laugardagur, desember 24, 2005

Afmæli

Fróðir menn segja að strákurinn okkar eigi afmæli í dag.
Til hamingju með það.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Jólakort

Við ættum ekki að horfa á hamingjuna eingöngu sem eitthvað raunverulegt og ekta í sambandi við okkar eigin líðan, heldur ættum við einnig að horfa á hana í sambandi við samfélagið og kapitalisman. Hver er virkni hamingjunnar? Hvernig er hún notuð? Hún er ekki bundin við eitt tímabil heldur er hún alltaf í notkun nú til dags. En til þess að níðast á einum tíma fremur en öðrum getum við litið á jólin. Á jólunum spilar hamingjan stóra rullu; maður ekki bara sér það heldur heyrir það í útvarpinu og les um það í blöðunum og í pósti. Í útvarpinu heyrir maður ræður um það hversu mikilvægt það sé að setjast niður í kaupæðinu og jólaamstrinu öllusaman, dempa ljósin og kannski kveikja sér á kerti (helst ilmkerti), draga andann djúpt og finna innri ró - hugarró - og svo fær maður sent í pósti geðorðin sem allir þurfa að lesa, allir þurfa að hugsa jákvætt og helst drífa sig bara í jóga eða lesa bókina Gæfuspor og rækta eigin tilfinningar. Við megum ekki fórna líkama og sál og slefa frammi fyrir peningum og efnislegum gæðum, heldur verðum við einnig að huga að hinu andlega. Því að í því er hamingjan fólgin. En hvílík launhræsni sem felst í þessu hamingjutali. Við ættum ekki að taka þátt í þessu. Hamingjan er tæki og ekkert annað en utopia (ópíum) og því nánast merkingarlaust að nota hana til þess að lýsa líðan sinni. Það er í það minnsta tvíbent vegna þess að hugtakið hamingja er tæki til þess að lýsa líðan sinni en einnig tæki kapitalismans. Það má segja að hugmyndin um hamingju sé að hálfu frátekin. Auðvitað þurfum við að vera hamingjusöm sjálfra okkar vegna en einnig til þess að vera virk á markaðnum (það þýðir ekki bara að vera þunglyndur heima). Kapitalisminn miðar nefnilega að því að virkja þau öfl sem búa í manninum í því skyni að hámarka framleiðslu og vöxt, og allt þetta hamingjutal er hluti af því kerfi: að finna hugarró og mæta svo fílelfdur til baka á markaðinn. Þetta hamingjutal og þessi vestræni búddismi, þessi geðorð, þetta jóga er allt hluti af kerfinu - hin hliðin á kapitalismanum. Þetta eru hliðstæður. Auðvitað þarf kapitalisminn á utopium að halda, á hliðstæðu að halda til þess að fúnkera, auðvitað þarf hamingjan að vera byggð inní kerfið til þess að virkja fólkið. Hér ætla ég ekki að kenna neinum um neitt, enda ekki við neinn beint að sakast (það er enginn að plotta þetta bakvið tjöldin með joystikk í hönd), hvað þá heldur að bjóða fram (eða útiloka) eitthvað betra en kapitalismann. Ég vildi aðeins sýna fram á að hugmyndin um hamingju er ekki eins hlutlaus og hún lítur út fyrir að vera. Við þurfum á henni að halda en einnig kapitalisminn (því er ekki erfiðara að virkja þunglynda eistaklinga í því skyni að hámarka framleiðsluna). Hamingjan er sem sagt alltaf tvítengd, við höfum bláan vír og rauðan en vitum ekki hvorn við eigum að klippa til þess að aftengja. Það er kannski best að varpa hamingjunni fyrir róða og vonast til þess að öðlast þannig raunverulega hamingju? Eitt er ljóst að ef maður eltist við þetta hamingjutal sem nú heyrist, hinn vestræna búddisma, þá lendir maður fljótlega í gjörsamlega skipulögðu og mótandi rými sem setur hömlur á manns eigin frelsi. Hamingjan er varasöm (gott tæki og vont). A.F.O.

Tilvitnun dagsins

Ég skammast mín ekkert fyrir það að stela þessari tilvitnun frá þessum snillingi:

Rachel Dawes: ,,Deep down you may still be that same great kid you used to be. But it's not who you are underneath, it's what you do that defines you. "

Þakka að lokum innilega fyrir öll þau framlög sem bárust í söfnunina. Þetta verður árlegt hér eftir.
Þakkar- og jólakveðja Bjarni Þór Pétursson.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Þar sem fegurðin ríkir

föstudagur, desember 16, 2005

Sælla er að gefa en þiggja.

Núna hefur verið stofnaður reikningur fyrir þessa söfnun (okkar). Hugmyndin er að safna þessum 120 þús kr., prenta stóra ávísun (svona fótbolta-ávísun, þið vitið) og afhenda svo Hjálparstofnun Kirkjunnar um miðja næstu viku. Líkur eru til að biskup Íslands muni mæta við það tilefni (ekkert grín hér). Þeir sem eru ekki með á nótunum eru vinsamlegast beðnir um að lesa síðustu bloggfærslu.

Reikningsupplýsingar:
0101-05-267703
Kt. 100179-3189

Textinn birtist upprunalega á síðu Hagnaðarins

Það er því ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa og safna fyrir eins og einum brunni.
Með baráttukveðju, Bjarni Þór Pétursson.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Áskorun á þig kæri lesandi - ætlar þú að skorast undan henni?

Það er að mínu mati sláandi auglýsing í Morgunblaðinu í morgun. Þar er talað um að Nýr brunnur sem getur séð 1000 manns fyrir vatni í marga áratugi kosti 120.000 kr. Það gera 2.500 kr. fyrir tæplega 50 manns samkv. auglýsingu (en 48 samkv. áreiðanlegum útreikningum). Ég veit að við erum öll fátæk, skuldug og það eru að koma jól en með samhentu átaki ætti þetta að takast léttilega. Þetta er nú á algjöru frumstigi en er vilji hjá lesendum fyrir því að auglýsa þetta á síðunni sinni og tala kannski við ættingja og vini og leggja saman í einn brunn?
Ætla að vona að ég sé ekki að þröngva þessu upp á neinn en hvað segja Haukur og Harpa, Arna, Daði, Viðar, Andri og Linda, Henrik og Ólafur Þórisson (ekki það að þeir séu par) og þið ykkar hin sem lesið þessa síðu og eigið bloggsíðu (eða ekki)? Svo má auðvitað skora á aðra bloggara út fyrir þessa hér að ofan.
Er ekki smá jólafílingur yfir því að veita 1000 manns vatn í Mósambík eða Úganda? Sleppa því að panta einu sinni pizzu og safna saman fyrir einum brunni? Eða gabba ömmu og afa til að leggja málefninu lið í staðinn fyrir einhver rúmföt sem þið eigið pottþétt eftir að fá annars í jólagjöf – þá eru báðir aðilar glaðir.
Ef við 10 leggjum í púkk, þá þarf hvert okkar einungis að sannfæra 4 einstaklinga um hið sama – það er varla stórt vandamál?
En þetta liggur hjá ykkur, ég er því miður ekki nógu ríkur ennþá til að standa í þessu einn, en vonandi mun þessi elíta geta gefið hvert sinn brunn í framtíðinni.
Baráttu- og jólakveðja. Í barnslegri einlægni Bjarni Þór Pétursson.

Aðrir líklegir gefendur?

24 klúbburinn
Stjórnmálafræðiklúbburinn
Magic Johnson showtime klúbburinn
Slegið og hlegið ljóðaklúbburinn (sem reyndar eru allir tilteknir hér að ofan)
Vatnaliljur
Laugalínur
Sturtukórinn Hafliði
Kallaklúbburinn Clint
Klámmyndaklúbbur Stiftsyfirvalda
Hrútarnir
Er ég að gleyma einhverjum?

Endilega commentið á hvað ykkur finnst, spurning hvort að það sé jafnvel hægt að skora á Bjögga bankastjóra að splæsa í einn brunn ef að 49 fátækum námsmönnum og Hauki (mjehehe) tekst það?

þriðjudagur, desember 13, 2005

Af stjórnmálum: Lýðræði! Yndislegt hugtak. Það eru kosningar í Írak framundan og menn eru búnir að loka landamærum, setja á ferðabann og sums staðar verður sett á útgöngubann. Allt þetta til að koma á lýðræðislegum kosningum. America fuck yee – freedom is the only way yee!

