrard á eitthvað svipað og svo Torres sem gæti farið á 50+ milljónir.
100+ milljónir punda er fínn peningur til að byggja upp lið, lið sem þá þegar hefði heimsklassa markmann, fína miðverði, góðan hægri bakvörð og allskyns ágæta menn inn á milli (en reyndar enga sókn). Styrkurinn myndi þá líka liggja í því að sennilega væru það Inter, Real og Barca sem myndu berjast um þessa menn og þar má finna fullt af mönnum til að taka í staðinn. Fáum dæmi:
Hjá Madrid: Benzema, Lassana Diarra, Van der Vaart og Marcelo (ætli Liverpool gæti ekki fengið þessa fjóra fyrir Gerrard og Mascherano, miðað við núverandi stjórn hjá Real?)
Hjá Barca: Zlatan, Bojan, Yaya Toure, jafnvel Abidal (Liverpool myndi sennilega fá Zlatan + 1-2).
100 milljónir í pening: Búi nú hver til sitt dæmi.
Niðurstaða: Hættið þessu væli þar til að tímabilið byrjar og við vitum hvernig þetta lítur út.
Er lífið ekki dásamlegt?
Efnisorð: Enski boltinn