þriðjudagur, júní 30, 2009

Þriðju vonbrigði sumarsins?







Eftir að Ronaldo og Tevez yfirgáfu United hefði mátt búast við því að fyrstu kaup sumarsins yrði ung stórstjarna og/eða markaskorari. Fyrstu kaup United þetta sumarið eru hins vegar Antonio Valencia á 16 milljónir punda - vonbrigði. Í fyrsta lagi er það hrottalegur peningur (enda Real búið að eyðileggja þetta sumar með tveimur risakaupum sem hafa nánast tvöfaldað verðgildi allra leikmanna) en auk þess er Valencia í augnablikinu ekki mikið meira en squad-player fyrir heimsklassa lið og United hafði þegar Park, Tosic, Nani og jafnvel Giggs til að leysa af þær tvær kantstöður en það vantar tvo byrjunarliðsmenn á kantana... því verður ekki annað séð en að United hafi magn fram yfir gæði í þeirri stöðu. Þar að auki er Valencia ekki Englendingur (ekki einu sinni Evrópubúi) en framundan er 6+5 reglan, að mínu mati hefðu nokkrar milljónir í viðbót fyrir A. Young því verið mun betri fjárfesting (en sá enski er auk þess mun betri leikmaður). En það þýðir ekki að gráta þessi vonbrigði, vonandi munu næstu vikur færa okkur tvær til þrjár stórstjörnur svo að United haldi sér áfram á toppnum.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 28, 2009

Sigur Rós - Samskeyti (Heima)

föstudagur, júní 26, 2009

The Guests

þriðjudagur, júní 23, 2009

Facebook blogg

Svangur

sunnudagur, júní 21, 2009

DiscoHouse Flashback

LA Lakers - 2009 Champions

laugardagur, júní 20, 2009

Tevez farinn

Jæja, þá er ljóst að Tevez hefur endanlega spilað sinn síðasta leik fyrir United, allt tal um að hann vilji fá að spila oftar er einungis yfirvarp yfir það að hann og eigandi hans eru (eins og svo margir) peningaóðir apar. Tevez átti gott fyrsta ár hjá United en fékk færri tækifæri á nýliðnu tímabili og var hreinlega slakur alltof oft. 25 milljónir punda plús launakostnaður var því of mikið fyrir senter sem er ekki fæddur skorari og hefur sagst vilja eiga síðustu góðu árin í Argentínu (sem hefði þýtt 5-6 ár max hjá United).
Það sem er verra, er að United mun ekki fá (miðað við markaðinn í sumar) betri mann fyrir þennan pening en á móti kemur endurnýjun sóknarlega sem þörf var orðin á, enda hefur sóknarleikur liðsins orðið fyrirsjáanlegri á síðustu tveimur árum (2006-2007 skoraði United 83 mörk í deildinni, 80 árið 2007-2008 og einungis 68 á nýliðnu tímabili).
Ég ætla að spá því hér með að United fari ,,back2black" sóknarlega, enda löngu tímabært að sjá beinskeytta svarta sentera hrúga inn mörkum að hætti Cole og Yorke.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, júní 19, 2009

Menn hafa spurt: ,,Hvernig leið þér þegar Ronaldo var seldur?"

Nákvæmlega svona

þriðjudagur, júní 16, 2009

Post Ronaldo

Formáli: Það eru tvær andstæður sem berjast innra með mér í dag, annars vegar hið yfirvegaða og hins vegar kaupóði trúðurinn (vantar góða þýðingu á transfer muppet). Ég ætla að hleypa þeim báðum út í þessum pistli um hvað tekur við eftir brottför Ronaldo.

Hið yfirvegaða

Þrjú ár í röð hefur United nú unnið enska titilinn, engu öðru liði hefur tekist það frá stofnun ensku Úrvalsdeildarinnar, aðeins örfáum öðrum liðum í sögu ensku knattspyrnunar og engu þeirra hefur tekist að vinna fjórum sinnum í röð.

