þriðjudagur, mars 31, 2009

Nýja Bob Dylan lagið Beyond Here Lies Nothin'

Er hægt að vera svalari?

mánudagur, mars 30, 2009

Skjótt skipast veður...

Hver hefði trúað því fyrir tveimur árum í miðju ,,góðærinu" þegar Sjálfstæðisflokkurinn var að sveiflast í átt að miðju og verða frjálslyndari eftir valdatíma Davíðs, fremur jákvæður í garð ESB en taldi óþarfi að sækja um að svo stöddu og Steingrímur J. var einangraður í þjóðrembu á vinstri vængnum í vonlausri stjórnarandstöðu að tveimur árum síðar eftir þjóðargjaldþrot yrði Sjálfstæðisflokkurinn einangraður þjóðrembuflokkur og að Steingrímur J. myndi opna á þann möguleika að ganga með Samfylkingunni inn í ESB. Og ef svo verður, hvaða sögulegu staðreyndir ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vísa til í framtíðinni a) þjóðargjaldþrots eða b) þeirrar vestrænu samvinnu sem felst í tilgangslítilli aðild að NATO?
EF (stórt EF) vinstri flokkarnir ná saman meirihluta og EF (annað stórt EF) þeir koma Íslandi inn í ESB þá gæti falist í því grundvallarbreyting í íslenskum stjórnmálum.
Að lokum, Bjarni Ben gefur Repúblikönunum í Sjálfstæðisflokknum merki um að hann sé í þeirra liði.

















I´m not a crook!












Er lífið ásættanlegt?

Efnisorð:

laugardagur, mars 28, 2009

Stjórnmál, stjórnmál, stjórnmál...

Eins leiðinleg og stjórnmál geta verið þá geta þau einnig verið skemmtileg. Þessi helgi átti væntanlega að vera helgin sem Bjarni Ben og Dagur B. stigu að alvöru fram á sjónarsviðið sá fyrrnefndi sem nýr formaður Sjálfstæðisflokksins og sá síðarnefndi sem nýr varaformaður (sem hann er orðinn) - hvort tveggja mun rætast en kastljósið hefur beinst að öðrum.
Já tveir reyndir pólitíkusar stálu senunni þessa helgina (þó hún sé ekki liðin) en með ólíkum hætti þó. Jóhanna Sigurðardóttir vinsælasti stjórnmálamaður landsins flutti einhverja flottustu ræðu sem menn hafa heyrt á meðan óvinsælasti Seðlabankastjóri í sögu mannkynsins Davíð Oddsson flutti einhverja þá hlægilegustu skítkastsræðu sem kastað hefur verið.
Jóhanna lýsti því yfir að hún yrði ekki formaður upp á punt og minnti menn á að fyrirmynd hennar og amma hefði ekki hætt í stjórnmálum fyrr en hún lést þá rúmlega 100 ára gömul, salurinn hló og klappaði næstum sundur eitt stykki hús.
Á öðrum stað stóð fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins á Landsfundi hans við örlítið dræmari undirtektir og hraunaði yfir allt og alla. Að hans mati er Jóhanna Sigurðardóttir vinsælasti stjórnmálamaður landsins (oft með yfir 60% fylgi) eins og álfur út úr hól en á sama tíma lýsti hann brotthvarfi sínu úr Seðlabankanum við krossfestingu Jesú... ekki var hann hættur því einnig sagði hann að skýrsla Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem 80 manns tóku þátt í að gera á nokkrum mánuðum (og byggði að einhverju leyti á fundarhöldum og skýrslum Evrópunefndar) væri ekki pappírsins virði og skildi ekki hvernig mönnum hefði dottið það í hug að skipa formann hópsins fyrrverandi talsmann Jóns Ásgeirs og co.... við þetta gengu nokkrir úr salnum en að endingu hylltu allir þennan mann, ÉG ENDURTEK!!! þeir hylltu þennan mann sem ber mesta ábyrgð á efnahagshruninu, þann mann sem olli Sjálfstæðisflokknum mestu vandræðum í kreppunni með því að sitja sem fastast í stóli Seðlabankastjóra og plammera á flokkinn og eftir þessa ræðu sem ætla mætti að hefði verið samin af virkilega andlega veikum manni. Ég spyr: Hvað hefði Davíð Oddsson þurft að segja til þess að vera ekki hylltur? og Hver hleypti honum í púltið?
En það verður ekki af Davíð tekið að hann skemmtir mönnum, kjósendur allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins hafa væntanlega tárast úr hlátri það átti í það minnsta um við mig og annan góðan jafnaðarmann.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, mars 27, 2009

Heimskasti flokkur í heimi?

Á undanförnum mánuðum hefur maður oft fyllst reiði og langað til að öskra en núna er varla annað hægt annað en að hlæja.
Ég verð að segja það að jafnvel þrátt fyrir allt klúðrið, allt aðgerðarleysið í kjölfarið, alla ringulreiði flokksins, skort á forystuhæfni og almennt ógeð yfir höfuð þá ég átti ekki von á því að Sjálfstæðismenn myndu leggjast svo lágt að leggja hina heimskulegu ,,tvöfalda atkvæðagreiðslu" tillögu fram og ekki nóg með það heldur að fyrri atkvæðagreiðslan geti farið fram NÆSTA VOR samhliða sveitastjórnarkosningum. Hvers vegna? Jú til að allir geti kynnt sér málin til hlýtar. HVAR HEFUR ÞETTA FÓLK VERIÐ SÍÐUSTU SEX MÁNUÐI OG HVAR VORU ÞAU Í EVRÓPUUMRÆÐUNNI SÍÐUSTU 5-15 ÁR? SKILUR SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN EKKI ÞAÐ AÐ UMRÆÐAN MUN EKKI ÞRÓAST AF KÚK OG PISS STIGINU FYRR EN VIÐ VITUM HVAÐ KEMUR ÚT ÚR AÐILDARVIÐRÆÐUM!!!
Ef að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir þessa dellu þá hlýtur þetta að teljast einhver heimskasti flokkur meðal siðmenntaðra þjóða og hreinlega í öllum heiminum.
Ég vil fá að vita frá einhverjum af þeim sem hyggjast kjósa þennan auma afturhaldsflokk, hvernig mönnum líði með það að fara að kjósa hina Nýju - VG og það verður gaman að sjá hvaða peningamálastefnu flokkurinn mun bjóða uppá sem hefur lýst krónuna dauða og að evra með aðild að ESB komi einungis til greina... en vilja samt ekki ganga í ESB, nei fyrirgefið vilja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu eftir ár - EFTIR ÁR... ER EKKI ALLT Í LAGI Í HÖFÐINU Á ÞESSU FÓLKI!!!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 26, 2009

Stór mannréttindaskref í uppsiglingu?

Þrautarganga þeirra sem barist hafa fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju á Íslandi hefur verið löng og erfið en vel þess virði. Í dag 26. mars árið 2009 minnumst við 100 ára afmæli þess að fyrstu stóru skrefin voru tekin í átt að þeim áfanga þegar dugmiklir alþingismenn notuðu gagnrýna hugsun til að lýsa yfir hneykslan sinni og vilja til að afnema, þá einungis tveggja ára gamlan samning sem fól í sér forréttindi þjóðkirkjunnar með aðskilnaði ríkis og kirkju. Þennan dag fyrir 100 árum síðan samþykkti neðri deild Alþingis þingsályktunartillögu þess efnis með 20 atkvæðum gegn fjórum, með þeim orðum ,,að neðri deild Alþingis skori á landsstjórnina að undirbúa og leggja fyrir alþingi frumvarp til laga um aðskilnað ríkis og kirkju”.[1]

Margt hefur breyst frá því að Ísland var eitt fátækasta ríki Evrópu í byrjun 20.aldar, til þess að verða eitt það allra ríkasta í heiminum í lok og byrjun þessarar aldar, til þess eins að verða aftur eitt það allra fátækasta í augnablikinu - en enn lifir aðskilnaðarmálið í sama farvegi og sömu rökin virðast gilda nú og þá.

Í nefndaráliti viðkomandi neðri deildar kom fram að óeðlilegt fyrirkomulag fælist í þjóðkirkjunni ,, jafn gagnstætt eðli kirkjunnar eins og eðli ríkisins” og að ,,andlega lífið í þjóðkirkjunni sé mjög dauft og trúaráhuginn hjá meðlimum hennar yfirleitt sljór”. Rök fyrsta flutningsmanns þingmálsins eru einnig áhugaverð fyrir nútímann en þau eru í hnotskurn að a) það væri óréttlátt að einstaklingar utan þjóðkirkjunnar þyrftu eigi að síður að greiða til jafns við meðlimi hennar b) að fáar hræður mættu til messu og kirkjan því orðin gagnslaus og c) að prestarnir séu orðnir steingervingar...
Andstæðingar tillögunnar höfðu að sjálfsögðu allt á hornum sér og töldu að með aðskilnaði yrði fólk afvegaleitt (þvílík kaldhæðni í ljósi sögunnar).[2]

Þáverandi ráðherra Íslands Björn Jónsson (faðir Sveins Björnssonar fyrsta forseta lýðveldisins) lýsti yfir stuðningi um að málið yrði tekið fyrir í milliþingnefnd en að niðurstaðan yrði sú að málið yrði látið í almenna atkvæðagreiðslu þar sem vilji þjóðarinnar kæmi fram (en málið var þá talið hafa fylgi töluverðs meirihluta þjóðarinnar) – en enn bíðum við hér árið 2009, þrátt fyrir að meirihluti Íslendinga hafi stutt og styðji ennþá aðskilnað samkvæmt könnunum Capacent Gallup frá árunum 1994 til lok árs 2007.[3]









Það er skiljanlegt að núverandi ríkisstjórn hafi öðrum hnöppum að hneppa á þeim álagstíma sem nú ríður yfir, en það er með öllu óskiljanlegt ef að þetta mál verður ekki útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili fari svo að þessir flokkar vinni áfram saman eftir kosningar. Í fyrsta lagi er krafa samfélagsins um beint lýðræði, í öðru lagi er stuðningur meirihluta fyrir þessu máli, í þriðja lagi er um að ræða 5-6 milljarða á ári úr sama ríkissjóði og mun þurfa að spara – ekki geta þessir tveir velferðarflokkar skorið niður endalaust í því kerfi og í fjórða lagi sýnir könnunin frá árinu 2007 að 62% kjósenda þessara tveggja flokka vilja aðskilnað ríkis og kirkju.[4]

Að lokum tvær skýringarmyndir sem lýsa niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar.[5] Fyrri myndin sýnir sterk tengsl milli hárra útgjalda til velferðismála og lítillar trúarþátttöku (sjá bls 43) og seinni myndin sýnir sterk jákvæð tengsl milli hárra útgjalda til velferðarmála og trúleysis (sjá bls 45).

Því miður verða afleiðingar kreppunnar líklega þær að spilling eykst, þjóðremba og höft aukast... sem og trúarþörf. Það þýðir ekki að frjálslynt fólk muni gefast uppí baráttunni fyrir réttlátu siðmenntuðu nútímasamfélagi. Hvernig væri að prufa 100 ár af aðskilnaði ríkis og kirkju? Þó ekki væri nema fyrir sparnað upp á 5-600 milljarða, betra velferðarkerfi og skynsamara þjóðfélag.


[1] Alþingistíðindi BII 1909.
[2] S.r.
[3] http://www.capacent.is/?PageID=762&NewsID=890
[4] http://www.capacent.is/?PageID=762&NewsID=890
[5] http://www.poli.duke.edu/resources/workshop/Religion%20and%20Welfare.pdf
http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=4689

Hugmyndin af pistlinum var fengin af lestri eftirfarandi greinar og hefur beðið birtingar töluvert lengi.

Yrði lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

miðvikudagur, mars 25, 2009

Eitthvað fallegt...

Evrópusambandið: Allir þeir sem misstu af stuttmynd Árna Snævarrs um Evrópusambandið geta nú tekið gleði sína á ný og séð þennan tæplega hálftíma þar sem Árni talar við marga af helstu sérfræðingum um Evrópumál.
Þeir sem eru lausir í hádeginu á morgunn ættu að kíkja á fund Alþjóðamálastofnunnar þar sem væntanlega verður farið yfir það hvernig Ísland muni reyna að semja við ESB.

Breaking news!!!: Keðjufífl það er skapaði sér gott mannorð á Bækistöð 4 á seinni hluta 10. áratugs síðustu aldar og í upphafi fyrsta áratugs þessarar aldar hyggst taka fram orfið, hrífuna, pokana, traktorinn, kerruna, Land Roverinn og allar aðrar þær gersemar sem fylgja slátturtíð í Breiðholtinu og snúa aftur á vígvöllinn kraftmeiri en nokkru sinni fyrr. Vinnumenn kætast, verkamenn skála, slátturmenn gráta af fögnuði, kvenmenn blotna og Castro treður munntóbaki í nefið og neftóbaki í munninn eins og hann gerir raunar daglega. Á ársfjóðungsþingi flokksstjóra var það mál manna að loks myndi aftur myndast hópur þar sem Keðjan er sterkari en veikasti hlekkurinn. Heyra mátti lag nafna hans Woody Guthrie óma um allt Breiðholt í tilefni ákvörðunarinnar, aðrir gengu lengra og spiluðu þjóðsöng Sovétríkjanna á meðan þeir veltu sér upp úr blöndu af bensíni og heitu og blautu heyji sem gleymst hafði í gámi frá síðasta sumri - alþúðan, fólkið í Breiðholti hefur eignast von á ný því týndi sonurinn snýr aftur!
Vorvísa Daða ætti að gefa ykkur hinum von sem ekki skiljið hvað ofangreind ákvörðun hefur mikla þýðingu fyrir íbúa Breiðholts en hún verður þó best skilin með blöndu af lestri og háværum flutningi á þjóðsöngi Sovétmanna. Í stuttu viðtali sagði Keðjan ,,Þetta er fyrsta skrefið í nýju 5 ára plani, nú fara tannhjól endurreisnar Íslands að snúast - heimurinn verður ekki samur"
Lifi Bækistöð 4 - Lifi Breiðholt!

Tilvitnun dagsins:

Á Vatnsendahæðinni er verið að
Keðjufesta mann
og Daði notar síðasta tækifærið
til að drulla yfir hann

Það er lognmolla, og loftið fyllt af skítalykt
og ég mæli ,,það er eins og einn karlmaður hafi hér í annan þrykkt"

Og hinn keðjufasti segir ,,hvað? hvað? ég má þetta al-veg"
en Daði brosir og segir ,,Ó, nú verður hver æfingaferð yndisleg"
- Daði


Tónlist: Nú geta allir hlustað á nýju live plötuna frá hinum aldna meistara Leonard Cohen.

Kvikmyndir: Í allri skólageðveikinni hef ég þó náð að komast yfir nokkrar góðar bíómyndir og allar eiga þær eitthvað fallega sjúkt sameiginlegt.
Elegy í kvöld, fínasta mynd en örugglega ekki fyrir alla. Rómantík, dramatík og ákveðin þyngd - ekki fyrsta date kvikmynd. Þeir sem hafa gaman að myndum með Ben Kingsley munu hafa gaman af þessari.
Gran torino, ég er ekki Clint maður og hefur einhvern veginn aldrei tekið þátt í lofsöngnum en þessi mynd fannst mér góð og get mælt með henni.
The Reader er enn ein myndin og að mínu mati mjög góð, var reyndar að spá í að slökkva á henni um miðbik hennar en sé ekki eftir að hafa klárað hana. Svolítið truflandi og þung á köflum en er það ekki fínt.
The Curious case of Benjamin Button er frábær mynd að mínu mati, ekki allir sem eru hrifnir af henni og sumir vilja lýsa henni sem algjörum dauða enda 166 mín að lengd.
Vicky Cristina Barcelona fer í sama gæðaflokk og ofangreindar myndir. Það er ótrúlegt að þurfa að viðurkenna það að fyrir ekki svo mörgum árum hafði ég óbeit á Woody Allen, núna sé ég hverja einustu mynd sem hann sendir frá sér án þess að vita um hvað þær eru (enda eru þær alltaf um nákvæmlega það sama).

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, mars 22, 2009

Allskonar

Knattspyrna: 14.mars átti að verða dagurinn sem United svo gott sem tryggði sér titilinn með heimasigri á Liverpool, þá hefði munað 10 stigum og United átt leik til góða. Í stað þess drullaði United á sig og tapaði svo aftur skammarlega um helgina á meðan Liverpool eru á gríðarlegu skriði. Niðurstaðan er sú að United er með eins stigs forskot og einn leik til góða, eiga níu leiki eftir en Liverpool átta. Miðað við úrslitin hjá Liverpool þá verður United að vinna átta af þessum níu leikjum, gæti séð Liverpool vinna rest og United á mun erfiðari leiki eftir - Manchester menn eru því búnir að koma málum sínum þannig fyrir að sennilega eru líkur þessara tveggja liða svipað miklar.

Stjórnmál: VG vill ESB aðild í þjóðaratkvæði, ætli það verði ekki niðurstaðan einnig hjá Sjálfstæðisflokknum, þeir vilja varla verða hinn nýji VG. Það er hins vegar óljóst þegar þetta er skrifað hvort að þetta er þjóðaratkvæði um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðaratkvæðagreiðslu til að geta farið í aðildarviðræður og þeir samningar svo settir í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort að menn ætli að gerast ,,djarfir" og fara í aðildarviðræður og setja samninginn beint fyrir þjóðina - ef hið fyrrnefnda verður niðurstaðan finnst mér réttlætanlegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar hvort að VG megi fara í stjórn áður en kosið er og aftur þjóðaratkvæðagreiðslu ef að VG myndi mynda samsteypustjórn eftir kosningar um hvort að þjóðin vilji það... Er þetta ekki lýðræðið sem er boðað?

Dylan dagsins: Bob Dylan - Up To Me

Tilvitnun dagsins:
Meðan enn var önd í nösum
engan fýsti að vita hið sanna
skreyta líf sitt fíflið frösum
fæstir djúpið meika að kanna
-Megas

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , ,

föstudagur, mars 20, 2009

Fyrir ónefndan KR-ing og Ewing aðdáanda

Þegar maður getur ekki unnið titla verður maður að sætta sig við Snickers.

Loksins smávegis um ekkert

Stjórnmál: Þá er það orðið ljóst að sumir eru jafnari en aðrir hjá VG. Flokkur sem hefur haft kynjakvóta og fléttulista á stefnu sinni en nú þegar valdahlutföllin skiptast konum í hag að þá á það ekki lengur við eins og sannast á endanlegum framboðslista í Reykjavík. Þar er ekki boðið upp á fléttulista og fimm konur eru í topp átta bæði í Reykjavík norður og suður þannig að karlarnir ná ekki einu sinni að slefa upp í 40% kynjakvóta. Í síðustu kosningum fengu VG samtals fjóra þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum, verði þeir jafn margir nú muna það verða þrjár konur en skyldu þeim fjölga um einn í hvoru kjördæmi verða fimm konur og einn karl, færi svo að þeir yrðu fjórir úr hvoru kjördæmi væru tveir karlar en sex konur sem myndi gera kynjakvóta upp á 25% karla. Annars skal tekið fram að prófkjörin hjá fjórflokkunum heilt yfir eru hrikaleg drulla, bæði lítil endurnýjun og lítið framboð af ungu fólki (og nánast ekkert af því með ferskar áherslur).

Trúmál: Nú geta allir kosið um hver hlýtur hin virtu Ágústínusarverðlaun fyrir árið 2008. Fjölmargar aðrar tilvitnanir má hafa gaman að að lesa sem því miður komust ekki í topp 10.

Skólinn: Ég er ekki vissum að það gæti verið meira að gera í náminu mínu en nú er. Verkefnaskil, ritgerðir og próf með of stuttu millibili alveg út önnina. En þetta fer að klárast. Er að spá í kennslufræði næsta haust.

Knattspyrna: Það var ekki hátt risið á Englands-, Evrópu- og Heimsmeisturunum frá Manchester þegar þeim var riðið í rassgatið af Liverpool um síðustu helgi - en ég hafði fyrr í vetur spáð því að þetta yrði leikurinn sem United myndi tryggja sér sigur í deildinni. Ástandið er samt ansi gott, fjögur stig og leikur í hendi og þá níu leikir eftir - reyndar af erfiðu prógrammi en samt ekki erfiðara en Chelsea og Liverpool munu fást við. Ef allt fer á besta veg eru fínar líkur á því að United geti tekið við titlinum í næst síðasta heimaleiknum gegn City (sem er reyndar tæpt) eða þá í síðasta heimaleiknum gegn Arsenal - hvort sem yrði þá yrði það afar ljúft.

Tónlist: Bob Dylan er í toppformi að venju og er að fara að gefa út plötu í næsta mánuði - rétt er að minna á daglegu fréttasíðuna af kappanum. Þar má finna allt milli himins og jarðar sem snertir hann, ég fann svo á youtube live upptökur sem Dylan aðdáendur gætu haft gaman af t.d. Boots Of Spanish Leather og mörg fleiri af plötunni Bob Dylan at the Beeb (upptökur frá BBC).

Er lífið ekki dásamlegt?

mánudagur, mars 09, 2009

Raggi Bjarna og Megas

Fyrir einhverju síðan hringdi Arna í mig og sagði að Raggi Bjarna væri að syngja lag eftir Megas á Rás 2. Nú villtist ég inn á síðu Dr. Gunna og þar má í færslu frá 1. mars hlýða á þessa hressandi útgáfu af Meinfreyjublús (sem er afbrigði af Eðalfreyjublús ef heitið á laginu er rétt).

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

sunnudagur, mars 08, 2009

Sprengja - Ingibjörg Sólrún hættir

Stjórnmál: Ingibjörg Sólrún var rétt í þessu að tilkynna að vegna veikinda sinna gæti hún ekki tekið frekari þátt í stjórnmálum, á það jafnt við um þingsetu og fyrirhugaðan formannsslag innan Samfylkingarinnar. Bæði Össur og Jóhanna hafa neitað að þau ætli í formanninn og stendur Jón Baldvin þá einn eftir eins og stendur, hver fer á móti honum? Dagur B.? Verður pressað á Jóhönnu? Erum við að fara að sjá Jón Baldvin með comeback aldarinnar sem mun knýja á um aðildarviðræður við ESB? Held ekki, en það væri rosalegt.

Er lífið ekki dásamlegt?

föstudagur, mars 06, 2009

Jamm, jamm, jamm

Stjórnmál: Stuttu eftir komu sína til Englands fékk Mourinho viðurnefnið motor mouth en sá portúgalski á væntanlega ekkert í Kolfinnu Baldvins. Sá hana hjá Ingva Hrafni áðan þar sem hún rökræddi við Erlu Ósk sem er að bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hún komst nánast ekkert að og varla Ingvi Hrafn heldur því Kolfinna dritaði yfir þau orðunum - þingið gæti orðið áhugavert ef hún fær þingsæti hjá VG.

Tónlist: Gummi Jóh er maður góður, þekktur fyrir dásamlegan tónlistarsmekk. Las færslu nú nýverið þar sem hann minnti á frábæran tónlistarmann sem ég hef áður minnst á hér en hafði steingleymt. M. Ward er maðurinn og hér eru þrjú yndileg lög; fyrst tvö með honum One Hundred Million Years og Chinese Translation en svo eitt þar sem hann er hluti af dúetnum She&Him - You Really Got A Hold On Me

Knattspyrna: Rugl myndband. Ánægður með Ronaldo í lokin, hann er svo hógvær strákurinn.

Meira seinna...

Er lífið ekki dásamlegt?

mánudagur, mars 02, 2009

Hvað viljið þið tala um?

Almennt: Ég hafði þá hugmynd í kollinum að skrifa eingöngu eitthvað jákvætt allan mars mánuð en hætti snögglega við þegar ég heyrði að Bylgjan væri með álíka mánuð í gangi - ekki töff að herma eftir þeim, en eins og allir vita læt ég eingöngu stjórnast af tískunni.

Stjórnmál: Það þarf auðvitað ekki að ræða það frekar en síðan síðasta færsla birtist hér hefur ansi margt gerst í stjórnmálum eins og heiminum öllum. Við skulum alls ekki ræða Davíð Oddsson en halda því til haga að hann er loksins farinn úr Seðlabankanum og vonandi fer hann að gera eitthvað skemmtilegt.
Hinn slyngi stjórnmálamaður og sá sem hleypti Davíð til valda sjálfur Jón Baldvin ætlar í formannsframboð fyrir Samfylkinguna... hann hefur ýmislegt fram að færa og jákvætt að það séu ekki allir sem ætli að sitja undir þessu nánast breytingarlausa rænuleysi flokksins - en hann vinnur auðvitað aldrei Ingibjörgu en hænur hennar hafa nú allar gaggað í kór um að hún eigi að vera áfram formaður (Davíðs syndromið).
Sjálfstæðisflokkurinn reynir að fegra ímynd sína með drögum að því hvað hann hefði mátt gera betur auðvitað munu einhverjir aumingjagóðir menn hoppa á vagninn og fyrirgefa þeim en annars verður það þessi harði 25-30% kjarni sem heldur fylginu uppi í vor og myndu gera það... jafnvel þó að gjörðir flokksins myndu leiða af sér þjóðargjaldþrot (humm bíddu?).
Þá hafa væntanlega allir lesendur þessarar síðu kynnt sér hinn nýja fréttavef sem ber heitið Pressan og er nánast tvíburabróðir vefsins Eyjan svo líkar eru síðurnar. Nokkrir spennandi pistlahöfundar eru á pressunni m.a. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson og Sigmundur Ernir - þannig að þrátt fyrir að vera alveg eins og Eyjan að þá getur þetta með tímanum væntanlega gengið upp.

Knattspyrna: Frá Sjálfstæðisflokknum og beint yfir í Liverpool - viðeigandi? Liverpool er fáránlegt lið eins og síðasta vika sannaði. Hvernig er hægt að vinna Real Madrid á útivelli en tapa svo fyrir Boro? Nálægast réttu svari er líklega að Liverpool á eiginlega aldrei í vandræðum varnarlega en næstum því alltaf sóknarlega. Það er það sem vill gerast þegar að lið spilar með fjóra menn í vörn þar sem enginn af þeim getur með góðu móti hvorki sótt né spilað bolta, fyrir framan þá eru tveir miðjumenn sem eru varnarsinnaðir og á hægri kantinum er auka bakvörður - með markmanni eru það því átta menn sem taka takmarkaðan þátt í sóknarleiknum og á hinum vængnum er oftast lítil hætta og því einungis 2-3 menn sem geta með góðu móti sótt... þetta höfum við farið yfir áður.
Enn eina ferðina blasir við Catch 22 hjá Liverpool. Liðið alveg á mörkum þess að vera búið að kasta frá sér möguleika á titlinum (ég held að leikmenn séu búnir að tapa henni í huganum) en fer svo væntanlega langt í Meistardeildinni og þá spyrja menn enn og aftur: Hvað á Rafa að fá langan tíma í viðbót? Brotthvarf Rick Parry ýtir undir það að þó að hann klikki á seinni stigum Meistaradeildarinnar að þá fái hann minnst ár í viðbót og þá væntanlega nýjan samning (sem hann hefur reyndar afþakkað nokkrum sinnum vegna ófullnægjandi skilyrða), aðdáendur Liverpool verða því væntanlega að horfa upp á eitt ár í viðbót í það minnsta af leiðinlegri varnarsinnaðri róbóta knattspyrnu - sorry!
United voru reyndar ekkert sérstaklega aðlaðandi í gær þegar þeir sigruðu Mikka Mús bikarkeppnina á Englandi. En Mikka Mús bikar er samt stund fyrir lið til að fagna ákveðnum áfanga og léttir sálrænt af einni keppni, en er auk þess góð og heilbrigð upplifun fyrir unga menn sem þurfa reynslu til að læra að vinna og hafa þá fengið að spila á Wembley sem sumir gera aldrei (þó að sökum meiðsla hafi þeir reyndar verið fáir). Annars verður leiksins aðallega minnst fyrir það að Foster notaði ipod til að undirbúa sig undir vítaspyrnukeppnina. Við það bætist auðvitað að sökum taps hjá Liverpool getur United með sigri í leiknum sem þeir eiga inni náð 10 stiga forskoti en nú eru 11 umferðir eftir.

Nöfn: Að lokum verð ég að lýsa yfir mikilli ángæju minni með ljóðskáldið Daða og konu hans Heiðu sem gerðu sér lítið fyrir og skýrðu frumburð sinn Sigurrós væntanlega eftir bestu hljómsveit í heiminum. Menn voru að spá að nafnið yrði Jóhanna eftir forsætisráðherranum en nafnið sem varð fyrir valinu kætti mig jafn mikið og gleði Viðars hefði orðið ef stúlkan hefði verið skýrð Viðey (sem menn vilja meina að hafi einnig komið sterklega til greina).
Nú geta menn varla skýrt sama nafni svo að spurningin er eingöngu hvort að mannanafnanefnd samþykki nafnið: Godspeed You! Black Emperor sem stúlkunafn.

Lifið heil.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , ,