Stjórnlagahefðir
Klæðnaður: Mikilvægt er að leita í ræturnar og velja þann háklassíska stjórnarskrárklæðnað sem viðgekkst á 18. og 19.öld þegar margir af bestu samfélagssáttmálum samtímans voru ritaðir. Háhælaðir skór og hnésokkar eru skyldueign fyrir hvern karlkyns þingmann, sem jafnframt skulu klæðast svo þröngum silkibuxum að greina megi að ekki sé um konu í dulargervi að ræða. Skyrtur skulu vera með pífum og einungis skal óhneppt ein tala að ofanverðu svo að sjáist í litskrúða silkiklút þann sem nefnd um klæðnað á stjórnlagaþingi mun úthluta. Að lokum skal hver þingmaður útvega sér síðum silkifrakka sem þó skal tóna við skyrtu og klút án þess að vera svartur. Mynd til útskýringar.
Útlistun á samsetningu: Silkibuxur skal girða ofan í sokka að neðanverðu svo að nemi við efri mörk hnéskelja. Að ofan skal skyrta girt ofan í buxur svo nemi við efri mörk nafla. Skór skulu ætíð vera reimdir.
Brjóti einhver maður þessi lög skal hann þegar í stað vera settur í hóp hinna 10 kvenna sem þingið sækja og hljóta atkvæðavægi eftir því. Skal nefnd um siðgæði jafnframt sjá til þess að útvega þá flík sem upp á vantar og girða manntötrið upp á brjóstkassa.
Klæðnaður konur: Í ljósi bágrar valdastöðu kvenna á þeim tíma er fyrirmyndar skrár voru ritaðar er mælt með hefðakvennafatnaði fyrir dömurnar og skulu þær jafnframt hafa meðfæris postulínstell og orðabók um íslenskt veðurfar (en hvorttveggja mun reynast notadrjúgt á meðan þinghaldi er frestað, hvort sem er vegna ölvunar eða bænahalds).
Hártísku skal framfylgt sem hér segir:
1. Grannir ungir taðskegglingar skulu safna tagli.
2. Eldri menn sem teknir eru að grána skulu krulla hár sitt.
3. Hálf sköllóttir menn skulu safna síðum, löngum og breiðum börtum.
Mönnum er frjálst að safna skeggi, en snyrtimennsku skal þó gætt í hvívetna.
Konur skulu temja hár sitt í snúð og hylja það með stórum skreyttum hatti svo að vinnufriður skapist á þinginu.
Tungumál og andinn: Sé klæðnaður mikilvægur er lífsnauðsynlegt fyrir stjórnlagaþingmenn að ná fram rétta andanum. Mælt er með að hver þingmaður lesi í það minnsta þrjár ljóðabækur frá 19.öld af sömu hámenntuðu karlmannlegu yfirveguninni og Þorvaldur Gylfason sést gera á myndinni hér. Hverjum manni er gjört að hafa grunnþekkingu á ritmáli og fréttum þess tíma sem nýtast mun til að upphefja þá orðræðu sem svo merk samkoma verður að viðhafa. Sömuleiðis skulu menn hafa kynnt sér flunkuný og framandi erlend fræðirit þeirrar aldar er margar stjórnarskrár voru ritaðar á, svosem bókina Uppruni tegundanna og verk Karl Marx.
Líkamsbeiting: Þingmenn skulu mæla standandi, teinréttir, með hægri hluta líkamans fram á við. Þingkonur skulu bera fram erindi sín á blaði sem karlkyns túlkur mun svo bera upp með breyttum áherslum eftir yfirlestur.
Myndataka: Máluð skal mynd af hverjum og einum þingmanni. Skal nefnd um málverk fyrir stjórnlagaþing hafa samráð við nefnd um málverk fyrir ríkissjóð og er skylda þeirra að viðhafa þær hefðir sem skapast hafa um myndræna framsetningu á stjórnarskrárgerðarmönnum fortíðar. Með tilvísun í þá fortíð skulu allar konur á stjórnlagaþingi bera skegg á sínum myndum.
Að viðhalda óbreyttu ástandi: Sé farið að þessum grundvallarlögum um hefðir við gerð samfélagssáttmála má fastlega gera ráð fyrir því að stjórnvöld og aðrir valdhafar í íslensku samfélagi nái fram markmiðum sínum um að engar breytingar verði gerðar á núverandi stjórnarskrá. Komi upp það byltingarkennda ástand að vilji stjórnlagaþingmanna sé að kollvarpa neðangreindum atriðum í okkar ástkæru stjórnarskrá þá skal þingi þegar slitið.
Atriðin eru sem hér segir:
1. Mikilvægt er að viðhaft sé óljóst orðalag um stjórnskipan og valddrefingu.
2. Að þriðjungur stjórnarskrárinnar fjalli um forsetaembættið með þartilgerðum möguleika á mistúlkunum á valdsviði hans.
3. Að kjördæmaskipan verði áfram óréttlát.
4. Að ráðningar á dómumurum haldi áfram að valda fjaðrafoki .
5. Að sérstaða þeirra sem eiga sér ósýnilegan vin sé tryggð en einungis ef að sonur þessa ósýnilega vinar var af ólíklegri frásögn ljóshærður palestínumaður með blá augu. Skulu aðrir óverðugir og skítugir landsmenn halda uppi stofnun þessari (sem þjónar tilgangi sínum sem sendiráð drottins) með veglegum sköttum.
Umsvifalaust skal víkja öllum þeim konum af þinginu sem ekki haga sér í samræmi við fyrri hefðir hins einsleita hóps karlmanna sem hingað til hafa skrifað frábærar óskeikular stjórnarskrár. Ósamvinnuþýðum karlkyns þingmönnum skal eitra fyrir við drykkju og ljósmynda með portkonum þeim og frillum sem nefnd um portkonur og frillur á stjórnlagaþingi mun útvega.
Fleiri atriðum verður bætt við eftir hentugleika.
Er lífið ekki dásamlegt?