laugardagur, maí 29, 2010

Reynslan frá Grindavík

Undanfarnar vikur hef ég tekið þátt í mjög skemmtilegu verkefni. Við Viðar Guðjónsson tókum að okkur að vera einskonar kosningastjórar Lista Grindvíkinga og ég get sagt fyrir mig (og í rauninni okkur báða) að þessi reynsla hefur verið mjög góð. Ekki einungis að kynnast starfinu sjálfu í raun, heldur Grindvíkingum sjálfum sem eru eðalfólk - í það minnsta þau sem við kynntumst best (í Lista Grindvíkinga).

Lista Grindvíkinga tókst í fyrstu tilraun að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og VG. Það verður að teljast mjög gott. Ég vona að Listi Grindvíkinga taki þátt í því að færa landsmönnum góðar fréttir frá Grindavík, því að miðað við tækifærin þá á Grindavík að geta orðið öðrum bæjarfélögum fyrirmynd.

Ég tók upp Borgarafundinn í Grindavík fyrir þá sem vilja kíkja á hann.

Gangi ykkur öllum vel mínir kæru félagar í Lista Grindvíkinga, ég gleymi þessum tíma aldrei.

Er lífið ekki dásamlegt?

Flærðarsenna

Annars erindi rekur
úlfur löngum sannast það
læst margur loforðsfrekur
lítt verður úr þá hert er að
meðan slær orð við eyra
er þér kær vinur að heyra
sértu fjær þá er það ekki meira

slíkt eru hyggindi haldin
höfðingsskapur og menntin prúð
veröldin falsi faldin
fóðrar sinn kjól með skollahúð
lærð er á lymsku beglur
leynt sér hjá fann þær reglur
sem köttur sá er kreppir að hvassar neglur

oft er fagurt í eyra
alþýðulof af hræsni veitt
hinum er á það heyra
heimur þykir sem kálfskinn eitt
í augun greið hlæja og hlakka
hrósa um leið biðja og þakka
búin er sneið er snúa þeir við þér hnakka

heimskur er sá sem heldur
hvers manns lof sem fullgert sé
einfaldur oft þess geldur
alvöru meinar það hinum er spé
tryggðargjöld táls með korni
temprast köld nema við sporni
vinur í kvöld er vélar þig að morgni

heimurinn hrekkjafulli
handverk þetta mest nú brúkar nú
að fegra eir með gulli
út gengur honum myntin sú
orðaglens ei þarf kaupa
allir léns með það hlaupa
kossa flens kallsa ljúga raupa

Er lífið ekki dásamlegt?

sunnudagur, maí 23, 2010

Hvað á fjórflokkurinn að gera?

Fjórflokkurinn er í krísu, sinni verstu í sögu flokkakerfisins. Krísan endurspeglast í komandi kosningum þar sem Reykvíkingar í öllum sínum fjölbreytileika fagna því saman, þ.e. jafnt íhaldsmenn, frjálslyndir hægri menn, jafnaðarmenn og yfir í róttækustu vinstri menn að utanaðkomandi flokkur verði í lykilhlutverki. Þetta er stórt skref - að við þorum að taka það skref að hætta að kyssa vönd fjórflokksins, að við þorum að vera frjáls. Er raunveruleg ástæða þess að við ætlum að kjósa Besta flokkinn sú að sá flokkur muni stjórna betur? Svarið er nei (en hann mun ekki vera verri).

Ástæðan er sú að Reykvíkingar eru ósáttir við flokkana ,,sína", við stjórnunina undanfarin ár, við uppgjörið þeirra, stefnuleysi en jafnframt hrokann - sumir virðast hafa gleymt hjá hverjum þeir eru í vinnu. En hvað þarf fjórflokkurinn að gera?

Umfram allt þá þurfa flokkarnir að sýna auðmýkt. Hver og einn þarf svo að finna það hjá sér hvort að hann vill starfa af heilindum fyrir Íslendinga/Reykvíkinga eða sveitarfélag X. Sé sá neisti slokknaður eða að viðkomandi hefur minnsta grun um að nærveru hans sé ekki óskað þá ætti viðkomandi að stíga útaf sviðinu. Stór hluti af þingmönnum og sveitastjórnarmönnum á því að hætta í stjórnmálum og þeir sem gegna ábyrgarstöðum (t.d. í ríkisstjórn eiga að gefa það út að þau muni hætta um leið og ákveðin mál séu komin í farveg).

Gömlu flokkarnir verða að taka skellinn í þessum kosningum. Sleppa takinu og skítkastinu í garð nýrra flokka, vilji þeir raunverulega halda lífi eftir þær. Hver og einn flokkur ætti að setja stóra auglýsingu í blöðin og á sjónvarpsstöðvar strax eftir kosningarnar í næstu viku þar sem landsmenn eru beðnir afsökunar á því sem hefur gerst, ekki vegna þess að það sé PR-lega gott heldur einungis ef að þeir raunverulega meina það og að framundan séu raunverulegir uppgjörstímar.

Flokkarnir eiga að drífa það af að koma á óháðu stjórnlagaþingi og halda svo í framhaldinu landsþing. Verði útkoman sú að þátttaka almennings verði ennþá dræm og óánægjan mikil þá verður að íhuga þann möguleika að auðkenni flokkana sjálfra sé svo laskað að það taki því ekki að halda þeim á lífi undir núverandi nöfnum - það myndi auk þess gefa mörgum frelsandi tækifæri til að finna hugsjónum sínum réttan farveg.

Þangað til eitthvað af þessu gerist mun stór hluti landsmanna halda áfram að hlæja að flokkunum, sérstaklega hátt þann 29. maí, um leið og þeir vorkenna þeim þrælum sem ætla að kyssa á vöndinn enn eina ferðina.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, maí 16, 2010

Réttur foreldra til að ákvarða kyn

Sóley Tómasdóttir komst í fréttirnar nýlega fyrir vafasöm ummæli um son sinn en mér leikur forvitni á að vita hvar svar lesenda liggur varðandi ,,rétt" foreldra til að ákvarða kyn ófæddra afkvæma sinna?

Þrátt fyrir tímabundnar hörmungar og bakslag þá lifum við í frjálslyndum heimshluta þar sem foreldrar hafa lagalegan rétt til að ákvarða hvort að þau fari í fóstureyðingu ef að í ljós kemur í skoðun að fóstur er með down syndrome og flest okkar samþykkjum það. Hvað með þann rétt eða frelsi foreldra til að ákvarða kyn eða fóstureyðingu á öðru kyninu (eins og ef að SóleyTómasdóttir hefði mátt eyða drengnum/karlkyns fóstri sínu kynsins vegna)?

Vísindablaðamaðurinn Anjana Ahuja veltir þessu upp í veftímaritinu Prospect

Er lífið ekki dásamlegt?

föstudagur, maí 07, 2010

Við sjáum myndband

Sam Harris: Science can answer moral questions

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,