sunnudagur, maí 31, 2009

Vá hvað mig langar í lest

Það er fátt sem kætir ferðaglatt fólk meira en að geysast framhjá veröldinni í lest. Ef ekki væri fyrir þetta skemmtilega ástand þá væri ég sennilega að skipuleggja slíka ferð, en læt nægja þemablogg með þeim lögum þar sem lestin góða er í aðalhlutverki - endilega bætið við lögum.

Johnny Burnette Trio - Lonesome Train

Tom Waits down there by the train

Johnny Cash - Train Of Love

Bob Dylan - It Takes a Lot to Laugh, It Takes a Train to Cry

ELVIS PRESLEY//Mystery Train

WOODY GUTHRIE - TRAIN 45

Simon and Garfunkel - Homeward Bound

Sigur Rós with Amiina - Sé Lest

HONKY TONK TRAIN BLUES by Meade "Lux" Lewis

DELMORE BROS-FREIGHT TRAIN BOOGIE

Jimmie Rodgers - Waiting for a Train

Jimmy Forrest : Night Train

Leadbelly - The Midnight Special

cab calloway - blues in the night

Furry Lewis - Kassie Jones

Bob Marley & The Wailers - Stop That Train

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, maí 30, 2009

Fyrir ljúfuna

fimmtudagur, maí 28, 2009

Tímabilið

Tímabilinu hjá United lauk formlega í gær með sanngjörnu tapi í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í leik þar sem einungis eitt lið var á vellinum síðustu 80 mín eftir að Barca komst yfir. Að mestu er ekkert hægt að segja við þessu, staðreyndin er sú að Barcelona er með frábæra einstaklinga sem mynda frábært knattspyrnulið sem vann það einstaka afrek að taka þrennuna margumtöluðu sem afar fáum liðum hefur tekist. Sérfræðingar á Spáni höfðu skrifað margar greinar fyrir þennan leik um að þetta lið og árangur þess gerði það að verkum að það væri hið besta í sögu Barcelona – það eru ekki litlar yfirlýsingar og eftir leikinn í gær geta fáir mótmælt slíku.

Engu að síður var leikurinn í gær að hluta til úr karakter fyrir þetta tímabil hjá United; liðið lenti undir með marki þar sem Vidic og Carrick brugðust, komu aldrei til baka sem lið og fengu svo á sig annað dellumark þar sem Ferdinand klikkaði.
Hins vegar þrátt fyrir að tímabilið muni í framtíðinni líta ansi vel út á pappírnum; kláruðu Samfélagsskjöldinn, urðu Heimsmeistarar félagsliða, unnu Carling Cup, duttu út í undanúrslitum enska bikarsins í vítaspyrnukeppni með varalið, unnu deildina á hálfum hraða en náðu samt 90 stigum og töpuðu loks í úrslitum í Meistaradeildinni eftir að hafa verið taplausir þar í tvö ár, þá er þetta tímabil samt ekki nærum því eins gott knattspyrnulega séð og síðustu tvö tímabil.

Þegar horft er yfir leikmannahópinn og tímabilið í ár borið saman við það síðasta þá eru afar fáir leikmenn sem hafa átt betra tímabil núna en í fyrra. Vidic hefur verið betri heilt yfir, Giggs hefur verið betri (en var reyndar slakur í fyrra), Fletcher hefur fengið stærra hlutverk vegna meiðsla (var glimmrandi í vetur), það sama má segja um O´Shea sem stóð fyrir sínu eins langt og það nær, Johnny Evans var fínn og Rafael kom ferskur inn – þessi hópur manna segir ansi mikið um það hvað var í gangi á tímabilinu. Van der Sar er á pari og sama má segja um Park.
Þeir sem voru slakari voru Evra m.a. vegna meiðsla en var samt oft í algjöru rugli, Ferdinand vegna meiðsla, Rooney að hluta til vegna meiðsla, Ronaldo (aðallega vegna þess að árið í fyrra var rugl), Carrick að hluta til vegna meiðsla, Scholes gamall, Anderson vegna meiðsla, Nani (sem ásamt Anderson fóru í gegnum týpískt annars árs syndome), Tevez sem þrátt fyrir dálæti margra var oft í ruglinu, Berbatov sem var að mestu flopp og þá voru Neville (sem reyndar er sennilega búinn), Brown og Hargreaves meiddir nánast allt tímabilið.

Þessi listi yfir þá sem klikkuðu á þessu tímabili er líka fínn fyrir uppgjörið á leiknum. Það ætlast enginn til að O´Shea, Park eða Giggs (vegna aldurs) klári úrslitaleik í Meistaradeildinni fyrir United en það má gera meiri kröfur á Ferdinand, Carrick, Evra, Rooney, Tevez og Berbatov (þegar þeir komu inná) og svo Anderson (sem verður að eiga gott ár á næsta ári ætli hann sér að eiga feril hjá United). Ronaldo byrjaði vel en ekki er hægt að saka hann um slæman leik þegar hann er einn á toppnum og restin af liðinu að gera eitthvað sem fæst á skylt við fallega knattspyrnu.

Framhaldið er óráðið og auðvitað munu öll hin stóru liðin bæta við leikmannahópinn sinn en af ofangreindu er ég þó bjartsýnn. United fær nánast tvo nýja og reynda enska landsliðsmenn á kjöraldri inn í hópinn þegar Brown kemur inn og ef aðgerðirnar á Hargreaves hafa heppnast vel, með þá tvo og sama hóp væntanlega mínus Tevez þá sé ég ekki að margt þurfi að laga en Ferguson mun væntanlega kaupa markaskorara (örugglega gamlan ref, á meðan beðið er eftir að Macheda og Welbeck séu tilbúnir). Þá neita ég að trúa því að ofangreindir lykilmenn liðsins, nánast hver einasti þeirra verði ekki betri en þeir voru í ár – allir sóknarleikmennirnir brugðust og einungis sá ótrúlegi árangur að United hélt hreinu í 24 deildarleikjum af 38 varð til þess að liðið varð meistari. Þá finnst mér það borðleggjandi að Anderson og Nani séu að spila uppá framtíð sína hjá félaginu og verði því að sýna hvort eitthvað sé í þá spunnið.

Liðið er að mörgu leyti á næsta tímabili að spila gegn sögunni. Ekkert lið hefur þrisvar í röð farið í úrslit Meistaradeildarinnar og ekkert lið hefur sigrað ensku deildina fjórum sinnum í röð. En er einhver sem myndi veðja gegn því að þeir gerðu annað hvort (jafnvel bæði)?
Góðar líkur verða að teljast á því að Giggs, Neville og Scholes muni spila sitt síðasta ár á næsta tímabili, enginn mun sannfæra mig um það að hið óseðjandi hungur sem drifið hefur þá áfram í aðalliði United síðustu 15-20 ár muni hverfa í sumar haldi þeir áfram og þeir munu halda áfram að miðla reynslu sinni til þeirra sem eru að taka við – sama má reyndar segja um síðasta árið hjá Van der Sar. Þá eru ótaldir þrír kjarnar í United liðinu: Fyrst þeir sem eru að toppa núna og mynda vinnuhjartað í liðinu Ferdinand, Vidic, Carrick, Brown, Hargreaves, Evra og Park, í öðru lagi yngri leikmennirnir sem þekkja nánast ekkert annað en að vinna (þangað til í gær) Ronaldo, Rooney, Nani og Anderson (mögulega Tevez) og að lokum graða kynslóðin sem bankar á dyrnar og er farin að fá blóð á tennurnar (Carling Cup og Heimsmeistarakeppni félagsliða) Johnny Evans, Rafael, Fabio, Macheda, Welbeck, Possebon og Gibson. Af þessum fjórum ,,kynslóðum/hópum” myndi ég ekki skipta út einum þeirra fyrir nokkurn annað hjá hinum stóru liðunum þremur... mögulega yngstu kynslóðinni hjá Arsenal en reynslan af alvöru sigrum hjá ungu United mönnunum er ómetanleg.