Fyrsti titillinn í þessari hrynu árið 2006-2007 kom á tímabili þar sem enginn bjóst við því að United yrði meistari. Árið áður hafði fyrirliðinn Keane horfið á braut á miðju tímabili og um sumarið hafði Real Madrid keypt markamaskínuna Nistelrooy sem hafði verið markahæsti maður United fjórum sinnum á fimm árum (hið fimmta var hann mikið frá). Sá eini sem kom í stað þessara miklu meistara var (að margra mati miðlungs leikmaðurinn) Carrick. Það sem gerðist hins vegar á þessu ári var að liðið í heild sinni, einkum ungu leikmennirnir stigu upp og þrátt fyrir að uppskeran hafi í titlum ekki verið eins mikil og síðustu á tveimur árum (,,einungis” enski titillinn) þá var þetta að mínu mati besta árið knattspyrnulega af þessum þremur.

Nú hefur United misst besta knattspyrnumann heims, leikmann sem liðið hefur treyst á (stundum of mikið) að klára leikina. Málið er einfalt, liðið þarf aftur á ný að stíga upp og það er nóg af mönnum sem eiga fullt inni. Án áfalla verður vörnin áfram solid, á miðjunni geta allir tekið Fletcher sér til fyrirmyndar og stigið upp. Carrick þarf að finna gamla formið og Anderson þarf að sýna að hann geti borið uppi lið hugmyndafræðilega. Á kantinum þarf Nani að sýna líkt og Anderson að hann hafi United gæði og geti haldið liðinu á toppnum. Á toppnum hvílir mikil ábyrgð á Rooney og hann veit það – þetta er ekki lengur liðið hans Ronaldo þetta er hans eigið lið, við hlið hans verður latur Búlgari að sanna að hann sé einhvers virði. Þetta í bland við reynslu gömlu mannanna sem kreista út síðustu galdranna í sínum töfrabókum mun verða uppistaðan á komandi leiktíð… ekki nýjir leikmenn. Eflaust kemur einhver/einhverjir en enginn ætti að tapa sér í getgátum í sumar eða búast við því að það verði leikmannabylting á Old Trafford. Í besta falli sjáum við tvo góða og reynslumikla leikmenn í einhverjum af eftirfarandi þremur stöðum: senter, kantmaður og sókndjarfur miðjumaður, að öðru leyti mun Ferguson halda áfram að safna upp efnilegum leikmönnum til framtíðar. Hryggjasúlan verður engu að síður Vds, Ferdinand, Vidic, Evra (jafnvel Brown), Carrick (jafnvel Fletcher eins og í ár), Rooney (og vonandi Berbatov).

Kaupóði trúðurinn

Nú þegar stærsti hluti Ronaldo áfallsins hefur gengið yfir Manchester borg þá spyrja menn sig hvað sé framundan og hverjir verði keyptir. Í umræðunni eru ansi margir leikmenn sem orðaðir eru við liðið og hafa þeir þó venjulega verið alltof margir hvert sumar.

Í stöðu markmanns hefur Buffon verið nefndur til sögunnar, Glen Johnson í stöðu hægri bakvarðar (kemur varla úr þessu), í stöðu miðvarðar/vinstri bakvarðar hefur franska ungstirnið Mamadou Sakho verið nefndur og sömuleiðis brasilíski pilturinn Dodo. Á kantana hafa Ribery, Silva og Valencia verið nefndir sem líkleg kaup og í stöðu senters Eto´o og Benzema.

En í hvaða stöður vantar United leikmenn? Vissulega væri Buffon fyrirmyndar arftaki fyrir Vds en á þessu stigi er það einungis slúður. Þegar litið er á stöðu hægri bakvarðar er ljóst að United vantar ekki hægri bakvörð enda með Brown og Rafael (plús O´Shea) til að fylla þá stöðu, Glen Johnson er fínn, ungur og enskur en fer sennilega á uppsprengdu verði (15-20 milljónir). Að fá ungan miðvörð væri fínt enda Ferdinand meiðslagarmur. Dodo kaupin eiga að vera á lokastigi en hann er einungis 17 ára á meðan Sakho er 19 ára og hefur þegar spilað sem fyrirliði hjá PSG í Frakklandi.

