Formáli: Það eru tvær andstæður sem berjast innra með mér í dag, annars vegar hið yfirvegaða og hins vegar kaupóði trúðurinn (vantar góða þýðingu á transfer muppet). Ég ætla að hleypa þeim báðum út í þessum pistli um hvað tekur við eftir brottför Ronaldo.
Hið yfirvegaðaÞrjú ár í röð hefur United nú unnið enska titilinn, engu öðru liði hefur tekist það frá stofnun ensku Úrvalsdeildarinnar, aðeins örfáum öðrum liðum í sögu ensku knattspyrnunar og engu þeirra hefur tekist að vinna fjórum sinnum í röð.
Fyrsti titillinn í þessari hrynu árið 2006-2007 kom á tímabili þar sem enginn bjóst við því að United yrði meistari. Árið áður hafði fyrirliðinn Keane horfið á braut á miðju tímabili og um sumarið hafði Real Madrid keypt markamaskínuna Nistelrooy sem hafði verið markahæsti maður United fjórum sinnum á fimm árum (hið fimmta var hann mikið frá). Sá eini sem kom í stað þessara miklu meistara var (að margra mati miðlungs leikmaðurinn) Carrick. Það sem gerðist hins vegar á þessu ári var að liðið í heild sinni, einkum ungu leikmennirnir stigu upp og þrátt fyrir að uppskeran hafi í titlum ekki verið eins mikil og síðustu á tveimur árum (,,einungis” enski titillinn) þá var þetta að mínu mati besta árið knattspyrnulega af þessum þremur.
Nú hefur United misst besta knattspyrnumann heims, leikmann sem liðið hefur treyst á (stundum of mikið) að klára leikina. Málið er einfalt, liðið þarf aftur á ný að stíga upp og það er nóg af mönnum sem eiga fullt inni. Án áfalla verður vörnin áfram solid, á miðjunni geta allir tekið Fletcher sér til fyrirmyndar og stigið upp. Carrick þarf að finna gamla formið og Anderson þarf að sýna að hann geti borið uppi lið hugmyndafræðilega. Á kantinum þarf Nani að sýna líkt og Anderson að hann hafi United gæði og geti haldið liðinu á toppnum. Á toppnum hvílir mikil ábyrgð á Rooney og hann veit það – þetta er ekki lengur liðið hans Ronaldo þetta er hans eigið lið, við hlið hans verður latur Búlgari að sanna að hann sé einhvers virði. Þetta í bland við reynslu gömlu mannanna sem kreista út síðustu galdranna í sínum töfrabókum mun verða uppistaðan á komandi leiktíð… ekki nýjir leikmenn. Eflaust kemur einhver/einhverjir en enginn ætti að tapa sér í getgátum í sumar eða búast við því að það verði leikmannabylting á Old Trafford. Í besta falli sjáum við tvo góða og reynslumikla leikmenn í einhverjum af eftirfarandi þremur stöðum: senter, kantmaður og sókndjarfur miðjumaður, að öðru leyti mun Ferguson halda áfram að safna upp efnilegum leikmönnum til framtíðar. Hryggjasúlan verður engu að síður Vds, Ferdinand, Vidic, Evra (jafnvel Brown), Carrick (jafnvel Fletcher eins og í ár), Rooney (og vonandi Berbatov).
Kaupóði trúðurinn
Nú þegar stærsti hluti Ronaldo áfallsins hefur gengið yfir Manchester borg þá spyrja menn sig hvað sé framundan og hverjir verði keyptir. Í umræðunni eru ansi margir leikmenn sem orðaðir eru við liðið og hafa þeir þó venjulega verið alltof margir hvert sumar.
Í stöðu markmanns hefur Buffon verið nefndur til sögunnar, Glen Johnson í stöðu hægri bakvarðar (kemur varla úr þessu), í stöðu miðvarðar/vinstri bakvarðar hefur franska ungstirnið Mamadou Sakho verið nefndur og sömuleiðis brasilíski pilturinn Dodo. Á kantana hafa Ribery, Silva og Valencia verið nefndir sem líkleg kaup og í stöðu senters Eto´o og Benzema.
