fimmtudagur, janúar 31, 2008

Haminguóskir

Ég sendi alltof sjaldan hamingjuóskir, en í dag á faðir minn afmæli og er hann orðinn 53 ára - til hamingju með það.
Hans menn í Liverpool sýndu þessum merka áfanga líka virðingu með að drulla á sig gegn West Ham og láta þannig krauma aðeins meira undir öllum pottum á Anfield - sem skiptir ekki miklu máli, maturinn í þeim er óætur.

Minni jafnt gamla kommunista sem og unga frjálshyggjumenn á viðtalið við Zizek sem má sjá hér (eftir um 1/4 af þættinum) - algjör snilld.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Fáir punktar

Ég ætlaði að skrifa lang punktablogg en varð truflaður og svo kom efni í aðra færslu sem kemur í nótt - læt því fáa punkta nægja.

Pólitík: Ég er ennþá að jafna mig eftir Rambo IV (sjá síðustu færslu) og horfði hálf meðvitundalítill á prófkjörið í Flórída í nótt. Sigur Hillary var stór en þýðingarlítill þar sem kjörmennirinir töldu ekki en McCain vann algjöran möst sigur (þar sem hann ásamt raunar fleiri frambjóðendum Rep að Romney undanskyldum eru að verða búnir með auglýsingapeningana sína) og nú er von á því að Giuliani dragi framboð sitt til baka og hoppi upp á kosningarvagn McCain enda þeir bæði góðir vinir (og svo allt eins líklegt ef að Giuliani verður varaforseti að hann endi sem forseti, enda McCain að verða 72 ára í haust og gæti orðið elsti forsetinn). Annars er þessi með þýðinguna á úrslitum kvöldsins á hreinu.


En kosningarnar í Flórída auðvitað að takast vel eins og alltaf - hálfvitar.


Blaður: Zizek er í Kiljunni í kvöld - Hannes Hólmsteinn vinstri manna myndi einhver segja... gaman af þeim báðum samt.


Knattspyrna: Sissoko farinn frá Liverpool - því fagna allir góðir knattspyrnuunnendur!


Er lífið ekki dásamlegt?

Brútal - Rambo IV

,,Djöfull er langt síðan að við gömlu félagarnir fórum í bíó" hugsa gagnkynhneigðir menn stundum með sér og nú er heldur betur komið að því!!! Ég fór í kvöld á forsýningu á Rambo IV þökk sé Hagnaði. Án efa karlmannlegasta mynd ársins. Þvílík stemmning og pungfíla skapaðist í bíó og í raun svo mikil að í seinni helmingi myndarinnar fann ég fyrir einhverjum óþægindum og varð þá ljóst að vaxið hafði á mig þriðja eistað.
En stemmningin var gríðarleg og menn fögnuðu ákaft þegar að John Rambo murkaði lífið úr mönnum á dramatískan hátt og one-linerar flugu og voru svo stórkostlegir að maður fór að vonast til að Sly gerði Driven II (djöfull var fyrsta myndin ógeðslega léleg).
Það er ekki að furða þó að McCain sé vinsæll þessa daganna í USA því eftir myndina langaði mig helst til að lyfta lóðum, rífa mig úr bolnum og smyrja á mig olíu og kýla einhvern, öskra, skjóta einhvern með boga og lesa pistil eftir Björn Bjarnason.
Ég er ekki frá því að mæla megi aukið ofbeldi meðal fólks eftir að hafa séð þessa mynd. Þetta er ekki mynd fyrir konur og homma og varla fyrir friðarsinna, dýraverndunarsinna eða náttúruverndarsinna eða aðra álíka hópa sem efast um kynhneigð sína - þetta er hins vegar mynd sem er aðallega fyrir menn sem mælast með of mikið magn af testósteron í líkamanum, fyrir handboltarokkara og fyrir þá sem elska að segja ,,Fuck Yeah" en einnig fyrir þá sem hafa gaman að karlmannlegum myndum á tíma þar sem pólitísk rétthugsun og flöt bómullarvafin meðalmennska einkenna umhverfið.

Live for nothing, or die for something.




Er lífið ekki dásamlegt?


Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Rugl og ennþá meira rugl

Fréttablaðið birtir í dag á bls 23 nokkur atriði sem gera mætti fyrir 600 milljónirnar sem notaðar verða til að kaupa þessa tvo viðbjóðslega ljótu og ónýtu bragga á Laugarveginum. Nú getið þið margfaldað með tölunni 8,333 við hvern þessara liða og þá fáið þið út hvað má gera fyrir þá rúmlega 5 milljarða sem ríkið EYÐIR árlega í Þjóðkirkjuna og allt það þarflausa batterý.
Þessi grein er svo ein sú besta sem ég hef lesið í töluverðan tíma.

Er lífið ekki dásamlegt?

Það er momentið sjálft frosið... eða hvað?

Allt frá því að kosningabaráttan fór af stað hafa frambjóðendur við hvert tækifæri talað um ,,The Momentum" - augnablikið sé þeirra og meðbyr. Hingað til hefur fátt bent til þess að um það sé raunverulega að ræða. Í gær fann maður þó smá augnablik þegar að Edward Kennedy með tvo aðra úr Kennedy fjölskyldunni á sviði lýsti yfir stuðningi við Obama með dramatískum hætti þar sem vitnað var til orða MLK og Obama borinn saman við sjálfan JFK.
Kennedy fjölskyldan er auðvitað ennþá mjög virt innan Demókrataflokksins og stóð á sínum tíma nærri Bill Clinton, þess vegna er þetta algjör martröð fyrir Hillary nú þegar að Super Tuesday er handan við hornið og þó hún hafi forskot í öllum ríkjum að heimafylki Obama undanskyldu þá er ljóst að þessi stuðningur mun hafa töluverð áhrif og kannski er þetta ,,The Momentum".
Það er á brattann að sækja fyrir Obama, það er underdog lykt í loftinu, spennan mun aukast við þetta en við skulum ekki gleyma því að hann er í raun að keppa við tvo frambjóðendur, þ.e. Clinton hjónin sem eru í þessu saman þó að framboðið sé í hennar nafni. Það gæti eitthvað stórkostlegt gerst; ég vonaði að Hillay færi fram, en eftir að hún fór að blanda Bill (sem reyndar var afbragð forseti) inn í þetta þá minnkaði mitt álit á henni.
Svo er líka eitthvað svo fallegt við það þegar að þeim sem er ,,ætlað" að verða eitthvað í fyrsta sinn eins og að Hillary sem eiginkona fyrrverandi forseta verði fyrsti kvenforsetinn mistakist það á kostnað þess sem er underdog í sömu stöðu - það myndi líka gefa manni nokkra glottandi daga, þegar að feministaelíta Íslands myndi ýlfra af pirringi.
Að öðru leyti er Hillary auðvitað mun betri kostur en frambjóðendur ,,Hins Illa" - þar býður maður alltaf eftir því að hinn hryllingslega brosandi McCain rífi af sér andlitið og undan því blasi við Dick Cheney og ef að Romney verður fyrir valinu þá hallast ég að því að hann verði þeirra John Kerry. Auk þess held ég að Hillary verði mun betri forseti heldur en frambjóðandi, kannski ekki ólíkt Ingibjörgu Sólrúnu - kannski verður hún að sætta sig við það í bili eins og stallsystir hennar á Íslandi að vera ,,næstum því"... myndi hún taka að sér að vera varaforsetaefni, það held ég ekki.