Málefni dagsins: Vandamál sem menn reyna nú að finna lausn á eða ekki lausn á er spurningin um launaleynd, þ.e. að það ríki trúnaður á milli starfsmanns og vinnuveitanda þegar kemur að launum starfsmanns. Takast hér á að mati skýrenda hugtökin frelsi og jafnrétti – og sitt sýnist hverjum. Annars vegar sjónarmið frjálshyggjumanna um frelsi einstaklingsins til þess að semja um sín laun og hins vegar að þessi launaleynd kunni að stuðla að því að konur eru með lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu – svona í grófum dráttum. Sá einmitt unga stúlku fjalla um þetta mál út frá sjónarmiði frjálshyggjunnar á NFS í gær – er það bara ég eða eru allar konur að verða frjálshyggjukonur... eins gott að konur hafa aldrei náð völdum! Svolítið skrýtið samt að konur skuli spranga um á þeim slóðum, minnir mig svolítið á mynd sem ég sá eitt sinn, held að hún hafi heitið Beliver eða eitthvað álíka og fjallaði um gyðing í sjálfskreppu sem neitaði uppruna sínum og var í félagsskapi með nasistum – ekki það að konur séu gyðingar eða sjálfstæðismenn nasistar... svona flestir allavegana ekki. Áður en The End rann yfir skjáinn hafði þó hinn sjálfshataði gyðingur snúist af villu vegar síns. En aftur að spurningunni, nú er ég ekki hagfræðimenntaður né menntaður í samningamálum einstaklinga en hvaða rétti er ég að tapa sem launþegi ef það er opið fyrir samstarfsmönnum mínum hvað ég hef í laun? Hvernig skerðir það samningastöðu mína gagnvart vinnuveitanda? Er eitthvað óeðlilegt við það að fólk viti hvað hver hefur í laun? Er þetta spurning um nokkuð annað en stöðu vinnuveitanda, að þetta geti leitt til óánægju meðal starfsmanna og að fólki fari fram á hærri laun? Er hægt að tala um annað en talskona frjálshyggjunnar vilji frelsi frelsisins vegna eða þá til að verja hagsmuni einhverja sem hún þekkir eða er skyld?
Ég myndi gjarnan þiggja ráð og skýringar frá mönnum sem eru betur að sér í samningamálum og hagfræði en ég - og geri það glaður, enda forvitinn maður.
Kannski er ég ekki nógu mikið inn í þessu máli, en mér sýnist sem þetta sé svipað og að fara og kaupa sér gallabuxur og að það sé ekkert verð, menn verði bara að semja um verð við verslunareigandann. Svekkjandi að ganga út úr búð búin að kaupa buxur fyrir 10.000 kr. og komast síðan að því gegnum fjórða aðila að besti vinur manns keypti sömu buxur á 1.000 kr. En auðvitað er þetta ekki það einfalt, hér er maður ekki að prútta með flík heldur að dæma sjálfan sig, sem ætti að segja manni það að sjálfumglatt fífl eins og ég ætti að fá hærri laun en jafnvel hæfari manneskja með lítið sjálfstraust. Allavegana, ef ég reynist hafa gjörsamlega rangt fyrir mér þá mun ég fúslega viðurkenna það... en þá er hins vegar svokölluð talskona frjálshyggjunnar ekki að standa sig í því hlutverki að fræða almenning og auka fylgi við ,,trú” sína.
Spurning ef þetta breytist ekki, hvort maður fari ekki bara fram á sömu laun og launahækkanir og næsti maður, svona Manutd style, þá væri maður alltaf glaður... og talandi um það. Ætli laun knattspyrnumanna væru ekki mun lægri ef það væri raunveruleg launaleynd? Hver hirðir peninganna sem þú hefur unnið fyrir... þ.e. fyrir utan ríkið?
Bónusstig fyrir svar við eftirfarandi spurningu: Hvenær má hækka laun hinna lægst settu?



En yfir í sportið: Sá blaðamannafund í nótt og Pat Riley er tekinn við af Van Gundy sem hættir af fjölskylduástæðum, hann mun þó halda áfram sem hluti af þjálfarastaffinu. Á blaðamannafundinum sagði Van Gundy að þegar hann fór að merkja dagatalið þá hefði hann merkt við 49 daga þar sem hann myndi sjá fjölskylduna sína vakandi – vonum að hann hafi haft þokkaleg laun.

Slúðurpakkinn er á sínum stað: Það er mikið um sögulega þætti á úrvalsstöðinni E! TV sem allar húsmæður í vesturbænum ættu að þekkja vel – enda einhverjir bestu sagnfræðingar samtímans. Í gær var minnst á tvo þætti sem vert er að fylgast með og nú hef ég komið auga á einn nýjan þ.e. 101 óheppilegt atriði hjá fræga fólkinu. Karlmönnum er bent á þættina Wild On sem er svona ferðaþáttur þar sem næturlífið víðsvegar er skoðað með þar tilheyrandi brjóstahristingum og rassadillingum. Afkvæmi þessara þátt er síðan Wild On Tara þar sem Tara úr American Pie ferðast um skemmtistaði víðsvegar um heiminn drukkin. Svo minni ég á ítarlegan þátt á sjónvarpsstöðinni E!TV (hvað annað) um fegurðarsamkeppnina á laugardaginn og svo á bloggsíðu Miss World sem auglýst er í Morgunblaðinu. Slúður, Slúður, Slúður!!!

Erindi dagsins:
Half of the people can be part right all of the time
Some of the people can be all right part of the time
But all of the people can´t be right all of the time
I think Abraham Lincoln said that
I´ll let you be in my dreams if I can be in yours.
I said that
(Bob Dylan: Talkin World War III Blues)


Framundan: Bið menn og konur um að fylgjast með næstu daga. Þá verður athyglisverður samanburður á ferðinni.

mánudagur, desember 12, 2005

Stjórnmál, slúður, sport og tónlist

,,Táp og fjör og frískir menn finnast hér á landi enn”. Lífsmark í íslenskri pólitík?
Jón Baldvin í Silfri Egils í gær usss - Þvílíkur snillingur! Sannar að langt lífsskeið þarf ekki að þýða leiðindi. Það er undarlegt að horfa á mann hokinn af reynslu, tala hreint út um framtíð Íslands og af þvílíkri kenningarlegri þekkingu að það er engu líkt, samt hljómar hann eins og hann sé um 35 ára – hann er meira en 10 árum eldri en flestar þessar hálfdauðu íhaldsrisaeðlur en virðist helmingi yngri og ferskari. Vona að ég verði jafn töff og hann þegar ég næ svipuðum aldri. Egill spurði hann út í næstu kosningar og hann sagðist ekki nenna að standa í einhverri kosningabaráttu eða eyða tíma sínum vikulega í einhverjum spjallþætti, ætlaði að skrifa en neitaði þó ekki fyrir að taka við ráðherraembætti ef eftir því væri leitað – það væri hans skylda. Væri hægt að biðja um betra comeback... ekki fyrir Samfylkinguna heldur fyrir þjóðina (Hugsanlega Shaq í Lakers og Keane í Manutd). Hann lætur alla þessa smjattpatta (nefnið þá) Ingibjörgu Sólrúnu, Davíð, Halldór, Geir H. Haarde, Össur og hvað þau öll heita líta út eins og litla krakka sem eru búnir að haga sér illa í sandkassanum.
Hvet fólk til að horfa á þetta viðtal í Silfrinu og bera það saman við viðtal við hvaða stjórnmálamann Íslandssögunnar og vinsamlegast látið mig vita ef þið finnið eitthvað heilsteyptara, þar sem talað er jafn hreint út og af þvílíkri þekkingu. Menn geta nefnt Steingrím J. sem jafnoka í ræðustól en gleymið því að þið finnið aðra þætti.
Í landi frelsisins og á heimilum hinna hugrökku fer nú fram heit umræða þessa daganna og eru ekki allir á eitt sáttir og fer þar auðvitað fremstur í flokki heiðursfélagi lítilla typpalinga... nei ekki Jórunn heldur Bill O´Reilly og haldið þið nú öll að ég ætli að tala um Bush eða Írak stríðið óóó nei!!! Menn halda áfram því sem þeir hafa verið að rífast um síðustu vikurnar þ.e. ,,Jólatrés málið”. Þannig er að árlega er sett upp ,,jólatré” í garði Hvíta húsins og seint á 10.áratugnum var ákveðið að hlaupa alla leið í pólitískri rétthugsun og kalla það ,,Holliday tree” í staðinn fyrir ,,Chrismas tree” og nú vilja ofsatrúfylgjendur Jesú snúa því við og annað fréttaefni kemst vart að á meðan, sem er reyndar ágætt í tilfelli Fox því þeir ljúga ekki þjóðina fulla á meðan. America fuck yee!
Sprengingar í Bretlandi, bæði í olíubirgðastöðinni og í könnunum. Varla marktækt. David Cameron var að taka við og því mælast Íhaldsmenn með meira fylgi en Verkamannaflokkurinn, svo kemur Blair til með að hætta eða fara í EU og Brown sigrar næstu kosningar örugglega.

