...Og þú gjammar eins og forrituð tölva
,,peningar tala” nei, peningarnir bölva
og með ábyrgðaleysi nú allt þeir mölva
greiningardeildir eins og Séð og heyrt völva
spá öllu góðu á meðan fjármunir almennings brenna.
Og víst kann mönnum orð mín að blöskra
flæktir í kóngulóarinnar flóknu netmöskva
það er í okkar olíuþágu ef vélbyssur öskra
en menn spyrja ,,Er það Vaka eða Röskva?”
á meðan ráðmenn þjóðarinnar á rassgatið renna.
Og af 14 ára pilti þú getur enn kynlíf keypt
en ódýrt erlent lambakjöt er ekki leyft
því það liggur á, að eignarhald fjölmiðla sé dreift
svo að fávitarnir geti brjóstmynd, af fráfarandi forsætisráðherra steypt
á meðan þjóðin vonar að ríkisstjórn hans verði steypt í næstu kosningum.
Og foreldrar við skólana þeir fyllast af heift
ef börnunum þeirra er úr skólanum of snemma hleypt
á meðan úttroðnu pizzakrakkarnir þeirra geta sig varla hreyft
frá PoppTV, sem stillt er á því þau hafa fjarstýringuna gleypt
og drengirnir eru of latir til að fitla í sínum litlu typpalingum
Og virtir borgarar þeir spariklæddir dansa vals
á meðan efnahagskerfið það riðar til falls
en hafa ekki áhyggjur, þeir eiga allt til alls
og svo eru hættumerkin tvíræð og oftast fals
þó þeir viti að það kemur einhvern tímann að skuldadögum
Og þá eru allar eignir hvort eð er í skattaparadís
og þá íslensk viðskiptaparadís þar rís
ef skuldafjallið yfir landsmenn gýs
og þó millistéttapeðin væli ,,Æi plís, ég Framsókn kýs
hvað ef við meira af öryrkjum við drögum?”...
þá verður nóg af slíkum sorglegum sögum.
Og það er staðreynd að kaffi er kók nítjándu aldar
og að stjórnmálahugmyndir þínar eru mjög einfaldar
þú skoðar kosningabæklinga og fegurstu konur flokkana valdar
og þú velur þann flokk sem þú telur að þær séu fæstar kynkaldar
og kýst þó að þær lofi að senda þig til helvítis.
Og sekunduvísirinn tikkar í átt að heimsenda
og Fox spyr ,,á hverjum mun næsta sprengjuregn lenda?”
og álitsgjafar á allar heimsálfur nema sína benda
en þú hefur áhyggjur af því hvort þú fáir pizzuna nokkuð brennda
og hvort Manutd vörnin lifi af án Vidic...
Menn tilbiðja himinn og klofningu á hafi
og fagna með myndum dauða al-Zarqawi
fyrirgefið mér þó ég ekki af hlutunum skafi
og myndi hér setningar, orð og stafi
og staksteinar spyrja fylgja vestrænum gildum eðli skítlegt?
Og Halldór tengir flokkinn við framfarir
og segist hafa haft við Maríu Mey samfarir
og með Framsóknalausu Íslandi kæmu pestir og hamfarir
stríð, afturför og almennar ófarir
en hyggst flýja í embætti sem Davíð finnst skemmtilegt
Já, menn fremja sjálfsmorðsárás á Þingvöllum
en hvers er að vænta af mönnum af fjöllum
sem hafa trú á sjálfum sér, álfum og tröllum
og heyra ekki í vitleysunni í sjálfum sér fyrir hlátrasköllum
og vita ekki hvar þeir eru staddir í heiminum fyrir lygi
En íslamskar konur segjast ekki kúgun sæta
og dr. Lecter sagði ,, ég er ekki mannæta”
og Vilhjálmur sagði ,,við munum ástand eldri borgara bæta”
en er strax búinn buxur sínar að væta
og kjósendur að græta með sorglegum meirihluta
Og ríkisstjórnin nú hún stokkar spilin
11 jókerar með en formaðurinn skilinn
Og menn horfa djúpt í heimskunnar hylinn
En Framsókn rjáfar stefnulaust í gegnum bylinn
og nýr utanríkisráðherra er stoltur stúdent
Og Vilhjálmur ónýtt kálið úr ausunni saup
og stjórnin er sorglegri en árlegt kvennahlaup
og menn halda daglega í fréttum áramótarskaup
þegar fíflin gera með sér helmingakaup
og ég er spurður er ástæða til að setja þetta á prent?
Öld öfgana þeir fullyrða að víst sé hún liðin
Öflug vestræn ríki muni færa okkur heimsfriðinn
Copy – paste-a yfir alla sama siðin
En segðu mér hví er hún svona löng biðin?
var rennt blint í óþekkt miðin og óþekkt innviðin?
Og víst má blanda saman skáldskap og raunveruleika í ljóð
Og víst verða sum þeirra vond en önnur góð
Og ef að í æðum þínum rennur rósrautt blóð
Ættirðu að dritta þeim á blað og safna í sjóð
Og sannarlega munu þau smám saman heyrast í gegnum kliðinn.
Á æðstu stöðum er öxlum oftast yppt
Og löngum hafa aðrir þeim þangað lyft
Þó sjaldnast sé sagan þannig skorin og klippt
En það eitt er víst að eignum er misskipt
En hvar voru lög að slíku lögð?
Og hver getur samfélagssáttmálanum rift?
Og getur Guð einn mennina til sín kippt?
Og ef svo er getur maður þá í hann hnippt
Eða má kannski bara nota control, alt og shift?
En við Hr.Stift ættirðu ekki að ræða um slík tölvutrúarbrögð
Saklaus hann setti á sig ótal hlekki
Og lífshlaup hans það hljóp í kekki
Og með kossum vorsins ég hann blekki
Því slíkir kossar þeir blómstra ekki
Eftir manns eiginn smekk - það ég þekki
Á rósin aðeins einn kjól eða er hún nakin?
Myndi hún lykta illa, skitu þakin?
Og spyr hún sig sömu spurningar sofin og vakin
,,Hvar og hvenær verður fundin makinn?
Eða er það munn-makinn sem ég að trekki”
Og hafmeyjan fegurst í hákarlsins gini
Lenti og hver þarf í eyðimörkinni vini
Sem hefur vin og fjölmarga syni
Myndirðu leggjast hjá Birki, Reyni eða Hlyni?
Eftir að hafa átt samskipti við þurran andlausan kaktus eins og mig
Hún sefur lítið, því hún sér sýnir
En detta af gulir reykingarfingur þínir?
Líkt og laufið sem slagæðarhnífinn sinn brýnir
Og segir ,, nú eru taldir allir góðu dagar mínir”
Og lífi sínu sjálft að lokum sviptir sig
Feður landsins við mæður æfir
Og barn nútímans sjálft sig svæfir
En stúlka ein í hjarta mig hæfir
Og hæfur maður sjálfan sig kæfir
Því kærast-ar og –ur lama hugann
Svo grætur mey yfir Ginsberg orðum
Eins og gamalt skáld yfir Carlsberg forðum
Og menn gera lítið úr Ísraels þjóðarmorðum
En bölva blaði Frjálsrar Verslunar á almúgans borðum
En borðar skyndilausnir Frjálshyggjuryksugan?
Neruda bölvar dauðans landafræði
,,að nýta og njóta”, Cheerios - betra bæði
Í bræði rennur á menn málæði
Er rætt er um fjórfrelsi – fjórflæði
Gefast upp og í næði yðka sína trú
Hví bragðast ísinn betur í Róm?
Og hvers vegna er tæmandi sundurliðun ekki tóm?
Og hví er Meistarinn bitinn af 10.000 flóm?
Og því heyri ég óm úr húmi lágu og af klórandi klóm?
En dauðaóm-ur bíður víst ekki þess er byggir trúarbrú
Ég hitti trúleysingja sem trúði á gen
Engan guð eða spámann eða slíkt vesen
Er ég hnerraði sagði hann ,,Guð blessi þig og amen”
Og sat í lótusarstellingu buddisma Zen
Brosandi með bumbu og í fráhnepptri skyrtu
Kaldhæðið er brosið af vorsins vörum
Og viðkomandi bíður spurninga fullur af svörum
Það er skáldað og skálað og dregið á tálar á reykvískum börum
Og vændiskona semur sáttmála á kaupum og kjörum
En kapitalískur feministi öskrar ,,sjálfa þig hærra virtu!”
Og hámenntaðir hagfræðingar gróðann hirtu
Og Olíufélögin sjálf sig þau að lögum firrtu
Og sumum líður best í myrkri öðrum í birtu
Og því birtu félagar þeirra ekkert það sem þá svívirtu
Og nú sitja þeir með bindi við skyrtu í öðrum stjórnum
Og lífið það er hræðilegt í hlutafélgastjórnum
Bónusar og snittur og nóg af bjórnum
Mikið um prósentu af hagnaði minna af fórnum
,,Ekki benda á mig” eins og varðstjórinn forðum í lögreglukórnum
En einstaka sinnum verður þú að fórna þér á prammann – með starfslokasamning.
Hví flæða ekki öldurnar að hafsins miðju?
Hví hættir ótilneydd hóra ekki sinni iðju?
Hví er ég aldrei stoppaður á götu af gyðju?
Og hvers vegna byggja þeir ekki hugmyndaverksmiðju?
Fyrir allt heimska fólkið sem býr á Austfjörðum
Mig dreymdi um dána konu erótískan draum
Og reif upp með því löngu gróinn saum
Og sumar tilfinningar eru sterkar en þessi var aum
En garðálfurinn minn heldur uppi gleði og glaum
En gubbar að lokum á húdd mitt lambaspörðum
Og móðirin lét græða á dóttur sína hala og horn
Og ég vil gult M í stað kross á þjóðfána vorn
Eða afmyndaðan mann með slæmt líkþorn
Ellegar fyrir landbúnaðarhöft sauðfé og korn
Jafnvel stjörnur í vinstra horn fyrir utanríkisstefnu
Hann seldi mér sár sín hann seldi mér teip
Ég skrifaði hana hraðar en ég sjálfur hleyp
The Rape – The Abuse and The Big Escape
Hann seldi mér sögu sína frá Abu Ghraib
Og vinnubrögðum ,,hins frjálsa lands” – hinna betur gefnu
Ég vona að ég hald ei fyrir yður með þessu vöku
En viltu áður en þú sofnar bragða aðeins á þessari manndrápsköku
Utanríkisráðherra spyr ,,viltu þrykkja í þurrt eða á ég að halda rassgatinu röku?
Þú mátt þjösnast og slá mig eða slá bara við slöku
Við fylgjum ykkur ávallt eins og Guð almáttugur sé hér á ferð”
Í fínum skýjakljúfum og manngerðum völundarfjöllum
Í íslamstrúarríki og á Wall Street, komst menn áfram með hrópum og köllum
Og menn grýta steinum og blaðasnifsum og hringja svo bjöllum
Og slaka svo á, á víg- eða knattspyrnuvöllum
Uns það er hringt inn nýjum degi og þeir taka upp penna eða sverð
Vitnað er í Kalachakra heimsslitaritið
Að konungur Shambala muni hafa fyrir okkur vitið
Það hefst þó fyrr ef notuð er skynsemin og stritið
Og yfir fordóma og kreddur er yfir skitið
Og skoðaðar þær leiðir sem virkilega eru fyrir hendi
Einum er kennt og öðrum er bent
Og trúin hún skiptir góðum þjóðum í tvennt
og óargadýrið er djöfulli illa tennt
Og barnið sækir í bálið ef það er brennt
Og tekur þig með í vítisloga ef það varst þú sem það brenndir
Það er vor og það er war að venju fyrir miðjarðarhafsbotni
Og það má gera ráð fyrir að illa staddur sé sá skotni
Nema það sé skot hjartans og viðurkenningu konunnar hlotnist
Annars er ákveðinn hætta á að sjúkrhúslaus hann rotni
Islamstrúardrengurinn innilokaður í nútímans Ghettói.....
Tveir karlmenn nú á bar þeir vanga
Því í stað Keflavíkur- er nú Gay Pride ganga
Því kanarnir nenntu ekki hér að hanga
Uppteknir að senda í Guantanamo saklausa fanga
Hugfangnir af sjálfum sér en sjá ekki eigin heimsku
Hvað eru hryðjuverk? Og hvað er uppreisn, andóf?
Hvar halda hvítflipa glæpamenn sitt lokahóf?
Hvar er maðurinn sem sína gröf sjálfur gróf?
Og hvað þá maðurinn sem mygluna af matnum mínum skóf?
Hann hefur skilið slatta af henni eftir!
Það er alið á fáfræði, skelfingu og ótta
En hvaða fólk er þetta sem er sífellt á flótta
Undan kúlnahríð og þarf að horfa upp á syni sína sótta
Dauða, og andlega uppurið allra sinna lífsþrótta
En áhyggjur þínar eru valkvíðin: KR eða Grótta?
Og þér gæti ekki verið meira sama um hversu menn eru heftir.
Fórnarlaus Abraham eignaðist að lokum sonarson
Og afkomendur hans murka nú lífið úr fólki í Líbanon
Og fólk mótmælir í London, Laos og Lisabon
En vegna neitunarvalds er ekki nokkur friðarvon
En munum við ekki að lokum söguna aftur segja?
Kain hann var ávallt góður sínum bróður
Og helvítið hann Sæmi var andskoti fróður
En ýkju- og lygasögur eru á sagnfræði ljóður
En staðreyndin er að Bandaríkjamenn eyða meiru í hundafóður
En til fátækra sem eru úr hungri að deyja
Það má finna asískan tárakeim af nýjum Adidasjökkum
Og enn má heyra hvína í snoðkollum í brúnstökkum
Og sjá frygðarljómann á viðskiptamönnum í nýjum Boss frökkum
Og fliss fjá skökkum dreymdandi krökkum
Sem eiga flest þó eflaust eftir að gera það gott í lífinu
Og senn verða örlög mín dregin að húni
Og svo mun hnífurinn og standa í kúnni
Og ég vona að ég verði alltaf góður kúni
Og ei drukkinn múni svo ég verði ekki til skammar frúnni
Því þá yrði heilagt mannorð mitt dregið í stöngina hálfa.
Bókasafnspíuna inni á kvennasögusafni ég oft tók´ana
Milli þess sem ég reyndi að berja mig í gegnum bók bókanna
Menn ættu að rífa hana, rúll´enni upp og smók´ana
Og skipta svo yfir í sögu biskupa og hrókanna
Eða útþynnta hentistefnu mannkynssögu
Inn á hlöðu lyktar allt af konum og hlandi
Ég held ég aðeins lengur við hér strandi
Á þessum stað þar sem efnið er allt en enginn andi
Og ekki áhugi á öðru en holdlegu skyndisambandi
Fólk innprentað með ísetta tölvuflögu
Menntamenn þeir leigja á stúdentagörðum
Og fríska upp á heilann með efnum hörðum
Og taka svo einir ábyrgð á sínum gjörðum
Og biðjast fyrirgefningar á konum sínum börðum
Og hjólbörðum og hjólagjörðum öðrum
En í fjörðum og öðrum krummaskuðum og skörðum
Er nóg af lyga - Hannesum og Mörðum
Framtíðar strætóbílsstjórum og öryggisvörðum
Sem saurlúsugum klæjar í sínum hárssvörðum
Og svo yfir í fingur, af fögrum smáborgaradraumum
En víst er heimurinn í senn ógeðfelldur og fagur
Og víst blívar í honum einnig snotur borgarbragur
Það er Dagur... Sigurðar, Hr. Garcia og Megas magur
Og glettinn trúbador sem er ennþá alltof ragur
En ratar leiðina að velgengni og aftur heim(sfriður)
Og það væru klén skrif að enda í tortímingu og dauða
Eða að stela sögunni um rúturnar, bláa og rauða
Eða beina athygli ykkar til kauða, plastfrauðaskauða
og skilja þar með eftir huga ykkar auða
Svo andskotinn hafi það ég tjúna ykkur niður
Á haustdögum detta regndropar á bárujárnsþakið
Hlustið á gosið kitla áldósina ef sumarnætur vakið
Á snjókornin horfið, svo að á veturna þið á slakið
uns á vorin vindar ferskir leika - þá kynfæri ykkar rakið
og skotapilsið eitt það klikkar ekki.
Það er logn og ég lít til himinsins stjörnuljósa
Á Karlsvagninn og veru sem minnir mig á ljósálfinn Bósa
Og hún kyssir mig með kóralvörum sínum hún Rósa
Og ég vel Hallgrímsbrag fram yfir fagra prósa
En passa mig að overdósa ekki - á þeirri sem ég þekki!