En í hvaða stöður vantar United leikmenn? Vissulega væri Buffon fyrirmyndar arftaki fyrir Vds en á þessu stigi er það einungis slúður. Þegar litið er á stöðu hægri bakvarðar er ljóst að United vantar ekki hægri bakvörð enda með Brown og Rafael (plús O´Shea) til að fylla þá stöðu, Glen Johnson er fínn, ungur og enskur en fer sennilega á uppsprengdu verði (15-20 milljónir). Að fá ungan miðvörð væri fínt enda Ferdinand meiðslagarmur. Dodo kaupin eiga að vera á lokastigi en hann er einungis 17 ára á meðan Sakho er 19 ára og hefur þegar spilað sem fyrirliði hjá PSG í Frakklandi.
Ég hef enga trú á því að Ribery fari til United og því miður ekki Silva heldur og fyrir mér er Valencia ekki meira en varaskeifa og aldrei neinn arftaki fyrir Ronaldo. Ribery fer aldrei á minna en 40 milljónir punda (sem væri rugl) og Silva væri þá skárri kostur á ca. 25 milljónir en ég held að hann vilji fremur fara í Real eða Barca fyrst að spænska deildin er að verða sú sterkasta. En ég er að vona að Ashley Young komi til sögunnar, enda ungur og enskur (sem fer að verða mikilvægt með 6+5 reglunni), það eru 20 milljónir miðað við markaðinn í dag. Young, Giggs, Nani og Park ættu að vera nóg (og svo Tosic og
Ljajic á undirbúningsstigi)
Á miðjuna vantar United mann og það er skrýtið að nánast enginn hafi verið nefndur þar til sögunnar. Carrick og Fletcher verða áfram og Anderson þarf að sanna sig en svo er einungis Scholes á lokametrunum og útlit fyrir að næsti vetur verði önnur vonbrigði með Hargreaves (því miður), það eru víst góðar líkur á því að Gibson færi sig niður um deild og gott tímabil hjá Possebon væri einungis bónus. United vantar því sóknarþenkjandi miðjumann fari svo að Anderson klikki. Ég væri til í að sjá 20 milljóna punda tilboð í Alonso, svona til gamans og ekki væri verra að sjá 40 milljón punda tilboð í Fabregas og láta þannig reyna á Wenger. Á síðustu dögum hefur
Douglas Costa (18 ára brasilískur framliggjandi miðjumaður/kantmaður) verið orðaður við United sem arftaki Ronaldo.
Sóknarlega er nokkuð ljóst að Tevez verður ekki áfram og því einungis Rooney og Berbatov til staðar, plús unglingarnir Welbeck og Macheda. Benzema verður alltaf 40 milljóna punda kaup og því gæti Eto´o verið lausnin enda er hann með lausan samning eftir ár, 28 ára og 20 milljónir punda gætu verið nóg (sem gæfi þá Welbeck og Macheda tíma til að þroskast inn í byrjunarliðið, Welbeck jafnvel lánaður í smærra úrvalsdeildarlið). Kallið mig klikkaðan en ef að Eto´o kaupin gengu eftir væri ég til í að sjá 10 milljóna punda tilboð í Henry, jafnvel þó að hann verði 32 ára í haust – hann gæti átt nokkur góð spariár eftir.
Í óraunverulegum heimi, oft kallaður Real Madrid heimurinn færi sumarið því svona:
Buffon 15-20 milljónir
Dodo 6 milljónir (það verð sem talað er um)
Alonso 20-25 milljónir
Young 20 milljónir
Eto´o 20 milljónir
Henry 10 milljónir
Önnur útgáfa gæti verið
Buffon 15-20 milljónir
Fabregas 40 milljónir
Young 20 milljónir
Douglas Costa 20 milljónir
Henry 10 milljónir
Samtals ca 90-110 milljónir sem er söluverð á Ronaldo plús hinar hefðbundnu 20 milljónir (og svo söluverð á Cambell 6-7 milljónir, Gibson talað um 5 milljónir og svo minni fjárhæðir fyrir Danny Simpson, Lee Martin o.s.frv.).
Ef lífið væri svona einfalt?
Raunhæft sumar: Eto´o/Benzema, Young og Dodo (Anderson fær séns, Giggs og Scholes kreista fram síðustu dropana og nýr miðjumaður og markvörður bíða til næsta árs). Spurning með Costa.
Er lífið ekki dásamlegt?
Efnisorð: Knattspyrna, Lífið, Manchester United