En úr stjórnmálum í slúðrið! Samkvæmt skoðunarkönnun þurfa typpalingar og vinna sér inn meira fylgi meðal kvenna og því mun ég benda á ýmislegt í slúðrinu og skemmtanalífinu. Til að byrja með vill ég benda á þátt á E! TV þann 18. des næstkomandi en þá mun sjónvarpsstöðin telja niður úr topp 50 lista yfir helstu sambandsslit í bransanum, eins má rekast á þátt sem telur niður 101 mestu sjokk í skemmtanabransanum. (Hér væri gott ef þú kæri karlmannslesandi kæmir eftirfarandi til skila til kvennmanna í þínu lífi og hvaðan þú fékkst þessar upplýsingar). Aðrar fréttir hafa flestir heyrt, Richard Pryor látinn og Matt Damon búinn að gifta sig... my name is Matt Damon... Matt Damon.

Úr slúðrinu í sportið! Hvað er að gerast í íþróttaheiminum? Sumt hefur verið lögmál síðasta áratuginn, svona eins og sólarupprás en nú er eitthvað að gerast. Liverpool komið fyrir ofan Manutd í deildinni, eru sitjandi Evrópumeistarar og komnir lengra en Manutd nú þegar. Í fyrsta skipti sem Manutd kemst ekki í útsláttarkeppnina. Manutd virðast farnir að leggja áherslu á deildarbikarkeppnina en öll alvöru lið eru löngu dottnir úr þeirri keppni. Chelsea sem hafði ekki unnið deildina í 50 ár virðist ætla að verða fyrsta liðið í einhver 15 ár fyrir utan Manutd til að vinna back2back og þá eru liðin 3 ár síðan að Manutd hafa unnið deildina en þeir höfðu ekki skilið titilinn eftir í meira en eitt tímabil hjá andstæðingum sínum síðasta áratuginn. Lakers stefna í áttina að því að komast ekki í úrslitakeppnina annað árið í röð, og það hefur ég held ég aldrei gerst og þar að auki eru Clippers að meika það. Real eru svo auðvitað sorglegir þó að þeir séu ekki í eins miklum skít. Svo að við höldum nú áfram þá tapaði Fram fyrir Fjölni í fótboltanum núna um helgina en þessi lið munu væntanlega berjast hatrammlega um að halda sæti sínu í 1.deild næsta sumar. Já, Karl Popper hafði sennilega rétt fyrir sér og Megas orðaði það á svipaðan hátt ,,morgundeginum honum er valt að trúa”.

Úr sportinu í tónlistina! Sitthvað er að gerast í tónlistinni þessa daganna. Þið ykkar sem eruð fátækir námsmenn, keyrið svokallaðan bíl með sál er aurasálir myndu kalla druslu og búið við þann slæma kosta að hafa aðeins um útvarpsstöðvar að velja, sem flestar spila eitthvað á þessa leið ,,nú á ég jólin með þér, með þér, með þér” eða ,,skildi það vera jólahjól” eða álíka viðbjóð þá er um að gera að klæða sig í leðurhanskana og stilla á 877 á Rondo, eðal Jazz og klassísk músík – breytir gömlu Toyotunni þinni í Benz.
Af geisladiskum er það auðvitað ,,Hús datt”. Jólin eru fjölskylduhátið en þurfa ekki að vera leiðinleg, hvernig væri að setja Megasukk á fóninn og eiga gott spjall um Megas við foreldra sína, það gæti leitt af sér ágæta slúðursögu um Meistarann eða mikið skítkast. Ykkur er að sjálfsögðu frjálst að commenta ef þið hafið góða sögu af Megasi. Diskurinn er líka góð jólagjöf fyrir afa og ömmu – þau eru ekki jafn viðkvæm og þið haldið, þau hafa gaman af drykkjusöngvum og þjóðlögum. Svo er auðvitað rétti tíminn eftir prófin að kúpla sig aðeins niður og taka Sigur Rós þrennu á þetta – leggjast upp í rúm með slökkt ljós og hlusta á ,,Ágætis Byrjun” ,,( )” og ,,Takk” eftir slíka 3 tíma törn ættu allir að vera orðnir vel afslappaðir og með hjartslátt á við skíðagöngumann í svefni... ykkur syndugu sálum sem kveinkið ykkur við Sigur Rós bendi ég á Best of diskinn með Leonard Cohen frá 1975 og svo er það auðvitað Norah Jones, jafnvel sofna yfir DVD tónleikum.
Ég veit svo að meðal lesanda leynast menn sem vilja bara sötra sinn jarðaberjasjeik og hlusta á trall lög um fuglanna og fiðrildin, Bob Dylan á nokkur slík lög sem vert er að rifja upp t.d. 1.,,Corrina, Corrina” 2.,,Girl of the North Country” 3.,,All I really want to do” 4. ,,To Ramona” 5. ,, I want you” 6. ,,New Morning” 7. ,,You ain´t going nowhere” og trall la la.