Fyrir ykkur sem ekki hafið áhuga á stjórnmálum - þið ættuð að skammast ykkar

Viðbót: Kvennagráturinn er þegar hafinn vestanhafs.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Nýjar fréttir?

Þetta er næstum því hálfs mánaða gömul frétt en ég man ekki eftir að hafa séð hana. Kannski er þetta old news fyrir ykkur en langþráð comeback hjá Jackson er á næsta leyti.

Hér sýnist mér (ber ekki ábyrgð á því) sem að lagið sé í fullri lengd - The Girl is mine (remix).
Veit ekki hvað ég á að segja um þetta lag en mér líst vel á það að Akon og Kanye West hafi tekið að sér að remixa lög af Thriller, fyrst hann á annað borð velur þá leið í tilefni 25 ára afmælis plötunnar. En maður á örugglega eftir að heyra óþægilega mikið af þessu og fá ógeð.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 28, 2008

FC United

Mikið hefur verið rætt um að eignarhald á ,,knattspyrnuliðinu" Liverpool að undanförnu og flestir aðdáendur liðsins gjörsamlega brjálaðir yfir að skuldir hafi nú verið færðar yfir á félagið en þær blikkna í samanburði við þær skuldir sem Glazer fjölskyldan lét á Manchester United. Þá var mörgum stuðningsmönnum United nóg boðið og stofnuðu eins og margir muna nýtt lið að nafni FC United of Manchester og var hluti af þeim af harðasta kjarna Manchester United stuðningsmanna. Þessi aðdáendahópur á heiðurinn að einum fyndnasta söng sem sunginn er á Englandi.

Alvöru stuðningsmenn

Er lífið ekki dásamlegt?

sunnudagur, janúar 27, 2008

Trúa, trúa, trúa!!!

Á næstu dögum fer væntanlega að krauma enn frekar undir í bandarískum stjórnmálum vegna kosninga um leiðtogaefni flokkanna fyrir komandi forsetakosningar seinna á árinu. CNN mun sýna frá síðustu rökræðum Repúblikana þann 31.jan og 1. febrúar mun stöðin sýna frá síðustu rökræðum Demókrata fyrir ,,Super Tuesday" 5.feb - þar sem þetta mun allt ráðast.

Raunar er ástandið nú þegar komið á stig bananalýðveldisins og sæta þrír ríkisstarfsmenn nú rannsókn fyrir að dreifa lygum um Obama.

Besta ráðið fyrir Íslendinga sem eru ekki með allt á hreinu og eru ekki í stöðugu fjölmiðlasamskiptum við BNA er að fylgjast með Thruth-o-meter sem rannsakar hversu mikið sannleiksgildi er í fullyrðingum frambjóðenda og annarra og hefur CNN notast við hana og ráðgjafa sem þar skrifa að undanförnu. Hér má meðal annars sjá nokkra dóma um lygina varðandi Obama undir liðnum ,,Our Rulings" sem fellur undir ,,Pants on fire" sem stendur að sjálfsögðu fyrir helber ósannindi eða eins og segir í vísunni ,,Liar, Liar Pants on fire"

Hvenær ætli svona síða verði búin til á Íslandi?

...Að öðru leyti er CNN síðan sjálf nánast með óþægilega mikið magn af upplýsingum um allt sem tengist kosningunum. Trúi því ekki að það séu að verða 4 ár síðan að ég gekk um götur New York borgar að upplifa vonbrigðin 2004, þvílíkt anti climax!

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Obama tók South Carolina

Obama pakkaði Hillay saman í S-Carolina og fékk rúmlega tvöfalt fylgi miðað við hana, þ.e. 55% gegn 27% og hélt að því loknu magnaða ræðu sem Hillary vonar eflaust að sem fæstir sjái. Stæði valið um það hver flytti bestu ræðurnar af öllum frambjóðendum fengi Obama væntanlega rússneska kosningu.
Það er ótrúlegt að fyrir aðeins nokkrum mánuðum hafði Hillary 20% forskot á Obama í fylkinu en tapar nú eins og áður segir með 27% mun, sem er sveifla upp á næstum 50%. Til að bæta ofan á þetta sigraði Hillary aðeins í einum hluta S-Carolina, þeim hluta sem einhverjir lesendur þessarar síðu kannast við, þ.e. Myrtle Beach og er mér tjáð samkvæmt öruggum heimildum að Birgir Sverrisson hafi séð um að dreifa fjöldapósti fyrir Hillary þar og að það sé jafnframt ástæðan fyrir því að hann hefur ekki skrifað lengi á andfotbolti.net.

Nú er hins vegar erfiður tími framundan fyrir Obama því kannannir sýna að Hillary hefur forskot í öllum fylkjunum þar sem kosið verður á ,,Super Tuesday" 5.feb að undanskyldu heimafylki Obama og við þetta bætist að Bill Clinton er að fara hamförum í kosningabaráttunni og er út um allt, reyndar er hann svo aktívur að halda mætti að hann væri í endurkjöri og hafa fréttaskýrendur vestanhafs sagt að Hillary verði hreinlega að grípa í taumana og sýna fram á að þetta sé hennar framboð en ekki hans... enda er hann ótrúlega vinsæll.
Þannig er líklegt (að þó að Bill verði skipað að róa sig) að þau hjónin komist á tvöfalt fleiri staði en Obama á þessum örfáu dögum þangað til að úrslit ráðast. Obama fékk þó nokkuð stóra hjálparhönd því að í sunnudagsblaði New York Times birtist grein eftir dóttur JFK sem ber heitið ,,A President Like My Father" sem ætti að ýta undir stuðning við Obama enda JFK einhver vinsælasti forseti sem Bandaríkjamenn hafa átt.
Það er ljóst að þriðjudagurinn 5.feb getur ekki komið of snemma - þvílík spenna.

Fyrir ykkur sem getið ekki beðið bendi ég á þennan fyrirlestur

Viðbrögð fréttaskýrenda CNN - við sigri Obama í nótt.


