Hugmyndin var sú að eftir Parísarför mína nú nýlega sem ég mun setja í ferðasöguform hér sem fyrst að ég myndi innbyrða stóran skammt af endurútgefnu efni eftir Meistara Megas og að reyna að láta þann pakka duga fram að jólum. Vissulega er ég byrjaður að hlusta, Rauðar rútur í kassagítarútgáfu af ,,Hættulegri hljómsveit& glæpakvendið Stella" hefur hljómað óspart betri helmingnum bráðlega til mikillar ógleði og eins hún Marta Smarta en diskurinn langt því frá kominn af matarstellinu og meirihluti hennar nánast óplægður akur. Að auki á ég þá inni ,,Þrjá blóðdropa" og ,,Greinilegur púls".
Ástæða þess er hin magnaða ,,safnplata" Tom Waits
,,Orphans:Brawlers, bawlers and bastards" sem er alveg hreint mögnuð. Nú hef ég yfirleitt verið talsmaður ballöðuhluta Tom Waits (þó nú nýverið hafi ég einnig farið að éta upp surrealísku geðveikina) og á
bawlers sem inniheldur 20 lög fær maður nánast 20 nýjar ótrúlega ljúfar ballöður sem hver listamaður gæti verið hreykinn af hefði hann einungis samið þær 20 á öllum sínum ferli. Það sem ég hafði t.d. látið framhjá mér fara er að Tom Waits samdi ,,Long way home" sem er kannski betur þekkt í flutningi Noruh Jones á hennar síðasta disk. Aðdáendur diska á borð við ,,Closing Time" ættu að fá andlega og jafnvel líkamlega fullnægingu yfir þessum disk. Í rauninni hef ég verið svo upptekinn af ,,bawlers" að ,,Brawlers" og ,,bastards" hafa að mestu legið til hliðar.
Á
Brawlers má þó nefna opnunarlagið, ,,Lie to me" sem er spíttuð súrrealískt Elvis geðveiki, ballöðuna ,,Bottom of the world" sem einhver Norah Jones framtíðarinnar mun eflaust flytja með sinni flauelsrödd og græða geðveikt á, ,,Lucinda" nútíma beatboxblús geðveikislega flott, djöfullega gospellagið ,,Lord I´ve been changed", ,,Road to peace" er blúsaðað skot á Bush og gæti þess vegna verið samið og sungið af Mugison (sem dæmi um það hvað hann er langt frá stöðnun), ,,Walk away" gæti þess vegna hafa verið flutt af Muddy Waters fyrir 50 árum síðan, ,,Rains on me" er svo geðveikur fyllerísslagari í rosalegri útgáfu, ,,Jayne´s blue wish" hefði passað vel á eitt af meistaraverkum tónlistasögunnar frumburðinn ,,Closing Time" og ,,Young at heart" rekur lestina sem falleg Hawaii ballaða - þetta voru svona helstu lögin og innan um lög sem flestir meistarar þessa heims gætu verið fullsáttir við að hafa samið.
Á
bastards er að finna ennþá meiri geðveiki en á brawlers, nýbakaðir foreldrar ættu að þýða ,,Children Story" og segja sínum afkvæmum til að herða þau upp og undirbúa undir þessa oft á tíðum ömurlegu veröld, ,,Books of Moses" verður líklega í náinni framtíð samplað af einhverjum tölvutónlistargeðsjúklingi og haft undir rappi, ,,Bone Chain" sýnir hversu miklu listrænu frelsi Waits býr yfir, ,,Home I´ll never be" er ballaða með gömlum hljóm og afsannar það sem Dylan sagði eftir síðustu plötu að það sé ekki lengur hægt að taka upp lög með alvöru hljómi og ,,On the road" undirstrikar það enn frekar, ,,Altar boy" er falleg ballaða, ,,King Kong" er eitt af nokkrum ónefndum nýstárlegum lögum Waits sem eru hugsanlega ekki fyrir alla - en þó þá sem þora að prófa eitthvað nýtt, að lokum eru nokkrar frásagnir sem mér finnst afar skemmtilegar í bland við þessa geðveiki og guðdómleika.
Tom Waits sem verður 57 ára þann 7.des sýnir með þessum þremur diskum hversu rosalegur lagahöfundur hann er og mun opnari fyrir nýjungum og að blanda hlutum saman en flestir ungir tónlistamenn. Fyrir Tom Waits byrjendur væri miðjuplatan ,,bawlers" og áðurnefnt meistaraverk ,,Closing Time" fullkomin byrjun á löngum og farsælum aðdáendaferli. Brawlers er að hluta til fyrir lengra komna og bastards er sennilega fyrir alla hörðustu og skítugustu bastarðana sem elska Tom Waits. Tom Waits er hér með kominn á sama stall hjá mér og Dylan og Megas og á svo sannarlega skilið ,,Meistara" tignina. Hann lengi lifi.