Erindi dagsins:
Meðan enn var önd í nösum
Engan fýsti að vita hið sanna
Skreyta líf sitt fíflin frösum
Fæstir djúpið meika að kanna

Athöfn dagsins:
Allir svo að muna að fara niður í kringlu og setja jólagjöf undir tréð. Feels good!
Kv. Helvítis Stiftamtmaðurinn.

laugardagur, desember 10, 2005

Ungfrú Heimur

Fréttaritari fylgdist grannt með keppninni ungfrú heimur á sjónvarpsstöðinni E TV.
Eftir keppnina tók sjónvarpsstöðin viðtal við hana þar sem meðal annars kom fram að það hafi verið lítið atvik fyrir nokkrum árum sem hafi orðið til þess að hún snéri blaðinu við, gefum Unni Birnu orðið:
,, Fyrir nokkrum árum var ég orðin frekar hirðulaus og löt, og sá í rauninni ekki mikinn tilgang í lífinu... ég var með flokk uppi í Breiðholti sem ég átti að stjórna. Ég mætti yfirleitt of seint enda drakk ég stíft á þeim tíma og svaf síðan bara í vinnunni. Það sem varð til þess að ég snéri blaðinu við var þegar háttsettur maður innan Reykjavíkurborgar hellti sér yfir mig og bað mig vinsamlegast um að taka mér tak - eftir þennan reiðilestur varð ég staðráðin í að láta eitthvað verða úr mér og hvað er betra en fegurðarsamkeppni til að sýna fram á að ég er fallegri og betri manneskja en flestir í þessum heimi. Ég vil koma þökkum til þessa mikla Meistara sem kom vitinu fyrir mig"
Fréttaritari mun reyna að leita þennan mann uppi og taka við hann viðtal, en þangað til þá þökkum við honum kærlega fyrir sitt framlag.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Verðlausar hórur til sölu

Viðbjóðslegu aumingjarnir í manutd duttu rétt í þessu út úr Meistaradeildinni.
Reka þetta helvítis fífl og selja alla leikmennina. Ráða Wenger og kaupa 20 góða 10 milljóna punda menn. Rooney má fara fyrir 40+ og Ronaldo fyrir eitthvað svipað. Aðrir sem má selja Nistelrooy, Park, Saha o.s.frv.
Scholes, Van der sar og Giggs mega hætta. Smith, Fletcher, O´Shea og Richardson mega rotna í helvíti. Aðra má einnig selja fyrir slikk.
Þetta er ekki mönnum bjóðandi að enda í neðsta sæti í riðli með Villareal, Benfica og Lille.
Breytingar NÚNA!!!

How do the angels get to sleep, when the devil leaves the porchlight on?

Klæðið ykkur í föt frá hjálpræðishernum, takið reimarnar úr skónum og setjið upp skítugann hatt.
Veltið ykkur upp úr brenndu víni, látið einhvern lemja úr ykkur tennurnar, baðið út höndunum alblóðug og misbeitið röddinni - syngið ,,Baba babara ra ba babararara rææææææ ééééé"
Jú þið gátuð ykkur rétt til Meistari Tom Waits á afmæli í dag og ef þetta hér að ofan er of mikil fyrirhöfn eða þið þekkið alls ekki hans verk - þá er kannski ágætt að hlusta á Closing Time
og kynnið ykkur Meistarann hér og hér
... The piano has been drinking, my necktie is asleep
And the combo went back to New York, the jukebox has to take a leak
And the carpet needs a haircut, and the spotlight looks like a prison break
Cause the telephone’s out of cigarettes, and the balcony is on the make(2)
And the piano has been drinking...