Ég hef enga trú á því að Ribery fari til United og því miður ekki Silva heldur og fyrir mér er Valencia ekki meira en varaskeifa og aldrei neinn arftaki fyrir Ronaldo. Ribery fer aldrei á minna en 40 milljónir punda (sem væri rugl) og Silva væri þá skárri kostur á ca. 25 milljónir en ég held að hann vilji fremur fara í Real eða Barca fyrst að spænska deildin er að verða sú sterkasta. En ég er að vona að Ashley Young komi til sögunnar, enda ungur og enskur (sem fer að verða mikilvægt með 6+5 reglunni), það eru 20 milljónir miðað við markaðinn í dag. Young, Giggs, Nani og Park ættu að vera nóg (og svo Tosic og Ljajic á undirbúningsstigi)

Á miðjuna vantar United mann og það er skrýtið að nánast enginn hafi verið nefndur þar til sögunnar. Carrick og Fletcher verða áfram og Anderson þarf að sanna sig en svo er einungis Scholes á lokametrunum og útlit fyrir að næsti vetur verði önnur vonbrigði með Hargreaves (því miður), það eru víst góðar líkur á því að Gibson færi sig niður um deild og gott tímabil hjá Possebon væri einungis bónus. United vantar því sóknarþenkjandi miðjumann fari svo að Anderson klikki. Ég væri til í að sjá 20 milljóna punda tilboð í Alonso, svona til gamans og ekki væri verra að sjá 40 milljón punda tilboð í Fabregas og láta þannig reyna á Wenger. Á síðustu dögum hefur Douglas Costa (18 ára brasilískur framliggjandi miðjumaður/kantmaður) verið orðaður við United sem arftaki Ronaldo.

Sóknarlega er nokkuð ljóst að Tevez verður ekki áfram og því einungis Rooney og Berbatov til staðar, plús unglingarnir Welbeck og Macheda. Benzema verður alltaf 40 milljóna punda kaup og því gæti Eto´o verið lausnin enda er hann með lausan samning eftir ár, 28 ára og 20 milljónir punda gætu verið nóg (sem gæfi þá Welbeck og Macheda tíma til að þroskast inn í byrjunarliðið, Welbeck jafnvel lánaður í smærra úrvalsdeildarlið). Kallið mig klikkaðan en ef að Eto´o kaupin gengu eftir væri ég til í að sjá 10 milljóna punda tilboð í Henry, jafnvel þó að hann verði 32 ára í haust – hann gæti átt nokkur góð spariár eftir.

Í óraunverulegum heimi, oft kallaður Real Madrid heimurinn færi sumarið því svona:

Buffon 15-20 milljónir
Dodo 6 milljónir (það verð sem talað er um)
Alonso 20-25 milljónir
Young 20 milljónir
Eto´o 20 milljónir
Henry 10 milljónir

Önnur útgáfa gæti verið

Buffon 15-20 milljónir
Fabregas 40 milljónir
Young 20 milljónir
Douglas Costa 20 milljónir
Henry 10 milljónir

Samtals ca 90-110 milljónir sem er söluverð á Ronaldo plús hinar hefðbundnu 20 milljónir (og svo söluverð á Cambell 6-7 milljónir, Gibson talað um 5 milljónir og svo minni fjárhæðir fyrir Danny Simpson, Lee Martin o.s.frv.).

Ef lífið væri svona einfalt?

