miðvikudagur, desember 01, 2010

Stjórnlagahefðir

Senn líður að stjórnlagaþingi og rétt að rifja upp þær hefðir sem lífanauðsynlegt er að viðhafa þegar slíkur samfélagssáttmáli er ritaður. Margur gæti haldið að orðskrípi líkt og skynsemi, réttlæti, sanngirni, nákvæmt orðalag og gagnrýnin hugsun væru nýtileg en hið rétta er að andrúmsloftið, umgjörðin, hefðirnar og háfleygt orðalag trompa hin framangreindu.

Klæðnaður: Mikilvægt er að leita í ræturnar og velja þann háklassíska stjórnarskrárklæðnað sem viðgekkst á 18. og 19.öld þegar margir af bestu samfélagssáttmálum samtímans voru ritaðir. Háhælaðir skór og hnésokkar eru skyldueign fyrir hvern karlkyns þingmann, sem jafnframt skulu klæðast svo þröngum silkibuxum að greina megi að ekki sé um konu í dulargervi að ræða. Skyrtur skulu vera með pífum og einungis skal óhneppt ein tala að ofanverðu svo að sjáist í litskrúða silkiklút þann sem nefnd um klæðnað á stjórnlagaþingi mun úthluta. Að lokum skal hver þingmaður útvega sér síðum silkifrakka sem þó skal tóna við skyrtu og klút án þess að vera svartur. Mynd til útskýringar.

Útlistun á samsetningu: Silkibuxur skal girða ofan í sokka að neðanverðu svo að nemi við efri mörk hnéskelja. Að ofan skal skyrta girt ofan í buxur svo nemi við efri mörk nafla. Skór skulu ætíð vera reimdir.

Brjóti einhver maður þessi lög skal hann þegar í stað vera settur í hóp hinna 10 kvenna sem þingið sækja og hljóta atkvæðavægi eftir því. Skal nefnd um siðgæði jafnframt sjá til þess að útvega þá flík sem upp á vantar og girða manntötrið upp á brjóstkassa.

Klæðnaður konur: Í ljósi bágrar valdastöðu kvenna á þeim tíma er fyrirmyndar skrár voru ritaðar er mælt með hefðakvennafatnaði fyrir dömurnar og skulu þær jafnframt hafa meðfæris postulínstell og orðabók um íslenskt veðurfar (en hvorttveggja mun reynast notadrjúgt á meðan þinghaldi er frestað, hvort sem er vegna ölvunar eða bænahalds).

Hártísku skal framfylgt sem hér segir:
1. Grannir ungir taðskegglingar skulu safna tagli.
2. Eldri menn sem teknir eru að grána skulu krulla hár sitt.
3. Hálf sköllóttir menn skulu safna síðum, löngum og breiðum börtum.

Mönnum er frjálst að safna skeggi, en snyrtimennsku skal þó gætt í hvívetna.

Konur skulu temja hár sitt í snúð og hylja það með stórum skreyttum hatti svo að vinnufriður skapist á þinginu.

Tungumál og andinn: Sé klæðnaður mikilvægur er lífsnauðsynlegt fyrir stjórnlagaþingmenn að ná fram rétta andanum. Mælt er með að hver þingmaður lesi í það minnsta þrjár ljóðabækur frá 19.öld af sömu hámenntuðu karlmannlegu yfirveguninni og Þorvaldur Gylfason sést gera á myndinni hér. Hverjum manni er gjört að hafa grunnþekkingu á ritmáli og fréttum þess tíma sem nýtast mun til að upphefja þá orðræðu sem svo merk samkoma verður að viðhafa. Sömuleiðis skulu menn hafa kynnt sér flunkuný og framandi erlend fræðirit þeirrar aldar er margar stjórnarskrár voru ritaðar á, svosem bókina Uppruni tegundanna og verk Karl Marx.

Líkamsbeiting: Þingmenn skulu mæla standandi, teinréttir, með hægri hluta líkamans fram á við. Þingkonur skulu bera fram erindi sín á blaði sem karlkyns túlkur mun svo bera upp með breyttum áherslum eftir yfirlestur.

Myndataka: Máluð skal mynd af hverjum og einum þingmanni. Skal nefnd um málverk fyrir stjórnlagaþing hafa samráð við nefnd um málverk fyrir ríkissjóð og er skylda þeirra að viðhafa þær hefðir sem skapast hafa um myndræna framsetningu á stjórnarskrárgerðarmönnum fortíðar. Með tilvísun í þá fortíð skulu allar konur á stjórnlagaþingi bera skegg á sínum myndum.

Að viðhalda óbreyttu ástandi: Sé farið að þessum grundvallarlögum um hefðir við gerð samfélagssáttmála má fastlega gera ráð fyrir því að stjórnvöld og aðrir valdhafar í íslensku samfélagi nái fram markmiðum sínum um að engar breytingar verði gerðar á núverandi stjórnarskrá. Komi upp það byltingarkennda ástand að vilji stjórnlagaþingmanna sé að kollvarpa neðangreindum atriðum í okkar ástkæru stjórnarskrá þá skal þingi þegar slitið.

Atriðin eru sem hér segir:


1. Mikilvægt er að viðhaft sé óljóst orðalag um stjórnskipan og valddrefingu.
2. Að þriðjungur stjórnarskrárinnar fjalli um forsetaembættið með þartilgerðum möguleika á mistúlkunum á valdsviði hans.
3. Að kjördæmaskipan verði áfram óréttlát.
4. Að ráðningar á dómumurum haldi áfram að valda fjaðrafoki .
5. Að sérstaða þeirra sem eiga sér ósýnilegan vin sé tryggð en einungis ef að sonur þessa ósýnilega vinar var af ólíklegri frásögn ljóshærður palestínumaður með blá augu. Skulu aðrir óverðugir og skítugir landsmenn halda uppi stofnun þessari (sem þjónar tilgangi sínum sem sendiráð drottins) með veglegum sköttum.

Umsvifalaust skal víkja öllum þeim konum af þinginu sem ekki haga sér í samræmi við fyrri hefðir hins einsleita hóps karlmanna sem hingað til hafa skrifað frábærar óskeikular stjórnarskrár. Ósamvinnuþýðum karlkyns þingmönnum skal eitra fyrir við drykkju og ljósmynda með portkonum þeim og frillum sem nefnd um portkonur og frillur á stjórnlagaþingi mun útvega.