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

laugardagur, janúar 26, 2008

Fleiri í algjöru bulli

Lesið þessa færslu og horfið á meðfylgjandi myndaband... sá sem commentar fyrst mælir líka með því að menn hlusti í heyrnartólum. Stjórnmálamenn vestanhafs ætla greinilega ekki að láta starfsbræður sína á Íslandi slá sig útaf laginu.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Af áframhaldandi skemmtiatriðum í Ráðhúsinu

1. Ég væri alveg til í að lenda í því sem Kristín Edwald lenti í. Ágætt að fá þær fréttir bara fljótlega - en svona að öllu gríni slepptu... WTF???

2. Gott að borgarstjórinn reynist traustur og veit greinilega hvað hann er að gera. Þetta er eiginlega svona George Bush myndskeið. ,,Já, já Hanna Birna Kristjánsdóttir já"

3. Gott að aðrir borgarfulltrúar eru samt að gera skynsamlega hluti... eða hvað? Milljarður fyrir einhverja þrjá útmigna og ljóta bragga sem varla standa!!! Djöfulsins fíflagangur... bara rífa þessi ómerkilegu hús.


Það er þó gott að geta skemmt sér yfir einhverju öðru líka.


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, janúar 25, 2008

Þessi veröld...

Leonard Cohen kemur til bjargar á þessum síðustu og verstu tímum og ætlar á sitt fyrsta tónleikaferðalag í 15 ár. Því hljóta öll heyrandi eyru að fagna.

Leonard Cohen - The Guests

Leonard Cohen - Famous blue raincoat

Leonard Cohen - Avalanche

Leonard Cohen: The Stranger Song


Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Þegar hið mikilvægasta gleymist

Allt fjaðrafokið í kringum þennan heimskulega barnalega nýja meirihluta í borginni og andlega vanheilsu nýs borgarstjóra hefur gert það að verkum að hið mikilvægasta hefur gleymst. Þetta varð mér ljóst þegar ég sá þær dásamlegu fréttir að samherjar Björns Inga hafi hrakið hann á brott úr flokknum og þar með farið ansi langt með það að gefa hreinlega skít í fylgisaukningu í Reykjavík og að fá nýjan og ferskan leiðtoga - sem er mikil þörf á.
Aðalatriðið er auðvitað það sem ég hef lengi talað fyrir, þ.e. Framsóknarlausu Íslandi... nú er það staðreynd Framsóknarlaust Ísland 2008, hver er ekki glaður með það?
Næsta von mín er sú að Framsóknarflokkurinn nái því ekki að verða 100 ára og miðað við frammistöðuna undanfarin tvö ár þá fer flokkurinn létt með það á þeim átta árum sem eru til stefnu!

Það er annars gaman að lesa síðustu færslur Björns Inga. Hver segir að einn dagur sé ekki eilífð í pólitík:

22.janúar segir hann: ,, Á stuttum tíma hefur ótrúlega mikið gengið á í lífi alls þessa fólks. Og flestir telja að enn eigi óskaplega mikið eftir að ganga á, jafnvel eru uppi efasemdir um að nýr meirihluti sé ekki á vetur setjandi.
Hvað gerist þá? Ekki verður kosið aftur, kjörtímabilið er fjögur ár og því verður ekki breytt.
Það er eitthvað sem segir mér, að kannski eigi ég eftir að snúa aftur í Ráðhúsið fljótlega með dótið mitt. Kannski fyrr en nokkurn grunar
."

23. janúar segir hann hins vegar í yfirlýsingu: ,, Ég mun því óska eftir lausn frá störfum sem borgarfulltrúi í Reykjavík á borgarstjórnarfundi frá og með deginum í dag að telja. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, tekur við sem borgarfulltrúi til og með þeim tíma."

...How does it feel
How does it feel
To be without a home
Like a complete unknown
Like a rolling stone?

Er lífið ekki dásamlegt?

miðvikudagur, janúar 23, 2008

All time hiphop topp 5 - Birgir Sverrisson

Nýr liður hér á blogginu. Birgir Sverrisson aka Hr.Andfotbolti ríður á vaðið með vali á sínum all time 5 uppáhalds hiphop lögum. Ansi skemmtileg blanda hér á ferðinni, shit hvað ég var búinn að gleyma fyrsta laginu... ætlaði að kafna úr hlátri þegar að ég heyrði það.

1. 2 live crew - Hoochie Mama (Nasty Version)

2. 2pac-Tupac How Do U Want It

3. Wu Tang Clan - Gravel Pit [2001]

4. 2Pac, Snoop Dogg - 2 of Amerikaz Most Wanted

5. Hypnotize--The Notorious B.I.G. (Biggi hlaut auðvitað að setja eitt með Biggie, annað er ekki hægt)


Bonus Track: Eazy E - Boyz n the hood

Ég mun svo hafa samband við menn úr ghettóinu til að fá samskonar lista hjá þeim, ekki örvænta. Ég þakka Bigga fyrir hans framlag og megir þú eiga ánægjulega daga á hlýrabol vestanhafs á meðan við færumst nær alkuli hér á klakanum.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

Lífið á L45

Fyrir Örnu - sem spurði mig rétt í þessu hvort að ég vildi ekki bara sofa hjá þessari söngkonu...

Keren Ann - Not going anywhere

Arna er samt öll að hressast, búin að vera veik þessi elska. Var hún rétt í þessu að taka lesbíutakta og setti saman IKEA náttborð klukkan 03:00 rétt eftir að hún lagaði kranann á baðinu á meðan ég tiplaði um á litlum nærfötum, færði henni bjór og dúllaði mér við það að hlusta á þetta alltof kvenlega lag... eins gott að það fari að styttast í næsta United leik, lífið hér á L45 er orðið full öfugsnúið!

Jæja, farinn að raka á mér lappirnar!

Er lífið ekki dásamlegt?

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Hvað er hægt að segja?

Það er fátt hægt að segja sem ekki hefur verið sagt um nýjan borgarmeirihluta. Það er ljótt að segja það en Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið manni til valda sem borgarstjóra sem hefur átt við andleg vandamál að stríða - eitthvað sem fólk ætti ekki að nýta sér, en er engu að síður staðreynd, staðreynd sem talað er um að Sjálfstæðismenn hafi nýtt sér þegar að Ólafur snéri aftur til starfa eftir veikindafrí. Þetta gerir Sjálfstæðisflokkurinn án þess að hafa varamenn Frjálslyndra með sér og vitandi það að Ólafur hefur aldrei síðan hann kom úr veikindaleyfi setið heilan fund og ef hann fer af fundi þá slítur Margrét og co meirihlutanum; auk þess með vitneskju um það að Ólafur F. Magnússon slítur samstarfinu ef hann fær ekki öllu sínu framgengt og er sérstaklega vís til þess þar sem (a) hann sleit fráfarandi meirihluta án sýnilegrar ástæðu (b) Vilhjálmur hefur nú þegar stungið hann í bakið og hann myndi því allra síst sjá eftir því.
Að því sögðu eru tveir möguleikar í stöðunni (a) Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn er valdasjúkur flokkur sem gerir hvað sem er a la Framsókn til að sitja með völd (b) Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn er hefndarsjúkur flokkur, sem sér ekkert annað en að koma fram hefndum í hvaða formi sem er - það er þó ljóst að þetta er afar örvæntingarfullur leikur sem sennilega mun reynast mjög heimskulegur þegar á líður.

Það er óþarfi að endurtaka allt sem aðrir eru að segja og rétt að benda á linka að neðan þar sem aðrir menn velta þessu fyrir sér og auk þess er möst að horfa á Fréttamannafundinn í gær (þar sem meirihlutinn var allur sem einn fýldur), viðtölin við minnihlutann (sem allur var brosandi yfir vitleysunni) og svo viðtalið við Ólaf í Kastljósinu. Flestir, hvar í flokki sem þeir standa virðast vera sammála eða gefa það til kynna að þessi nýji meirihluti verði ekki langlífur.
Ég tek undir það að sennilega er þetta fyrsta skrefið í lengri farsa sem í það minnsta mun stytta þetta líflausa skammdegi sem janúar og febrúar eru.

Stefán Pálsson - Pólitískur spádómur

Deiglan (ungir Sjálfstæðismenn) - Annað tækifæri sjálfstæðismanna

Össur Skarphéðinsson - Pólitískt skyndibrullaup

Pétur Gunnarsson - Björtu hliðarnar

Orðið á götunni - til í allt án Villa

Skúli Helgason - Leikhúsið við tjörnina


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

mánudagur, janúar 21, 2008

Íslensk stjórnmál - dregur til tíðinda?

Það er ekki öll steypan eins. Dagurinn í dag gæti orðið merkilegur. Tvennt kraumar undir í íslenskri pólitík. (A) Hættir Björn Ingi í Framsókn? (B) Verður myndaður nýr meirihluti Sjálfstæðisflokk og Frjálslyndra í borginni?

Björn Ingi virðist vera að íhuga að hætta í Framsókn - hverjum er ekki skítsama gæti einhver sagt. Ef að svo fer þá er það enn einn naglinn í kistuna - Framsókn fer úr meirihluta, þar sem menn taka með sér sætið og vonarstjarnan... eini rökrétti framtíðar formaður flokksins er floginn burt. Ég held hins vegar að menn séu að taka það fullalvarlega að Össur hafi boðið hann velkominn í Samfylkinguna af öðru en gríni. Sjálfstæðismenn eru ekki parhrifnir af Birni Inga og koma hans í Samfylkinguna myndi væntanlega minnka líkur á því að Samfylkingin gæti hótað þriggja flokka vinstri stjórn; því varla vildu Framsóknarmenn vinna með honum heldur - þá erum við jafnvel aftur farin að horfa upp á þá eitruðu blöndu Sjálfstæðisflokkur og Framsókn... má bjóða þér sopa? Þó eru líkur á því að þeir flokkar myndu í næstu kosningum ekki ná nægilegu fylgi til þess... Sjálfstæðisflokkur og VG... lokið landamærunum!
Nei, ég held að Samfylkingin ætti að loka á það að Björn Ingi gangi í flokkinn ef að það er málið, best væri að sjá hann sækja um í VG - það væri meiriháttar, en aldrei líklegt til að gerast. Vantar bara að hann komi fram og mæli ,,einhverstaðar verða vondir að vera"

Ef að Ólafur F. Magnússon myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokknum þá er hann galinn. Í fyrsta lagi þá sveik Vilhjálmur hann svo rosalega að gjörðir Björns Inga eru smámunir. Er einhver búinn að gleyma því að þeir voru komnir langt á leið með viðræður og voru búnir að mæla sér mót, þegar að allt í einu Vilhjálmur sést faðma Björn Inga og tilkynna nýjan ólíklegan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir síðustu kosningar í Reykjavík. Í öðru lagi væri hann að gera það eina ranga sem mætti ekki gerast nema að Ólafur ætli sér hreinlega inn í Sjálfstæðisflokkinn. Ólafur er nefninlega með í þessari undarlegu R-lista blöndu sem nú er við völd og haldi sá meirihluti getur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei aftur notað sitt skítugasta bragð sem er glundroðakenningin; sem snýr að því að þriggja flokka stjórn (eða meira) án tilkomu Sjálfstæðisflokks muni springa. Þetta var auðvitað afsannað með R-listanum og myndi fjúka endanlega með þessum meirihluta sitji hann út kjörtímabilið - sérstaklega í ljósi glundroðans og sprengingarinnar þegar að meirihluti Sjálfstæðislfokks og Framsóknar klofnaði.

Frjálslyndi flokkurinn er undarlegt fyrirbæri. Í borginni samanstendur hann af virðulegum lækni sem Ólafur er, sem sennilega á heima inni í Sjálfstæðisflokknum og góðlegrar konu Margrétar Sverrisdóttur sem ætti að vera í Samfylkingunni; en á landsvísu samanstendur flokkurinn af einhverjum hálf dirty miðaldra sjóurum og þjóðrembuhálfvitum sem manni grunar að hittist helst á Goldfinger eða kaffiteríu niðri á Granda til að ræða saman um næstu mál á dagskrá þingsins.

Kannski enda þau Ólafur og Margrét í sitthvorum flokknum og Björn Ingi fer líka - þá höfum við allt í einu þrjá flokka í borginni en ekki fimm - ólíklegt, en hver veit?

Er lífið ekki dásamlegt?

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Einföld jafna

Sissoko, Kewell, Pennant, Voronin, Kuyt og Crouch = Íslenska handknattleikslandsliðið sóknarlega.

Er lífið ekki dásamlegt?

Nokkrar mín í leik

Spái vonbrigðum, Svíar vinna 33-31 - Svíagrýlan með comeback!

Er lífið ekki dásamlegt?

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Bandarísk stjórnmál

Huckabee er fífl en hann fær prikk fyrir þetta, þó að skilaboðin séu rusl.

Er lífið ekki dásamlegt?

Not dark yet...

,,Best af öllu frelsi, er að vera í frjálsu falli" mælti Megas á einhverjum tónleikum.

Ég varði nóttinni í það að horfa á útkomuna í prófkjörinu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Ætla mætti að mér hafi orðið óglatt við það að sjá nokkra frambjóðendur Repúblikana lýsa yfir allskyns trúarbulli, en það voru aðrar válegri sem mér varð bumbult af. SkyNews, BBC og CNN sögðu öll frá enn einu hruninu á mörkuðum í Bandaríkjunum - sem gæti gert verðbréfahrunið árið 1929 að barnaleik miðað við það sem gæti átt eftir að gerast.

Svo pikkar maður upp Fréttablaðið og hver er forsíðufréttin... ,,Varar við falli krónu og harðri lendingu" (þ.e. sérfræðingar hjá fjármálafyrirtækinu Merrill Lynch & Co.).
Menn hljóta að spyrja sig og þá viðskiptamenntuðu einstaklinga sem þeir þekkja: ,,Jæja, er komið að skuldadögum". Viðskiptahalli, Jöklabréf, Kreppa, Verðbólga, Okurlán, Fall krónunnar, Verkföll, Hækkandi stýrivextir, flótti fjármálafyrirtækja - upplífgandi orð í skammdeginu ekki satt?

Allt eru þetta frábærar fréttir fyrir ,,heimilislausu kynslóðina" eins og AFO hefur kallað hana - sem nýlega hefur að stórum hluta fjárfest í húsnæði á uppsprengdu verði með vöxtum að hætti ítölsku mafíunnar... og allir saman nú Klöppum fyrir Framsóknarflokknum (klappi, klappi, klapp).

Svo að maður tali nú bara eins og stuðningsmaður Liverpool ,, Ég myndi þiggja góðar fréttir núna".

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Punktablogg

Heilsa: Er búinn að vera með vott af hálsbólgu, höfuðverk og allskyns leiðindum núna í nokkra daga. Stöðvar það mig frá vinnu? Síður en svo. Arna hefur hins vegar fengið að kenna á þessum veikindum mínum enda hafa hrotur mínar í svefni verið nánast stanslausar; svo mjög að upptökur sem teknar voru í leyfisleysi minna helst á sært dýr. Við þennan óskapnað hefur Arna sem sagt ítrekað vaknað við og þá vakið mig eða ýtt við mér með tilheyrandi pirringi í mér; eða með öðrum orðum þetta er óþolandi ástand.

Heimilishald: Heimilishald gengur vonum framar, reyndar mokaði ég út leifunum af jólatréinu í kvöld, það var orðið jafn líflaust og leiðinlegt á að horfa og Liverp... nei hættu nú alveg!
Arna hefur staðið sig eins og hetja í eldhúsinu og ég hef tekið mér hlutverk ljóta aðstoðamannsins sem sést aldrei í þáttunum hjá Rachael Ray (hvað varð um þá ömurlegu þætti???). Ég hef hins vegar látið reyna á special diskinn minn, sem Örnu fannst ekkert sérstakur - þ.e. ostborgari... og þar með ákvað ég að bjóða ekki upp á vara special diskinn minn sem er pylsa með osti úr örbylgjuofni. Ég hef nú þegar skráð mig á námskeið hjá Baldri Knútssyni og spurning hvenær það námskeið fer fram - þangað til er það ristað brauð.

Einkunnir: Tvær komnar 8 og 8,5 - það gerir 8,1 í meðaleinkunn úr öllum námskeiðum á Masters stigi. Ef að einkunnirnar væru skoðaðar frá barnaskóla, í framhalsskóla, í BA-nám og þaðan í Masters-nám þá liggja þær beint upp á við. Spurning hvar þetta endar - er það ekki bara doktors nám og 9+ í meðaleinkunn.
Rifjar þetta upp orð umsjónarkennarans míns hennar Jóhönnu (blessuð sé minning hennar) í gaggó sem var vön að öskra á okkur strákana að við værum helvítis aumingjar sem aldrei yrði neitt úr.

Skammdegi: Það er óþarfi að detta í eitthvað þunglyndi þó að langt sé í sumarið. Ég legg til að hópur manna og kvenna ráðfæri sig um gerð skammdegishátíðar sem t.d. gæti átt sér stað í eina viku í byrjun febrúar - einhver með tillögur? Sjálfur legg ég til Nautnahátíð alþýðunnar (þar sem farið yrði út að borð tvisvar til þrisvar, í nudd o.s.frv.).

Kreppa: Úr dagdraumum í raunveruleikann. Kreppa framundan? Það er bara ein leið til að bregðast við slíku; a la Persónulegi trúbadorinn.

Knattspyrna: Þegar að Wes Brown horfði á 6-0 leikinn gegn Newcastle ætli hann hafi hugsað ,,Ég get ekki beðið eftir því að spila með þessu liði!". Arsenal og Chelsea hafa góða hægri bakverði, spurning með Liverpool...

Knattspyrnuleysi: Já, fátt er eins mikið rætt um þessa dagana og undarlegt ástand innan herbúða Liverpool. Þar hafa allir lagst á eitt (þ.e. eigendur, þjálfari og leikmenn) við það að verða klúbbnum til skammar.

Andfótbolti.net: Heldur áfram sem aldrei fyrr. Full beittur fjölmiðill fyrir marga, m.a. hefur vinstri armur Liverpool bloggsins ritskoðað síðuna sína svo að aðdáendur liðsins hlaupi ekki upp til handa og fóta og fari að endurtaka eitthvað sem þar stendur eða að þeir allra sanntrúuðustu átti sig á því að ekki er allt með feldu í hamingjuborginni Liverpool.

Fjölmiðlar: Sumir láta ekki verkfall handritshöfunda aftra sér og Jon Stewart flytur okkur loksins aftur fréttir með þættinum The nei tímabundið... A Dailyshow. Þetta er sérstaklega gott fyrir alla áhugamenn um stjórnmál og þá sérstaklega bandarísk stjórnmál þar sem Jon Stewart sýnir þær fáránlegu hliðar sem við fáum ekki frá okkar innihaldslausu froðufréttastofum á Íslandi og er þetta sérstaklega gott nú þegar að alvaran er skollin á varðandi forsetakosningar í Bandaríkjunum.

Handbolti: Er handbolti íþrótt kynni einhver að spyrja? En einu sinni á ári sameinumst við um að horfa á stórmót í handknattleik - þó ekki væri nema fyrir það að losna við viku eða tvær af skammdegi janúar. Stóru fréttirnar eru auðvitað þær að Bjarni Fritzson er í landsliðinu og maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna Einar Örn var ekki valinn í staðinn. Þeir sem ekki náðu þessari kaldhæðni eru vinsamlegast beðnir um að halda sig úti. Þessi skynsama ákvörðun Alfreðs eykur auðvitað skemmtanagildið og ég mun að sjálfsögðu fylgjast berrassaður með mótinu en í Creteil bolnum mínum (hvernig er það BF; á ekki að fara að uppfæra? Þú veist að ég tek mig vel út í gulu nr.32). Hvernig er það annars með ykkur ágætu herramenn og lesendur síðunnar... á að hittst eitthvað og horfa á saman?

Karfa: Loksins þegar unga tröllið hjá Lakers var að komast á skrið (13 stig, 10 fráköst og 2 varin skot í leik) þá meiðist hann á hnéi og er frá í tvo mánuði. Lakers halda samt áfram á siglingu og hafa nú unnið 7 leiki í röð, það er framar björtustu vonum og við erum efstir í Kyrrahafsriðlinum - það er of gott til að vera satt, með ekki merkilegra lið.

Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, janúar 12, 2008

The Theatre of Dreams - Always showtime

Það er spurning

Þú ert stjóri hjá stórliði sem hefur ekki staðið undir væntingum og þú gætir verið rekinn eftir tímabilið ef þú nærð ekki árangri. Það hefur gengið vel að verjast og liðið hefur fengið á sig næst fæst mörk í deildinni. Einn besti maður liðsins og stór hluti þeirrar varnarvelgengni er á lánssamningi sem rennur út í vor og góður miðvörður er að koma tilbaka úr meiðslum og myndar þá eitt öflugasta miðvarðarparið í deildinni. Bakverðirnir þínir og kantmenn eru hins vegar ónytjungar sóknarlega og aðeins einn senter af fjórum hefur spilað af þeirri getu sem þú sækist eftir.

Hvað gerir þú?

A: Tryggir þér þennan mann sem þú ert með á lánssamningi svo að hann fari ekki annað.

B: Kaupir þér sóknarþenkjandi bakvörð.

C: Kaupir þér góðan kantmann.

D: Kaupir þér góðan senter.

E: Kaupir þér hafsent sem er 1.91 og getur líka spilað vinstri bakvörð.


En svona án gríns - hvað segir þetta okkur um stöðuna. Tvennt kemur til greina:


A: Eigendurnir treysta ekki Rafa fyrir alvöru peningum.

B: Alvöru peningar eru ekki til hjá eigendunum


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

föstudagur, janúar 11, 2008

Lyklar að regninu NO.1

Undanfarna þrjá morgna hef ég vaknað upp við að endurtaka í sífellu eftirtaldar línur Dylans:

And I'll tell it and think it and speak it and breathe it,
And reflect it from the mountain so all souls can see it,
Then I'll stand on the ocean until I start sinkin',
But I'll know my song well before I start singin',

Það er sérstaklega þessi dásamlega síðasta lína sem endurtekur sig í sífellu þar til ég vakna. Línurnar eru að sjálfsögðu úr einu frægasta lagi Meistarans laginu ,,A Hard Rain´s A-Gonna Fall" og ekki úr vegi að kryfja þetta lag fyrst að þessar línur virðast angra mig (þó angurvært )og vekja mig til lífs á morgnanna. Krufningin er til gamans gerð en þó stuðst við heimildir (túlkanir eru að miklu leyti úr bókum fræðimanna sem hafa stúderað Dylan, en það gerir þær ekki endilega alréttar, það eru til kenningar um að þetta sé Biblíutexti og vísun í örkina hans Nóa, að hann fjalli um mannréttindabarráttu blökkumanna, að þetta sé vísun í Opinberunarbókina o.s.frv.)

Dylan spilaði þetta lag í fyrsta skiptið fyrir almenning í Carnegie Hall 22.september 1962 og 6.desember þetta sama ár kom lagið út á annarri breiðskífu hans ,,The Freewheelin Bob Dylan" og byggir það á bresku ballöðunni ,,Lord Randall" childballad No.12. (sem er til í allskyns útgáfum) sem Dylan lærði af enska þjóðlagasöngvaranum Martin Carthy. (Heimildum ber ekki alveg saman um hvar textinn var saminn (sem er algjört aukaatriði), Bob Dylan sagði í útvarpsviðtali að hann hefði samið textann í kjallara á Village Gate en Tom Paxton vill meina að hann hafi samið textann í litlu herbergi sem þeir deildu fyrir ofan hið fræga kaffihús Gaslight í Greenwich Village.)

Hinar bresku útgáfur komast hins vegar ekki í hálfkvist við Endaloka og Opinberunartextann sem Dylan býður uppá. Raunar má velta því fyrir sér hvort að einhvers staðar sé hægt að finna jafn magnþrunginn texta á blaði, í hljóðritun eða í nokkrum miðli (ég hef áður sagt að slíkt sé ekki hægt). Bob Dylan var eingöngu 21 árs þegar að lagið kom út og hafði aðeins gefið út sína fyrstu plötu árinu áður. Var þessi texti ólíkur öllum öðrum textum sem hann hafði þá samið og sá fyrsti af fjölmörgum þar sem Dylan notar sögumannsformið (færir fréttir úr undarsamlegum ferðalögum), en lagið byggir á spurningum föðurs sem tekur við ferðalangnum og svörum frá sögumanninum sem er sonur hans og að því leyti uppgjör eins og ég mun síðar koma að á milli kynslóða a la ,, The Times They Are A-Changin' ". Textinn er einnig upphafið af súrrealísku flæði, táknum og tilvitnunum í söguna. Má þar nefna texta Allen Ginsberg bæði ,,Howl" og ,,Kaddish" en ekki síður úr listheiminum í verk Goya og ,,Guernica" eftir Picasso. Þá eru tilvísanir í frönsk ljóð, m.a. setningin ,,Heard the song of a poet who died in the gutter" sem er tilvitnun í línu eftir Charles Baudelaire sem segir ,,The Soul of an old poet wanders in the gutter" og eins má sjá glitta í verk Rimbaud ,,The Drunken Boat". Allir þeir sem hafa gaman af meiru en grunnhyggnum textum sjá því hvers konar margslungið þrekvirki þessi er.

Lagið kemur út rétt eftir að Kúbudeilan hafði náð hámarki og því ekki að undra þó að lagið næði vinsældum og var Dylan ítrekað spurður hvort að textinn fjallaði ekki (og margir gerðu ráð fyrir því) um kjarnorkustyrjöld/kjarnorkuregn en Dylan var sjálfur í viðtölum alls ekki á því og að lagið fjallaði hreinlega almennt um endi einhvers sem yrði að eiga sér stað. Línurnar ,,Where the pellets of poison are flooding their waters" og skömmu seinna ,,Where the executioner's face is always well hidden" verða öllu skiljanlegri en um fyrri setninguna sagði Dylan að eitrið eða lygarnar sem fólk heyrði daglega í útvarpi og læsi í blöðum (heilaþvottur) yrðu að verða mönnum ljósar fyrir það sem þær eru; af þeim sökum er textinn og verður til frambúðar (eins og svo margir aðrir textar hans) klassískur. Allar heimildir benda einnig til þess að Dylan hafi verið langt kominn með textann um haustið áður en Kúbudeilan náði hámarki sínu um miðjan október.

Þetta er því í senn örvæntingarfullur texti sem spannar það sem komið hefur upp á ferðum sögumanns og endar á því að spyrjandinn spyr hvað hann ætli sér eftir þessa lífsreynslu. En textinn nær lengra því að hann spannar og grípur utan um Kalda stríðið nokkuð vel (sumir myndu segja að textinn eigi jafnvel enn betur við nútímann og afleiðingar alþjóðavæðingar) þar sem sonurinn hefur farið um óraveg þar sem dauðinn er í aðalhlutverki ,, I've walked and I've crawled on six crooked highways, I've stepped in the middle of seven sad forests, I've been out in front of a dozen dead oceans, I've been ten thousand miles in the mouth of a graveyard," og aðalleikendur á sviðinu gera skilin milli andstæðra póla, hins góða og illa, ljós og myrkurs, en einkum lífs og dauða ósýnileg ,, I met a young child beside a dead pony, I met a white man who walked a black dog, I met a young woman whose body was burning, " en veröldin er þó ekki eingöngu á leið til glötunnar og það birtir til þó að andstæðurnar séu ennþá til staðar ,,I met a young girl, she gave me a rainbow, I met one man who was wounded in love, I met another man who was wounded with hatred, "

Svarið að lokum er einfalt, síðustu fjóru línurnar að ofan segja allt um vonina og það sem verður að gerast og klífur þannig bilið milli kynslóðanna og nálgunina sem átti að verða, en varð hugsanlega aldrei raunverulega hjá 68´kynslóðinni (eins og Egill Helgason bendir á í tilefni 40 ára afmælisins). Þá komum við aftur að klassísku áhrifunum, sem er þessi endalausa barátta fólks fyrir betri heimi og á meðan óréttlæti ríkir (Where hunger is ugly, where souls are forgotten,Where black is the color, where none is the number,) þá mun þessi texti verða sunginn og vonin felst ekki eingöngu í stúlkunni sem gefur drengnum regnboga heldur innblástrinum fyrir því að baráttan muni skila sér að lokum ,, I heard the sound of a thunder, it roared out a warnin', Heard the roar of a wave that could drown the whole world, Heard one hundred drummers whose hands were a-blazin', " en einnig að uppgjöfin muni engu skila ,,I saw ten thousand talkers whose tongues were all broken... Heard ten thousand whisperin' and nobody listenin' - Heard one person starve, I heard many people laughin' ".

Almennt sagði Dylan að hver lína textans hefði átt að vera fyrsta lína í nýjum texta en svo ákvað hann að henda þeim öllum í einn texta, þar sem hann sá ekki fram á að klára þessa texta. Lagið hefur verið óspart notað í heimildarmyndum um þennan tíma, varðandi Kúbudeiluna, morðið á JFK og MLK og Víetnam stríðið og þennan tíma breytinga þar sem litlu mátti muna að hið brothætta lýðræðisríki Bandaríkin riðaði til falls. Textinn hefur fylgt og verið sunginn á tónleikum hjá Dylan í gegnum hin ýmsu skeið í lífi hans sem tónlistarmanns, allt frá sjöunda áratug kjarnorkuhættunnar, yfir í trúartímabilið og til nútíðar sem áminning um það að hart regn getur skollið á hvenær sem er og í hvaða formi sem er - en það er alltaf von... jafnvel á íslenskum hlutabréfamörkuðum!

Það stórkostlega við þetta allt saman er þó sú staðreynd að þessi texti er einungis sandkorn á leikvelli Meistarans.

(Það er til fjöldinn allur af öðrum kenningum um textann (sjá t.d. hér og hér) en ég leyfi textanum að fljóta með, í von um að textinn hér með leyfi mér að njóta fulls svefns, en minni þó á sig reglulega)

Oh, where have you been, my blue-eyed son?
Oh, where have you been, my darling young one?
I've stumbled on the side of twelve misty mountains,
I've walked and I've crawled on six crooked highways,
I've stepped in the middle of seven sad forests,
I've been out in front of a dozen dead oceans,
I've been ten thousand miles in the mouth of a graveyard,
And it's a hard, and it's a hard, it's a hard, and it's a hard,
And it's a hard rain's a-gonna fall.

Oh, what did you see, my blue-eyed son?
Oh, what did you see, my darling young one?
I saw a newborn baby with wild wolves all around it
I saw a highway of diamonds with nobody on it,
I saw a black branch with blood that kept drippin',
I saw a room full of men with their hammers a-bleedin',
I saw a white ladder all covered with water,
I saw ten thousand talkers whose tongues were all broken,
I saw guns and sharp swords in the hands of young children,
And it's a hard, and it's a hard, it's a hard, it's a hard,
And it's a hard rain's a-gonna fall.

And what did you hear, my blue-eyed son?
And what did you hear, my darling young one?
I heard the sound of a thunder, it roared out a warnin',
Heard the roar of a wave that could drown the whole world,
Heard one hundred drummers whose hands were a-blazin',
Heard ten thousand whisperin' and nobody listenin',
Heard one person starve, I heard many people laughin',
Heard the song of a poet who died in the gutter,
Heard the sound of a clown who cried in the alley,
And it's a hard, and it's a hard, it's a hard, it's a hard,
And it's a hard rain's a-gonna fall.

Oh, who did you meet, my blue-eyed son?
Who did you meet, my darling young one?
I met a young child beside a dead pony,
I met a white man who walked a black dog,
I met a young woman whose body was burning,
I met a young girl, she gave me a rainbow,
I met one man who was wounded in love,
I met another man who was wounded with hatred,
And it's a hard, it's a hard, it's a hard, it's a hard, ...
It's a hard rain's a-gonna fall.

Oh, what'll you do now, my blue-eyed son?
Oh, what'll you do now, my darling young one?
I'm a-goin' back out 'fore the rain starts a-fallin',
I'll walk to the depths of the deepest black forest,
Where the people are many and their hands are all empty,
Where the pellets of poison are flooding their waters,
Where the home in the valley meets the damp dirty prison,
Where the executioner's face is always well hidden,
Where hunger is ugly, where souls are forgotten,
Where black is the color, where none is the number,
And I'll tell it and think it and speak it and breathe it,
And reflect it from the mountain so all souls can see it,
Then I'll stand on the ocean until I start sinkin',
But I'll know my song well before I start singin',

And it's a hard, it's a hard, it's a hard, it's a hard,
It's a hard rain's a-gonna fall.


Er lífið ekki dásamlegt?

Aðal heimildir:
Keys to the Rain: The Definitive Bob Dylan Encyclopedia (Höf. Oliver Trager)
Dylan on Dylan - The Essential Interviews ( Edt. Jonathan Cott)
Chronicles Vol.1 (Höf. Bob Dylan)
No Direction Home (Höf. Martin Scorsese & Bob Dylan)
Dylan: Visions, Portraits, & Back Pages (Höf. Mark Blake)
http://bobdylan.com/moderntimes/lyrics/main.html
http://www.expectingrain.com/discussions/
http://www.songfacts.com/detail.php?id=4052
http://youtube.com/results?search_query=Bob+Dylan+-+A+Hard+Rain%27s+A-Gonna+Fall+&search=Search

Efnisorð:

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Ástarævintýri

Í gegnum tíðina hef ég átt í allskyns heilbrigðum platónskum ástarsamböndum við ofurhetjur eins og aðrir drengir. Allt frá ofureinfeldni æskunnar til núverandi ,,fullorðinsára". Einfeldni æskunnar fólst í baráttu hins góða gegn hinu illa - Batman, Superman og Zorro til að nefna dæmi og svo var það auðvitað Hulk (hvernig svo sem maður á að greina þá veru). Með aldrinum hafa þessar ofurhetjur þó orðið mannlegri og partur af raunveruleikanum, bæði út frá tónlist en ekki síður knattspyrnu og hér gæti upptalninginn orðið þreytandi en ég nefni þó nöfn - Marley, Magic, Cantona, Keane, Dylan, Cohen o.s.frv.
Knattspyrnu- og tónlistarhetjurnar eru enn á sínum stað en skáldsagnarpersónurnar eru farnar að sækja aftur á - en ekki í formi bókalesturs eins og ætla mætti meðal þroskaðra einstaklinga, heldur í formi þáttaraða (afturhvarf til æskunnar mætti segja).
Ólíkt hetjum æskunnar, bregða þessir menn sér ekki í beinlínis í búning og skilin milli hins góða og illa hafa orðið óljósari ef þau eru einhver. Ég held að þetta hafi hafist með Jack Bauer og þáttaröðinni 24 sem hófst 2001 með snilldar seríu (sennilega bestu debut seríu sem ég hef séð) sem varð áhugaverð fyrst og fremst í gegnum raunveruleikann vegna eftirmála 11.september og pólitískra og siðferðilegra afleiðinga sem sá dagur hafði. AFO var svo góður að benda mér á stór fína grein eftir Zizek sem tengir einmitt þá punkta og ég hef eflaust bent á áður.
Ég hef hins vegar eignast nýja ofurhetju sem ég vil meina að sé orðin mín ,,all time" uppáhalds og það er Dexter Morgan aðalpersóna framhaldsþáttanna sem heita því frumlega nafni ,,Dexter". Ég horfði á season 1 í fyrra og varð skotinn í þessari persónu - vitandi það að önnur sería myndi ráða úrslitum og nú er það staðreynd. Eftir að hafa á rúmlega tveimur sólarhringum klárað þessa seríu tvö þá er ég ástfanginn. Ég skora á hvern þann sem ekki hefur séð þættina um Dexter en hefur gaman að framhaldsþáttum á borð við 24; hefur gaman af ofurhetjum (það er þó aukaatriði); hefur gaman af alvöru persónusköpun, kaldhæðni og mannlegu eðli; hefur gaman að sálfræði eða sálgreiningu eða hvoru tveggja að kynna sér þessa snilldarþætti sem fjalla um óljós skil milli hins illa og góða og þær siðferðilegu spurningar sem við svo alltof sjaldan veltum fyrir okkur í okkar daglega lífi raunveruleikans. Fyrst og fremst fjallar Dexter þó um baráttuna, togstreituna og þroska aðalpersónunnar og trauma hans í æsku, sem verður sökum þess að hann er fjöldamorðingi að komast sjálfur að því hver hann er án aðstoðar. Ég vil halda því fram að aldrei hafi sjónvarpsþáttur farið svo djúpt í persónusköpun og raun ber vitni með Dexter og því ber að fagna í gerviveröld fullri af one-linerum og dósahlátri.
Þið ykkar sem eruð óspjölluð af Dexter áhorfi segji ég hreinlega: Til hamingju, þið eigið yndislega sjúklega för framundan.


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð:

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Liverpool á blússandi siglingu...

Hver hefði trúað því í haust þegar að íslenskir Liverpool aðdáendur spáðu því að þetta yrði árið sem þeir ynnu deildina að það myndi ekki rætast?
Aurelio, Riise, Finnan, Hyypia, Pennant, Kewell, Benayoun, Kuyt, Sissoko, Voronin, Crouch og allir hinir búnir að drulla á sig og enn eitt árið hefur Liverpool lokið keppni um áramótin og geta snúið sér að því að reyna að vinna bikarinn eða Meistaradeildina í vítaspyrnukeppni.
Ef að Rafa vinnur ekkert í ár þá hlýtur þetta að vera búið hjá honum; Liverpool enda væntanlega í 4.sæti í deildinni og titlalaust hefur liðið ekki sýnt neinar framfarir á tveimur tímabilum.


Er lífið ekki dásamlegt?

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Punktar

Persónulega: Jólin eru búin að vera dásamleg eftir ritgerðargeðveiki, flutningargeðveiki og jólakaupageðveiki. Þar bar auðvitað hæst eins og allir hér vita að ég og Arna höfum tekið skref í átt að því að verða fullorðin með því að flytja inn í eigin íbúð á Laugarásvegi 45. Ég hafði reyndar smá áhyggjur en þær urðu að engu eftir að Arna ákvað að hún myndi sjá um öll þrif og eldamennsku á heimilinu - þessi elska.
Ég er hins vegar aftur farinn að taka á mig mynd svínsins og mun því aftur mæta til stífra æfinga um leið og ég hef jafnað mig á þessari afmynduðu vinstri hönd sem ég ber nú svo lítið ber á í gulum bónuspoka.


Íþróttir: Það er líka algjört íþróttacomeback sem býr í mínu sálartetri þessa dagana, ekki það að ég ætli mér sjálfum út í slíkt heldur gaf Bjarni Fritzson mér stórkostlega jólagjöf á DVD formi... myndbönd með Magic, Bird og Jordan - en ég gaf honum skitna bók og aðra öllu nútímalegri að auki. Svo var auðvitað endalaust af knattspyrnu um jólin. Ég minni líka á að við á andfotbolti.net erum alls ekki hættir.


Trú: Skemmtilegt próf sem allir ættu að taka.

Stjórnmál: Forsetinn verður annað kjörtímabil og ríkisstjórnin mun sitja áfram - ,,stöðugleiki ekki stöðnun" eins og góður maður segir svo oft. Kryddsíldin var skemmtileg, þar eyddu stjórnarandstöðuflokkarnir mestu púðri í að skjóta á hvorn annan og sýndu að þeir eru gjörsamlega ósamstarfshæfir, svo ekki sé talað um leiðtogakrísuna innan þeirra allra - uppgjör á næsta leyti? Guðjón Arnar ætti að hætta af heilsufarsástæðum, VG undir stjórn Steingríms er að breytast í Kvennalistann, sem hvorki þorði né gat gert málamiðlanir og Guðni fer með Framsókn í sveitina (megi hann fara sem lengst með flokkinn og drepast í tófugreni og finnast ekki fyrr en útdauður eftir mörg þúsund ár).

Viðskipti: ,,Markaðurinn mun rétta sig af" ... ,,lækkun stýrivaxta"... ,,húsnæðisverð mun lækka lítillega"... ,,Krónan er handónýt - við verðum að taka upp Evru"... ,,Kreppa á heimsvísu"... - voru greiningardeildir bankanna skussar ársins 2007? Er rétt að hlusta á spá þeirra fyrir nýtt ár?


Ljóð: Daði heldur áfram I, II, III, IV & V


Er lífið ekki dásamlegt?

Efnisorð: , , , , ,