Raunhæft sumar: Eto´o/Benzema, Young og Dodo (Anderson fær séns, Giggs og Scholes kreista fram síðustu dropana og nýr miðjumaður og markvörður bíða til næsta árs). Spurning með Costa.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

mánudagur, júní 15, 2009

Lakers meistarar

Eftir fremur brösugt gengi í úrslitakeppninni, mættu leikmenn Lakers til leiks sem lið í úrslitaeinvígið og þá var strax ljóst hvert stefndi. Gasol, Odom, Ariza og Fisher áttu mjög gott úrslitaeinvígi en auðvitað bar Kobe liðið uppi.
Allir voru að standa sig að undanskyldum Bynum sem olli vonbrigðum en það gleymist þó oft að barnið er eingöngu 21 árs, en hann er engu að síður búinn að gera það sem Patrick Ewing tókst aldrei - að vinna titil (með kveðju til Svíþjóðar) en sá síðarnefndi kom ekki í deildina fyrr en hann var 23 ára.
Nú vona aðdáendur Lakers að eigendur liðsins láti ekki einhvern ,,skitinn skatt" á sig fá og haldi liðinu saman, annars er ljóst að annað hvort Odom eða Ariza hafa spilað sinn síðasta leik. Ég heimta að liðinu verði haldið saman og að Celtics fari í úrslitin á næsta ári, það þarf að leiðrétta síðasta ár... svo getum við pakkað saman Lebron þegar það er afstaðið.
























Eru Lakers ekki dásamlegir?

Efnisorð: , ,

föstudagur, júní 12, 2009

Sigur Ros - Olsen Olsen (Heima)

Gæsahúð...

Áratugur - dagur sem skók Íslandssöguna

Ég tengi oftast árið 1999 við miklar breytingar í mínu lífi, það má jafnvel ganga svo langt að tala um Bjarna fyrir og eftir þetta ár. Ég áttaði mig á því hvaða veg ég ætlaði að ganga í lífinu, hætti við að verða íþróttafræðingur og ákvað að henda mér inn í félagsvísindin. Ég gerðist svo kræfur að stofna til sambanda við kvenfólk (yfirleitt mjög barnaleg að minni hálfu) og þroskaðist af löngu tímabærri refsingu á knattspyrnuvellinum... svona til að nefna eitthvað. Ekki voru síðri utanaðkomandi þættir, ber þar að nefna tvennt. Annars vegar vann United þrennuna góðu en að mínu mati gekk liðið þá í gegnum glerþakið og varð það heimsveldi sem það er enn í dag en ekki síðra var hið ævilanga ástarsamband sem nú hefur varað í áratug.

Ég er að sjálfsögðu að tala um fyrstu alvöru plötu frá bestu hljómsveit í heiminum, en platan Ágætis byrjun kom út á þessum degi árið 1999. Fyrir þann tíma hafði ég hlustað á hiphop, danstónlist og funk. Ég man eftir að hafa bölvað óstjórnlega mikið við það að hlusta á remix af laginu ,,Leit að lífi”sennilega sumarið áður, en svo breyttist allt. Ný battery var fyrsta lagið sem ég heyrði af plötunni og ég hreifst með. Ég fór svo með fríðum hópi manna að sjá GusGus í flugskýli 4 þann 20. febrúar 1999 og við náðum tveimur lögum með Sigur Rós, blossi kveiknaði. Síðar um vorið brast stíflan; ég lá uppi í rúmi inni í herberginu mínu í Fífuselinu góða og var að hlusta á funk þáttinn (hans Þossa) og skyndilega var hljómsveitin mætt í létt spjall. Eftir lauflétta kynningu voru lögin ,,Flugufrelsarinn” og svo ,,Viðrar vel til loftárása” frumflutt í útvarpi – ég gerði mér strax grein fyrir að um þáttaskil væri að ræða í mínu lífi (dramatískt?).
Ég man að ég var staddur inni í Hljómalind á afmælisdeginum mínum og horfði á Kidda sem kenndur var við búðina rífa upp pappakassa og selja mér gripinn góða, síðan þá hafa eintökin orðið þrjú hvort öðru slitnara eftir endalausa spilun. Síðan er liðinn áratugur og Sigur Rós hefur ekki enn stigið feilspor hvorki á sviði né í útgáfu á þremur öðrum breiðskífum og ýmsu öðru efni.
Enn þann dag í dag tengi ég flestar minningar áranna 1999-2002 við Sigur Rós t.a.m. ógleymanleg sumur á B4 ásamt Hagnaði, Keðjunni, Dauðanum, Óla Þóris, Bigga og fleiri góðum mönnum.