Fleiri atriðum verður bætt við eftir hentugleika.

Er lífið ekki dásamlegt?

laugardagur, nóvember 27, 2010

Allir á kjörstað

Í dag er stór dagur í sögu íslenska lýðveldisins, dagur sem síðar meiri gæti orðið minnst sem upphafsdags nútíma lýðræðis á Íslandi, en þá þarf vel að takast til. Við þurfum ekki einungis að velta fyrir okkur hvaða einstaklingar eru best til þess fallnir að vera hluti af 25 manna hópnum, heldur að mæta á kjörstað til að sýna að stjórnlagaþingið hafi lögmæti - hafi almenning í landinu á bakvið sig.

Séum við á þeirri bjartsýnu skoðun að það sé hægt að breyta íslensku samfélagi til hins betra (sama hvaða leið við teljum besta að því markmiði) að þá gefst fyrsta tækifærið í ansi langan tíma í dag. Það er nóg að kjósa einn frambjóðanda en heppilegast að fylla út allan seðilinn. Þeir sem ekki mæta á kjörstað og ætla að sitja heima í hinu séríslenska nútíma andrúmslofti neikvæðninnar skulu að sama skapi ekki voga sér í náinni framtíð að kvarta yfir þjóðfélagsmálum.

Við getum haft mismunandi skoðun á frambjóðendum og hvort að stjórnarskráin eigi að vera stutt eða ítarleg. Enginn ætti hins vegar að láta blekkjast af orðum lögfræðielítunnar um að íslenska stjórnarskráin sé góð, hún hefur hag af óbreyttu ástandi. Megi segja eitthvað um þessa stjórnarskrá þá eru hún í besta falli ruglingsleg, ekki í samræmi við nútímann og til þess fallinn að kljúfa þjóðina fremur en að sameina.

Strax í annarri grein í fyrsta kafla stjórnarskrárinnar kemur upp atriði sem enginn sátt hefur verið um hvernig skuli túlka síðustu áratugina. Samt er þetta sú grein sem fyrst aðgreinir hver(jir) skulu fara með valdið.
Beint á eftir þessari annarri grein í fyrsta kafla hefst annar kafli alls í 28. greinum (rúmlega þriðjungur stjórnarskrárinnar) um forsetaembættið sem engin sátt ríkir um hvort að:
A)Embættið eigi rétt á sér
B) Ef að það á rétt á sér hvað á að felast í því og...
C) Hvert valdsviðið er (sem hefur verið túlkunaratriði í lengri tíma).
Í þriðja kafla eru fjórar greinar. Sú sem skiptir mestu máli (31.gr) er gjörsamlega galin. Þar er kveðið á um sérstök kjördæmi, sem hygla landsbyggðinni, sem er rótin að flest öllum þeim óþverra sem almenningur hefur fengið yfir sig frá því um fyrri heimsstyrjöld. Öll fyrirgreiðslu pólitík, niðurgreiðslur, tollar og höft eiga rætur að rekja til þessa kjördæmakerfis. Ekki einungis er það óþverrinn heldur er kerfið beinlínis andlýðræðislegt, þar sem atkvæði eins manns gildir margfald á við annars vegna mismunandi búsetu á landinu - myndum við sætta okkur við að þetta viðgengis ef að atkvæðavægið snérist um kyn, kynþátt, trú eða annað slíkt?
Fjórði kafli er sennilega með þeim bærilegri, ekki vegna þess að hann sé svo góður, heldur vegna þess að þar er ekki að finna neitt stórt atriði sem gjörsamlega klýfur þjóðina.
Í fimmta kafla er fjallað um skipan og hegðun dómsvaldsins, kafli sem er greinilega ekki nógu skýr sé tekið mið af ráðningum síðasta áratuginn.
Í sjötta kafla er hin margfræga 62.grein um evengelísku lúthersku þjóðkirkjuna sem rúmlega 70% landsmanna eru á móti og rúmlega helmingur hefur verið á móti síðustu 15 ár. Í framhaldinu er 64. grein sem byggir einnig á misrétti gagnvart þeim sem standa utan trúfélaga.
Sjöundi kaflinn er sennilega sa besti, mannréttindakaflinn sem endurskoðaður var árið 1995 en má eflaust bæta orðalagið í einhverjum greinum, jafnvel bæta við greinum (það er smekksatriði).

Niðurstaða: Sjöundi kafli er góður (má samt alveg skoða og breyta orðalagi), fjórði kafli er sér beinlínis ekki til skammar en mætti vera skýrari. Hinir fimm kaflarnir innihalda allir atriði sem gríðarleg ósátt er um og varða grundvallarþætti í uppbyggingu samfélagssáttmála.

Þeim 25 manns sem falið verður þetta verðuga verkefni þarf að misheppnast allsvakalega ef að útkoman verður verri en sú sem fyrir er.


Er lífið ekki dásamlegt?

laugardagur, nóvember 06, 2010

Based on a true story

Á reykmettaðri efri hæð Grand Rokk, meðal barlóma, svolara og andlitslausra ógæfumanna blasti hún við þessi toppklippta snót í hvítri prjónapeysu. Hún sat í horninu í skugga hátalara ásamt vinkonu sinni og horfði á Megasukkið flytja tíðindi úr undirheimum með dramakómískum áherslum þriðja eyrans sem riðlaðist á verkfæri sínu berskjaldaður en þó einkum að ofan, svo að eyrnasneplar hennar blöktu í hljóðbylgjunum.

Hvað var hún að gera á þessum stað, fjarri ísfirskum heimkynnum sínum og því rúmfræðilega mengi sem slíkar stúlkur yfirgefa ekki svo glatt? Gat verið að hún væri mætt inn á þennan vígvöll til vísindalegs undirbúnings? Að hún væri mætt til að kanna viðfangsefnið, taka fyrsta skrefið í átt að því stórvirki að draga verðandi barnsföður sinn upp úr eymdinni og gefa honum trú á lífið? Hún brosti feimnislega er hún uppgötvaði að ég hafði nappað hana fylgjast með mér en sveif svo út í nóttina án allrar viðvörunar.

Ég sat áfram klístraður í stólnum eins og ég hafði gert svo mánuðum skipti. Megasukkið var farið að breytast í klið úr fjarlægð vegna fúkyrða flækingja og reykingja frillnanna sem lyktuðu eins og togari sem er nýkominn í höfn. Á næsta borði sátu tannlausar bölvandi byttur að leik á tættum dúk sem einhvern tímann hafði verið skákborð og á bakvið mig nudduðust ungir drengir sem pettuðu hvorn annan eins og þeir ættu lífið a leysa. Ég hélt að ég gæti ekki orðið hamingjusamari.

Síðar meir hittumst við á fallegu vorkvöldi, ung og skuldlaus. Eftir snarpar samningaviðræður að viðstöddum lögfræðingum varð niðurstaðan sú að ég yfirgaf ghettóið fyrir hana og hún guð fyrir mig. Síðan þá hef ég ekki litið til baka eða eins og eitt þekktasta íslenska skáld 20.aldarinnar orðar það ,,hamingjan er hér".

Er lífið ekki dásamlegt?

sunnudagur, október 24, 2010

Nokkrar spurningar til foreldra í kristnu trúaruppeldi

1. Hefur þú lesið Biblíuna?

2. Hverju af því sem stendur í Biblíunni trúir þú að sé satt? Er Biblían Guðs orð?

3. Trúir þú á Guð, og að hann sé almáttugur skapari himins og jarðar?

4. Trúir þú að Jesú hafi verið eingetinn? Að hann hafi gert kraftaverk? Að hann hafi risið aftur upp á þriðja degi? Trúir þú að Jesú hafi sagt allt það góða sem hann sagði í Biblíunni en að heimsendaboðskapurinn og mannvonska sem þar er haft eftir honum sé ekki rétt?

5. Trúir þú á söguna um Adam og Evu? Trúir þú á erfðasynd þeirra og að Jesú hafi dáið á krossinum fyrir hana?

6. Trúir þú að djöfullinn sé til?

7. Trúir þú á heilaga kirkju og samfélag heilagra? Trúir þú á eilíft líf? Trúir þú á að maðurinn rísi upp til samfélags við guð eftir dauðann?

8. Treystir þú prestum kirkjunnar eftir allt það sem undan er gengið, sem sverja ,,heilagan eið" um trúboð og hafa beina og háa fjárhagslega hagsmuni, til að fræða börnin þín á hlutlausan hátt um trú? Hvorn telur þú hæfari til að fræða börnin þín á hlutlausan hátt um trúarbrögð: Sagnfræðimenntaðan kennara eða ólíka og misfanatíska trúarleiðtoga?

9. Hvað er það sem þú hyggst ná fram með þessu kristna uppeldi sem þú getur ekki fundið í hlutlausum bókum um siðfræði eða hreinlega án þeirra?

10. Myndir þú vilja leyfa stjórnmálamönnum á borð við Ásmund Einar, Árna Johnsen og Vigdísi Hauksdóttur að ræða við börnin þín um sína stefnu í leik- og grunnskólum? Myndir þú festa merki stjórnmálaafls utan um hálsinn á barninu þínu?

11. Finnst þér í lagi að Múslimar, Vottar, Krossinn og aðrir trúarhópar tali sínu máli í leik- og grunnskólum landsins? Myndir þú bjóða þeim inn til þín að tala um trúmál á hlutlausan hátt?

12. Telur þú að prestar séu jafnhæfir og sálfræðingar til að takast á við þau vandamál sem koma upp í skólum?

13. Þarf ég í alvörunni að vera að spyrja fullorðið fólk að þessum spurningum?

Er lífið ekki furðulegt?

föstudagur, október 22, 2010

You gotta make way for the homo superior

,,Trúin á manninn, það er aumasta trú sem til er"
-Örn Bárður prestur í Neskirkju (er þetta maður sem við viljum hafa nálægt börnunum okkar?)

Við lifum á áhugaverðum en lítt eftirsóknarverðum tímum. Tímum þar sem einstaklingar rjáfa um í óvissu um framtíðina og eiga erfitt með að halda reisn. Á tímum þar sem raunveruleg hætta er á því að stofnanir riði til falls og að upplausn skapist, meðal annars vegna vantrausts og tortryggni sem til er komin vegna vanmáttugra stjórnvalda, spillingar og lýðskrums.

Á slíkum tímum er gott að hafa trú. Ekki þá trú sem neyðir þig niður á hnéin, lætur þig loka augunum og biðja - heldur trú á sjálfan sig og manneskjuna. Trú á fjölskyldu og vini sem standa við bakið á þér og á framtíðinni sem er í manns eigin hendi. Nátengt trúnni á sjálfan sig er sjálfstraust og á endanum stendur hver og fellur með því. Sama gildir um samfélagið; án traust milli manna og trúar á hvorn annan og framtíðina að þá verður stöðnun á framförum og breytingum.

Sá sem á von í brjósti getur tekið hina alíslensku hríð sem er ævinlega í fangið, stigið skrefið og barist fyrir betra þjóðfélagi. Það er engin vissa fyrir því að vel fari, en þá má leita annað þegar fullreynt er. Bleyðan á hnjánum sem lokar augunum í bæn til ímyndaða vinar síns má hins vegar í gagnsleysi sínu í besta falli vonast til að verða free rider þess áðurnefnda.

Á Íslandi hefur meginþorri manna trú á sjálfum sér, fólkinu í kringum sig og samfélaginu þrátt fyrir vondar fréttir daglega úr heimi stjórnmálanna. Á hverjum degi mætir fólk til vinnu með hugsjón sína um betra samfélag og vísindi að vopni. Læknar, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar, sálfræðingar og aðrir vísindamenn. Taktu þetta fólk útúr samfélaginu og við byggjum á steinöld. Taktu Örn Bárð, guðfræðingana og þeirra meinta guð úr samfélaginu og það er skyndilega miklu heilbrigðara.

Megi vísindin vera með ykkur!

föstudagur, september 24, 2010

15 lög fyrir Liverpool aðdáendur á 15 mínútum

þriðjudagur, september 14, 2010

Í landi hinna klikkuðu (karlmanna?)

Andri Snær Magnason er stórkostlegur penni og tekur hlutverk sitt sem upplýstur borgari alvarlega - við hinum getum þakkað honum fyrir það. Þegar rætt er um umhverfismál, gjammar fólk hvert ofan í annað uns Andri Snær birtist með sínar staðreyndir, sín rök, sinn fallega stíl og hrífur fólk með - Andri Snær er karlmaður.

Í nýjasta pistli sínum ,,Í landi hinna klikkuðu karlmanna" lýsir höfundurinn með sinni alkunnu snilld frá meginatriðum síðustu ára í umhverfis og orkumálum, hversu kjánalega við lítum út í augum útlendinga og hvernig villtustu draumar orkuútrásarsinna hljóma fáránlega þegar þeir eru settir í samhengi við bankahrunið sem enn virðist ekki sjá fyrir endan á. Niðurstaðan: Hvernig gat fámenn þjóð sem á nóg af allskyns auðlindum og hefur hátt menntastig verið svona heimsk (og illa sett í augnablikinu).

Við slíka gagnrýni og beiðni um djúpa sjálfskoðun þjóðarinnar er ekkert að athuga. Slíkt er hreinlega fagnaðarefni - hins vegar er hægt að efast um að heiti pistilins og gegnumgangandi plammeringar Andra á kynbræður sína standist ítarlega gagnrýni.

Þegar litið er til fortíðar má vissulega benda á að þeir sem gengið hafa hve harðast fram og átt stærstu virkjanadraumanna/martraðirnar hafa að megninu til verið karlmenn í góðum stöðum þar sem miklir eiginhagsmunir eru í húfi (nákvæmlega eins og í flest öllum öðrum arðvænum geirum). Sé hins vegar litið til atkvæðagreiðslna á Alþingi og Gallup kannanna blasir við annar veruleiki - þ.e. kyn er ekki sú breyta sem best skýrir hvers vegna farið var út í framkvæmdir á borð við Kárahnjúkavirkjun.

Þann 5.mars 2003 var haldin atkvæðagreiðsla á Alþingi um Álverksmiðjuna á Reyðarfirði. Atkvæði féllu þannig að 41 sagði já og níu sögðu nei - atkvæðin féllu þannig að þau voru nánast algjörlega eftir flokkslínum. Allir Framsóknarmenn sögðu já (óháð kyni), allir sjálfstæðismenn (að undanskyldri (Katrínu Fjeldsted) sagði já, allir þingmenn Samfylkingar sem kusu (utan Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Rannveigar Guðmundsdóttur) sögðu já en VG sögðu nei (óháð kyni). Niðurstaða: Atkvæði féllu eftir flokkslínum en ekki eftir kyni, líkt og í þessum málum almennt.

Þá gæti einhver spurt: Hvað með almenning, hver var afstaðan þar? Í Gallup könnun frá árinu 2002 var spurt ,,Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) byggingu Kárahnjúkavirkjunar?". Líkt og í fyrri könnunum var almenningur heilt yfir hlynntari byggingunni. Vissulega voru karlmenn að meðaltali hlynntari (með 3,5 á fimm kvarða spurningalista) en konur (sem þó voru með 2,9 - sem þýðir í raun að þær voru heilt yfir frekar hlynntar). Aftur gerist það hins vegar að kyn er ekki sú breyta sem skiptir höfuðmáli. Í fyrsta lagi er aldurshópurinn 45-54 ára (bæði kyn) hlynntari en karlmenn með 3,7 og jafnfætist þeim stóðu kjósendur Sjálfstæðisflokksins en á toppnum voru kjósendur Framsóknarflokks með töluna 4,0 (sem þýðir í raun mjög hlynntur). Kjósendur Samfylkingarinnar reyndust vera með einkunnina 3,0 (0,1 fyrir ofan konur almennt) en VG var með 2,3 sem er talsvert undir konum almennt (það munar næstum jafn miklu á kjósendum VG og konum annars vegar og svo konum almennt og kjósendum Sjálfstæðisflokksins hins vegar).

Niðurstaðan virðist vera sú að titillinn: ,,Í landi hins klikkaða miðaldra fólks" eða ,, Í landi hinna klikkuðu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna" eigi betur við - þá hlýtur spurningin að vera sú hvort að höfundi hafi fundist auðveldara að skjóta á kynbræður sína heldur en að benda á það sem réttara reynist eða hvort að hann hafi ekki áttað sig á þessu?

Að endingu gæti einhver spurt: Hvernig nennir þú að standa í þessu væli?
Og svar mitt er: Við slíkri spurningu hef ég ekkert svar.

Er lífið ekki karlmannlegt?

miðvikudagur, september 08, 2010

Bebe - What´s all the fuss about?

Forsagan

11. ágúst fóru að berast fréttir af því að Manchester United hefði keypt Bebe frá portúgalska smáliðinu Vitória de Guimarães. Kaupverð kantmannsins var ekki gefið upp af félaginu en það kom ekki í veg fyrir að fjölmiðlar smyrðu á hann tölunni 7,4 milljónum punda sem var klásúlan í samningi hans, en líklegra verður að teljast að kaupverðið sé helmingurinn af þeirri upphæð og bónusar á ferlinum geti svo fyllt upp í þessa klásúlu... þannig ganga kaupin yfirleitt fyrir sig nú til dags.

Leikmaðurinn

Bebe er tvítugur síðan í júlí, 1.88 cm á hæð, nautsterkur og fljótur. Hann lærði knattspyrnu á götunni og hefur aldrei tilheyrt nokkurri knattspyrnuakademíu - sem er nánast einsdæmi nú til dags. Við komuna til Manchester hrifust menn að hinu sérstaka í honum um leið og viðurkennt var það þyrfti að slípa hina ýmsu vankanta, auk þess sem formið var í engu samræmi við form annarra leikmanna liðsins - enda kannski ekki að undra. Bebe hefur ekki ennþá spilað leik með United enda ennþá í undirbúningi sem gæti tekið 6-12 mánuði (jafnvel lengur). Hann hefur þó spilað tvo leiki með U-21 liði Portúgal og skorað eitt mark, af myndböndum og fréttafluttingi af þeim leikjum að dæma er hann mun meiri kantmaður en senter.

Þáttur fjölmiðla


Síðan United keypti leikmanninn hafa fjölmiðlar gripið boltann á lofti, ekki síst þeir fjölmiðlamenn sem hafa fallið í ónáð félagsins (lesist í ónáð Ferguson) og daglega má heyra allskyns fréttir af drengnum - fæstar af þeim réttar. Íslenskir fjölmiðlar hafa einnig tekið sinn þátt og flutt undarlega neikvæðar fréttir af leikmanninum eins og starfsbræður þeirra í Bretlandi. Hvernig fjölmiðlar nenna að fjalla um þetta öskubuskuævintýri daglega á neikvæðan hátt er ofar mínum skilningi og það án þess að hafa séð hann spila. Enginn bjóst við því að Bebe myndi hoppa beint inn í byrjunarlið Manchester United.

Samanburður

Ég hef fylgst með enskri knattspyrnu í töluvert langan tíma og ég man ekki eftir nokkurri eins gagnrýni á kaup á ungum leikmanni síðan að ég byrjaði að fylgjast með. En hvernig mætti réttlæta þessa gagnrýni? 7,4 milljónir punda (sem ég efast reyndar um að sé rétt tala í nútíð) eru vissulega mikill peningur, en alls ekki í knattspyrnuheiminum - sérstaklega miðað við síðustu tvö tímabil.
Fyrir fjórum árum keypti United Nani á 13,5 milljónir punda og Liverpool keyptu Babel á 11,5 milljónir. Þrátt fyrir að aðdáendur þessara liða hefðu strax farið í þá umræðu hvor þeirra væri betri var lokaniðurstaða þeirra sem og fjölmiðla að þeir yrðu að fá 1-2 tímabil til aðlögunar til að hægt væri að meta það - samt höfðu báðir þessir leikmenn spilað með liðum sem eru þekkt fyrir að búa til unga gæða leikmenn (þ.e. Sporting Lisbon og Ajax) og það í nokkur ár. Engum datt í hug að þeir hoppuðu strax inn í liðin og sá fyrrnefndi er fyrst nú að skila sér á meðan sá síðarnefndi var næstum seldur frá sínu liði. Samt var um töluvert hærri upphæðir að ræða og sérstaklega miðað við þær breytingar sem hafa orðið síðustu tvö ár.

Þroski leikmanna

Við erum stödd í frönsku annarri deildinni árið 1998. Svartur ungur maður, þá jafnaldri Bebe og af sömu hæð og styrk leikur sinn fyrsta leik og annan af tveimur fyrir Le Mans á því tímabili. Ári síðar spilar hann 30 leiki og skorar 7 mörk. Þriðja tímabilið veldur vonbrigðum og á fjórða tímabilinu sínu skorar hann fimm mörk í 21 leik áður en hann er keyptur af fyrstu deildar liðinu Guingamp og skorar þrjú mörk í 11 leikjum. Eftir þetta fjórða tímabil, þegar okkar maður er orðinn 25 ára, er hann seldur til Marseille. 19 mörkum í 35 leikjum síðar er maðurinn seldur til Chelsea... aðdáendum og varnarmönnum allra annarra liða til ómældrar gremju. Ég er að sjálfsögðu að tala um Didier Drogba.
Hér er ekki ætlunin að segja að það sama muni eiga við um Bebe, þó að þeir séu sömu hæðar, hafi sama styrk og hraða. Boðskapur sögunnar er sá að leikmenn taka út þroska á mismunandi tíma en auk þess á að stórum hluta eftir að kenna Bebe að spila taktíska knattspyrnu (sumir læra það aldrei). Ef að Bebe verður ekki nema helmingurinn af þeim leikmanni sem Drogba er þá eru þetta snilldarkaup
Ég fer ekki að hafa áhyggjur af Bebe fyrr en þetta tímabil og næsta er liðið án þess að við fáum að sjá hann... þangað til hljóta fjölmiðlamenn í London (og á Íslandi) að geta fyllt uppí dálkana með sögum af framhjáhaldi Rooney (og því hvað frænka kunningja Rooneys hafi sagt við The Sun), slæmu gengi Liverpool og því hversu mikil hetja John Terry er þrátt fyrir allt.

Er lífið ekki dásamlegt?

mánudagur, ágúst 30, 2010

Party Zone 20 ára (1990-1998)

Eins og flest ykkar vita þá heldur Party Zone uppá 20 ára afmæli sitt þann 4. september næstkomandi. Mér þótti því tilvalið að velja eitt lag frá hverju ári frá því að þátturinn fór í gang. Það væri auðvelt að velja einungis besta lag topplistans en ég ætla að byggja þetta á mínum smekk - þannig að þetta verður mestmegnis einskonar house yfirferð. Það er engin alvöru heimildavinna á bakvið þetta, mest byggt á mínum minningum og þess vegna vona ég að þið hafið fremur gaman af þessu í stað þess að líta á þetta sem einhverja alvöru heimild.

Primal Scream - Loaded (1990)
Upphaf lagsins á einkar vel við um þetta fyrsta ár þáttarins.


The Prodigy - Charly (1991) Mörg lög sem koma til greina en þegar þessi smáskífa af Prodigy plötunni Experience fór að heyrast á Íslandi(sem var annað hvort seinni hluta ársins 1991 eða fyrri part 1992), þá var ekki aftur snúið. Reykvélarnar á fullu í miðrými Seljaskóla og nánast skipst á að skoppa í kringum Old skool lög á borð við Charly og að slamma við Smells Like a teen spirit (en söngvari þeirrar hljómsveitar framdi einmitt sjálfsmorð þegar hann sá fram á að tími rokksins væri liðinn).

Áríð 1992 var fínasta ár og ef að það væri ekki klisja að þá myndi maður henda hér fram Prodigy laginu Out of space (sem ég vil jafnframt kenna um öll ökkla og hnémeiðsl síðar meir) og svo Jam&Spoon mixinu af Age of love. Ég ætla hins vegar að velja íslenskt... Ajax Project - Ruffige

Árið 1993 er Old skoolið auðvitað ennþá í blússandi gír, en house stefnan aðeins farin að taka við sér. Í ljósu næstu ára á eftir þar sem Kenny Dope og Lil Louie Vega leiddu senuna (að mínu mati) fannst mér ekki annað hægt en að velja Björk og M.A.W. remixið af laginu Violently Happy (jafnvel þó að hressleikans vegna myndi ég gjarnan vilja segja Dajaé - U got me up)

Árið er 1994 og Party Zone er hægt og bítandi að rísa upp í þá sprengingu sem verður ári síðar (á þessu ári voru reyndar haldnir ruddalega sveittir Prodigy tónleikar þar sem svitanum rigndi úr loftinu). Á Party Zone listanum þetta árið eru mörg þekkt nöfn svosem Goldie, Chemical Brothers, Underworld og Paperclip people (Carl Craig). Á endanum verð ég hins vegar að velja annað M.A.W remix, nú af Jamiroquai laginu Emergency on Planet Earth, ekki síst vegna þeirra áhrifa sem báðir aðilar hafa haft, fyrst á danssenuna og síðar mainstream tónlist.

SPRENGJA!!! Party Zone er í hæstu hæðum tónlistarlega séð og discohousið allsráðandi - það er ástæða fyrir því að klassísku kvöldin eru kölluð Party Zone 95 kvöld (tónlistarhátíðin Uxi ´95 haldin, sjá skemmtilega grein og The Bucketheads spila á afmælishátíð Party Zone... og busaballi Versló... ungum drengjum úr Breiðholtinu sem svindluðu sér þangað inn til mikillar gleði). Sé árið 1995 tekið útúr þessum 20 árum er að mínu mati hægt að halda því fram að á þessu ári væri hægt að týna til 20 betri klassíkera eða hittara en af hinum 19 árunum til samans. Títtnefndir Kenny Dope og Little Louie Vega eru þarna á útopnu með nokkrar hljómsveitir í gangi, svosem Kenlou, Bucketheads, M.AW og Nu Yorican Soul (og svo auðvitað puttaför Lil Louie í Black Magic laginu Freedom) og eiga þannig 4 af topp 5 lögunum á lista þessa árs.
Förum yfir nokkur lög af árslistanum:
Í 46. sæti heil EP plata með DJ Sneak - Moon Doggy EP (sem reyndar kom upprunalega út árið 1994, þarna eru lög eins og Was it all og Disco Erotica).
Í 40. sæti hið dásamlega lag Odyssey - 7th Movement,.
Í 32. sæti er Daft Punk risasmellurinn lagið Da Funk (já þið lásuð rétt, lagið var í 32. sæti).
Í 30. sæti Ruffneck - Everybody Be Somebody.
Í 27. sæti önnur stórkostleg EP plata með DJ Sneak - Polyester EP (með klassísku lögunum Show me the way og Expand Your Horizons en hið síðarnefnda er jafnframt lagið sem hljómar gjarnan undir í topplista upptalningu þáttarins enn þann dag í dag).
Í 21. sæti er illa nauðgaða lagið Sandman með Blue Boy (sem gaf svo út þessa plötu ári seinna sem einhver mætti gjarnan henda á youtube)
Í 20. sæti er Jamiroquai með annan risahittara Space Cowboy.
Númer 17 er lag sem ég kann vel við en er kannski ekki það þekktasta, Brooklyn Friends - Philadelphia.
Í 15. sæti var Glenn Underground með skemmtilega yfirbreiðslu á Donnu Summer laginu I feel love.
Í 14. sæti var hið eyrnarskemmandi en unaðslega lag Higher State of Conciousness með Josh Wink.
Í 12. sæti er lag sem myndi sóma sér vel í núinu (eins og mörg hér að ofan). Deep dish lagið Love song (Chocolate City) er útúr korti svalt lag og ástæðan fyrir því að ég vel það er að sennilega eru flestir búnir að heyra hin lögin áður.
Topp 10 listinn árið 1995 er svo hreinlega sturlaður
10. De´lacy - Hideaway (þekkja allir þetta lag í dag)
9. Everything but the girl - Missing (Todd terry mix) (sama hér)
8. Paperclip people - Climax (já, þvílíkt klæmax)
7. Green Velvet - Leave my body (held að margir hafi einmitt gert það þegar þeir heyrðu lagið, þ.e. yfirgefið líkama sinn)
6. Gusto - Disco´s revenge (bow, bow, bow, bobo bow, boborobow - endurútgafið fyrir ekki allslöngu)
5. Kenlou - The Bounce (Það þarf ekki að útskýra þetta!)
4. The Bucketheads - The Bomb (eina sýnilega ástæðan fyrir því að þetta lag var ekki í efsta sæti er sennilega almenn ofspilun, þvílíkur múgæsingur sem myndaðist þegar þetta lag var spilað á Tunglinu).
3. K-Scope - Planet K (eitt af einkennislögum í sögu þáttarins).
2. Kenlou - Moonshine (ó, hve yndisleg eru þessi sömpl?)
1. Black Magic - Freedom (ótrúlega M.A.W.-legt lag enda Little Louie Vega hér að verkum)

Á þessu besta ári í sögu Party Zone kom jafnframt út annar safndiskur í Party Zone röðinni, einfaldlega nefndur Party Zone ´95. Hann náði þeim merkilega áfanga að komast í toppsætið á íslenska breiðskífulistanum. Allir sem eiga þennan disk vita að hann er frábær, það er hins vegar merkilegt að 8 af 12 lögum á disknum komust ekki á topp 50 lista sama árs. Sömuleiðis náði ekkert lag af annarri breiðskífu Prodigy á listann, sem er ansi magnað í ljósi gæða og vinsælda þeirrar plötu á þeim tíma.

Eftir stærsta árið í sögu þáttarins hlaut að koma að niðursveiflu - það gerðist strax árið 1996.
Minni áhersla var lögð á discohouse og meira á harðari stefnur, óhörnuðum aðdáendum gleðinnar til mikils ama. Á sama tíma var rapp, funk, breakbeat og allskyns stefnur í fullri uppsveiflu og melódían heillaði. Party Zone hlustunin hélt þó áfram, þó að menn misstu kannski ekki svefn yfir nýjum plötum og efni. Eftir á að hyggja kom samt út gríðarlega mikið magn af góðri house tónlist á þessu ári. Nuyorican Soul platan kom út, Kenlou remixið af The Boss varð vinsælt og Todd Terry lagið Keep on Jumpin´ heyrðist í fjölmörgum útgáfum, Glenn Underground hélt afram í gömlum disco smellum og gaf út lagið I need GU, einnig má nefna Salsoul Orchestra - Magic Bird of Fire (Johnny Vicious bootleg) auk þess sem DJ Sneak hélt sömuleiðis sínu striki. Á endanum verð ég hins vegar að velja lag sem festist alltaf reglulega í höfðinu á mér og þá fæ ég gríðarlega þörf fyrir að hlusta á það... Norma Jean Bell - . I'm the Baddest Bitch

Árið 1997 varð aftur léttara yfir (allavegana í minningunni). Þó að aðrar ofangreindar tónlistarstefnur (rapp, funk...) hafi átt æ sterkari ítök í mann að þá var maður samt yfirleitt með þáttinn í eyrunum. Sumardiskurinn þetta árið var einstaklega huggulegur og fjarvera þekktari nafna var hressandi. Ástæðan fyrir að ég nefni þessa plötu sérstaklega er að á henni er lagið sem ég vill nefna (þó það hafi tæknilega komið út ári fyrr), en það lagið Samba Magic með hljómsveitinni Summer Daze (betur þekkt sem Basement Jaxx).

...jæja, meira síðar.

Er lífið ekki dásamlegt?

Feel good Tryggvi part II

föstudagur, ágúst 27, 2010

Feel good lög fyrir Tryggva

miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Perlur fyrir haustið vol.9

föstudagur, júlí 23, 2010

slideEr lífið ekki dásamlegt?

NafnaveislanEr lífið ekki dásamlegt?

þriðjudagur, júní 29, 2010

Enska útgáfa þríeykisins

Þetta byrjaði allt með frönsku útgáfunni sem kom til Liverpool árið 1998 og stjórnaði liðinu ásamt Roy Evans. Í nóvember það ár sagði Roy Evans af sér og skyldi meistara Gerard Houllier einan eftir en hann hafði getið sér gott orð sem skipulagður þjálfari með sterka vörn, sem setti upp 5 ára plan til að byggja upp liðið árið 1999. Besta árið var 2001 þegar Liverpool vann Mikka Mús þrennu þegar liðið vann enska bikarinn, enska deildarbikarinn og UEFA bikarinn. Eftir nokkur fín kaup en mjög mörg slæm kaup þá endaði ævintýrið árið 2004 þegar Liverpool endaði í 4. sæti með 60... þar sem Houllier varð þekktur fyrir frasann ,,the team is turning corners" í nánast hverri umferð.Við kyndlinum tók hinn spænski Houllier, Rafa ,,the fact" Benitez sem hafði getið sér gott orð sem taktískur þjálfari sem legði áherslu á góða vörn og skyndisóknir. Sá setti upp samskonar 5 ára plan um uppbygingu liðsins. ,,Besta árið" kom strax árið 2004-2005 þegar liðið vann Meistaradeildina en endaði reyndar í 5. sæti í deildinni með 58 stig (tveimur stigum minna en Houllier hafði verið rekinn fyrir ári á undan. Ári síðar fylgdi enski bikarinn en í kjölfarið fylgdu fjögur titlalaus ár þar sem Benitez keypti tæplega 80 menn fyrir um 250 milljónir punda. Nokkrir mjög góðir leikmenn keyptir en ca. 65-70 sem áttu enga samleið með Liverpool. Eftir að hafa endað í 2. sæti vorið 2009 hrundi leikur liðsins um haustið. Allt tímabilið 2009-2010 var liðið að mati Benitez ,,turning a corner" og seinni partinn lofaði hann 4. sætinu en þurfti að sætta sig við 7.sætið með 63 stig.
BBC hefur í dag heimildir fyrir því að Hodgson muni halda keðjunni gangandi en hann hefur að undanförnu stjórnað liði Fulham sem er þétt, sterkt varnarlega og getur sótt hratt en áður m.a. tveimur ítölskum liðum. Fulham fór í úrslit Mikka Mús Evrópukeppninnar í ár en töpuðu gegn Atletico Madrid (sem hafði áður slegið út Liverpool). Nú er einungis spurning hvort að Hodgson setji ekki upp 5 ára plan, hreinsi til eftir forvera sína í starfi, kaupi 80 menn og eyði massífum pening og verði svo rekinn eftir 5-6 ár... nei, ég segi bara svona.

Er lífið ekki dásamlegt?

mánudagur, júní 07, 2010

Svona fer HM...

Þessi lið verða efst í sínum riðli:
Frakkland, Argentína, England, Þýskaland - Holland, ítalía, Brasilía, Spánn
Þessi lið verða í öðru sæti:
Úrúgvæ, Nígería, Slóvenía, Serbía - Danmörk, Paragvæ, Portúgal, Chile

16 liða úrslit:
Frakkland vinnur Nígeríu
England vinnur Serbíu
Þjóðverjar vinna Slóveníu
Argentína vinnur Úrúgvæ
Holland vinnur Paragvæ
Brasilía vinnur Chile
Ítalía vinnur Danmörk
Spánverjar vinna Portúgal

8 liða úrslit

England vinnur Frakkland
Brasilía vinnur Holland
Þýskland vinnur Argentínu
Spánn vinnur Ítalíu

4 liða úrslit
Brasilía vinnur England
Spánn vinnur Þýskaland

Úrslitaleikur
Spánn vinnur Brasilíu


Niðurstaða:
Spánn verður heimsmeistari og við getum einbeitt okkur af peningamálastefnu landsins í stað þess að horfa á HM.

Er lífið ekki dásamlegt?

sunnudagur, júní 06, 2010

Hið hálffulla glas

Í maí fyrir ári síðan skrifaði ég lítinn pistill undir heitinu ,,Hið hálftóma glas" en þar fór ég yfir stöðu mála hjá Liverpool í andrúmslofti þar sem aðdáendur liðsins voru þegar farnir að fagna titlinum árið 2010. Nú ári síðar er ljóst að það var engin innistæða fyrir nokkru titla tali, en í staðinn hafa aðdáendur Liverpool sjaldan verið eins neikvæðir... en er þetta svona slæmt?
Fyrst ætla ég að meta ástandið og svo ætla ég að koma með nokkur atriði sem ég spái fyrir komandi tímabili hjá Liverpool.

Liverpool endaði þetta tímabil í 7.sæti, titlalaust og 23 stigum á eftir toppliðinu. Aðeins fjórum sinnum hefur liðið fengi færri stig frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð og aðeins einu sinni hefur liðið endað neðar í töflunni. Það klikkaði nánast allt sem klikkað gat, það hefur verið farið yfir það margoft.

Eftir stendur félag sem lítur einhvern veginn svona út. Liverpool er stórveldi, án þjálfara í augnablikinu sem var að koma út úr einu sínu versta tímabili sögunnar miðað við væntingar. Eigendur liðsins eru búnir að demba liðinu í skuldir og vilja selja það fyrir pening sem fáir virðast tilbúnir að kaupa það fyrir. Í leikmannahópnum hefur ríkt upplausn frá því fyrir jól, þegar ljóst var að ekkert yrði úr tímabilinu. Það fer tvennum sögum af því hverjir vilja fara og hverjir vilji vera áfram - það ræðst sennilega eftir HM. Fyrir neðan aðalliðið eru tvö lið sem yfirleitt spila stórt hlutverk í framtíðinni: varaliðið og ungmennaliðið. Það er ekki að fullu ljóst hverjir koma og fara af þjálfarateyminu, en varaliðið er ólíklegt til að ýta upp stórstjörnum á þessum tímapunkti og þjálfari ungmennaliðsins taldi eftir tímabilið að staða þess væri svo slæm að sennilega væru 2-3 ár áður en að einhver þeirra ætti möguleika í aðalliðið. Ekkert sérstaklega bjart yfir eða hvað?

Menn geta grátið í koddann og bölvað þessu öllu saman en ég ætla að setja hér niður nokkra punkta um það hvað ég held að muni betur fara á komandi tímabili en á því síðasta.

1. Liverpool mun enda ofar í deildinni og með fleiri stig
Að því gefnu að eigendurnir selji ekki alla bestu leikmenn liðsins og stingi peningunum í vasann að þá spái ég því að næsti þjálfari geri betur en Rafa. Hvort sem að nýr þjálfari fær einungis að halda í sama hópinn eða að nota peningana sem fást fyrir sölur að þá mun Liverpool ná betri árangri í deildinni og jafnvel í bikar líka.

2. Liverpool mun spila skemmtilegri knattspyrnu
Hver svo sem tekur við liðinu mun láta liðið spila skemmtilegri knattspyrnu en Rafa gerði á sínum sex árum, sem var mjög leiðinleg (fyrir utan þrjá mánuði vorið 2009). Við munum sjá líflegri og glaðari Liverpool leikmenn, meiri sóknarknattspyrnu og fleiri lausnir gegn litlu liðunum. Við munum sjá fjölhæfari sóknarleik og liðið mun sækja á fleiri mönnum. Bakverðirnir munu nýtast betur, Liverpool hættir að spila með tvo afturliggjandi miðjumenn og mögulega spila með tvo sóknarmenn í framlínunni gegn minni liðum á heimavelli. Vonandi lætur Kuyt sig hverfa og Liverpool fær sóknarsinnaðan hægri kantmann... og hver veit, mögulega springur Babel loksins út. Carragher mun ekki fá að hreinsa boltann jafn oft og tilgangslaust upp völlinn.

3. Fleiri tækifæri og tilraunir
Nýr þjalfari kemur með nýjar áherslur og mögulega nýja leikmenn. Við munum sjá breyttar áherslur og fleiri tilraunir - ekki eins mikla róbótaknattspyrnu. Áherslan verður á Liverpool og hvaða lausnir það ætlar að færa fram í sóknarleik, með minni áherslu á andstæðinginn. Fleiri ungir strákar munu fá tækifæri og það mun vonandi leiða aftur til þess módels sem hefur virkað best, þ.e. blöndu af uppöldum leikmönnum og dýrum hágæðaleikmönnum.

4. Skemmtilegri þjálfara
Þegar nýr þjálfari tekur við og stendur brosandi með treyju eða trefil á Anfield að þá mun hann hafa sýnt meiri persónutöfra en síðasti þjálfari. Ef að hann sýnir tilfinningar þegar að Liverpool skorar fyrsta markið í deildinni að þá mun kop stúkan sennilega klofna.

5. Aðdáendur liðsins verða skemmtilegri
Aðdáendur Liverpool eru búnir að vera daufir og pirraðir frá því síðasta haust. Það er búið að kljúfa klúbbinn þeirra í pólitík eigenda gegn þjálfara (sem hefur snúið þeim um fingur sér). Um leið og Liverpool liðið mætir ferskt til leiks með nýjum þjálfara og fer að vinna leiki byggðan á skemmtilegum sóknarbolta að þá munu þeir taka aftur við sér - sérstaklega nú (í fyrsta skiptið í 20 ár sem þeir spá ekki sjálfum sér titlinum).

6. Eigendamál í betri farvegi
Hvort sem að það gerist núna í sumar eða næsta vor að þá finnst manni nokkuð ljóst að liðið mun fá nýja og mögulega betri eigendur, sem setja meiri peninga í leikmannakaup og fara að byggja nýjan völl. Ef að fjögur ofangreind atriði fara vel að þá mun klúbburinn á endanum lenda í betri höndum.

Leikmannahópurinn og framhaldið - Ef, Ef, Ef

Ef að fyrsta atriðið heldur þ.e. að eigendur liðsins selji ekki sína bestu leikmenn og stingi peningunum í vasann að þá lítur þetta ekki svo illa út.
A) EF að lykilleikmenn ákveða að gefa nýjum stjóra séns að þá er ljóst að það er sterkur kjarni í Reina, Agger, Johnson, Mascherano, Gerrard og Torres (jafnvel Carragher). Nýr stjóri á alltaf sína leikmenn sem hann getur gabbað í nýtt félag og það má finna nokkra leikmenn hjá Liverpool sem seljast fyrir ágætis pening til að fylla upp í skörðin eftir því hvaða áherslur verða(leikmenn á borð við Skrtel, Riera, Aquilani, Lucas, Benayoun, Babel og Kuyt).
B) EF að lykilmenn vilja fara að þá er Liverpool í fínni samningsstöðu varðandi samningamál þeirra. Þeir þrír sem helst eru nefndir eru Mascherano sem fer væntanlega á ca. 25 milljónir punda, Gerrard á eitthvað svipað og svo Torres sem gæti farið á 50+ milljónir.
100+ milljónir punda er fínn peningur til að byggja upp lið, lið sem þá þegar hefði heimsklassa markmann, fína miðverði, góðan hægri bakvörð og allskyns ágæta menn inn á milli (en reyndar enga sókn). Styrkurinn myndi þá líka liggja í því að sennilega væru það Inter, Real og Barca sem myndu berjast um þessa menn og þar má finna fullt af mönnum til að taka í staðinn. Fáum dæmi:
Hjá Madrid: Benzema, Lassana Diarra, Van der Vaart og Marcelo (ætli Liverpool gæti ekki fengið þessa fjóra fyrir Gerrard og Mascherano, miðað við núverandi stjórn hjá Real?)
Hjá Barca: Zlatan, Bojan, Yaya Toure, jafnvel Abidal (Liverpool myndi sennilega fá Zlatan + 1-2).
100 milljónir í pening: Búi nú hver til sitt dæmi.

Niðurstaða: Hættið þessu væli þar til að tímabilið byrjar og við vitum hvernig þetta lítur út.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: