Tvær heimildamyndir
Rafmögnuð Reykjavík heitir sú fyrri og fjallar um raftónlistarbyltinguna á Íslandi upp úr 1990, sem var að einhverju leyti önnur pönkbylgja. Myndin er afar hressandi fyrir okkur sem vorum hreinlega börn og sátum við útvarpið að taka upp nýjasta hardcore-ið og svo yfir í að taka upp Party Zone þættina en höfðum engan veginn aldur til að fara á Rosenberg eða á Tunglið frá 1990-1994 - en í þessari mynd má einmitt kíkja inn um skárgatið á þennan tíma með myndefni frá þessum stöðum plús viðtöl við helstu tónlistarmenn og plötusnúaða þess tíma (sem þó hefði mátt vera meira efni). Þar kemur m.a. fram það skilningsleysi sem að þessi kynslóð mætti í upphafi við tónlistargerð með tölvum - eitt mjög svo sniðugt dæmi nefnir Þóhallur ,,Ajax" Skúlason sem ég vill ekki eyðileggja fyrir þeim sem ætla á myndina.
Fyrir mér hefði þessi mynd mátt eingöngu fjalla um tímabilið 1990-1994/5 og þá hefði mátt taka fleiri viðtöl við aðalgerendur þess í nútímanum ef að viðtöl voru ekki til frá þeim tíma, engu að síður er restin af myndinni þ.e. fram til dagsins í dag bæði ágætlega fræðandi og mjög skemmtileg, þó að það séu margar eyður í henni. Það sem mér fannst hvað skemmtilegast við þessa mynd var að sjá hvernig fólk skiptist í hópa eftir klæðaburði. Fyrir þessum 13-18 árum síðan þótti ,,mainstream" liðinu við sem gengum í víðum buxum, hettupeysum, með derhúfur og í old school skóm vera hallærislegir en heimildirnar sýna vel hvor hópurinn var sá bjánalegi enda fyrrnefndi hópurinn í þröngum velgirtum 501 gallabuxum og belti með sylgju, rúllukragabol og vesti yfir hann plús forljótum Hagkaups skariskóm - svo sannarlega ,,mainstream" fólki nútímans víti til varnaðar.
Það var svolítið fyndið að mæta á þessa mynd því að salurinn var nánast fullur af raftónlistarelítunni, ekki einungis tónlistarmönnunum heldur sá maður fólk sem maður hafði ekki séð síðan á ákveðnum skemmtistöðum fyrir nánast eilífð, sem var fyndið - sumir höfðu ekkert breyst á meðan aðrir voru greinilega farnir að vinna í banka.
Niðurstaða: Góð mynd og sérstaklega hressandi fyrir alla þá sem hlustuðu en upplifðu ekki raftónlistarbyltinguna á Íslandi.
Seinni myndin heitir Heilagt stríð fyrir ástina og fjallar um líf samkynhneigðra í samfélögum múslima. Raunar fjallar myndin fremur um einstaklinga sem áður bjuggu í samfélögum múslima en urðu að flýja sökum hættunnar á því að verða drepnir.
Mestmegnis af myndinni fer í að fylgja nokkrum einstaklingum eftir en mér fannst vanta að leikstjórinn færi og næði viðtölum við ráðamenn í þessum löndum eða háttsetta trúmenn (en að slíkt hafi ekki verið gert verður kannski skiljanlegra þegar að kvikmyndagerðarmaðurinn er líka samkynhneigður). Þó voru nokkrir mjög fínir punktar þar sem hinir hugrökkustu úr hópi hinna samkynhneigðu (blandast þó líka við hversu mikið trúarofstæki var í hverju ríki) fóru og ræddu við trúmenn og einn bæði við trúmann og hluta safnaðar. Þar skein í gegn hvers konar afturhaldsseggir það eru sem fara fyrir flestum trúarbrögðum, enda niðurstaðan oftar en ekki islömsk útgáfa af orðum Gunnars í Krossinum en sumir safnaðarmeðlimir voru reyndar ekki eins afturhaldssinnaðir.
Hafi raftónlistarelítan verið áberandi á fyrri myndinni að þá vorum við ekki mörg sem vorum gagnkynhneigð í Iðnó í gær, það kom á óvart að ekki skyldu fleiri menntamenn, trúmenn og/eða stjórnmálamenn láta sjá sig á þessari mynd en það eru ennþá tvær sýningar eftir og mögulega
munu Egill Helgason, Þorgerður Katrín og Karl Sigurbjörnsson láta sjá sig á þeim tveim.
Niðurstaða: Ágæt mynd sem hefði getað verið betri og beinskeyttari.
Er lífið ekki dásamlegt?