Frammistaðan í úrslitaleiknum var á margan hátt óafsakanleg að hálfu United liðsins en mögulega er það ekki hið versta í heiminum að liðið upplifi að þetta tímabil hafi þrátt fyrir allt verið ófullnægjandi, til að viðhalda hungrinu - naflaskoðun leikmanna verður þá dýpri og sjaldan eru sannir meistarar eins hættulegir og eftir mikil vonbrigði. Ég sá viðtöl eftir leikinn í gær og það voru ekki viðtöl við bugaða leikmenn heldur leikmenn sem eru hungraðir í frekari árangur. Ég get lofað því að tímabilið 2009-2010 er þegar hafið í hugum leikmanna.

Fyrir þá sem efast, þá tek ég undir með Rudy.

Stormur í aðsigi?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

mánudagur, maí 25, 2009

Íslenska þjóðin og þjóðir á Íslandi

Þennan pistil má lesa myndskreyttan á Vefritinu

Ég hef ekki á menningunni mætur
sagði hann: hún mætti sleppa því að fara á fætur
og bara selja sig eins og hún er – í bælinu allsber
uns hún breytist í rottuholu í gróinni tóft
en það er vissulega ekki við hana sjálfa að sakast heldur þá
sem malla þessa menningarsótt
- Megas

Fullveldiskynslóðin, lýðveldiskynslóðin, ´68 kynslóðin, bankakynslóðin, krúttkynslóðin, Reykvíkingar, landsbyggðin, innfæddir íslenskir Íslendingar, innfæddir íslenskir ,,útlendingar”, aðfluttir Íslendingar, útfluttir Íslendingar, alþjóðaþenkjandi Íslendingar, ,,íslenskt”/einangrunarþenkjandi Íslendingar, alþjóðaþenkjandi íslenskir ,,útlendingar”, ,,íslenskt”/einangrunarþenkjandi íslenskir ,,útlendingar”, Vestmannaeyingar, frjálslyndir Íslendingar, íhaldssamir Íslendingar, trúaðir og trúlausir Íslendingar, skuldlausir Íslendingar, skuldugir Íslendingar í íslenskri mynt og skuldugir Íslendingar í erlendri mynt, jafnvel hvoru tveggja o.s.frv.

Eitt mest aðkallandi viðfangsefni nútímans hérlendis er almenn umræða um endurskilgreiningu á íslensku þjóðinni eða réttara sagt að skilgreina þjóðir á Íslandi í íslenska þjóð. Ég held að svarið við spurningunni ,,hver erum við?” eða réttara sagt ,,hver erum við orðin?” sé mun ógnvænlegra í hugum eldri kynslóðanna og sérstaklega andstæðinganna en sjálf inngangan í ESB sem klýfur fjölskyldur, flokka og jafnvel einstaklinginn sjálfan í herðar niður í augnablikinu. Það er tímabært að varpa þessari raunveruleikasprengju á Íslendinga (hverjir svo sem þeir eru) í opinni umræðu sem nær lengra en í fræðitímarit lesin af elítu sem samanstendur af nokkrum tugum manna sem skrifast á - það er full þörf á því og hver sem niðurstaðan kann að vera að þá er sú umræða einnig þroskandi fyrir þjóðina, fari hún ekki í gömlu vondu skotgrafirnar eftir línum stjórnmálaflokkanna.

Hugmyndafræði

Ég fyrirgef sampennum mínum hér á Vefritinu með þeirri gefnu afsökun að þeir hafi verið jafn uppteknir og ég við ritgerðarsmíð fyrir að hafa ekki bent á besta pistil sem skrifaður hefur verið af vinstri manni í lengri tíma – á þetta annars ekki að vera hið nýja Ísland þar sem við hrósum og nýtum þær góðu hugmyndir sem aðrir hafa, þó að við séum ekki skoðanabræður eða systur þeirra?
Það var rétt fyrir kosningarnar í vor sem einn áhugaverðasti heimspekingur Íslendinga (þó að ég sé ekki sammála pólitískum skoðunum hans) steig fram og sparkaði þéttingsfast framtennurnar úr flokknum sem hann hugðist kjósa. Grein Hauks Más Helgasonar Ég er sósíalisti, ég kýs VG, ég ætla að búa í Evrópusambandinu (birtist á vefritinu Nei! 23. apríl 2009) öskrar fyrir hönd ungu kynslóðarinnar það sem við hin flest höfum hugsað en ekki þorað að segja þæg og stillt í fjölskylduboði með afa og ömmu: Þessi söguskýring fullveldis- og lýðveldiskynslóðarinnar, mýturnar um uppruna og sögu íslensku þjóðarinnar sem kennd er í skólum er lágkúra – upplogin drulla sem ekki er upplýstu fólki bjóðandi. Ekki einungis það, heldur hefur þjóðremban (t.d. varðandi sjálfstæðan gjaldmiðil) beinlínis leitt til þess að Ísland er ekki lengur efnahagslega fullvalda (sem er ein stoð á þrífæti fullveldisins) heldur beygir sig og hneigir eftir vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það sem Haukur segir í grein sinni í hnotskurn er að unga kynslóðin mun ekki flýja skuldirnar, heldur muni hún flytja úr landi sé hún ekki sannfærð um að lágkúrunni sé lokið, íslensk menning sé illa þjökuð af heimskulegum singúlarisma og heimtar að unga kynslóðin losni undan lyginni um hina sérstæðu menningu landsins. Á róttækan pólitískan hátt er Haukur Már að leggja áherslu á hugtökin fullveldi, sjálfstæði, menningu, þjóð, ríki og einstaklinginn sem uppsprettu fullveldisins sem Guðmundur Hálfdanarson, Úlfar Hauksson og Eiríkur Bergmann hafa gert á fræðilegan en ólíkan hátt.

Þessi frjálslynda nálgun kann að koma stórum hluta Íslendinga spánskt fyrir sjónir. Þeim Íslendingi sem lærði í grunnskóla að íslenska þjóðin væri honum í blóð borin, að þegar Ísland hafi glatað fullveldi sínu og sjálfstæði hafi það leitt til sex til átta alda niðurlægingar og volæðis íslensku þjóðarinnar, en að endurheimting á þessum sömu hugtökum hafi orðið bein forsenda efnahagslegrar velsældar, að kristin trú sé órjúfanlegur hlekkur í menningu þjóðarinnar og allt hitt sem orðræða íslenskra stjórnmálamanna (lesist kjaftæði) á fánadögum lýsir best og hefur raunar gert síðan árið 1918. Þessu er svo haldið að börnum innan veggja heimilisins og jafnvel í sögubókum fyrir börn sem vart eru farin að þróa rökhugsun. Þessari orðræðu verður að breyta og það gerist hvorki á einni nóttu né án átaks eins og danski prófessorinn Ole Wæver hefur bent á í ræðu og riti.

Þessi íhaldssama nálgun er auk þess hreinlega í engum takti við þær breytingar sem orðið hafa samhliða alþjóða- og evrópuvæðingu Íslands síðustu áratugi. Þar sem breytingar hafi ekki einungis orðið vegna tækni og opnunar landsins t.d. með nýjum íbúum með aðra menningu sem hefur ekki gert þjóðina eins einsleitna (útlitslega, í menningu, trú o.s.frv.), heldur falla nú goðsögurnar um uppruna íslensku þjóðarinnar og um ,,ríkis”trúna hver um aðra þvera – aðskilnaður ríkis og kirkju handan við hornið og brátt verður að aðskilja Íslandssöguna við það sem réttar reynist um sögu Íslands – þá er óupptalið tungumálið sjálft, ekki hreint heldur skrumskælt þannig að langömmur skilja ekki tungutak barnabarnabarnanna sinna (sem þó tala íslensku). Varðandi efnahagslegar framfarir þjóðarinnar þá skal halda því til haga að langstærstu ákvarðanirnar sem leitt hafa til þeirra eru beintengdar alþjóðasamstarfi eða með backup-i frá stórri þjóð – hvort sem það er ágóðinn af seinni heimsstyjöldinni, þorskastríðin, inngangan í EFTA eða EES samningurinn. Burtséð frá ofangreindum breytingum standa eftir þær hugmyndir að þjóð, þjóðernisvitund, menning (o.s.frv.) eru ekki fólki í blóð bornar, hvað þá dauðar hugmyndir heldur einmitt mjög lifandi og eiga að ráðast af sameiginlegum vilja einstaklinganna hverju sinni (ekki löngu látinna forfeðra þeirra).

Staðreyndin er sú, hvað sem forpokuðum afturhaldsseggjum líður, að þá hefur sú kynslóð sem nú er að vaxa upp ekki þessa tengingu við goðsöguna um uppruna og þróun þjóðernis og þjóðernishyggju á Íslandi. Það kann að vera að fyrirlestur um frjálslynda nálgun Renan, sem hann hélt árið 1882, hafi ekki borist með dönskum konungi eða síðar með handritunum en þær hugmyndir eru vel aðgengilegar fyrir netkynslóðina. Sama á við um breyttar hugmyndir manna og ríkja um fullveldið eftir síðari heimsstyrjöldina, sérstaklega í Evrópu (sem Ísland tilheyrir jú hvort sem ,,sönnum” Íslendingum líkar það betur eða verr). Að líkt og fullvalda einstaklingur deilir sínu fullveldi undir ríkinu ásamt öðrum einstaklingum til að öðlast meira frelsi og réttindi, þannig deili ríki sínu fullveldi með þjóðum til að öðlast meira frelsi og réttindi, sérstaklega smáþjóðir.

Sambærilegt uppgjör

Á hinum endanum á jaðri Evrópu, í hinu hingað til valdbeitingarglaða tyrkneska ríki fer nú fram umræða um þjóðina og ríkið sem er á mun hærra vitsmunastigi en á Íslandi – þrátt fyrir að þar hafi þjóðrembingurinn bullsoðið líkt og hérlendis í lengri tíma.
Samhliða mögulegri aðild að ESB er tekist á við grundvallarspurningar er varða endurskilgreiningu/enduruppgötvun á þjóðinni, þjóðernisvitund og um einstaklinginn.
Þar hafa menn, sökum vilja tyrkneska ríkisins til að ganga í ESB, sem aftur leiðir af sér að menn eru ekki barðir til hlýðni fyrir skoðanir sem ríkinu finnst ekki boðlegar, farið að rökræða um hvað það er sem sameinar alla þær ólíku þjóðir/þjóðernishópa sem mynda tyrkneska þjóð eða þjóðir í Tyrklandi, hvers konar grunngildi. Geti tyrkneska ríkið og þær þjóðir sem í ríkinu búa tekist á við slíkar spurningar þrátt fyrir blóðuga og oft á tíðum ljóta sögu þá ætti íslenska þjóðin að eiga í litlum vandræðum með slíkt.

Umræðan í Tyrklandi hefur hingað til verið heilbrigð á milli hinnar íhaldssömu skoðunar (sem áður var nánast boðuð af ríkinu) og hinnar frjálslyndu. Háværari gerast nú raddir síðarnefnda hópsins, þrátt fyrir mótspyrnu hersins (varðmanna Ataturks) að leiðin framávið, sé leið frjálslyndis. Tyrkneska lýðveldið og lýðræðið geti farið saman en það sé ekki í verkahring þess fyrrnefnda að hefta hugmyndafræðilegt frelsi einstaklingsins. Á Íslandi getum við sagt að hið sama eigi við um einangrunarhyggjusinna, þeir geta einangrað sjálfa sig eins og Bjartur vinur þeirra, en það er ekki í þeirra verkahring að einangra alla í kringum sig – þeir ættu að geta haldið sig og sínum gjaldmiðli fyrir sjálfa sig kjósi þeir svo.

Ísland í nútíð og framtíð

Hvað og hvert er ég að fara? Í síðasta Silfri vetrarins tók Egill viðtal við hönnuðinn/hugmyndafræðinginn Paul Benett en hann hafði fengið íslenskan kvikmyndagerðarmann til að taka viðtöl við Íslendinga daginn eftir kosningarnar í vor til að lýsa sínum veruleika og von (og reyndar ótta líka) um framtíðina – meginþemað varð samstaða, en samstaða um hvað?

Það er mín tilfinning að mín kynslóð mun ekki einungis fara með okkur inn í ESB (helst á næsta ári); hún mun fara fram á afhelgunina sjálfa á borði, en ekki einungis í orðum Laxness eða Megasar – tíminn þar sem var hlegið að viðfangsefninu er liðinn og tími raunverulegra aðgerða runninn upp. Ofangreinda kröfu um endurskilgreiningu/enduruppgötvun má ekki túlka sem byltingu heldur sem uppgjör eða niðurstöðu á þeirri áratugalöngu þróun í átt til umbóta sem ekki hefur að öllu leyti skilað sér (t.d. varðandi aðskilnað ríkis og kirkju sem meirihluti landsmanna hefur verið fylgjandi í lengri tíma eins og ég hef áður skrifað um á þessum vettvangi) – svo halda umbæturnar að sjálfsögðu áfram. Við skulum byrja á ESB umræðunni, aðskilja ríki og kirkju og gera annað það sem nú er fjárhagslega óhjákvæmilegt og ,,þjóðin er sammála um”. Síðar má taka umræðuna um veigaminni atriði s.s. um íslenska fánann og þjóðsönginn.

,,Hér kraumar allt” eru orð dagins. Það á ekki einungis við um óánægju raddir vegna aðgerðarleysis stjórnvalda og við uppgjörið heldur einnig við tækifærin sem felast í enduruppbyggingu framtíðarinnar – hversu lengi sú von og sá kraftur býr í okkur sem byggjum þetta land verður að koma í ljós. Tækifærin fyrir ungt fólk blasa við allsstaðar og mörg okkar höfum frestað því sem stundum virðist óumflýjanlegt í von um breytingar hérlendis, því hvert af okkur kýs ekki Ísland ef tækifærin eru sambærileg? Til að svo verði er ekki einungis þörf á alvöru aðgerðum, réttlátu uppgjöri og sambærilegum tækifærum – það er ekki síður þörf á endurskilgreiningu og við þurfum vissulega að sannfærast um að lágkúrunni sé lokið. Ferðin sjálf til fullkomunar má aldrei taka enda, vegna þess að (með orðum þjóðskáldsins sem vitnað var til í upphafi) ,,þá væri allt svo ömurlega ,,boring””.

Ást og friður Bjarni Þór Pétursson

PS. Are you watching? Are you watching? Are you watching Merseyside? Aaaaaaare you watching Merseyside?

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

sunnudagur, maí 24, 2009

Bob Dylan 68 ára

Bob Dylan er 68 ára í dag og platan hans sem kom út í síðasta mánuði vex við hverja hlustun. Ég hef þegar hent hingað inn tveimur bestu lögunum af þessari plötu en ætla nú að henda inn nokkrum til viðbótar í tilefni dagsins.

Bob Dylan 2009 - This dream of you

Bob Dylan 2009 - It's all good

Bob Dylan 2009 - Forgetful heart

Bob Dylan - Life Is Hard

Talk about me babe, if you must
Throw on the dirt, pile on the dust
I’d do the same thing if I could
You know what they say, they say it’s all good
All good, it’s all good

Big politicians telling lies
Restaurant kitchen, all full of flies
Don't make a bit of difference
Don‘t see why it should
But it’s all right, 'cause it’s all good
It’s all good, it’s all good

Brick by brick they tear you down
A teacup of water is enough to drown
You oughta know if they could, they would
Whatever going down, it’s all good
All good, say it’s all good

People in the country, people on the land
Some of ‘em so sick, they can hardly stand
Everybody would move away, if they could
It’s hard to believe, but it’s all good
Yeah

The widows cry, the orphans plea
Everywhere you look there’s more misery
Come along with me babe, I wish you would
You know what I'm saying, it’s all good
All good, I said it’s all good, all good

I'm gonna pluck off your beard and blow it in your face
This time tomorrow I’ll be rolling in your place
I wouldn’t change a thing, even if I could
You know what they say, they say it’s all good
It’s all good, oh yeah

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

laugardagur, maí 23, 2009

Jorfagledi / Captain Thirdeye remix - Tómas R. Einarsson

fimmtudagur, maí 21, 2009

Punktablogg

Knattspyrna: Í dag er ár liðið frá því að Van der Sar varði vítaspyrnu frá Anelka og gerði United að Evrópumeisturum. Hér sjáum við special edition af því atviki.

Aftur til fortíðar: KenLou - Moonshine

Karfa: Sá fyrsta leikinn Lakers vs Nuggets, það var ekki burðugt hjá strákunum frá LA. Í rauninni stálheppnir að hafa af sigur og Carmelo Anthony fór illa með Kobe og sýndi mikla líkamlega yfrburði - get ekki ímyndað mér þá niðurlægingu sem mun eiga sér stað ef að Kobe ætlar að dekka LeBron... en sá maður þarf nauðsynlega að skrifa undir hjá Vesturstandarstórveldinu. Í dag myndi ég fórna Kobe, Odom og einni góðri varaskeifu fyrir LeBron.

Stjórnmál: Ég hef veigrað mér við því að tala um þessa nýju stjórn og ætla að halda því áfram. Það er ekki hægt að byrja að ræða um íslensk stjórnmál án þess að verða brjálaður.

Skólinn: Einn skyndiáfangi í júní, eitt próf í ágúst og MA-ritgerð og þá get ég hafist handa við að verða atvinnulaus stjórnmálafræðingur með MA í alþjóðasamskiptum.

Er lífið ekki dásamlegt?

þriðjudagur, maí 19, 2009

Hið hálf tóma glas...

Þessi pistill birtist hvergi annars staðar en er til heiðurs þeim Liverpool aðdáendum sem standa með hálf fullt glas og eru þegar orðnir Englandsmeistarar næsta vor... enda langbestir nú þegar og að spila skemmtilegustu knattspyrnuna.

Þessi árstími er yfirleitt skemmtilegur, það fer að hlýna, gróðurinn tekur við sér, ákveðið uppgjör gagnvart skóla og vinnu á sér stað, United tekur titil/titla og Liverpool menn fullyrða að næsta ár verði þeirra ár. Ef ég væri Liverpool maður þá væri ég brjálaður yfir að vera án titils þriðja árið í röð. Hvers vegna?

1. Öll hin toppliðin, líka United hafa spilað undir getu og hafa lent í mun meiri meiðslavandræðum en Liverpool, sérstaklega Arsenal og Chelsea sem hafa hreinlega lent í slátrun.

2. Að undanskyldum meiðslum hjá Torres sem spilar 24 deildarleiki ef hann spilar þann síðasta (Rio Ferdinand spilar 25 ef hann spilar þann síðasta) þá hefur næstum enginn Liverpool maður átt off season, Alonso og Gerrard búnir að vera frábærir (báðir sennilega að spila sitt besta tímabil fyrir Liverpool) og Kuyt og Benayoun búnir að spila langt yfir getu. Einhverjir hafa talað um að Gerrard hafi líka verið meiddur, staðreyndin er hins vegar sú að ef hann spilar síðasta leikinn þá hefur hann spilað 31 deildarleik á þessu ári (einum fleiri en Rooney og tveimur færri en Ronaldo) en meðaltalið síðustu 10 árin hjá honum eru 31,9 leikir á tímabili.

3. Þegar dómarar koma saman og fara yfir tölfræði tímabilsins eins og þeir gera fyrir komandi tímabil kemur í ljós að á þessu tímabili hafa hlutirnir fallið virkilega með Liverpool. Vafasamar vítaspyrnur og sú staðreynd að Liverpool hefur verið manni fleiri í yfir 25% leikja sinna, andstæðingarnir hafa fengið 10 rauð spjöld en Liverpool ekkert. Til samanburðar þá fengu andstæðingar United tvisvar rauð spjöld en United menn sjálfir fengu fimm rauð spjöld. Þegar kemur að vítaspyrnum (sem mýtan segir að United fái fullt af og sérstaklega á Old Trafford) þá fengu Liverpool fimm vítaspyrnur og tvær á sig en United fékk fjórar og þrjár á sig. Þá var ein helsta röksemdarfærslan fyrir sigri United í deildinni sú að þeir hefðu svo oft stolið sigri á síðustu mínútunum á þessu tímabili. Staðreyndin er sú að á síðustu 10 mín leikja skoraði Liverpool sjö sinnum sigurmark (fimm sinnum í uppbótartíma) en United skoraði fimm mörk (þar af þrjú í uppbótartíma).

4. Liverpool tekur 14 af 18 stigum gegn hinum stóru liðunum en tapar deildinni samt að öllu óbreyttu með fjórum stigum. United tekur 5 stig af 18 mögulegum. Í þessum leikjum hafa fjögur rauð spjöld litið dagsins ljós, tvö sem voru aldrei rauð (Adebayor og Lampard) og svo tvö á Vidic. Halda Liverpool menn að þeir vinni báða leikina gegn Chelsea og United á næsta ári?
Ef við drögum frá leiki Liverpool við Chelsea og United á þessu tímabili og því síðasta og gefum okkur það að Liverpool vinni síðasta leikinn þá lítur tölfræðin þannig út að Liverpool náði 76 stigum gegn hinum 17 liðunum í fyrra en 74. stigum í ár.

5. Að undanskyldum Torres, Mascherano og Reina þá er kjarninn í Liverpool liðinu á toppi ferils síns núna. Gerrard, Alonso, Carragher, Kuyt og Benayoun eru á aldrinum 28-31 árs og Riera er 27 ára... það er ekki verið að byggja upp til framtíðar heldur núinu, liðið á að vera að taka titla núna ekki seinna. Eini ungi maðurinn er Babel og hann er ískaldur.
Hvert er svo aðalskotmark Liverpool í sumar? Gareth Barry 28 ára.
Hverjir komu í fyrra? Riera 27 ára, R. Keane 29 ára og Dossena 28 ára... sér enginn annar mynstur hérna?

6. Í beinu framhaldi, hvar er framtíðin? Arsenal hefur 100.000 unga leikmenn til framtíðar svo framarlega sem að Wenger haldi liði sínu saman – sem hefur reynst erfitt. Hjá United vann ungmennaliðið Carling Cup með hjálp fárra reynslubolta. Macheda, Welbeck, Evans, Fabio, Rafael, Gibson og Possebon hafa verið að fá tækifæri með aðalliðinu og staðið sig vel og þá bíða Tosic og Ljajic (einn efnilegasti knattspyrnumaður Evrópu sem er 17 ára og hefur verið að spila lykilhlutverk í meistaraliði Partizan Belgrade og kemur í janúar) eftir að fá tækifæri. Þá eru auðvitað óupptaldir Anderson, Nani (sem er reyndar í Babel kulda), Ronaldo, Tevez og Rooney sem eru allir yngri en ,,unga” stórstjarnan Torres (sem að vísu virðist vera komin með Owen/Saha syndrome varðandi aftanílæri tognanir). Hvað með Liverpool, þar er enginn (að Babel undanskyldum og Mascherano sem Rafa er farinn að átta sig á að hentar ekki gegn minni liðum) sjáanlegur sem komið hefur inn á þessari leiktíð og gert eitthvað að viti.

7. Hvar ætlar Liverpool að styrkja liðið sitt? Leikkerfið hans Rafa 4-2-3-1 hentar Liverpool mjög vel með Torres einan frammi og Gerrard í holunni fyrir aftan og tvo varnarsinnaða miðjumenn. Það er ljóst að það sem vantar eru kantmenn sem geta tekið varnarmenn á og bakverði sem geta sótt.
En hvað er vandamálið? Hægra megin er vandamálið að Rafa hefur tekið ástfóstri við Arbeloa (sem er fínn varnarlega en slakur sóknarlega) og Kuyt sem er góður varnarlega en glataður í því sem kantsenterarnir í kerfinu verða að gera sem er að taka menn á. Vinstra megin er vandamálið það að Liverpool á ekki góðan stöðugan vinstri bakvörð og á vinstri kantinum verður hann að fórna annað hvort Babel (sem mögulegri framtíðarstjörnu) eða Riera ætli hann sér framfarir. Hafi þessar fjórar stöður ekki verið nægjanlegur höfuðverkur þá þarf Rafa í sumar að finna góðan senter sem sættir sig við það að spila hugsanlega lítið (ef að Torres er heill). Að finna góðan senter sem getur leyst af að spila einn á toppnum en að sitja jafnframt á bekknum verður höfuðverkur sbr. Robbie Keane. Ég sé ekki hverju Gareth Barry á að breyta nema að auka á breiddina, það væri galið eftir þetta tímabil að skipta Alonso út fyrir Barry.

8. Þetta átti að vera árið sem Liverpool myndi vinna deildina. Hvað gerir stjórnin? Þrjú titilalaus tímabil í röð þrátt fyrir alla eyðsluna undanfarin ár. Styttra í Meistaradeildinni en á síðasta ári, á sama stað ef ekki styttra í FA Cup og Carling Cup en staðið sig betur í deildinni. Nú þegar berast sögusagnir af því að Rafa fái ekki pening nema að selja leikmenn fyrst, hvort það reynist rétt eða hvort um sé að ræða sálfræði til að halda verði niðri (sem er langsótt) þá er ljóst að bresku liðin munu ekki getað keypt jafnt grimmt sökum verri skuldastöðu og gengis á pundinu en auk þess munu Man City, Chelsea og væntanleg Arsenal taka létt eyðslufyllerí sem mun koma niður á möguleikum Liverpool nema að liðið verði keypt af einhverjum olíufurstum.

9. Margt má draga lærdóm af eftir þetta síðasta ár, eitt af því sem Liverpool menn ættu að muna er að taka ekki út hagnað fyrir framtíðina. Það er ekki hægt að segja að Liverpool muni ganga betur á næsta tímabili vegna þess að þá muni Torres spila fleiri leiki, spyrjið Hargreaves, Saha, Owen og alla hina aftanílæris gemlingana. Þá er ljóst að eins og stendur er Liverpool með þynnsta hópinn af topp fjórum liðunum. Bæði Chelsea og United eru með mun breiðari hópa og þá myndi ég persónulega treysta ungviði Arsenal (sem spilað hefur mikið á þessu tímabili í öllum meiðslunum) betur til að koma inn á næsta tímabili en þeim sem standa fyrir utan Liverpool liðið eins og stendur ef að Liverpool myndi lenda í einhverjum teljandi meiðslum sem þeir gerðu aldrei á þessu tímabili.

10. Komandi tímabil verður spennandi, ég ætla að spá því að þetta verði annað hvort heimsfrægð eða dauði. Annað hvort bætir Liverpool við sig mannskap og kreistir út hvern dropa líkt og í ár og stendur uppi sem meistari næsta vor eða að liði tekur Arsenal á þetta, verður óheppið með meiðsli og ekkert fellur fyrir það (ólíkt því þegar allt féll fyrir þá í ár) og endar í þriðja til fjórða sæti ca. 10-15 stigum á eftir toppliðinu (hvort sem það verður Chelsea, Arsenal eða United).

Nú er rúm vika eftir af tímabilinu, leyfum því að fljóta. Tveir verðugir sigurvegarar Meistaradeildarinnar mætast í úrslitaleik keppninnar og vonandi fáum við skemmtilegan leik. Eftir það og raunar örugglega strax eftir síðasta deilarleik um helgina hefst ,,silly season” þar sem að Roanldo, Tevez, Ribery, Kaka, Gerrard, Torres, Lampard, Terry, Fabregas, Adebayor, Messi, Eto´o, David Villa, David Silva og allir hinir verða orðaðir við öll hin stóru lið Evrópu sérstaklega Man City, Chelsea, Real Madrid og Liverpool... hverjir klæðast svo hvaða treyjum næsta vetur verður að koma í ljós en eitt er víst – Liverpool stendur frammi fyrir nákvæmlega sömu vandamálum með liðið sitt og það gerði síðasta haust, nema að nú eru leikmennirnir árinu eldri.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, maí 16, 2009

Myndir sem kæta





























It´s over Rafa!

















Deildartitill númer 11 hjá Hr. 11.
Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

Meistarar... back to back to back!

Meistarar þriðja árið í röð og nú í öðrum gír.

föstudagur, maí 15, 2009

Hrós dagsins

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar og VG þingmaðurinn Lilja Mósesdóttir fá hrós fyrir að gefa skít í hallærislega setningu Alþingis í Dómkirkjunni. Þá fær Siðmennt einnig hrós fyrir að bjóða upp á valkost fyrir þingmenn en Jóhann Björnsson heimspekingur hélt erindið ,,um mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar"... það þarf ekki að lesa lengi í pistil Jóhanns til að átta sig á því hvort eru heilvænlegri skilaboð til þingheims, hans pistill eða 2000 ára gamlar upplognar dæmisögur skítugra barbara fluttar af manni klæddum í kjól.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Hæfileikaríkir hugleysingjar

Ég er kominn á þá skoðun á þetta Lakers lið verði ekki að óbreyttu meistari á næstu árum. Að þurfa að fara í sjö leiki gegn slöku Houston liði sem vantar bæði McGrady og Yao Ming en auk þess varasenterinn sinn er niðurlægjandi. Gasol, Odom og Bynum mynda örugglega eina hæfileikaríkustu framherjasveit NBA sögunnar en eru svo huglausir aumingjar að orð fá því ekki lýst.

Er lífið ekki dásamlegt?

Gott move hjá Clapton?

Ég efast um að aðdáendur Liverpool hafi verið sáttir við Eric Clapton í gærkvöldi þegar hann hélt tónleika í borginni. Að covera Bob Dylan tragedíu lagið Not dark yet sama kvöld og erkifjendurnir frá Manchester gerðu allt nema að tryggja sér formlega titil nr. 18 og jafna þannig titlafjölda Liverpool hlýtur að hafa verið súrsætt í besta falli. Sjálfur hefði ég ekki getað valið betra lag og reyndi ég þó... hér er annað: Not going anywhere.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

miðvikudagur, maí 13, 2009

Are you watching Merseyside?

Hvar eru allir Liverpool mennirnir núna?

þriðjudagur, maí 12, 2009

Gamlir bankar - nýjir bankar

Í von um að réttlætið nái á endanum fram að ganga... þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn vííííííí.... vil ekki heyra neina neikvæðni hér í commentakerfinu!

laugardagur, maí 09, 2009

Vol. 2 - Til hamingju með Evrópudaginn!

Á þessum fallega Evrópudegi ættum við að leggja til hliðar ágreiningsmál um Evrópusambandið og minnast þeirra tuttuguogtveggja af þrátíuogfimm skrefum sem Ísland hefur tekið í átt að Evrópusambandinu og allur meginþorri þjóðarinnar hefur getað glaðst yfir. Jóhanna Sigurðardóttir, Bjarni Ben, Steingrímur J., Sigmundur Davíð, Borgarahreyfingin og öll þeirra hirð geta sammælst um það að inngangan í EFTA og svo EES samningurinn voru að sönnu framfaraskref sem rétt er að fagna. En hinir sönnu sigurvegarar Evrópuvæðingarinnar eru almenningur, íslenska þjóðin lítum á nokkur atriði:

Í dag fagna Íslendingar því sem áunnist hefur með milliskrefinu sem EES samningurinn var og er. Með auknu frelsi, hagkvæmni og þeim afleiðingum sem samningurinn hefur haft á íslenskt samfélag síðustu 15 ár.
Í dag fagna Íslendingar almennt og þó einkum minnihlutahópar þeim mannréttindum sem Evrópusambandið tryggir þeim gagnvart ríkisvaldinu.
Í dag fagna trúlausir og trúaðir auknu trúfrelsi, feministar og frjálshyggjumenn faðmast í sínum rétti, stóriðjusinnar fagna frelsi í orkumálum og umhverfissinnar harðri árangursríkri stefnu o.s.frv.
Í dag fagna aldraðir og öryrkjar Evrópusambandinu fyrir þann öryggisventil sem það hefur reynst gagnvart ríkisvaldinu t.d. varðandi öryrkjadóminn.
Í dag fagna stúdentar erlendis þeim fjölbreyttu valmöguleikum og auknu tækifærum sem myndast hafa við val á háskólum í Evrópu með EES samningnum og þeim leiðum sem þeim eru færir varðandi styrki til slíks náms.
Í dag fagna námsmenn á Íslandi samhæfðri stefnu í menntamálum sem gerir þeim kleift að stunda skiptinám og fjarnám og fá það metið á milli landa en auk þess auknum styrkjum á sviði vísinda og rannsókna.
Í dag fagnar launafólk þeim rétti sínum að geta unnið hvar sem er í Evrópu undir sameiginlegri löggjöf.
Í dag fagna okkar fremstu íþróttamenn, sérstaklega í knattspyrnu, handknattleik og körfubolta þeim auknu möguleikum til að spila með fremstu liðum Evrópu og fá borgað fyrir það sem áður giltu strangar reglur um.
Í dag fagna knattspyrnuáhugamenn jafnt innlendrar sem erlendrar knattspyrnu þeim fjölbreytileika sem frjáls för vinnuafls hefur skapað á íþróttina en áður var fjöldi þeirra takmarkaður. Væri Torres í Liverpool, væri Ronaldo í United, væri Fabregas í Arsenal? Sennilega ekki enda fengu þá færri yngri leikmenn tækifæri í erlendu landi. Sama gildir um aðrar íþróttir.
Í dag fagna þeir sem hafa viljað búa og ferðast um Evrópu þeim þægindum sem slíkt hefur skapað. Ekki síður fagna þeir sem eiga erlenda maka fyrir það aukna frelsi sem myndast hefur.
Í dag fagna neytendur þó því skrefi sem stigið hefur verið í fjölbreytara vöruvali og ódýrari kostum jafnt varðandi mat og föt.
Í dag fagnar Sjávarútvegurinn þeim auknu tækifærum og niðurfellingu hafta og tolla sem ávannst með EES samningnum og skapað hefur gríðarleg verðmæti.
Í dag fagna útflytjendur niðurfellingu hafta og tolla fyrir vörur sínar á evrópska efnahagssvæðið og innflytjendur fagna sömuleiðis í hina áttina. Viðskiptalífið, það sem eftir er af því fagnar.
Í dag fögnum við þeim fjölbreytileika sem orðið hefur í íslensku samfélagi t.d. í formi annarrar menningar og erlendra veitingahúsa.
Í dag má einnig fagna auknu öryggi Íslands í gegnum Schengen samstarfið.
Í dag fagna Alþýðusamband Íslands, Viðskiptaráð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og mörg fleiri hagsmunasamtök þess sem áunnist hefur með Evrópuvæðingu og munu halda áfram að berjast fyrir bættu samfélagi í gegnum inngöngu í ESB.

Í dag er svo sannarlega ástæða til að fagna ofangreindu og mörgu fleiru og sameinast um það sem þegar hefur áunnist - megi sú þróun halda lengi áfram!

Áfram Ísland - Áfram Evrópa!

Til hamingju með Evrópudaginn!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

Til hamingju með Evrópudaginn!

Þegar gengið er um miðbæ Reykjavíkur í dag á þessum fagra bjarta vordegi, framhjá sendiráðum vina- og grannþjóða okkar í Evrópu má sjá blakta tvo fána hlið við hlið. Annars vegar hinn hefðbundna fána viðkomandi þjóðríkis og hins vegar fána Evrópusambandsins.
Það var á lágpunkti mannkynssögunnar, eftir að þjóðernishyggjan hafði valdið því að íbúar Evrópu slátruðu hvorum öðrum í tug milljóna tali í síðari heimsstyrjöldinni að menn litu grátbólgnir yfir vígvöllinn og sameinuðust um að slíkt mætti aldrei gerast aftur. Hugmyndin var sú að með því að samþætta efnahagslega hagsmuni ríkjanna mætti koma í veg fyrir stríð - að efnahagslegir hagsmunir myndu stuðla að pólitískum markmiðum.
Þá samvinnu má rekja til yfirlýsingar Robert Schuman þáverandi utanríkisráðherra Frakklands þennan dag, 9. maí árið 1950. Tæpu ári síðar var Kola- og stálbandalagið myndað sem upphaf þeirrar Evrópusamvinnu sem við í dag þekkjum sem Evrópusambandið.
Upphaflega var einungis um mjög takmarkaða samvinnu milli sex ríkja að ræða en í dag er Evrópusambandið samband 27 fullvalda og sjálfstæðra ríkja sem í sameiningu eru ekki einungis stærsta viðskiptablokk í heiminum (stærri en Bandaríkin) heldur leiðandi afl á fjölmörgum sviðum og má þar nefna umhverfisvernd, aðstoð við þriðja heiminn og við útbreiðslu lýðræðishugsjóna og mannréttinda sem ná langt út fyrir sambandið. Samvinnan nær m.a. til Tyrkland sem í framtíðinni verður væntanlega aðili að sambandinu en einnig þaðan til grannríkjanna í miðausturlöndum þar sem ESB ætlar sér stærra hlutverk til að koma á friði en eins á Evrópusambandið í sérstöku samstarfi við alla norðurströnd Afríku hinumegin við Miðjarðarhafið, þar sem markmiðið til lengri tíma er væntanlega að reyna að stuðla að samskonar samvinnu þar sem efnahagslegir hagsmunir þeirra ríkja myndu leiða að pólitískum markmiðum um grundvallarhugsjónir.
Innan sambandsins hafa lönd blómstrað og þroskast með grunnhugsjónum sambandsins um lýðræði, mannréttindi, tjáningarfrelsi, jafnrétti og frelsi einstaklingsins, jafnt þjóðir á borð við Þýskaland og Ítalíu sem stóðu á bakvið hræðilegustu fasistastjórnir mannkynssögunnar og á hinum endanum nú nýverið fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna í allri sinni eymd og grimmd. Þær framfarir og pólitísku breytingar sem felast í grunngildunum má ekki síst rekja til efnahagslegrar samvinnu og á síðari árum í sameiginlegum gjaldmiðli sem hjálpað hefur þjóðum sem áður stóðu í eilífu efnahagslegu basli eins og við Íslendingar. Aðeins eitt ríki (Grænland) hefur sagt sig úr sambandinu en annars hefur ekkert ríki, ekki nokkur lýðræðissinnaður flokkur eða íbúar nokkurar þjóðar lagt til að segja sig úr sambandinu. Í viðamiklum rannsóknum á viðhorfum íbúa aðildarríkja Evrópusambandsins mælist engin þjóð neikvæðari í garð þess en jákvæð og þau ríki sem eru tregust innan sambandsins svo sem Bretar myndu aldrei láta sér detta í hug að ganga út úr Evrópusambandinu (ekki einu sinni frú Thatcher ein helsta stjarna íslenskra hægri manna og fyrrverandi leiðtogi Íhaldsflokksins lét sér detta það í hug).
Dagurinn í dag gæti vel verið síðasti Evrópudagurinn sem við Íslendingar stöndum utan Evrópusambandsins. Þó að hér höfum við ekki búið við alvarlega öfgaflokka né upplifað heimsstyrjöld hefur barnaleg hugmyndafræði í bland við ógeðfellda þjóðernishyggju lagt allt í rúst þannig að legið hefur við borgarastyrjöld. Við verðum líkt og vina- og grannþjóðir okkar að læra af reynslunni og lofa sjálfum okkur því sem nú horfum grátbólgin á Ísland brenna að slíkt megi aldrei gerst aftur, til þess þarf eitt skref framávið. Kæru Íslendingar, þetta er óður til gleðinnar - Til hamingju með Evrópudaginn!

Schuman yfirlýsingin

Europe will not be made all at once, or according to a single plan. It will be built through concrete achievements which first create a de facto solidarity. The coming together of the nations of Europe requires the elimination of the age-old opposition of France and Germany. Any action taken must in the first place concern these two countries. With this aim in view, the French Government proposes that action be taken immediately on one limited but decisive point.

It proposes that Franco-German production of coal and steel as a whole be placed under a common High Authority, within the framework of an organization open to the participation of the other countries of Europe. The pooling of coal and steel production should immediately provide for the setting up of common foundations for economic development as a first step in the federation of Europe, and will change the destinies of those regions which have long been devoted to the manufacture of munitions of war, of which they have been the most constant victims.

– Robert Schuman, extract from 9 May declaration.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, maí 05, 2009

Mikilvægi þess að þjóðin ýti á eftir stjórnmálamönnunum

Það virðist vera einhver ótrúleg hægðatregða við stjórnarmyndunina og því ennþá mikilvægara að frjálslynt fólk standi saman og skrái sig á sammala.is til að þrýsta á stjórnvöld að fara í aðildarviðræður og leggja að því loknu samning fyrir kjósendur - er einhver sem getur mótmælt því, sama hvaða skoðun viðkomandi hefur fyrirfram á ESB?

Er lífið ekki dásamlegt?

Stjórnarmyndanir síðustu áratugi

Á meðan þjóðin bíður óþreyjufull eftir að ný ríkisstjórn sé mynduð og geri sitt besta til að bjarga Íslandi, er hér góð grein eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing og lektor við HR sem ber heitið Stjórnarmyndanir á Íslandi 1971-2007 og fjallar um hversu langan tíma stjórnarmyndanir hafa tekið á þeim tíma.

Er lífið ekki dásamlegt?

mánudagur, maí 04, 2009

Fyrirgefum vorum skuldunautum...

Ég vil tileinka þennan pistil tveimur vinstri mönnum, Baldri Knútssyni af augljósum ástæðum og föður mínum (í gríni) fyrir að vekja upp þessa hugmynd.

Í einni af sorglegri smásögum lífs míns fram til þessa átti ég mér örlíf sem knattspyrnumaður. Sá ferill var vonbrigði, bæði stuttur og dapur (en þó saga sem ég hef lært að meta). Ég var skapillur, líklega einhver versti tapari míns árgangs og fékk oft að fjúka útaf vellinum vegna þessa. Eitt augnablik á knattspyrnuferlinum verður mér ávallt ógleymanlegt vegna afleiðinganna. Í móðursýki í miðjum leik í upphafi tímabils snérist ég gegn einum mínum samherja, besta vini, fyrirliða og sálufélaga (fyrr og síðar) og ældi yfir hann ógeðfelldum orðum sem leiddi til þess að þjálfarinn tók mig útaf og ég í þessu óþroskaða ofsakasti kastaði treyjunni í áttina að honum – leikirnir hjá mér urðu ekki fleiri þetta sumarið.

En það var ekki brottreksturinn sjálfur eða refsingin sem ég lærði mest af, heldur þegar tveimur dögum seinna ég hafði einangrað mig félagslega frá samherjum mínum bæði reiður og skömmustulegur, fékk símtal sem ég hafði sjálfur ekki getað framkvæmt. Hinumegin á línunni var umræddur sálufélagi, vinur og fyrirliði og inntak símtalsins var hvort við ætluðum nokkuð að láta (að hans mati) þetta litla atvik hafa áhrif á vinskap okkar. Hann var meiri maður og tilbúinn til að fyrirgefa það sem ég hafði ekki þroska til að biðjast afsökunnar á.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sveiflað höndum, valdið hruni, brugðist þjóðinni og er ekki tilbúinn til að biðjast afsökunar á því – hann situr nú eins og ég forðum reiður, skömmustulegur í einangrun sinni (jafnt pólitískt og stefnulega) og þorir ekki að taka upp tólið. Það er í okkar höndum að sýna meiri þroska og fyrirgefa honum það (þó að við munum ekki fremur en hann gleyma því sem gerðist) við látum ekki svona lítið atviki hafa áhrif á vinskap okkar.

Hann tekur nú sína refsingu út á næstu árum en við þörfnumst hans engu að síður til að takast á við enduruppbygginguna með okkur, til að leggja frjálslyndu fólki lið við að marka stefnu til framtíðar t.d. með því að endurmeta á yfirvegaðan hátt afstöðu sína til Evrópusambandsins – ég efa það ekki að Sjálfstæðisflokkurinn mun koma heilbrigðari til baka, draga lærdóm af reynslu sinni og reyna að finna sinn stað í auðmýkt þar sem honum tekst best upp. Ekki í núverandi stefnu harðrar einangrunarhyggju heldur sem frjálslyndur flokkur hægra megin við miðju sem tekur upplýstar ákvarðanir út frá hagsmunum fyrirtækja og almennings. Staðreyndin er einfaldlega sú að núverandi forysta færi létt með það, Bjarni Ben og Þorgerður Katrín þurfa hreinlega að stíga útúr Evrópuskápnum sem þau hafa margsinnist gægst útum og hafa raunar gefið undir fótinn strax að loknum kosningum.
EF flokknum tekst það ekki og EF (Risa ,,EF”) Samfylkingin og VG fara saman inn í ESB hvar ætlar hann þá sögulega að réttlæta sig? Með tilvísun í inngöngu í (að nánast marklausri aðild í nútíð að) NATO?

Á frægum Borgarafundi í Háskólabíói þar sem sextíuogþremur berrössuðum keisurum var stillt upp á svið mælti skáldið góða Einar Már svo: ,,Við gerum ekki kröfur um að Sjálfstæðisflokkurinn breyti neinu. En ég geri kröfur til ykkar jafnaðarmanna. Til Samfylkingarinnar.” Ég vil snúa útúr orðum Einars og segja: Við hægri kratar gerum ekki kröfur um að (froðufellandi þjóðernis sósíalistarnir í) VG sækji um aðild. En ég geri þá kröfu til frjálslyndra manna! Til ykkar Sjálfstæðisflokkur! Þið sem við höfum getað treyst á þegar Ísland hefur þurft á alþjóðasamstarfi að halda líkt og nú, fyrst með EFTA skrefinu, þá með EES samningnum og nú með aðildarviðræðum við ESB. Hættið um stund að kyssa vönd LÍÚ og sjáum hvað kemur útúr aðildarviðræðunum.

Lærdómurinn af ómerkilegu smásögunni minni liggur ekki einungis frammi fyrir Sjálfstæðisflokknum. Það er oft kvartað yfir því að flokkar hegði sér alltaf eins og lið – það í sjálfum sér er ekki vandamálið ef að einstaklingarnir spila saman en ólíkar stöður, þar sem einstaklingarnir herma ekki eingöngu eftir þeim sem fer fremstur (og hvað þá þegar liðið er orðið klapplið aðal stjörnunnar). Vandamálið er mun fremur það að einstaklingarnir geti ekki hegðað sér eins og alvöru íþróttamenn, tekist á af hörku en heiðarleika og tekist í hendur að leik loknum – sætt sig við niðurstöðuna (áfangasigur Evrópusinna).

Margt bendir til þess að breytingar gætu orðið á því hátterni innan Sjálfstæðisflokksins það sannar jákvæð ræða Bjarna Ben eftir stærsta tap í sögu Sjálfstæðisflokksins (á meðan VG gátu ekki leynt vonbrigðum sínum með úrslitin sem þó var stórsigur), það er ljóst að margir hægri sinnaðir Evrópusinnar bíða spenntir eftir endurmati.

Ég get einungis talað fyrir mína hönd en Sjálfstæðisflokkur frá mínum bæjardyrum séð er þér fyrirgefið og taktu þér nú tak í nafni skynseminnar! Hver getur líka verið reiður út í hóp svona fagurra einstaklinga til lengdar? Er enginn farinn að sakna þeirra?






Evrópusinnuð kveðja Bjarni Þór Pétursson.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

sunnudagur, maí 03, 2009

Hefur einhver séð uppstilltari mynd?







Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, maí 01, 2009

Ellefu mýtur um ESB

Loksins, loksins, loksins!

Það var löngu tímabært að lesendur þessarar síðu fengju að lesa það annars staðar en hér hversu margar mýtur um ESB eru í gangi. Ég bið ykkur um að lesa pistil eftir hinn Harvard menntaða hagfræðing, fyrrum fjármála- og utanríkisráðherra og manninn sem ,,færði okkur" EES samninginn: Jón Baldvin - Ellefu firrur um Evruland. Taki nú aðrir að dreifa boðskapnum með okkur.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , ,

Örstutt um heilbrigt samfélag

Ef við byggjum í heilbrigðu samfélagi og stjórnmálamenn landsins tækju ákvarðanir út frá gagnrýnni hugsun og skynsemi, hefði fyrsta verk nýrrar stjórnar (áður en stjórnarsáttmáli var undirbúinn) verið það að sækja um aðild að ESB. Fjármál heimilanna, staða viðskiptalífsins og halli ríkissjóðs kalla á það. Kallað er eftir öðrum leiðum en ESB en bergmálið er eina svar þeirra sem svo öskra - engar lausnir í sex mánuði.
En hvað gerist ef við veljum leið skuldaskussans sem valin hefur verið síðustu sex mánuði og höldum áfram að ,,gera ekki neitt"? Þá er ljóst að EES samningurinn er í hættu, við erum nú þegar að þverbrjóta hann með gjaldeyrishöftum og það kom fram á fundi sem Alþjóðamálastofnun hélt í gær, það myndi aftur þýða algjört hrun - sú frétt ratar sem ,,mini frétt" á bls 4 í Fréttablaðinu en hver skyldi þá vera stóra fréttin vera á bls 2?
Það hlýtur að vera stórfrétt sem slær út fréttina um framtíðarhorfur okkar næstu árin eða hvað? Jú, kona er miður sín vegna þess að hún hefur uppgötvað að legsteinn á leiði látins eiginmanns hennar er til fóta! Er eitthvað meira lýsandi fyrir kjánagang mála á Íslandi í dag?

Er lífið ekki dásamlegt?