Það má blaðra margt um hljómsveitina og vera hástemmdur en best er auðvitað að leyfa tónlistinni að tala; AFO náði kjarnanum í hnotskurn þegar hann sagði: Það er einungis eitt sem Sigur Rós hefur umfram allar aðrar hljómsveitir í heiminum... að búa til betri tónlist.

Við hinir kinkum kolli brosandi og segjum: Attjúúúúú iiii aaa iii i í

Starálfur

Til hamingju með daginn!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

fimmtudagur, júní 11, 2009

Svartur fimmtudagur fyrir United menn

Þegar þetta er skrifað 11. júní 2009 lítur út fyrir að besti knattspyrnumaður í heimi, C. Ronaldo hafi verið seldur til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda - raflost, sleggja í andlitið, yfirvofandi dauði? Það kann einhverjum að þykja mikill peningur (söluverð á Newcastle) en ekki er ólíklegt að skaðinn verði mun meiri fyrir United og ég spái því að Real muni fá þetta margfalt til baka í formi treyjusölu rétt eins og með Beckham. Ég átti alls ekki von á að þetta myndi gerast í bráð og var nokkuð vissum að hann myndi spila fyrir United þar til Ferguson hætti með liðið.
Þetta gerir það einnig að verkum að Liverpool eru núna líklegastir í augnablikinu til að verða meistarar og því gæti fylgt breytt valdahlutföll titlalega séð í komandi framtíð, United á engan leikmann í sama gæðaflokki og Torres og Gerrard.
Ég hef ekki hugmynd um hvað Manchester United og Ferguson eru að spá, félagið hlýtur að vera með mörg stór nöfn í sigtinu því að þetta er óásættanlegt, Ronaldo á sér engan eftirmann og afleiðingarnar gætu orðið mun verri en tap upp á 80 milljónir. Það er einnig skrýtið að gera þetta eftir að Kaka er farinn til Real, því að sá maður hefði getað deyft höggið. Hverjir eru annars líklegir? Ribery? Benzema? Tevez? Villa? Silva? Aguero? Þrír af þessum á 80 milljónir (plús hinar hefðbundnu 15-25 milljónir)?
Er farinn að sofa, vonandi er þetta slæmur draumur.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

mánudagur, júní 08, 2009

'Pequeño vals vienés'

Fyrir ástkæru vini mína Andra og Lindu, takk fyrir ógleymanlegt kvöld. Megi ástin verða ykkur allt að vopni á komandi augnablikum og áratugum. Ég tek að ofan að hætti kanadíska Zen undursins, fullur af lotningu - Svífið áfram um salina.

Ástarkveðja Bjarni Þór.

mánudagur, júní 01, 2009

Uppgjör

Nú líður senn að uppgjöri. Síðasti vinnudagurinn á núverandi vinnustað liðinn og síðasta önnin í MA-náminu einnig. Við tekur aðlögunartímabil en strax á morgunn mun ég hefja störf á Kleppi og skólalega bíður örnámskeið, MA-ritgerð og að lokum haustpróf. Þrjár einkunnir komnar í hús 8,5 , 9 og 9,5 - með bestu einkunnina í tveimur fögum og þá næstbestu í því þriðja. Meðaleinkunn er því 9 sem er sama tala og sá kílóa sem ég hef bætt við mig á þessari önn - ræktin Tjörvi?

Haustið er hins vegar óráðið, vonandi kemst ég inn í kennsluréttindin og allir þeir sem luma á vinnu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband. Að öðru leyti hyggst ég koma með löngu tímabært comeback inn í það samfélag manna sem kallast ,,vinahópurinn", þ.e. verði ég boðinn þangað velkominn.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: